« Heimsókn í FÁ | Aðalsíða | Hljóðsaga Íslands? »

Fimmtudagur 25. september 2003

Réttritun, málfar, setningafræði og heimildir

Eins og þeir sem næst mér standa vita þá er ég búin að vera að skrifa meistaraprófsritgerð í þónokkurn tíma. Í upphafi hlakkaði ég svolítið til að spreyta mig á viðfangsefninu sem fjallaði um fartölvur í Menntaskólanum á Akureyri. Ég hafði ímyndað mér sisvona í upphafi að ég væri sæmileg í stafsetningu, þokkaleg í málfari, afleit í setningafræði og stautfær í heimildaskráningu. Þetta myndi þó bjargast með hjálp góðra manna og ég gæti einbeitt mér að fræðilegu innihaldi ritgerðarinnar þar sem mín meginvinna myndi liggja. Nú þegar ég er að leggja síðustu hönd á verkið efast ég hinsvegar stórlega.


Ég hef komist að því að ég er nú ekkert sérstaklega klók í stafsetningu sem og að allir sem að verkinu koma telja mikilvægast að koma með hlýlegar ábendingar um hvernig á að skrifa rétt. Bæði þeir móðurmálarar (íslenskufræðingar) sem ég fékk sérstaklega til að lesa verkið sem og allir aðrir sérfræðingar á hinum og þessum sviðum sem ég hef fengið til að lesa yfir í hinu og þessu samhengi. Í nánast öllum yfirlestrum hefur aðaláherslan verið á skrifað táknmál íslenskrar tungu og ég hef þvælst eins og skopparakringla í kringum skoðanir manna á því hvernig maður skrifar rétt. Einhversstaðar missti ég tengslin við að þetta væri textinn minn og hætti að þykja vænt um hann enda orðalagið alls ekki eins og mér þykir best fara. Ekki svo að skilja að þessir ágætu sérfræðingar á hinum ýmsustu sviðum hafi ekki áreiðanlega haft nánast alltaf rétt fyrir sér, en þeir tjá sig ekki eins og ég. Fyrir mér er textinn orðinn geldur og óspennandi eða eins og einn ágætur fræðimaður sagði um ritgerðina "þessi texti fangar mig nú ekki". Ég er ekki ennþá viss um hvort honum þótti efnið leiðinlegt eða að ég væri kjáni í táknmálinu. Allavega veit ég að um 90% þeirra ábendinga sem ég hef fengið um þessa ritgerð fjalla um móðurmálið í einhverri mynd en einungis 10% um viðfangsefnið. Ég hel því að til að gleðja mig sjálfa hér og nú að ég telji mér trú um að efnið sjálft sé bara þrælgott.

Eftir stend ég og hugsa um fátækleg skrif mín á þessa heimasíðu, ætti ég bara ekki að hætta þeim þar sem stafsetningin, málfarið, setningafræðin og áreiðanlega eitthvað annað sem tilheyrir táknmálinu er ekki rétt. Ég sem trúði því að ég væri alveg þokkalegur móðurmálari og textinn minn svona bærilega læsilegur. Ég skil svo vel núna alla þá sem langar að tjá sig í rituðu máli en þora því ekki fyrir sitt litla líf vegna þess að þeir hafa minnimáttarkennd yfir því hvernig þeir skrifa. Ég skil betur strákana sem ég hef kennt og vilja helst alls ekki setja stafkrók á vefsíðuna sína á íslensku, nei frekar á ensku eða haug af myndum.

Ég man líka eftir vinum mínum sem krotuðu alveg ósjálfrátt í hvurn pappír sem birtist á tilkynningatöflu í skólanum sem ég var að vinna. Mér fannst það alltaf hljóma eins og "óttalega ertu vitlaus" tilkynning. Sumsé auglýsing um tölvunámskeið varð á örskotsstundu auglýsing frá íslenskudeildinni um að ég væri óttalega vitlaus að hafa ekki þrjú t í þátttakendur sem mér hafði fundist bruðl á þeim ágæta bókstaf en ég hætti að spara hann svo það markmið náðist en það þurfti svolítinn kjark að auglýsa tölvunámskeið aftur en viti menn þar lánaðist mér líka að gleyma einu enni og fékk "óttalega ertu vitlaus" skilaboð á blaðið öllum til ævarandi viðvörunar. Eftir það settist að mér þrái og ég gekk með leiðréttingarmálunarbox í vasanum og málaði yfir allar leiðréttingar sem voru gerðar á auglýsingunum mínum eftir þetta.

Meistararitgerðin mín sem var einusinni um fartölvur en er nú orðin í mínum huga maraþonæfingar á táknmáli íslenskrar tungu. Álitamál um hvort ég skrifa orðið "hinsvegar" í einu eða tveimur orðum og hvort það ágæta orð kemur of oft fyrir með of stuttu millibili í textanum. Svo kemst ég að því að það er hreint og beint smekksatriði hvort maður hefur þetta í einu eða tveimur orðum. Ég sem held að ég sé alveg smekklaus kona á táknmálið íslensku áttaði mig á því að ég hef smekk fyrir að orðið "hinsvegar" sé líklega fegurra í einu orði en hef sjálfsagt óafvitandi skrifað það í einu eða tveimur orðum í gegnum tíðina. Algerlega ómeðvituð um að þarna ætti ég að hafa smekk fyrir þessu sem og að þegar ég skrifaði meistaraprófsritgerð þá myndu ekki minna en fimm yfirlesarar hafa á þessu skoðun og hver viss um að sín sé best.

Auðvitað á meistaraprófsritgerð að vera á hárréttu táknmáli ekki efast ég um það eitt augnablik. En ég sit hér og velti fyrir mér hvort ég eigi aldrei að skrifa stafkrók meir ótilneydd eða bara halda áfram að skrifa um það sem mig langar að segja og trúa því í einfeldni minni að einhver hafi áhuga á efninu sjálfu frekar en stafsetningunni, málfarinu, setningafræðinni og uppsetningu heimilda. Tja eða þá að halda að mér hafi kannski farið eitthvað fram á þessu sviði - hvur veit?

kl. |Menntun

Álit (2)

Þetta er það sem ég hef heyrt kallað umvöndunarmálfræði, i.e. sá hluti málfræði sem gengur út á að skamma fólk fyrir að tala einhvernveginn, í stað þess að rannsaka einhverja áhugaverðari þætti málsins. Ég man ég varð voða hissa þegar ég heyrði þetta sagt og fattaði þá að fræðigreinin íslenska gengur ekki út á að láta fólki líða eins og asnar vegna þess að það notar orð eins og "fattar", það eru bara nokkrir málfræðifasistar sem vilja láta okkur líða þannig. (ég reyndi að koma hinsvegar fyrir í þessum texta, en það gekki ekki - fyrr en núna)

Laugardagur 27. september 2003 kl. 18:33

Annað sem fór mjög fyrir brjóstið á mér var algert bann við því að segja: Árið 1999 eru komnar fleiri fartölvur og kennarar að nota þær í ríkari mæli. Réttara þótti: Árið 1999 voru komnar fleiri fartölvur og kennarar voru að nota þær í ríkari mæli. Þetta voru eilífðar leiðréttingar í textanum til fortíðar. Síðan heyri ég hjá lærðum móðurmálara að þetta sé einmitt dæmi um fjölbreytileika íslenskrar tungu að hægt sé að beita nútíð á fortíð með þessum hætti til þess að textinn sé einmitt nær manni. Mér datt hinsvegar ekki í hug að fara gera átakamál úr þessu og hélt að ég hefði haft rangt fyrir mér. Hreinræktarstefnan er sumsé ekki alltaf rétt.

Kær kveðja
Lára

Laugardagur 27. september 2003 kl. 22:44

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.