« Í ME | Aðalsíða | Vísindagarðar í HA »

Miðvikudagur 25. ágúst 2004

Samræmd próf og fartölvur

Hér birtist enn ein greinin um rannsókn þar sem nemendur koma ekki betur út á prófum séu þeir með fartölvur. Hvenær ætli menn fari að skilja að samræmd próf mæla illa þann ávinning sem nemendur hafa af fartölvum og eru í raun skakkur mælikvarði á menntun nemenda. Tja nema kannski í stagli og utanbókarlærdómi sem gagnast fremur lítið nútildags.

Standardized tests show no benefit to laptops

Það er mikilvægt að menntageirinn fari að vakna til nútímans og hætti að bregða trénuðum mælistikum á menntun. Þetta er eins og að reyna að mæla lengd með vikt eða mæla mjólkurmagn með reglustiku.

kl. |Menntun

Álit (14)

Hvað meinaru?

Það að mæla lengd með vikt er ekki "trénuð" mælistika heldur hreinlega röng mælieining m.v. hugtakið sem á að mæla, ekkert réttmæti (validity) í þeim mælingum.

Ertu þá að segja að próf (stöðluð sem önnur) séu ekki góð mælistika á "árangur" í menntakerfinu? Mætti jafnvel ganga lengra og spyrja hvað sé árangur í menntakerfi? Það að nemendum líði vel, þeir séu vel undirbúnir undir áframhaldandi nám eða störf? Jú eða einkunn á einhvers konar prófi.

Þetta er kannski ekki góð mæling til að meta áhrif fartölvu en það má heldur ekki búa sér til mælitæki sem skilar þeim niðurstöðum sem maður vill fá. T.d. að spyrja hvort nemandi kunni meira á tölvur og fá það út að fartölvuvæddir nemendur kunni meira á tölvur en hinir eru nokkuð sjálfsögð sannindi og kannski ekki mjög áhugaverð rannsóknarspurning.

Miðvikudagur 25. ágúst 2004 kl. 15:43

Ah, varð nú aðferðafræðingurinn í þér áhugasamur;-)
Varðandi mælistikuna þá er hún trénuð að því leyti að telja að sú kunnátta sem hægt er að mæla á samræmdu prófi sé kunnátta sem nemandinn er að afla sér eða sú sem gagnast honum miðað við þau markmið sem sett eru fram í námskrám. Það sem þótti gagnlegt og gott snemma á síðustu öld, stagl og utanbókarlærdómur er ekki það sem eftirsóknarvert er í dag.
Mælistikan er hinsvegar beinlínis röng ef menn halda að hún mæli gæði náms og kennslu eða gæði skóla eins og sumir virðast halda.
Svo samræmdu prófin eru að mínu mati trénuð mælistika á nám og beinlínis röng séu menn að meta gæði sem sumir fullyrða.
Hinsvegar er ég þar með ekki að segja að öll próf séu vond, hreint ekki. Þau geta mælt ákveðna þætti sem gott er að fá upplýsingar um, sérstaklega fyrir kennara.
Hinsvegar eru próf ekki eina mælieiningin á námsárangur eða getu nemanda. Í þinni vinnu t.d. þá vilt þú að þú sért metinn af verkum þínum, fæstir vilja fara í samræmt próf um vinnu sína og fá launin eftir því. Enda væri slíkt fáránlegt og hvers vegna ættu nemendur að búa við slíkt?
Þetta kemur því hinsvegar ekkert við hvað nemendur kunna á tölvur. Það er allt önnur saga. En rannsóknir sem ég hef verið að skoða um nám með fartölvum þá er t.d. ein þannig að nemendur unnu ritunarverkefni í tölvum alla önnina, kynntust vinnubrögðum og þvíumlíku en voru síðan prófaðir á skriflegu prófi. Ekki með því verkfæri sem þau voru vön að nota. Það þarf ekki að fjölyrða um það að þau voru ekkert betri í handskrifuðu prófi en aðrir sem höfðu æft sig í að handskrifa allan veturinn. En merkilegt nokk voru þau ekki verri ef ég man rétt.

Ég hef hinsvegar engan áhuga á að rannsaka hvort nemendur með fartölvur kunna meira á fartölvur en þeir sem ekki eru með þær. Ég hef mestan áhuga á að menn geti notað tæknina í réttu samhengi við viðfangsefnið hverju sinni til ábata fyrir sína þekkingu.

Samræmd próf í 10 bekk hafa síðan ekki einusinni verið áreiðanleg í þeim skilningi að samanburður milli ára sé áreiðanlegur. Próffræðingum hefur ekki tekist að búa til próf sem virðast skila því sama tölfræðilega frá einu ári til annars. Það er talsvert meiri sveifla í einkunn á samræmdum prófum en skólaeinkunn sem alls ekki á að vera séu prófin samin próffræðilega rétt.

Ergó samræmd próf eru vond mælieining og mæla ekki það sem menn telja sig vera að mæla og það sem þau mæla er ekki færni eða þekking sem við höfum gagn af til að mæla heildarþekkingu nemandans á námsefninu. Og sannarlega mæla þau ekki gæði skóla - það er bull.

Kær kveðja
Lára

Miðvikudagur 25. ágúst 2004 kl. 16:51

Þú settir linkinn bara fyrir mig, er það ekki? ;-)

Viltu vera svo væn að útskýra fyrir mér hvernig samræmt próf í íslensku byggist á stagli og utanaðbókarlærdómi, ekki hvað síst samræmda stúdentsprófið? Hvorki 10. bekkjar né samr.stpr. prófa úr tilteknu námsefni. Þess vegna er ekki hægt að læra neitt utanað. Má segja að málfræðin í 10. bekk sé að einhverju leyti "stagl og utanaðbókarlærdómur" en engin málfræði er á stúdentsprófinu. Þar er einungis verið að prófa hæfni (hæfni í lesskilningi, hæfni í að skrifa óbrjálaðan texta o.s.fr.). Það merkilega er svo að samanburður sem ég gerði á einkunnum 25 nemenda núna í vor, bornar saman einkunnir í samr. sdpr., samr. 10. bekkjar prófi og einkunnir í 3 síðustu íslenskuáföngunum (9 einingum, lókalt í FVA) sýndu nánast sömu tölur hjá öllum, þ.e.a.s. fólk mældist eins á öllum þessum prófum (náttúrlega leiðinlegt að því fór lítið fram en gott að því fór ekkert aftur). Gilti sama um tölvunotendur eða ó-tölvuneytendur. (Helst mér detti í hug að Counter-Strike liðið gæti skorað lægra á prófum en aðrir en á það er svo sem ekki komin reynsla, nema lókal reynsla í föllnum einingum. Það er gott dæmi um að tölvunotkun í óhófi gerir menn að öpum, ekki síður en aurarnir ;-)

Ég er orðin hundleið á þeirri klisju að próf mæli ekki "réttu hlutina" og þannig sé hægt að skýra að enginn ávinningur mælist, jafnvel afturför (í 4 anna eigin tilraun), með tölvudóti. Segðu mér hvernig þú (og t.d. Sölvi Sveinsson, sem hefur nú talað um það í áratug að próf mæli ekki réttu hlutina) viljið að próf séu til þess að þau "mæli rétt". (Viljið þið t.d. mæla eins og danskir einokunarkaupmenn?)

Væri gaman að sjá tillögu að nokkrum spurningum á prófi í íslensku þar sem líklegt væri að fartölvuleikni nemenda skilaði betri árangri en lestur og skrift upp á gamla móðinn :) Þú færir nú létt með það eins og þú ert veik fyrir móðurmálskennslu ;-)

Miðvikudagur 25. ágúst 2004 kl. 19:40

Harpa mín,

ég viðurkenni fúslega að ég hugsaði til þín þegar ég setti þetta inn. En til að vera alveg heiðarleg þá var ég að prófa spurl.net og hex this og þetta var nýjasta greinin sem ég var að skoða og prófaði að spurla hana. Ef það huggar þig eitthvað þá sýnir rannsóknin mín um fartölvur í skólum engan mun á tölunum sem nemendur fá í einkunn hvort sem þeir eru með fartölvur eða ekki á alskyns námsmati, hvorki til hins verra eða hins betra;-)

Varðandi samræmt stúdentspróf og fartölvur þá hef ég ekki haldið því fram að nemendur læri meira eða betur heldur en fyrir var með þessum tólum heldur læri vinnubrögð sé tölvan notuð í réttu samhengi við viðfangsefnið hverju sinni. Og ég er ekkert viðkvæm fyrir því að nemendur liti í litabók ef það hjálpar þeim við einbeitingu þegar það á við.

Stóru áhyggjurnar mínar eru hinsvegar þær að nemendur læri ekki að beita nútímatækni þegar það á við og þar með ekki rétt vinnubrögð sem muni síðan hamla þeim verulega við frekara nám og atvinnu. Ég hef séð gríðarlegan mun á nemendum sem kunna að beita verkfærunum og þeim sem kunna það ekki. Í rannsókninni minni kom fram að skipta má nemendum með fartölvur í þrjá hópa og eru tveir þessara hópa verulega eftirsóknarverðir á meðan sá þriðji er það alls ekki. Oft er þó helst horft á hann eins og með aðra hluti þegar menn vilja bara velta sér upp úr því hvað er verst. Eins og að ekki eigi að selja áfengi því sumir fari verulega illa út úr því eða að stúlkubörn eigi ekki að vera á Internetinu því þar finnist vondir menn og vond veröld. Eins og það séu ekki verulega vondir menn út á götu algerlega ómerktir en við verðum að kenna börnum og ungmennum að varast hætturnar.

Hvað varðar námsmat á samræmdum prófum þá er það ekki klisja í mínum huga. Hinsvegar finnst mér ekkert flókið að fallast á að það væri hægt að meta verr.

Ég hef aldrei haldið því fram að nemendur skili betri árangri með því að nota upplýsingatækni sérstaklega ekki á meðan námsmat breytist lítið sem ekkert. Það sem ég benti á var að oft telji menn (ekkert endilega skólamenn en þó...) að samræmdu prófin séu að mæla annað en þau eru að mæla. Hér á ég við umræðuna um "betri" og "verri" skóla sem samræmdu prófin eru ekki að mæla en menn virðast þó oft skilja mælinguna sem slíka. Samræmdu prófin mæla ákvkeðna færni og og frekast þau sem eru stagl, utanbókarlærdómur eða minni. Efnistök nemanda geta aldrei orðið meiri á samræmdu prófi en minni hans nær til hann hefur ekki aðgengi að því að afla sér upplýsinga og nýta þær sem er einn mikilvægasti eiginleikinn í dag. Það er ekki mikilvægast að muna og þylja. Það er mikilvægara að mínu mati að hafa þjálfað upp eiginleikann að finna upplýsingar, meta hvort þær eru einhvers virði, tileinka sér þær, setja fram þekkinguna og skapa nýja þekkingu byggða á þeirri fyrri. Samræmt próf metur aðeins hluta þessara þátta.

Hvað varðar spurninguna þína í lokin, þá tel ég lestur afar mikilvægan en það skiptir mig svosem ekki meginmáli hvort lesið sé af skjá en bók. Hinsvegar finnst mér sjálfri miklu skemmtilegra að lesa bækur en skjá og sérstaklega krota í bækur þegar ég er að lesa þær. En þegar ég er að vinna þá vil ég frekar skjá og eftir að ég lærði að spurla þá finnst mér það auðvitað alveg gjeggjað og nota RSS til að birta það skipulega er auðvitað snilld. Þar með verður þekking mín ekki línuleg eins og lestur í bók heldur skipulega framsett í samhengi sem ég sjálf skil. Ég er ekkert sérstaklega upptekin af handskrift og hef mikla samúð með nemendum sem ævinlega eiga að skreyta verkefni með myndum og lita því það fannst mér aldrei skemmtileg iðja sem krakki. Ég er hinsvegar miklu uppteknari af því að nemendur geti tjáð sig á móðurmálinu töluðu eða rituðu þannig að þau komi hugsun sinni á framfæri á skipulegan hátt. Mér finnst fáránlegt að halda því fram að það sé einungis hægt með blýanti eða penna. Og ég held að nemendur nái betri árangri í að lesa og rita með því að nota tölvu, þá er hægt að einbeita sér að hugsun og viðfangsefni (kunni menn fingrasetningu) í stað þess að draga stafina fagurlega.

Ég held því að ákjósanlegasta verkfærið fyrir nemendur í íslensku sé bloggur þar sem notuð er skipuleg framsetning, rss notað virkt sem og spurl. Mæli með því langt fram yfir litabækur;-)

Og takk Harpa fyrir innleggið, það er orðið allt of sjaldgæft að menn tjái hugsun sína jafn skarpt og þú gerir. Menn tjá sig út í loftið á Netinu þegar enginn bregst við, þú ert fjársjóður hvers bloggara, hefur alltaf eitthvað að segja!!!

Kær kveðja
Lára

Fimmtudagur 26. ágúst 2004 kl. 08:31

Ég setti nú tölvufærni spurninguna bara fram til að sýna fram á slæma rannsóknarspurningu, engum myndi detta í hug að kanna það af alvöru (þó aldrei að vita).

Einhvern tíma lærði ég í einhverju sem var örugglega kallað námsskrárfræði að það þyrfti að setja kennslumarkmið byggð á námsskrá og síðan væru þau próf, verkefni eða annað sem notað er til að meta námskeiðið hönnuð út frá þeim.
Hver eru markmiðin með því að nota fartölvur í skólum? Ef markmiðið með að nota fartölvur í skólum er bara "að nota fartölvur" eða "efla upplýsingatækni" þá er mjög eðlilegt að rannsakendur lendi í vandræðum með að finna réttar mælingar til að meta árangur af slíkri notkun.

Ég er alveg sammála Hörpu með að það sé engin lögleg afsökun að ekki sjáist árangur bara af því að mælingin sýnir hana ekki og þá eigi að leggja árar í bát og segja bara: "Já en það er SAMT árangur!". Það á frekar að snúa sér við og skilgreina betur markmiðin, hafa þau skýr, skrifleg og mælanleg.

Mér tekst samt engan veginn að sjá gildi RSS og "Spurls" fyrir íslenskukennslu.

Fimmtudagur 26. ágúst 2004 kl. 15:42

Sem nemandi vil ég segja það að tölvan er eins og hvert annað verkfæri (þetta sagði góð kona mér fyrir mörgum árum).
Ef ég þarf að moka litla holu þá nota ég skóflu og ef ég þarf að moka skurð þá fæ ég gröfu. Eins finnst mér það vera við skriftir, ef ég þarf að skrifa ritgerð, þá líkar mér að nota tölvu, þar sem ég er fljót að setja textann á blað eftir minnispunktum sem ég hef skrifað með blýanti, nota svo talsverðan tíma í yfirlestur, endurraða texta og bæta inní þannig að ég verði stolt af verkinu.
Þegar ég hef þurft að skila handskrifuðum ritgerðum dett ég alltaf í minn símskeytastíl hef þetta stutt og snaggaralegt og sit uppi með lægri einkunn (sem ég skil aldrei, finnst þetta sjálfri svo hnitmiðað og kjarnmikill texti).
Stundum á tölvan við og á öðrum tíma blýanturinn, en ég vil hafa val um hvort ég nota.
Það þarf enga mælistiku á hvort er betra, þetta hlýtur að vera persónu- og verkbundið, eins og margt annað, hvaða verkfæri hentar við verkið.

Fimmtudagur 26. ágúst 2004 kl. 22:00

Er mamma Katrínar & Marteins, en ekki stóru sys ;-)

Fimmtudagur 26. ágúst 2004 kl. 22:02

Harpa:

Hvað er eiginlega þetta Spurl? Og RSS? (Sem ég mislas fyrst fyrir razz ... ein ircrása nemenda minna heitir einmitt #razz.

Fimmtudagur 26. ágúst 2004 kl. 22:15

Sæl mín kæru,

frábært spjall. Tryggvi auðvitað á námskráin að segja hvað á að gera og síðan á að mæla það. Námskráin er hinsvegar eins og sturtubað af góðum hugmyndum og kennarar nota þær eins og allt of stóran matseðil á veitingahúsi og fáum dettur í hug að reyna að fullnægja öllum þeim markmiðum sem í henni eru. Það eru fullt af upplýsingatæknimarkmiðum í flest öllum greinum. Sum þeirra þess eðlis að þau eru mælanleg eða metanleg nema hvoru tveggja sé. Svo ég taki dæmi Fífu af skurðinum þá er einmitt grundvallaratriðið að velja sér verkfæri miðað við viðfangsefni. Það er jafn fjarri mér að telja að menn eigi alltaf að nota upplýsingatækni eins og að þeir eigi alltaf að gera það (þó umræðan virðist alltaf detta í það bull). Þegar skurðurinn er tilbúinn þá er markmiðið með að skurðurinn sé fullnægjandi til síns brúks en ekki bara fallegur ónothæfur skurður. Síðan sé haldið áfram þá væri ekki verra að viðkomandi gæti aftur búið til góðan skurð og geti þá aftur valið sér verkfæri miðað við nýja staðsetningu, önnur jarðlög o.s.frv. Stundum þarf meiraðsegja haka til að búa til skurð og fyrir austan nota menn sprengiefni til að búa til voðastóran skurð. Engum dettur í hug að rjála með skólfu þar.

Þegar viðfangsefni nemanda er lokið er auðvitað mikilvægast að afurðin sé góð en á sama tíma er mikilvægt að nemandinn geti valið sér verfæri og leyst viðfangsefnin sjálfur án þess að kennarinn segi nemanda beinlínis hvernig hann á að leysa verkefnið eða leiðbeini með skófluna í smáatriðum. Hæfni einstaklingsins til að leysa verkefni, velja sér verkfæri og öðlast þar með sjálfstæði er mikilvægt að mínu mati.

Kær kveðja
Lára

Föstudagur 27. ágúst 2004 kl. 09:20

Harpa,

mér finnst spurl.net frábært til að halda utan um þær heimildir eða ítarefni sem ég er að lesa. Ég er með milljón síður í "Favorites" sem benda á hinar og þessar síður. Mér tekst ekki nógu vel að halda utan um það eða finna hvað ég var að fást við. Með spurl.net getur þú smellt á hnapp á vafranum og sagst vilja spurla greinina og sett hana í ákveðinn flokk (eða skjalasafn) sett síðan leitarorð á hana. Síðan getur maður notað rss til að birta lista yfir greinarnar á vefsíðunni sinni þar sem flokkarnir hafa rss sem er frábært.

RSS er síðan forrit sem birtir á vefsíðu allar nýjustu greinar á annarri vefsíðu t.d. BBC, Mogganum, Vísindavefnum eða öðru því sem hentar. Í hvert sinn sem viðkomandi síðu er breytt breytist síðan þín þannig að fyrirsagnir af hinni síðunni uppfærast sjálfkrafa. Þannig getur þú t.d. látið ítarefni þar eða t.d. þegar nemendur eru að vinna að viðfangsefni í hópum og mikilvægt að upplýsingar um hvað hinir hóparnir geti fylgst með hvað er að gerast látið þá hafa RSS tengil af þeirra blogg í hinna. Þá eru allir með á sínum blogg það sem þeir eru að gera og fyrirsagnir hjá hinum með link beint í greinarnar þeirra ef þeir vilja lesa betur. Kennarinn getur síðan haft RSS á alla hina og þar með séð hvað er að gerast.

Þar með þurfa menn ekki að þvælast vefsíðu frá vefsíðu til að sjá hvort eitthvað hafi breyst heldur geta séð það á sinni eigin. Til dæmis gætir þú haft RSS á mig og séð hvenær ég set inn grein sem fjallar um UT og menntun þar sem líklegra er að þú hafir áhuga á því en myndum af barnabörnunum. Þá sérðu strax hjá þér hvenær sú grein breytist.

Hex this er síðan ágætt tól þegar þú sérð eitthvað á vefsíðu sem þú vilt blogga um þá skyggir þú textann, smellir á hægri mús og velur "Hex this" og þá er búið til innlegg á þínum blogg með þeim texta sem þú skyggðir, link á síðuna þaðan sem þú tókst efnið og síðan getur þú skrifað meira í kringum það.

Kær kveðja
Lára

Föstudagur 27. ágúst 2004 kl. 09:28

Já eru kennslumarkmið ekki einmitt "droparnir" sem þú velur til að nota úr námsskránni? Trickið er væntanlega það að ef markmiðin eru ekki fókuseruð á upplýsingatæknina og strangt tiltekið mælanleg þá er sjáanlegur ávinningur enginn? Samanber það að meðan skriftin mín er nokkuð skiljanleg fæ ég ekki hærri einkunn fyrir verkefni hvort sem ég skrifa vel eða mjög vel. Þetta hins vegar hentar mjög illa í umhverfi þar sem ábatagreining (cost-benefit analysis) ræður öllu. Það kostar jú meira að nota UT en að sleppa því og til að réttlæta þann kostnað þarf ábata hinu megin í jöfnunni.

Þetta er mjög áhugaverð og kannski er þetta annað birtingarform af því að á framhaldsskólastigi og jafnvel háskólastigi virðast margir eiga erfitt með að meta "gæði" heimilda. Þetta er sérstaklega slæmt þegar fjöldi mismunandi heimilda er jafn mikið og auðvelt að nálgast þær t.d. með Google. Stóra spurningin er svo hvað velur maður eins og með skófluna. Er meira að marka síðuna á geocities.com eða greinina sem maður finnur í gegnum ProQuest ;)?

Svo þarf ég að leiðrétta eitt hjá þér. RSS er EKKI forrit! RSS er staðall um form á XML-skrám sem miðla fyrirsögnum af ákveðinni veitu. Það eru síðan forrit s.k. RSS Aggregator-ar sem eru notaðir til að sækja RSS-strauminn (xml skrá yfir http oftast) og uppfæra lista annað hvort í einhverjum hugbúnaði á vélinni hjá þér eða á vefsíðu. RSS er "pull" tækni þ.e.a.s. þú sækir greinar frá þeim veitum sem þú velur en ekki "push" þar sem einhver t.d. vefportall ýtir nefni til þín.
Margar RSS veitur er að finna á http://rss.molar.is/ ágæt vef-baseruð RSS Aggregator þjónusta er: http://bloglines.com/

Þjónusta eins og Spurl (http://www.spurl.net ) er mjög sniðug og ég hef notað hana núna í nokkra mánuði og hefur hún leist af hólmi marga mismunandi staði til að geyma bookmarks (1-2 browser per vél, ein vinnuvél, heimavél og svo fartölva). Það að geta leitað eftir orðum og bætt "meta-data" við hverja færslu er himnasending. Það að geta svo miðlað öllum nýjum (non-private) færslum eða ákveðnum flokkum annað hvort með RSS eða JavaScript á vefsíðu er ekkert minna en frábært. Ég er til dæmis með 5 nýjustu "öryggisfærslurnar" á síðu á innranetinu í vinnunni (via RSS) samstarfsmönnum mínum til fróðleiks. Þetta get ég uppfært hvaðan og hvenær sem er.

Föstudagur 27. ágúst 2004 kl. 12:01

Harpa:

Ég er alveg paff yfir öllu þessu tali um skurði, sturtur og matseðla ... Snorri myndi kalla eitthvað af þessari umfjöllun "nykraða"!

Hvað varðar gæðamat á heimildum þá hefur það verið vandamál frá því fyrir daga Gutenbergs, eða a.m.k. frá dögum hans. Svoleiðis að tölvur/ internet hafa sennilega litlu breytt þar um, aðeins gert vandamálið sýnilegra (fyrir þá sem eru seinir að fatta). Meira að segja Ari fróði velti fyrir sér þessu vandamáli og sló varnagla og var nú ekki eins og hann væði beinlínis í heimildunum, hvað þá væri tengdur, þessi elska.


Sjálf er ég að drukkna í upplýsingum og einbeiti mér nú að því að fylgjast verr með, hef sett mér það sem markmið. Þannig að sniðuga dótið sem þið Tryggvi (trigger?) talið um gengur náttúrlega þvert á það markmið. Fylgjast verr með og vera minna skipulögð: Vonandi gengur mér þokkalega að ná þessu markmiði.

Hvað barnabörnin varðar þá eru þau nú svo miklar dúllur að þær fyrirsætur einar eru nægar til að trekkja mig á síðuna þína, Lára, ... þótt ég slái svo sem ekki hendinni á móti ritdeilu um tölvudót ef hún býðst ;-)

Föstudagur 27. ágúst 2004 kl. 19:09

Jú, rétt Harpa, sá Tryggvi er þetta víst. Ég held reyndar að heimildavandamálið (fyrst þú nefnir sögulegar rætur þess) hafi versnað með bættum aðgangi að fleiri heimildum. Hér einu sinni var þetta einfalt, bókin var á bókasafninu og fyrst hún hafði 1) verið skrifað 2) gefin út og 3) keypt af skólabókasafninu hlaut hún amk að uppfylla grunnskilyrði um gæði. Í dag getur hver sem er sett hvaða bull sem er á vefsíðu (eins og ég geri til dæmis) og hver sem er getur fundið það með leitarvél.

Gangi þér vel við að fylgjast verr með, það er göfugt verkefni sérstaklega á þessum síðustu og verstu tímum.

Laugardagur 28. ágúst 2004 kl. 19:21

Þið eruð yndisleg, takk fyrir fyrirlesturinn um RSS Trigger, best að nota rétt hugtök;-) Hvað varðar rss Molar þá sýnist mér það að verða dálítið dauð þjónusta. Ég er allavega í stökustu vandræðum að finna þessar síður og stundum virka tenglarnir hjá þeim ekki. Eða er það kannski líka rugl hjá mér.

Hvað varðar þessa heimspekilegu umræðu um hvort menn eigi að nota tölvur og hvað þær gera yfirhöfuð fyrir nokkurn þá mætti ég kannski minna á að þessi skemmtilega ritdeila væri nú ekki til ef ekki væri fyrir þessar skepnur. Og það sem meira er, ég myndi sjálfsagt hvorugt ykkar þekkja nema út af þessari græju og hafi ég aldrei neitt annað að þakka þessu tæknidóti fyrir um ævina þá er það barasta alveg nóg;-)

Við erum svosem löngu komin út fyrir samræmdu prófin sem er í sjálfu sér ágætt enda eru þau frekar ómerkilegt fyrirbæri í sjálfu sér. Hvað varðar tölvur þá eru þær auðvitað bara verkfæri, en verkfæri líkt og penni til að tjá ritmál og rödd til að tjá hugsun. Það er alveg hægt að tjá sig án hennar EN það er líka hægt að tjá sig án raddar og skriffæris. Enginn óskar þess að vera án þeirra verkfæra. Tölvan er einfaldlega verkfæri til að bjarga sér við verkin og því finnst mér fullkomlega eðlilegt að nota hana við þau. Hvernig menn kunna síðan að brúka verkfærið er síðan önnur saga. Viðskiptafræðideildin í HÍ gerði rannsókn og þeir vildu ekki gefa mikið fyrir hvað nemendur kynnu almennt úr framhaldsskóla að nota tölvur. Síðan minnir mig að einhver deildin í þeim sama skóla hefði ekki sérstakan áhuga á öðru en að nemendur kynnu að lesa og skrifa, enn önnur deild að menn kynnu bara að reikna. Allt annað var hjóm eitt að þeirra mati.

Hvað varðar tölvur í dag, þá eru þær hvaða skoðun sem maður hefur verkfæri í lífi og starfi nútímamannverunnar og það má sossum alveg stinga hausnum í sandinn og vilja trúa öðru. Þannig hefur það alltaf verið með breytingar á samfélaginu. Það hafa alltaf verið einhverjir sem eru til í að vera á móti nýjum verkfærum sem maðurinn byrjar að tileinka sér. Hvað þá ef þau verða til þess að menn fara að fá upplýsingar um annað en ráðamenn vilja að þeir fái upplýsingar um. Slik dæmi höfum við séð hvert af öðru undanfarin ár.

Harpa vill að ungmenni lesi hundgamlar bækur og síðan einhverjar nýjar bækur. Venjulega velur hún bækurnar eða gerir eins og allir aðrir kennarar í hennar grein og lætur nemendur lesa sömu bækur og allir hinir af því að það eru til bækur skilgreindar sem menningararfur og enginn vill hnika því til þar sem fátt getur ært Íslendinga meira en að trúa því ekki að án þessara sagna lifi þeir fátækara lífi. Til þess að ekkert trufli börnin frá þessum menningararfi vill hún að nemendur liti frekar í litabók en láta nokkuð annað trufla sig en að velja hvort Batman í litabókinni á að vera í bláum sokkabuxum eða grænum.

Ég geri svosem engar athugasemdir við þetta þar sem ég veit að það er Íslendingum mikilvægt að kunna nokk fyrir sér í bókmenntum. En ég er samt þeirrar skoðunar að menn eigi að geta bjargað sér með tölvur og það sé mikilvæg leið til að afla sér upplýsinga og þekkingar.

Kær kveðja
Lára

Sunnudagur 29. ágúst 2004 kl. 22:18

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.