Mjög athyglisverður fundur var haldinn af Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar í gær. Þar var til umfjöllunar skýrsla félagsins um staðsetningu starf á vegum ríkisvaldsins en þar er tekinn samanburður milli Höfuðborgarsvæðisins og Eyjafjarðar. Augljóst er að þrátt fyrir nefndir, skýrslur, skjöl og fleira þá ræður ríkisstjórn Íslands ekki við þetta verkefni ólíkt mörgum ríkisstjórnum á hinum Norðurlöndunum.
Merkilegast þótti mér þegar höfundur skýrslunnar Halldór Ragnar Gíslason rakti örðugleikana við að finna upplýsingar. Hann gerði marga fyrirvara vegna þeirra aðferða sem hann þurfti að beita sem sýnir að ráðherrar vilja markvisst fara í felur með þessi mál til þess að þurfa ekki að standa skil gerða sinna.
Einar Már Sigurðarson alþingismaður Samfylkingarinnar bað menn að hætta að horfa á hver hefði gert hvað og hvað væri að skýrslunni heldur einbeita sér að því hvað væri hægt að gera. Hér er einmitt kjarni málsins, á meðan ríkisstjórnarflokkarnir liggja í sagnfræðilegum skýringum á hinu og þessu þá er dagurinn í dag og framtíðin gleymd í sjálfumgleði yfir hlutum sem síðan má sýna svart á hvítu að hefur ekki neitt með raunveruleika dagsins að gera. Engum heilvita manni dettur í hug að segja að enginn hafi gert neitt þó rökfræðin virðist stundum liggja á því plani.
Grétar Þór Eyþórsson forstöðumaður Rannsóknarstofnunar Háskólans á Akureyri og Byggðarannsóknarstofnunar kom með áhugaverð rök sem notuð væru á Norðurlöndunum um s.k. "capture" um fólk sem ákveður og ræðir í kokteilboðum og ráðstafaði hlutum þar sem síðan gerði eftirlitsstofnanir e.t.v. óhlutdrægar. Má ekki segja að nákvæmlega þetta fyrirbæri sé þess valdandi að mektarmenn á höfuðborgarsvæðinu "grípi" ráðamenn hér og þar og fái þá til að taka ákvörðun jafnvel í heita pottinum í sundlauginni þegar landsbyggðin hefur ekki sama aðgengi að þeim sem taka ákvarðanir? Hvernig stendur til dæmis á því að ráðherra þessa kjördæmis lætur Lýðheilsustofnun vera í Reykjavík þó allar forsendur séu til að hafa hana hér?
Við sem búum við Eyjafjörð búum þar núna og ætlum að búa þar næstu árin, jafnvel um ókomna framtíð. Þannig að í dag ræðum við þá hluti, þeir eru það sem skiptir máli en ekki það að hugsanlega gæti þetta verið verra. Því er umræða sem byggir á því að vera rogginn yfir einhverju sem hefur verið gert ekki það sem við þurfum - það hefur einfaldlega ekki verið gert nóg. Við þurfum að horfa á stöðuna eins og hún er og búa til framtíð eins og við viljum sjá hana.
Það er þverpólitísk samstaða manna hér við Eyjafjörð að við þurfum að berjast saman fyrir nútíma og framtíð fyrir okkur. Við þurfum að gera öllum þeim sem hingað vilja flytjast kleift að gera það, störf í þágu ríkisins eru hluti atvinnulífsins eins og Þorsteinn Gunnarsson rektor Háskólans á Akureyri benti réttilega á.
Gerum allt sem við getum til að byggja upp öfugt atvinnulíf við Eyjafjörð.
Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri