Frábær aðalfundur Akureyrardeildar KEA var haldinn í Ketilhúsinu í gær. Fundurinn var fræðandi, skemmtilegur og umræður harla góðar. Það er ánægjulegt hvernig eignir félagsins hafa dafnað í höndum Kaldbaks og að þetta gamalgróna félag standi nú virkilega vel.
Menn tókust nokkuð á um hvernig bæri að ráðstafa því fé sem KEA á, sumir töldu að nú væri tími mikilla framkvæmda og uppgangs meðan aðrir vildu fara varlega. Sú leið sem KEA valdi á sínum tíma til að leysa þann vanda sem steðjaði að félaginu hefur gefið góðan arð og því hefur sú varkára stefna sannað sig og engin ástæða til að dreifa eignum sínum til hægri og vinstri heldur velja viðfangsefni af kostgæfni og líta bæði til stærri og smærri hluta.
Umræður um Norðlenska matborðið urðu þónokkrar og þar er áhugi á því að gefa bændum færi á að koma að rekstrinum enda eðlilegt að þeir sem reka fyrirtæki við ræktun á búfénaði komi að vinnslu og sölu. Áður töldu nokkrir að best væri að bændur kæmu ekkert nærri slíkum rekstri og voru það ein rök manna fyrir því að gömlu kaupfélögin ættu að heyra sögunni til. Sem betur fer hefur þetta viðhorf breyst og menn átta sig á að framleiðendur þekkja sína vöru best, þeir hafa mestan hag af því að vel gangi við markaðssetningu og útflutning. Því er mikilvægt að þeir komi að rekstri slátrunar og sölu. Ég spurði Benedikt Sigurðarson deildarstjóra Akureyrardeildarinnar hvernig þetta viðhorf hefði breyst þ.e. að horfa aftur til bænda um rekstur og rakti hann sögu þess ferlis afar vel. Í gömlu samvinnufélögunum var eignarhlutur og ábyrgð hvers félaga ekki alltaf ljós en með einkahlutafélögum um rekstur bænda skýr rekstrareining sem getur gerst aðili að öðrum rekstri og eignarhlutur og ábyrgð gerð skýrari.
KEA hefur lagt mörgum lið s.s fyrirtækjum, verkefnum og menningarviðburðum. Fyrir okkur á Akureyri er mikilvægt að hafa fjársterkan aðila í heimabyggð sem getur komið að uppbyggingu og viðfangsefnum hér í stað þess að þurfa að sætta okkur við útibúastefnu þar sem áhrif á ákvarðanir og sjálfstæði er lítið. Við hér við Eyjafjörð þurfum að finna sjálf leiðir til að byggja upp öflugt atvinnulíf á svæðinu og stórkostlegt að hægt sé að finna fjárfesta á svæðinu sem öflugan bakhjarl.
Álit (2)
Ég veit ekki hve hressir Kaldbaksmenn eru með að vera kalnir á baki.
Þriðjudagur 30. mars 2004 kl. 16:21
Takk, búin að laga;-)
Þriðjudagur 30. mars 2004 kl. 17:14
Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri