Ég var að lesa frétt á Aljazeera um konur í Írak, hélt að ég væri að fara að lesa grein um konur sem hefðu ekki haft nokkur tök á að afla sér menntunar eða geta stundað nokkra atvinnu. Hvað þá að þær fengju fæðingarorlof - en ég hafði rangt fyrir mér.
Ekki svo að skilja að konur í Írak hafi sömu möguleika og íslenskar konur en engu að síður er staða þeirra ekki eins herfileg og ég hélt. Ég sem hélt að Bandaríkjamenn hefðu staðið fyrir kvennabyltingu með því að skipa 3 konur af 25 mönnum í nýja stjórn landsins. Svo les ég í Aljazeera að það þyki frekar lítið.
Að vísu eru konur í Írak einungis 10.3% vinnuaflsins en þær eru 34,4% allra skráðra nemenda í háskólum. Þrjátíu og átta prósent lækna í landinu eru konur. Fyrir innrás Breta og Bandaríkjamanna voru þær 8% fulltrúa á íraska þinginu. Lög eiga að tryggja þeim sömu laun fyrir sömu vinnu (við þekkjum jú svoleiðis lög) og séu þær útivinnandi fá þær 6 mánaða fæðingarorlof á fullum launum og 6 mánuði til viðbótar á hálfum launum.
Hinsvegar er augljóst að eftir stríðið 1990 þá hefur margt farið til verri vegar í landinu, heilbrigðisþjónusta sem áður var öllum tryggð hefur síðan ekki verið jafn traust. Núna þjást yfir 90% þungaðra kvenna af blóðleysi vegna vannæringar og skorts á lyfjum. Vegna eyðileggingar á raforkuverum og vatnsveitum hafa sjúkdómar einnig aukist verulega.
Þrátt fyrir að það sé langt í land með að tryggja Íröskum konum fullt jafnrétti þá er varhugavert að telja að konur hafi ekki haft nein áhrif né möguleika.
Annars hef ég orðið áhyggjur af því hversu „einsleitar“ fréttirnar okka hér á Íslandi eru orðnar. Við fáum einhæfa sýn á samfélag þjóðanna og fólk í löndunum sjálfum. Ein fárra undantekninga hafa verið skrif Jóhannu Kristjónsdóttur sem hefur gefið okkur innsýn í mannlífið í Arabalöndunum með ágætum greinum.
Sem betur fer gefur Netið okkur færi á að sjá fleiri ein eitt sjónarhorn og Aljazeera er ágætt dæmi um það. Ekki svo að skilja að það eigi að gleypa allt hrátt sem þaðan kemur en það má heldur ekki með fjölmiðlana okkar hér heima né heldur CNN og SKY.
Ég man eftir því þegar ég fór að vinna mikið á bæði norrænum og alþjóðlegum vettvangi hversu það kom mér á óvart þegar upp kom misklíð milli manna sem greinilega var byggð á menningarmun þar sem menn áttu erfitt með að skilja hver annan. Á sama tíma og ég fékk þau verkefni að þurfa að jafna slíka misklíð áttaði ég mig á að ég sjálf bjó við skerta þekkingu á mörgum sviðum um hvernig fólk sem alist hefur upp í öðru umhverfi lítur á hlutina. Það er því alltaf mikilvægt að vita að ekki er allt sem sýnist í mannlegum samskiptum í heiminum.
Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri