Fyrirtækið Snerpa á Ísafirði hefur sýnt það að fyrirtæki í dreifðri byggð getur verið afar metnaðarfullt í uppbyggingu sinni á tengingum til staða sem Síminn hefur ekki talið sig geta þjónustað með góðar tengingar við Netið eins og fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Eins og áður hefur komið fram á þessari síðu fór ég á Drangsnes fyrir nokkru til að ræða möguleika fjarnáms og fjarvinnu í dreifðum byggðum. Þar er framsýni heimamanna mikil og draumurinn að nýta grunnskólann til að veita fjarnemendum vinnustað þar sem þau geta styrkt hvert annað og nýtt þekkingu hvers annars. Gunnar Björn Melsteð skólastjóri vinnur ötullega að þessum málum og greinilegt að hann nýtur stuðnings íbúanna í viðleitni sinni. Eitt af því sem kom mér skemmtilega á óvart var að Snerpa á Ísafirði veitti örbylgjuþjónustu á staðnum og að íbúar voru vel meðvitaðir um möguleika sína við hagnýtingu tækninnar.
Snerpa á sannarlega heiður skilinn fyrir að sinna íbúum Vestfjarða svo vel sem raun ber vitni.
Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri