Samkvæmt riti KK stiftelsen í Svíþjóð er nauðsynlegt að mennta ungt fólk til að vinna í nútímasamfélagi og ná árangri með þeirri tækni sem þar er notuð. UT er talin hafa áhrif á breytingar í skólastarfi gerir skólann sveigjanlegri og eykur gæði. UT er talin auka möguleika fatlaðra við nám og einnig er UT talin verkfæri sem eykur námsvirkni. Nýleg bresk rannsókn ImpaCT2 sýnir að nemendur í grunnskóla sem nota upplýsingatækni í námi sýna marktækt betri árangur á samræmdum prófum hjá nemendum í öllum aldurshópum.
Einnig kemur fram í sænsku skýrslunni sem ber nafnið IT i skolan - en internationall jämförelse að Svíar eru að dragast aftur úr á þessu sviði og ekki lengur sú þjóð í Evrópu sem er leiðandi á þessu sviði. Í skýrslunni er staðan í Svíþjóð borin saman við fjölmörg lönd og þ.á.m. Ísland. Það kom mér á óvart hvað Ísland virðist einnig að sigla aftur úr nokkrum öðrum Evrópuþjóðum frá því sem áður var á sumum sviðum. Þetta er mál sem ég vil kanna nánar og vildi heyra í þeim sem hafa skoðað fræðilegt efni og skýrslur sem hafa reynt að bregða ljósi á stöðuna varðandi UT í námi, samanburði okkar við önnur lönd og tengsl við námsárangur.
Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri