« Strax komin heim | Aðalsíða | Barnabarnið »

Föstudagur 16. júlí 2004

Framsókn til bjargar?

Nú virðist Framsóknarflokkurinn vera búinn að koma sér í þá stöðu að menn upplifi hann sem einhverskonar bjargvætt til bjargar Sjálfstæðisflokknum frá sinni fjölmiðlaglötun. Í síðustu kosningabaráttu heyrðist mér að Framsóknarflokksmenn gætu nú lítið gert í þeim málum sem ekki heyrðu undir þeirra ráðuneyti og virtust alls staðar ósammála Sjálfstæðismönnum og jafnvel hafa ímugust á því hvernig þeir skipuðu málum. Sumsé fórnarlömb stjórnarsamstarfs, en nú loksins á að bregða sér í betri gallann og reyna að bjarga fjölmiðlafrumvarpinu. Kannski ekki seinna vænna?


Flokksmenn Framsóknarflokksins mótmæla hver á fætur öðrum og flokkurinn mælist í míníútgáfu og því er mál að bregða sér í ofurmannagalla og vera bjargvættur. Það verður fróðlegt að sjá hvort og þá hvernig það tekst því stóra vandamálið við fjölmiðlafrumvörpin fimm (tja eða sex maður hefur misst töluna) er það að við þjóðinni blasa hyskin vinnubrögð og valdbeiting sem við höfum ekki kynnst áður - og höfum reyndar aldrei viljað kynnast. En þessi vinnubrögð styðja báðir stjórnarflokkarnir það þýðir ekkert að skorast undan því.

Auðvitað þarf að setja lög um fjölmiðla, auðvitað þarf að skoða eignarhald en það þarf líka að skoða ristjórnarlegt sjálfstæði og aðra þætti sem hafa áhrif á hvernig fjölmiðlar starfa. Við Íslendingar kærum okkur einfaldlega ekkert um það að menn vaði uppi nánast hugsunarlaust og hangi síðan eins og hundar á roði á því sem ekkert er undirbúið eða skipulagt. Þetta skilja nánast allir menn - nema flokkur Davíðs. Hinn almenni framsóknarmaður skilur þetta og er farinn að berja á sinni ofurhlýðnu forystu sem hefur verið almesta fórnarlamb Davíðs ef ég skildi þau rétt hér fyrir síðustu kosningar.

Það er þá gott að flokkurinn virðist hafa náð andlegum styrk í ríkisstjórninni til að geta sagt - hingað og ekki lengra. Þeir verða einfaldlega menn af meiri og því ætla ég að trúa því - þar til annað kemur í ljós - að Framsóknarflokkurinn muni bjarga hinni íslensku þjóð frá þeirri furðulegu atburðaröð sem nú á sér stað. Verði séntilmenn og sjái til þess að verklagsreglur Alþingis séu ekki brotnar og sýni þjóðinni hvernig á að haga sér í ríkisstjórn Íslands. Sem menn sátta og samlyndis en ekki með ofbeldi og þjösnaskap. Í dag eru Framsóknarmenn þeir einu sem geta bjargað málinu.

Í Guðanna bænum Framsóknarmenn - bjargið okkur frá þessari dómadags vitleysu!!!

kl. |Pólitík

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.