Spennandi fundur var í dag hjá Samfylkingunni á Akureyri um fjölmiðlafrumvarpið og fjölmiðlaskýrsluna. Birgir Guðmundsson fjölmiðlafræðingur bar saman frumvarpið og ræðu Davíðs Oddsonar á Viðskiptaþingi Verslunarráðs 11. febrúar 2004. Ég tel að ræðan hefði frekar átt að vera fylgiskjal með lagafrumvarpinu fremur en fjölmiðlaskýrslan sem hefur lítið með frumvarpið að gera.
Á fundinn mættu Guðmundur Heiðar Frímannsson einn höfunda fjölmiðlaskýrslunnar, Birgir Guðmundsson, Skafti Hallgrímsson blaðamaður Morgunblaðinu, Hilda Jana Gísladóttir sem vinnur hjá Aksjón, Hjörleifur Hallgríms ritstjóri Vikudags og Karl Eskil Pálsson sem vinnur hjá RÚV hér á Akureyri. Mikill fengur var að fá allt þetta fólk til umræðu um málið á fundi hjá Samfylkingunni. Mikil ánægja kom fram með að fá tækifæri til að ræða þessi mál með þessu fagfólki og velta fyrir sér fjölmörgum flötum á málinu.
Vonbrigði mín varðandi þetta frumvarp eru fyrst og fremst þau að hættan sem er fyrir hendi er sú að ekki sé tekið raunhæft á nauðsynlegum hlutum varðandi þá þætti sem geta haft áhrif á umfjöllun fjölmiðlanna. Hér á ég við þætti, umfram eignaraðild, eins og áhrif auglýsenda, hefur það áhrif hvar þeir auglýsa á umfjöllun fjölmiðlanna. Hver eru áhrif stjórnmálamanna, er reynt að hafa áhrif á fréttamenn? Skafti kom síðan með mjög áhugaverðan vinkil þegar hann ræddi hvernig íþróttafréttir virtust litast af því hvaða samninga ákveðinn fjölmiðill var með. Hvað er fjallað um af boxi í Sjónvarpinu eða Formúlu 1 kappakstur hjá Stöð 2?
Það sem er skelfilegast í þessu öllu saman er að enginn fær tíma til að ræða eignarhald á fjölmiðlum, skoða fjölmargar hliðar þess og komast að skynsamlegri niðurstöðu. Væri það gert tel ég að hægt væri að komast að niðurstöðu sem allir væru sáttir við.
Hinsvegar tel ég mikilvægast og markverðast að umræðan átti sér stað með öflugum fagmönnum hér á Akureyri og ég er afar þakklát fyrir það.
Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri