« Örbylgjunet í dreifðum byggðum | Aðalsíða | Gagnvirk samskipti við nemendur í kennslustund »

Þriðjudagur 6. apríl 2004

Dreifnám

Þetta tiltölulega nýja orð hefur nú öðlast sess í íslenskri tungu þó margir viti ekki hvað í því felst. Segja má að með dreifnámi sé blandað saman fjarnámi og staðbundnu námi. Dreifskóli er síðan skóli þar sem nemandi getur valið sér nám úr mörgum skólum og stundað í fjarnámi, dreifnámi eða staðbundnu námi allt eftir því sem hentar hverju sinni. Fyrir okkur Íslendinga sem búum nokkuð dreifbýlt ættu þessir möguleikar að vera gríðarlega eftirsóknarverðir enda hafa margar menntastofnanir tekið upp dreifnám og margir skólar orðnir dreifskólar.


Enn er þó nokkuð stirt í mörgum skólum að fá að stunda nám í annarsstaðar t.d. í fjarnámi þar sem sumir skólar vilja helst að nemandinn stundi námið hjá sér en ekki annarsstaðar. Einnig hefur það valdið áhyggjum að brottfall nemenda í fjarnámi er nokkru hærra en í hefðbundnara námi.

Þeir sem bjóða upp á dreifnám eða fjarnám bjóða nemendum oft upp á að skrá sig úr áfanganum. Sé áfangi keyptur annarsstaðar frá t.d. úr öðrum framhaldsskóla er því hægt að sleppa greiðslu hafi nemandi hætt fyrir ákveðinn tíma á önninni. Kosturinn er líka sá að hægt er að bjóða upp á nám án þess að fylla heilan hóp nemenda þar sem greitt er hlutfallslega fyrir hvern nemanda. Í síauknum mælil sækja nú grunnskólanemendur nám á framhaldsskólastigi en fylgja jafnöldrum sínum félagslega þ.e. eru áfram með þeim í grunnskólanum.

Mikilvægt er að hægt sé að efla dreifnám og dreifskóla á Íslandi og að dreifðar byggðir nýti sér þessa möguleika t.d. í samstarfi við grunnskóla á staðnum sé þar ekki framhaldsskóli.

kl. |Menntun / UT

Álit (16)

Hvaða skólar leyfa mönnum að skrá sig úr fjarnámi og sleppa við greiðslu / fá endurgreitt eftir að nokkrir dagar eða nokkrar vikur eru liðnir af önninni? (FÁ tekur sérstaklega fram að ekki fáist neitt endurgreitt, VMA endurgreiðir ekki innritunargjald en endurgreiðir 50% kennslugjalds ef nemandi hættir innan 4 vikna frá upphafi annar.)

Þriðjudagur 6. apríl 2004 kl. 20:24


Flestir framhaldsskólar bjóða einungis sínum eigin nemendum upp á dreifnám. Ég velti fyrir mér þessari síðustu efnisgrein í pistlinum þínum: Ertu að mæla með því að grunnskólakennarar bjóði upp á framhaldsskólaáfanga í dreifkennslu? Nú þegar er urgur í framhaldsskólakennurum yfir grunnskólum sem bjóða upp á staðkennda framhaldsskólaáfanga, án þess að hafa sæmilega menntað fólk til að kenna þá ...

Þriðjudagur 6. apríl 2004 kl. 20:26

Ég get sagt ykkur það, þú hefur legið yfir síðunni minni í gær, frábært!!!

Æ fleiri nemendur í grunnskóla taka framhaldsskólaáfanga á meðan þeir eru þar. Fyrirkomulagið er harla mismunandi og er beitt staðbundnu námi, fjarnámi og dreifnámi. Á heimasíðu Garðabæjar er bent á að 40% nemenda í 9. og 10. bekk í Garðaskóla stunda nám á framhaldsskólastigi í einhverjum mæli sbr. http://www.gardabaer.is/displayer.asp?cat_id=8&module_id=220&element_id=2558

Í Kópavogi koma grunnskólanemendurnir í nám í Menntaskólann í Kópavogi í nokkrum námsgreinum. Þónokkur fjöldi grunnskólanemenda er í fjarnámi í Fjölbrautaskólanum við Ármúla og fá aðhaldsþjónustu í grunnskólanum sínum.

Ég veit ekki hvernig þessu er hagað til á Akranesi en það væri gaman að heyra af því.

Kær kveðja
Lára

Miðvikudagur 7. apríl 2004 kl. 08:53

Hvað varðar endurgreiðslurnar þá greiða nemendur í fjarnámi ekki nám sitt 100% skólinn þarf að reiða sig á fjármagn frá menntamálaráðuneyti. Að sönnu fær nemandinn ekki endurgreitt ef hann mætir ekki í próf hafi hann ekki sótt um endurgreiðslu fyrir ákveðinn tíma í sumum tilfellum. Hinsvegar stendur það eftir að skólinn fær ekki það framlag sem menntamálaráðuneytið á að greiða þreyti nemandinn ekki próf.

Hinsvegar langar mig að bæta því við að ég hef aldrei skilið af hverju fjarnemandi þarf að borga miklu meira fyrir nám sitt heldur en nemandi í staðbundnu námi. Fjarnemandinn kostar miklu minna í rekstri skólans heldur en staðbundni nemandinn og er því í hæsta máta óréttlátt að rukka hann um meira fé.

Kær kveðja
Lára

Miðvikudagur 7. apríl 2004 kl. 08:57

Hvernig nýtist upplýsingatæknin þér einstaka sinnum?

Kær kveðja
Lára

Sunnudagur 11. apríl 2004 kl. 17:14

UT nýtist mér náttúrlega við að skrifa comment á bloggið þitt, Lára mín ;-)

Mánudagur 12. apríl 2004 kl. 18:02

Harpa mín, það er auðvitað gagnsemi sem ekki verður á móti mælt. En ég átti við hvenær þér þætti gagnlegt að nemendur notuðu hana;-) Ég veit að þér finnst UT ofnotað eins og þú hefur reynslu af henni svo mig langaði að vita í hvaða tilfellum sem þú kallar "einstaka sinnum" þér þætti hún gagnleg fyrir nemendur;-)

kær kveðja
Lára

ps. takk fyrir skrifin, voðalega skemmtilegt að fá umræðu á blogginn;-)

Mánudagur 12. apríl 2004 kl. 18:52

Æi, ég held að það sé gagnlegt fyrir krakkaskinnin að hafa aðgang að gömlum lokaprófum, gagnvirkum prófum, glósum, ítarefni og svoleiðis á vef ... ef námsfýsnin skyldi grípa þau heimavið en ekki bara í skólanum. Þess háttar dót er á heimasíðunni minni, notað af öllu landinu og miðunum, sem ég tel ekki eftir mér að hjálpa til náms. En í kennslustundum sé ég enga ástæðu til að nota tölvur, í mínu fagi, og þær glærur sem ég nota sýni ég á myndvarpa en forðast glærusýningar í tölvu eins og heitan eldinn (vegna vesens við að tengja skjávarpa og tölvu, auk þess sem þetta dót er alltof þungt fyrir lítinn kvenlegan kennara eins og mig). Ég gef nemendum fjölfaldað útkast af glærum ... ef þeir týna því geta þeir prentað þær út af vefnum.

Mánudagur 12. apríl 2004 kl. 21:17

þú ert auðvitað orðin víðfræg fyrir kennsluefnið þitt á Netinu Harpa mín.

Ég er hinsvegar að velta fyrir mér hvernig þú kennir aðallega, eru þetta nánast einvörðungu fyrirlestrar? Ég er alveg sammála þér, ef það er ekki skjávarpi og tölva í stofunni og ekki á að fara t.d. beint á vef eða nota hermilíkön eða hreyfimyndir í fyrirlestri þá breytir svosem engu hvort þetta er á plasti eða í tölvu.

Ég er hinsvegar afar mikið að velta fyrir mér hvernig upplýsingatæknin passar mismunandi kennsluaðferðum og mismunandi viðfangsefnu eða kennslugreinum. Hvað finnst þér um það?

Kær kveðja
Lára

Mánudagur 12. apríl 2004 kl. 22:44

Bara stutt ... verð að fara að slíta mig úr tölvuleikjunum ... athugaðu að það er ég sjálf sem er hermilíkanið í kennslustundum. Þetta er sem sagt "hermilíkans-kennsla" (takk fyrir orðið ;-)

Mánudagur 12. apríl 2004 kl. 23:56

Harpa hermilíkan??? Þá áttu við að þú hermir eftir Agli, stríðsátökum hans, flutningi ljóða og öðrum hetjudáðum?

Þriðjudagur 13. apríl 2004 kl. 09:39

Já, við Egill verðum æ líkari með árunum og vandséð hvort okkar er orginal og hvort er hermilíkanið. Háir mér samt soldið hvað ég er edrú (en það var Egill sjaldan).

Þriðjudagur 13. apríl 2004 kl. 20:35

Breyttist það ekkert þegar hann var kominn á þinn aldur?

Miðvikudagur 14. apríl 2004 kl. 08:58

Harpa:

Nei, hann versnaði frekar en hitt. 46- 47 ára (sem er gott eldra en ég er núna) gubbaði hann framan í og upp í sænskan gestgjafa sinn. Mér hefur einmitt sýnst að áfengis"menning" manna fari versnandi með hækkandi aldri ... fullir unglingar eru leiðinlegir en komast þó ekki í hálfkvisti við ástandið í kennarapartíum þegar líður á nótt, enda liðið í þeim síðarnefndu flest á fimmtugsaldri eða enn eldra.

Miðvikudagur 14. apríl 2004 kl. 16:17

Harpa:

Við ættum kannski að færa þessar bréfaskiptir undir einhvern annan lið ... þessi kommentadræsa er orðin ansi löng :)

Miðvikudagur 14. apríl 2004 kl. 16:18

Harpa:

æi, sló saman "bréfaskriftir" og "bréfaskipti"

Miðvikudagur 14. apríl 2004 kl. 16:19

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.