« Kjevik - Kastrup | Aðalsíða | Ís á glugga »

Föstudagur 19. nóvember 2004

Hvernig á maður að kenna?

Ég hef verið að kenna UTN102 og nemendur mínir eru ekki kátir. Þeir eru ekki ánægðir með verkefnin og finnst vinnan allt of mikil. Ég hinsvegar klóra mér í höfðinu og skil ekki alveg út á hvað málið gengur þar sem vinnuálagskönnun sem lögð er fyrir í hverri viku virðist frekar endurspegla að vinnuálag á nemendur sé of lítið. Breyttir kennsluhættir virðast heldur ekki falla þeim vel í geð og mér skilst helst að þeir vilji fá leiðbeiningar og verkefni af gamla taginu þar sem útlistað er lið fyrir lið hvað þau eiga að gera.


Þrátt fyrir að við fyrstu sýn megi telja líklegt að nemendur séu ánægðir með þegar þeir fá að velja sér efnið sjálfir og hvernig þeir nálgast það, virðist það ekki raunin. Þrátt fyrir að verkefni af því tagi leiði frekar til þess að nemendur vinni sjálfstætt þá sýnist mér að þau skapi óöryggi hjá nemendum og pirring. Ég þarf því að velta fyrir mér hvernig hægt er að breyta því hvernig ég kenni til að koma betur á móts við nemendur án þess að draga úr gæðum námsins eða því að gera nemendur ósjálfbjarga sem mér sýnist oft verða raunin þegar UTN er kennd. Þá á ég við að nemandinn lærir að leysa tiltekið verkefni en ekki að beita viðkomandi forriti til að leysa viðfangsefni og geta valið sér ólíkar leiðir hefur þekkingu á hvaða forrit leysir málið best.

Að vísu er talsvert erfiðara að kenna þegar nemendur fá að velja sjálfir því þá koma svo ólík svör og ólíkar spurningar að það reynir talsvert meira á kennarann. En það er líka erfitt fyrir nemanda að ákveða sér efni, hver fókusinn á að vera og leysa verkefnið. En á sama tíma lærir hann frekar að vinna með upplýsingatæknina á eigin forsendum í stað forsenda sem kennarinn setur.

Ég velti fyrir mér hvaða leið er best þegar nemendur eiga að vera sjálfstæðir í námi sínu og mötun kennara á beinni þekkingu er lítil. Hinsvegar sé spurningum ævinlega svarað og nemandinn fái að stjórna námi sínu sjálfur. Sumsé ég vil fremur vera verkstjóri náms fremur en beinn miðlari þekkingar. Hvernig gerir maður það án þess að sumir nemendur verði virkilega ósáttir???

kl. |Menntun / UT

Vísanir

Neðantalin blogg vísa í færsluna Hvernig á maður að kenna?:

» Bloggfest from www.ValdísBjörk.com
Undanfarnar 2-3 vikur hefur verið ákveðin þurrð í gangi í þeim bloggum sem ég skoða reglulega. Ég sjálf hef verið að skrifa hálf innihaldslitlar færslur og ýmsir aðrir skrifað lítið sem ekkert. Nú hefur hins vegar síðastliðna sólarhringa komið upp... [Read More]

Álit (35)

Það vilja bara ekkert allir vera sjálfstæðir og skapandi. Ef þú vilt koma til móts við báða hópa (hafa alla glaða?) þá kannski er málið að skilgreina eitt niðurneglt verkefni en um leið taka fram að fólki sé frjálst að fara út fyrir "efnið" á vel afmörkuðum sviðum, ef þeir vilja?

Föstudagur 19. nóvember 2004 kl. 11:20

Mér finnst það vera praktískt atriði í notkun á tölvum og neti að fólk sé látið prófa að vera sjálfstætt og skapandi. Þeir sem aldreí prófa vita ekki hvað það er miklu skemmtilegra og oftast líklegra til árangurs :)

Svo er líka miklu skemmtilegra að kenna þannig! En þarfir nemenda og markmiða áfangans eiga auðvitað að ráða.

Hvernig verkefni eru þetta? Það gengur ágætlega hjá mér í Vefsmíði 1 í Margmiðlunarskólanum að láta þau velja sér efni fyrir vefinn sem unnin er yfir önnina. Krakkar frá 18 og uppúr.

Föstudagur 19. nóvember 2004 kl. 12:01

Sjálfsagt getur maður aldrei gert alla glaða, en auðvitað á að reyna eftir bestu getu. Mér finnst mikilvægt að fólk geti unnið sjálfstætt að lausn viðfangsefna. Það er hægt að leysa viðfangsefni á marga ólíka vegu, sé einungis ein leið í boði, er það gott?

Svo er spurning hvort nemandi sem getur ekki unnið sjálfstætt eigi að fá sömu eða líka einkunn og sá sem getur það? Ég velti því fyrir mér...

Föstudagur 19. nóvember 2004 kl. 12:02

Ég er sammála þér Gunnar að við notkun á tölvum þurfa menn að vera sjálfstæðir og skapandi og það er miklu skemmtilegra og meira krefjandi að kenna þannig. Yfirleitt hefur gengið mjög vel að nemendur velji sér viðfangsefni og leysi þau, en þegar um er að ræða UTN (almenn upplýsingatækni) þá virðist vera togstreita milli þess að læra á ákveðin forrit (kannski stagl) og þess að stuðla að því að nemendur verði sjálfstæðir og geti farið ólíkar leiðir.

Föstudagur 19. nóvember 2004 kl. 12:04

Ég veit allt um þetta, Lára, trúðu mér! (Og af hverju spurðirðu ekki mig? ;-) Þið Gunnar gefið ykkur tvær rangar forsendur sem eru:
1. Að nemendur séu fróðleiksfúsir og finnist gaman að uppgötva eitthvað nýtt í skólanum
2. Að nemendur séu sjálfkrafa hrifnir af skapandi verkefnum.

Í tilviki Gunnars, sem virðist kenna vefsíðugerð, hlýtur að vera um mjög mikla stýringu að ræða. Nemandi velur sér að vísu efni en öll vinnan í kringum efnið er meira að minna unnin eftir stöðluðum aðferðum (vefsíðugerð, skiptir ekki í máli í hvaða forriti, er bara ákveðin gerð af ritvinnslu - sem seint yrði talin sérlega skapandi - og myndvinnsla er sömuleiðis frekar stöðluð fræði). Ég myndi líkja þessum verkefnum Gunnars við heimildaritgerð, þar sem nemendur fá val um efni, jafnvel frjálst val, en verða síðan að skila umfjöllun á nokkuð fyrirframákveðnu formi. Sumum hentar illa að finna upp á einhverju gasalega sniðugu (einhvern veginn grunar mig að yfir fimmtíu prósent af verkefnum nemenda Gunnars séu um fótboltafélög/stjörnur og tónlistarstefnur/stjörnur, þ.e.a.s. ef efnið er sjálfvalið. Má ætla að stór hluti sé líka persónulegar heimasíður, "fjölskylda mín" eða eitthvað svoliðis.)

Hvað varðar þessar tvær forsendur, sem ég nefndi í upphafi þá eiga þær yfirleitt alls ekki við unglinga í námi. Kann hins vegar vel að vera að þær henti fólki yfir tvítugu prýðilega.

Nú veit ég ekki hvað þú ert að kenna í þessum UTN 102 áfanga, Lára, en tek undir með Bjarna þeim sem skrifar hér að ofan, þ.e.a.s. að það væri a.m.k. hægt að fara einhvern milliveg og hafa mjög vel skilgreind verkefni og svo kannski eitt sem væri lausara í reipunum.

Mér hefur reynst best í notkun UTN (líka í þetta eina sinn sem ég kenndi UTN 102) að leggja upp með geirneglt skipulag, skrifa aulaheldar leiðbeiningar o.s.fr. en vera síðan ævinlega tilbúin til að sveigja skipulagið ef einhver frjó hugsun kviknaði hjá nemendum (sem gerist nú sem betur fer langoftast, hjá einhverjum). Hins vegar má aldrei hvika frá skipulagi um námsmat, ekki undir nokkrum kringumstæðum (nema kennara langi til að mála sig út í horn og fá á sig heldur leiðinlegt orð).

Nú er ég í veikindaleyfi og afleysingakennarinn sem tók við ÍSL 303 hafði þau orð að þessi áfangi væri nánast sjálfkeyrandi á Vefnum, þar sem nemendur hefðu aðgang að öllum þeim upplýsingum sem þá gæti mögulega vantað til að læra efnið. Þessi kennari getur bara leyst af 50% þ.e. kennt helminginn af tímunum sem ég hefði átt að kenna í hverri viku. Nemendur kvarta hástöfum yfir þessu af því þeim finnst þeir svo öryggislausir að vera án kennara, þ.e. án kennara-líkamnings. Þessir nemendur eru margir um 18 ára og því ekki alger börn. Ég skil nemendurna vel: Þeir eru hvort sem er að drukkna í upplýsingum á Vefnum, það er komið inn alltof mikið af allskonar glærusjóum og vefleiðöngrum og guðmávitahvað svoleiðis að þörfin fyrir kennara í kjötheimum eykst eftir því sem stafrænt efni eykst. Dálítil þversögn fólgin í þessu en mér hefur í alvöru dottið í hug að ef ég þyrfti einhvern tíma að fela upplýsingar væri sniðugt að koma þeim fyrir á undirvefsíðum á stórum vef ;-)

Annars í alvöru: Ef þú ert í vandræðum geturðu skrifað mér og sagt mér hvað þú ert að kenna í þessum áfanga og hverju þú vilt ná út úr nemendum. Ég get gefið blíðleg ráð :) Og eins og þú sérð er ekkert að skrifstöðvunum í mér en ég ráðlegg þér að reyna ekki að halda uppi samræðum við mig í síma, a.m.k. ekki seinni hluta dags eða að kvöldi til ;-)

Föstudagur 19. nóvember 2004 kl. 15:31

Harpa mín,

ég var eiginlega pottþétt á því að fyrirsögnin myndi allt eins geta verið "Hvað finnst þér Harpa?" og hefði orðið hissa hefði ég ekki heyrt frá þér um málið.

En ég held að þetta sé rétt hjá þér, það þarf að vinna þetta öðruvísi en ég geri. Algerlega nauðsynlegt að nemendum líði vel og jafnvel að það bresti á að þeim finnist gaman - tja allavega einhverjum. Ástæðan fyrir því að ég skrifaði þetta hér inn er nýlegur lestur um ePortfolio kennara þar sem þeir velta fyrir sér kennslunni þannig fengju þeir viðbrögð og gæti verið að þeir myndu jafnvel vaxa í starfi. Ekki veitir mér af því;-)

Verð að leggjast undir feld um helgina;-)

Kær kveðja
Lára

Föstudagur 19. nóvember 2004 kl. 16:19

Hm ... þessi grein var sem sagt agn? Eitthvað hefurðu þá lært af samskiptum við afkomendur sjómanna þarna á Nesinu. En ég get gefið þér það ókeypis ráð að feldir gagnast ekki neitt (nema náttúrlega maður ætli einfaldlega að leggja sig), t.d. stakk Egill forfaðir minn iðulega nefinu í feld án þess að það virkaði neitt per se. (Ekki heldur þótt hann kallaði nefið á sér "brúna miðstall".)

Þú stækkar ekkert úr þessu, hvort sem þú lest um ePortfolíó eða ekki og verður bara að sætta þig við þennan rúma einn og hálfa metra sem þú nú ert :)

Svo finnst mér doldið vannýtt sjónarmið að ef nemendur vilja læra á ákveðinn hátt, telja sig læra eitthvað á þann hátt og mælist í prófum eða með öðrum hætti (t.d. vinnumagni) að þeir hafi lært eitthvað með þeim hætti: Af hverju á þá að troða upp á þá einhverri allt annarri aðferð sem skilar verri árangri? Bara af því kennaranum finnst hún módern? Ég er ekkert sérlega hrifin af bisnisshugmyndinni, þ.e. að líta á nemendur sem kúnna sem eigi rétt á ákveðinni þjónustu en ég er heldur ekki hrifin af hinum öfgunum, þ.e. að kennurum sé í sjálfsvald sett að nota nemendurna sem tilraunadýr í hvað sem er. (Ég er líka á móti dýratilraunum í snyrtivöruiðnaði.)

Og ein spurning að lokum: Hvernig hefurðu hugsað þér að mæla og meta hina skapandi hugsun? Er mögulegt að gefa t.d. Beethoven 8,5 og Mozart 9,5? Eða gefa Rodin bara 5,0 fyrir Kossinn (ansi klúr stytta finnst sumum) en Árna Johnsen 7,5 af því hann framleiddi miklu fleiri listaverk á miklu skemmri tíma (og þau vega miklu meira í tonnum talið)?

Ég er hrædd um að þegar upp er staðið sé alls ekki verið að meta skapandi hugsun og sjálfstæð vinnubrögð heldur mætingu og eljusemi í vinnu, sem sagt það sama og íþróttakennarar landsins hafa gert áratugum saman þegar þeir gefa einkunn eða einfaldlega S(staðið) eða F(fallið).

Föstudagur 19. nóvember 2004 kl. 17:51

Það væri fínt að gefa bara S og F, eða S, F og Ö fyrir öflugt. Kannski hefði ég ekki átt að kalla þetta skapandi hugsun, það sem ég átti nú við hvort nemandinn gæti yfir höfuð bjargað sér. Þannig að kannski ætti einkunnin að vera Ó (ósjálfbjarga) og S (sjálfbjarga)?

Auðvitað var þetta agn Harpa, ekkert er skemmtilegra en að egna þig upp í dálitla kennslufræðiumræðu. Hinsvegar er þetta líka eitthvað sem ég er að hugsa um þessa stundina. Annars held ég að vandinn hjá mér sé líka að ég er svo hrifin af því að nota vefdagbók (blogg) til að láta nemendur skila verkefnum en á sama tíma finnst þeim þeir vera að læra á forritið. Svo er líka eitthvað sem gengur ekki vel hjá mér að biðja þau að skrifa 3-5 innlegg í viku. Alveg sama hversu oft ég segi að lengdin skipti ekki máli og best væri ef þetta fjallaði um eitthvað sem þau eru að læra (mega vera 3-4 setningar). þeim finnst að krafan sé að þau skrifi um sig og benda þar af leiðandi réttilega á að það er ekki hægt að gera kröfur um það. Ég fer líklega að minna þig á fyllibyttuna á barnum sem sagði "konan mín skilur mig ekki" af því "nemendur skilja mig ekki" og þar af leiðandi ætti ég að glöggva mig á hvort ég skil mig sjálf;-)

Laugardagur 20. nóvember 2004 kl. 16:57

OK, skil próblemið að hluta. Hér er minn skilningur (sem gæti verið misskilningur, það er nefnilega afturhvarfsdagur hjá mér í dag):

1. Þú vilt láta skila verkefnum á bloggi. Hvaða forrit telja börnin sig þurfa að læra á í því sambandi? Flest bloggforrit nútildags eru það einföld að 8 - 9 ára krakki lærir ágætlega á það á fimm mínútum. Kannski er Angel-fídusinn eitthvað flóknari, en hvað með að leyfa skinnunum að stofna blogg á folk.is eða blog.central.is, þar sem allt er á íslensku? Getur ekki hver krakki stofnað sitt eigið blogg sem linkað er í? Eða þurfa allir að skila á því sama?

Svo má búa til aulaheldar leiðbeiningar, svipaðar og ég bjó til á http://this.is/valnet/practical_pioneer.html (þótt ég teldi nokkuð víst að flestir gætu kraflað sig fram úr að skrifa á þennan umræðugrundvöll þá treysti ég ekki öllum til að þora að prófa að gera neitt). Svona leiðbeiningar ætti enginn að þurfa að nota en þær fylla suma öryggiskennd, eru nokkurs konar andleg hækja (og óþörf).

2. Nemendur vinna ekki kauplaust. Þú færð þau ekki til að skrifa 3 - 5 komment á viku nema þú hafir skilgreint hvað þau fá fyrir það. Mætti t.d. hafa regluna 50 komment gefa 10 stig (af 100 stiga einkunn), 40 - 49 gefa 8 stig o.s.fr. Taka fram að lengd skipti ekki máli en ekki sé tekið við einhverju rugli, þ.e.a.s. að skilaboðin "Hei dudz whatsup?" eða álíka. Sömuleiðis að skilaboð utan velsæmismarka séu ekki gild. Taka fram að skítkast um kennara og nemendur teljist utan velsæmismarka.

Ef það er eitthvað sem þessi sjálfhverfu unglingar elska þá er að það skrifa um sig. Svo ég skil ekki af hverju það er málið. Kannski finnst þeim pointið í þessu ekki nógu skýrt, ath. að þetta sama lið hangir á irc-rásum og MSN á kvöldin og er akkúrat einmitt að skrifa um sig þar. Svoleiðis að þau sjá kannski ekki tilganginn í að gera þetta sama í skóla. Þannig að þú verður að hafa beitu og eina beitan sem þú hefur eru einkunnir og stig.

Vona að þetta hjálpi eitthvað.

Laugardagur 20. nóvember 2004 kl. 18:37

Sæl aftur Harpa mín,

nei þau búa bloggið til á Hexia www.hexia.net ferlega einfalt (kannski þú segir mér hvort það sé rétt). Þangað má senda af vefsíðu, með tölvupósti, tal úr síma (farsíma eða venjulegum), SMS og vottever. Nota uppload til að setja inn myndir og skjöl eins og þekkt er af þessu almenna bloggi. Síðan eru tenglar inn á síðurnar þeirra á http://fsn.hexia.net/kennarar/vefbok/

Námsmatið er símat þannig að fyrir hverja viku fá þau ákveðið margar prósentur fyrir viðfangsefnin þá viku. Viðfangsefnið er skilgreint inn í Angel og þangað eru settar leiðbeiningar sem og umræðusvæði fyrir spurningar. Aukinheldur mega þau hafa samband við mig með MSN, síma, tölvupósti eða með Angel. Við erum tveir kennarar og hinn á staðnum þannig að hann er hægt að ná í og horfa á hann meðan hann er spurður. Til þess að fá metið þá setjum við upp "quiz" í Angel en þangað á bara að skila veffanginu (copy-paste) þegar þau eru búin og þá getum við smellt á það til að fara yfir og gefa einkunn sem gildir sem hluti af lokaeinkunn. (Sum gleyma því) Í hverri viku safnast upp prósentur og þar með tölur sem búa til lokaeinkunn.

Mér finnst þetta mjög einfalt allt saman - en spurning hvort ég sé algerlega blind á það. Maður getur vel orðið það með aldrinum... Ég held að þegar ég set fyrir viðfangsefni að skrifa um t.d. tölvuleiki (eitt valið í þessari viku) þá megi þau nálgast það á ýmsa vegu, vísa í efni og hafa ákveðið mikið magn, sem má vera tilvísun, eigin hugmyndir og skoðanir o.s.frv. Sumsé markmiðið að velta fyrir sér tölvuleikjum, tilgangi, hvað er hægt að gera og fleira. Eins mega þau t.d. velja tölvuglæpi, UT og viðskipti og margt fleira alls 9 atriði.

Á meðan mér gengur stirt með þetta þá fæ ég beiðni um að aðstoða unga stúlku (10 eða 11 ára) í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum sem vill búa til stórt alþjóðaverkefni á bloggi um framtíðarbæi og borgir. Hún skilgreinir hugmyndina sjálf og vinnur ótrúlega flókið. Því er ég e.t.v. dálítið rugluð í því að vera annars vegar með kornunga stúlku sem fer langt fram úr því sem maður reiknar með og síðan eldri nemendur 16-18 ára sem finnst þetta allt of erfitt og flókið - svo ekki sé minnst á - hundleiðinlegt.

Kær kveðja
Lára

Laugardagur 20. nóvember 2004 kl. 20:21

Kíkti á þetta - hér eru komment:

Hexia er alltof flókin. Ég skráði mig inn (og sá um leið að ekki er hægt að nota kerfið nema eiga farsíma ... ég nota ekki farsíma en á farsíma með farsímanúmeri svo það varð ekki vandamál. Auk þess er stafsetningarvilla á innskráningarsíðunni, sem er nú ekki sérlega traustvekjandi fyrir svona gasalega frægt og framsækið fyrirtæki eins og tíundað er á þeirra megin-heimasíðu). Svo þegar maður velur af valblaði "ný vefsíða" þá opnast þessi hryllilega enska heimasíða, með grilljón upplýsingum og slagorðum og mér tókst hvergi að finna neinn möguleika á að gera nokkurn skapaðan hlut nema með farsíma. Kann að valda að ég er ekki skráð inní neitt kerfi þarna. Sem sagt er enska aðalsíðan (sem íslenskar útgáfur senda mann á að því er virðist tilviljanakennt) illa hönnuð og illratanleg.

Skoðaði svo lista yfir nemendurna. Kannast við suma nemendur og þér að segja eru þeir sem ég kannast við kannski ekki þeir aljákvæðustu í skólakerfinu ;-) Skoðaði svo nokkrar síður nemendanna og sýnist illska hlaupin í málið, alls konar yfirlýsingar um hvað þetta dót (hexía, geri ég ráð fyrir) sökki feitt og hvað þessi fjandans verkefni séu ömurleg. Af því ég hef hvorki séð fyrirmælin né kennsluna (þ.m.t. aðstoð inni í Angel) get ég ekki dæmt um hvort fótur sé fyrir þessu en mórallinn stefnir a.m.k. á versta veg, miðað við þessi sýnishorn.

Skoðaði aðeins verkefni og þótti það sem ég sá vera afar lélegt, t.d. var einhvers staðar PowerPoint sýning um Kristnihald undir Jökli sem fjórir nemendur voru skrifaðir fyrir og þetta var bara ein glæra! Vel að merkja hefur einn nemandanna á listanum, Hulda Magnúsdóttir, einmitt tekið þátt í að gera vef um Kristnihald undir Jökli, hjá mér, sjá http://www.fva.is/harpa/kristnihald/index.html. Hún virðist hins vegar ekki hafa sett upp vefdagbók, er þó talsvert sjóuð í gæluverkefni Þróunarsviðs sem var fjarkennslan í Grundarfirði.

Sem áhorfandi met ég það að þú sért komin í veruleg vandræði með þessa krakka. Ein skýringin gæti verið að þetta er hreint ekkert einfalt kerfi sem hefur verið sett upp, þ.e.a.s. um leið og farið er að nota tvöfalt kerfi eða margfaldara kerfi fer allt í graut. Með því að nota bæði Angel og Hexíu í byrjunaráfanga var sjálfkrafa grafin gröf (kannski ekki svo djúp en hefði verið skynsamlegra að halda sig við annað kerfið). Ég veit vel að þetta eru óskyld kerfi en við lendum svolítið í sömu vandræðum hér með okkar kerfi (Plútó, sem er þó miklu þjálla og einfaldara en Angel, enda sniðið að óskum þeirra kennara sem vildu nota það) + Innu + vefsíður á internetinu. Ykkar krakkar eru líka að nota Innu, svo nefnirðu samskipti um MSN sem þátt í kennslunni ... loks þykir mér ekki ólíklegt að einhverjir nemendur reki sínar eigin persónulegu bloggsíður í einhverju þjálla kerfi en Hexíu.

Ég hef aldrei séð neina glóru í þessum tal- og myndabloggum og þekki engan ungling sem finnst neitt til þessa koma. Aftur á móti koma unglingar sér oft upp heilu galleríunum af myndum teknum á digital myndavél, jafnvel inni á bloggsíðunum sínum. Sumir setja upp listaverkasýningar á Deviant Art, sjá t.d. linkana undir "Ekki blogg en sniðugt þó" á http://luzifer-.blogspot.com/ (sem vel að merkja rekur tvær íslenskar og eina enska bloggsíðu en ég sé hana hvergi tengja í hexíu-dótið í MH ;-)

Svo ég dragi þetta nú saman: Þið eruð með eitthvað af byrjendum og eitthvað af "brottfallsnemendum" í þessum UTN 102 hópi. Verið er að krefjast verkefnaskila inni á óþarflega flóknu bloggumhverfi (sem auk þess er þess eðlis að ólíklegt er að nemendur muni hafa áhuga á því - flestum finnst eðlilegra að senda SMS í farsíma eða bara hringja í stað þess að senda SMS inn á vef eða leggja talskilaboð inn á vefsíðu). Fyrirmælin fyrir verkefni og verkefnaskil liggja inni á öðru læstu kerfi, nefnilega Angel. Námsmatið fyrir skilin í Hexíu er að finna inni á Angel. Með þessu vinnulagi tekst að flækja málin svo mjög að illska hleypur í liðið og sjálf myndi ég reyndar segja mig úr þessum áfanga.

Í ykkar sporum myndi ég sleppa Hexíu, nema sem valverkefni, hafa öll skil, fyrirmæli og mat inni í Angel og ef þið viljið endilega að nemendur bloggi leyfa þeim þá að velja milli blogspot.com, blog.central.is og folk.is.

Og fyrir næstu önn: Hafa námsmat neglt niður í botn og vera mjög hörð á skilafrestum þannig að um miðja önn sé nokkuð ljóst hvort nemandi muni ná áfanganum eða ekki. Flæma síðan slóðana úr áfanganum umsvifalaust því þeir draga móralinn og hina niður.

Og svo tvö lokaráð: Gleymdu því sem þú hefur lesið um kennslufræði UTN eftir pedagóga, þeir hafa yfirleitt ekki prófað neitt af þessu sjálfir og auk þess hafa nemendur ekki lært "þessi fræði" og munu náttúrlega alls ekki bregðast við samkvæmt fræðunum (frekar en að krakkarnir manns séu í góðu samræmi við ráðleggingar bóka um barnauppeldi).

Hitt lokaráðið: Portfolio heitir "Ferilmappa" á íslensku, er hundgömul aðferð og síðustu tíu árin eða svo hefur hún einkum verið eignuð einhverjum áströlskum "skrifað-í-skrefum-fræðingi" (Donald Graves?) sem er persónulegur vinur Gullu, vinkonu þinnar, ef þú vilt fá frekari upplýsingar um þetta fyrirbæri ;-) Ég prófaði þetta í ritunarkennslu fyrir svona 12 - 13 árum síðan og fannst ekki gefast vel. Sé ekki að stafræn framsetning breyti miklu um meginhugmyndina.

Laugardagur 20. nóvember 2004 kl. 23:08

Hmmm, ég er nú ekki sammála þér með Hexia mér finnst þetta ótrúlega einfalt og síðan þarftu ekkert að eiga farsíma, þú getur stofnað þetta á venjulegan heimasíma. Og þú þarft ekkert að nota símann ef út í það er farið.

Mér finnst ekki flóknara þar að setja inn færslur heldur en á blogspot eða öðru þvíumlíku. Sérstaklega þykir mér þénlegt að þú þarft yfirhöfuð ekkert að nota neitt sérstakt forrit heldur getur sent innleggin inn með tölvupósti á ákveðið netfang og þar með aldrei komið nálægt síðunni. Myndir geta síðan bara farið sem viðhengi og vúla, annað þarf ekki að spá í.

En ég held að það sé hárrétt hinsvegar að ég sé í vandræðum;-)

Kær kveðja
Lára

Sunnudagur 21. nóvember 2004 kl. 14:17

Ertu að meina þetta, með Hexíu? Minnir að það sé skýrt tekið fram að það verði að vera farsímanúmer, á nýskráningarsíðunni. Ég prófaði sosum ekkert heimilissímanúmerið og veit því ekki hvort komist verði fram hjá þessu. Ég er að vísu frekar sljó þessa dagana en get svo guðsvarið að ég fann hvergi möguleika á að búa til bloggsíðu gegnum tölvu. Sá möguleiki hlýtur að vera á Hexíu og ég leitaði sérstaklega að honum en hélt ég fyndi hann ekki af því ég væri ekki borgandi notandi ... heldurðu að það geti verið?

Verulegu vandræðin stafa kannski ekki eingöngu af flækjunni sem var búin til með þessum kerfum heldur einnig af samsetningu nemendahópsins og þú bjóst þau nú ekki til, Lára mín :) Þetta eru öðru vísi skinn en upp til hópa í Schola Akureyrensis.

Ég hef náttúrlega ekki séð neinar kennsluáætlanir í FSN (allt læst inni á Angel) en mér þykir reyndar verkefnið "pæling um tölvuleiki" lítið koma UTN við ... þetta verkefni býður upp á froðusnakk, ætti kannski heima í lífsleikni? Væri allt eins hægt að láta börnin skrifa pælingu um Idol, eða pælingu um SMS eða ... Sem sagt passa að UTN 102 kennslan breytist ekki í uppeldisfræðilegt froðusnakk heldur sé kennsla í að nota tölvur til ýmissa verka, eðli málsins samkvæmt væntanlega mest í hverja aðra handavinnu (fídusa í Word, Excel, vefsíðugerð, glærusjóa-vinnslu, myndvinnslu o.s.fr.) sem líklegt er að nýtist nemendum í frekara námi eða í lífinu. Nútildags þarf hvorki að kenna nemendum að senda SMS né tölvupóst í skólanum, frekar en þarf að kenna þeim að fletta milli stöðva eða stýra vídeó og DVD.

Hér í FVA höfum við mjög sjóaðan og góðan kennara í UTN (heitir Dröfn Viðarsdóttir), sem hefur líka reynslu af alls konar nemendum. Þú gætir gert margt vitlausara en hafa samband við hana fyrir næstu önn og biðja um ráðleggingar um kennsluáætlun þeirrar annar og framkvæmd kennslu.

Sunnudagur 21. nóvember 2004 kl. 16:07

Til að búa til bloggsíðu ferðu á http://www.hexia.net og velur "Sign up" á ensku síðunni og "Skráðu mig" á þeirri íslensku. Best að nota þá íslensku því annars talar allt kerfið við þig á ensku eftir það.

Ég hef farið með nokkra hópa í gegnum að búa til blogg og þetta tekur um 20 mín með um 25 manna hóp að allir séu farnir að skrifa inn færslur. Þetta rokkar kannski fimm mín til og frá eftir því hver hópurinn er en svona er þetta á að giska.

Kerfið kostar ekkert nema ef þú ætlar að opna það fyrir heilan skóla þá er verðið eftir stærð skóla og hefur verið 9.900 á mánuði án virðisaukaskatts upp í 19.900 og þá geta allir búið til vefsíður eins og þeir þurfa. Ég er búin að skrifa leiðbeiningar (þó það séu leiðbeiningar þarna inni) en nemendur mínir fengu þær ekki þar sem kerfið var ekki tilbúið í þeirri mynd sem ég vildi hafa það fyrr en rétt um skólabyrjun. En mín reynsla er sú að fólk þarf engar leiðbeiningar (tja þá nema um símanúmerið;-)

Vandinn minn sýnist mér er fyrst og fremst sá að menn fara ekkert inn í kerfin, hvorki Angel né Hexia. Tæknilegur vandi er lítill hefur mér sýnst nema þegar menn eru að átta sig á hvað RSS, Spurl og Hex this gerir sem er skiljanlegt.

Hvað varðar notkun UT í víðu samhengi þá getur verið að það sé ekki vitrænt efni en ég hef yfirleitt skotið inn verkefni þar sem nemendur skoða notkun á upplýsingatækni frá mismunandi sjónarhornum. Stundum set ég nemendum fyrir að átta sig á tölvukaupum (hvað á að vera í tölvu til að leysa ákveðin mál s.s. hæ grafíkaðan leik o.s.frv.).

En vandamálið varðandi UTN áfangann fyrst og fremst er að reyna að streða sig upp úr því að kenna meira heldur en námsmarkmið fjórða bekkjar grunnskóla segir til um. Kæmist maður í að klára markmið 7. bekkjar væri ég sátt í bili, hvað þá 10. bekkjar.

Kær kveðja
Lára

Mánudagur 22. nóvember 2004 kl. 11:05

Þetta síðasta sem þú nefnir í svarinu þínu, Lára, er lykilatriði. Málið er að fullt af krökkum kann ekki neitt eftir grunnskóla. Málið er ekki svo einfalt að hægt sé að kenna grunnskólanum um, þ.e.a.s. það vantar ekki að þetta efni hafi verið kennt og kennt og kennt í botn - málið er að efnið var ekki lært, af hluta nemendanna. Þess vegna fáum við annars vegar fluglæsa, veltalandi, velskrifandi, vel-aðsér nýnema og hins vegar illlæsa, orðsnauða nemendur sem þarf að kenna að "klappa orð í atkvæði" eða hvað föllin í íslensku heita (eða hvernig maður þekkir nú í sundur forsetningu og sögn). Svo er allt litrófið þar á milli. Tekur steininn úr þegar maður áttar sig á að þessir tveir öfgahópar voru í sama skóla, jafnvel í sama bekk í 10 ár, áður en ég barði þá augum.

Svoleiðis að ef þú ert að einblína á einhver markmið í grunnskólanámskránni og gerir ráð fyrir að þau hafi náðst hjá obba nemenda er það eitt og sér algert óraunsæi. Það er svo langt síðan þú kenndir venjulegu þversniði unglinga (margt hefur breyst síðan þú kenndir í FÁ, t.d. það að nú fara langt yfir 90% grunnskólanemenda í framhaldsskóla en sú tala slefaði kannski í 80% fyrir áratug síðan og það eru ekki bestu nemendunum sem fjölgaði), í MA er valið strangt inn og aðallega hefurðu verið að kenna fullorðnu fólki, sem lærir allt öðru vísi en unglingar (ég er ekki bara að byggja á hundgamalli reynslu af öldungardeildarkennslu heldur einnig af því að kenna kennurum alltaf af og til, nú síðast móðurmálurum í ágúst. Sá hópur hefði fílað þessi viðfangsefni sem þú ert að leggja fyrir UTN 102 í tætlur en ég skil vel að snæfellskir unglingar séu ekkert sérlega heitir fyrir þessari umræðu - ætli hún minni þá ekki á lífsleiknikennslu, sem nemendur eru sjaldan hrifnir af).

Þarf varla að taka fram að sá einfaldi sannleikur (sem ég hef stundum notað til að spæla kollega þína í MA, ef mér hefur þótt þeir óþarflega miklir á lofti) að þá fyrst reyni á kennarann ef nemendur eru lélegir er akkúrat málið. Góðir námsmenn þurfa svo sem ekki svo mikla kennslu, þeir bjarga sér. Krakkar sem eiga undir högg að sækja í námi, eru líka oft neikvæðir í garð náms, þeir eru ögrunin, frá kennarabæjardyrum séð. Þess vegna er enginn vandi að kenna ÍSL 503 en mikill vandi að kenna ÍSL 102 og halda geðheilsunni (láttu mig vita það! :)

Nemendum hugnast ekki að hafa markmið loftkennd eða í víðu samhengi. Þeir vilja vita nákvæmlega hvað á að gera, helst líka hvernig á að gera það og mikill kostur er að þeim verði ljóst til hvers á að gera þetta. Svo vilja þeir vita fyrirfram hvað þeir fá fyrir að gera þetta og hvað þeir tapi miklu á að gera þetta ekki.

Ég hef því miður ekki séð hið hagnýta gildi sem SPURL eða RSS hefði fyrir mig sjálfa, kem auga á að þetta nýtist eflaust fólki sem brúkar tölvur afar mikið og á ýmsum stöðum. Hvað varðar Hexíu-innskráningu þá er ég ekki þroskaheft, bara þunglynd, svo ég notaði auðvitað "Skráðu mig" möguleikann. En kerfið dettur í enskan ham alltaf er minnst varir, gæti eytt nokkrum klukkutímum í að finna út hvenær það gerir það og hvenær ekki sem og leita betur að hvernig dótið virkar en nenni því ekki. Þú verður bara að taka mig trúanlega með það að Hexíu-viðmótið er ekki nógu gagnsætt og notendavænt (miðað við allar þær vefsíður sem ég hef skoðað um ævina og margar þarf að logga sig inn á get ég vel sagt svona, bara sem kona sem hefur verið lengi í bransanum).

En ég ítreka ráðið til að keyra þennan áfanga, eða framhaldsáfanga, klakklaust á næstu önn: Tala við Dröfn, fá að skoða hvernig hún kennir þetta, hvaða efni hún notar o.s.fr. Maður verður stundum að brjóta odd af oflæti sínu og gefa eftir (ég veit nú t.d. allt um það, þessa dagana ...)

Mánudagur 22. nóvember 2004 kl. 14:05

Harpa:

Bara stutt: Tékkaði betur á Hexíu. Mæli með því að henni verði kastað í Vesúvíus hið fyrsta! Það er rétt að hægt er að nýskrá sig með heimilissíma (þótt það sé engan veginn hægt að sjá af leiðbeiningum að annað en farsími sé tækur). Leitaði svo dauðaleit að "hinu einfalda og fullkomna vefumsjónarkerfi" eða hvaða frasi þetta nú aftur var, án árangurs. Fann hvergi neitt sem hægt er að gera með tölvu. Fann reyndar enga möguleika á vefsíðu heldur, bara bloggi sem auðvitað er hugsanlegt að de Trix ættin kalli vefsíðu. Hugsanlega er þetta falið einhvers staðar djúpt niðri í öllu montinu á þessari síðu en ég bendi á að ég er þaulvanur tölvunotandi og ég finn þetta ekki, ekki einu sinni með leit. Nú getur þú valið um tvær skýringar: Að ég sé auli í upplýsingatækni eða að eitthvað sé verulega bogið við notendaskil Hexíu. (Sjálf veit ég alveg hvor skýringin er rétt, en ég er líka með norðurþingeysk gen.) Dettur helst í hug að þú sért hluthafi (eða Þekking) í Hexíu sem skýringu á að þú vilt yfirleitt reyna að nota þetta dót.

Mánudagur 22. nóvember 2004 kl. 18:19

Jæja, þá. Harpa, elsku frænka, ég er innilega sammála því að svo mörgu leyti en þó svo ósammála að svo mörgu öðru leyti.

Fyrir það fyrsta er ég sammála þér um þekkingu grunnskólanemenda en ég held að orsök þessa sé í þessari endurtekningarstefnu sem er í gangi í námskránni, þ.e. nemendur kynnast einhverjum hlut eða hugtaki í kannski 5. bekk en svo eiga þeir að læra aftur um sama hlut í t.d. 8. bekk. Þannig á að "dýpka" þekkingu þeirra, en raunin er að þau vita alveg að þau eru að læra um sama hlut og þeir sem skildu þennan þekkingarmola í fyrri atrennu verða fúl yfir að það skuli vera að tyggja þetta ofan í þau aftur. Þeir sem voru á mörkunum eiga kannski einhvern séns í að læra þetta í annað skiptið (þó þeir séu búnir að gleyma flestu í millitíðinni) og þeir sem engu náðu í fyrstu tilraun eru neikvæðir gagnvart efninu og langar hreint ekkert að læra þetta.

Ég er líka sammála því að það reynir meira á kennarann til að kenna þeim nemendum sem eiga á brattann að sækja. Raunverulegur mælikvarði á kennarann er ekki endilega þekking nemandans í lok námseiningar, heldur virðisauki hennar, hvað hefur nemandinn bætt mikið við þekkingu sína. Hins vegar get ég ekki verið sammála því að "Góðir námsmenn þurfa svo sem ekki svo mikla kennslu, þeir bjarga sér." Ef kennarinn eyðir allri sinni orku alltaf í "lélegu" eða "slöku" nemendurna þá er bókað mál að virðisauki "góðu" nemendanna verður ekki eins mikill og þeir hafa getu til. Ég hef á mínum stutta kennsluferli séð afburðanemanda drabbast niður í meðalmann hreinlega vegna þess að það var ekkert gert til að hann nýtti sína hæfileika til fulls. Ég held að kennarar verði að spyrja sig: "Eigum við að reyna að láta hvern nemanda gera það besta úr því sem hann hefur, eða eigum við að reyna að gera meðalmenn úr öllum?" Vissulega er hægt að eyða allri sinni orku í það að draga neðsta hlutann úr kúrfunni upp í meðaltalið, en maður verður að átta sig á því að þá er hætta á því að toppurinn dragist niður í meðaltalið líka.

Þriðjudagur 23. nóvember 2004 kl. 13:01

Sæl Valdís frænka
Fyrsta spurning er: Hvernig erum við skyldar?

Það kemst ekki hnífurinn milli okkar í skoðunum, sýnist mér (sennilega þessi genetíska tenging og hvernig kennaragenin hafa ræktast upp í báðum mínum ættum gegnum kynslóðir). Ég er nefnilega hjartanlega sammála því að ekki eigi alltaf að eyða allri orkunni í lélegari hluta nemenda, þótt þeir geti verið interessant ögrun, og mér hefur þótt hlutur betri nemenda vera talsvert fyrir borð borinn, einkum í grunnskóla. (Þarna tala ég sem foreldri því eftir að hafa kennt einn vetur í grunnskóla, 1978 - 1979, sór ég þess dýran eið að aldrei skyldi ég vinna við slíkar aðstæður. Hef svo staðið við það.) Sem foreldri tveggja vel-gefinna stráka hef ég þurft að slást við stoppmerki, ranghugmyndir kennara um að námsefnið gæti hreinlega klárast fyrir tíunda bekk ef maður fer ekki sparlega með það (þessar hugmyndir eiga einkum við stærðfræði), ranghugmyndir kennara um að það borgi sig að tefja hraðlærandi krakka með því að láta þá lita allar myndir í bókinni með trélitum og þá ekki út fyrir (þótt námsefnið komi trélitun ekkert við) o.s.fr. Sem foreldri lærði ég að kaupa bara kennslubækurnar handa eldri stráknum úr því grunnskólinn hans var fastur í pedagógískri þoku. Sem foreldri núna nenni ég ekki að skipta mér af fullorðnu fólki sem leggur grunnskólason minn í einelti, í skóla sem ber sér í bak og brjóst yfir flottri eineltisstefnu (sem ég held að hljóti að eiga að beinast gegn einelti). Kenni stráknum nokkrar Al-anon aðferðir til að díla við þetta en reyni ekki að ala upp fullorðið geðvont fólk sem tekur illsku sína útí lífið út á krökkum.

En þá að námi/kennslu o.s.fr. Í mínum skóla tökum við við öllum af svæðinu, þ.e. mestöllu Vesturlandi. Þess vegna veit ég svona vel hve litrófið í undirbúningi og námshæfileikum nemenda er breitt. Við byrjum á að sortera liðið í kjarnafögum, í mínu fagi er ÍSL 193 fyrir þá sem eru í fornámsbekk (féllu í þrem eða fleiri samræmdum greinum), ÍSL 102 fyrir þá sem hafa meðaltalseinkunn (skólaeinkunn + samræmd einkunn) á bilinu 4,5 - 7, og ÍSL 103 fyrir venjulega nemendur, sem náðu yfir 7 í sömu meðaltalseinkunn. Innan hópanna er að sjálfsögðu talsvert bil, eins og þú hlýtur að sjá. Þessi flokkun gerir strax aðeins auðveldara að fást við vandann og sennilega eru nemendurnir í ÍSL 103 henni fegnastir því loksins geta þeir lært á hraða sem hentar þeim flestum.

Lára er hins vegar að kenna blönduðum hópi, þ.e. í UTN 102 er ekki flokkað eftir frammistöðu í grunnskóla. Það gerir hennar starf mun vandasamara en t.d. mitt starf, sem íslenskukennara. Í mínum skóla rekum við reyndar sérstakt UTN 193, fyrir fornámsbekkinn, enda er hægt að hafa allskonar samþættingu þar, því þetta er bekkur (í fjölbrautakerfi eins og hér er samþætting milli faga annars afar erfið).

Vona svo að Lára móðgist ekki þótt við séum að sníkjublogga inni á hennar bloggi :)

Þriðjudagur 23. nóvember 2004 kl. 14:01

Harpa:

Valdís - fann annars út að við erum bræðrabörn, með því að skoða vefsíðuna þína ... og sá að þú kennir í VMA þannig að sorteringar-útskýringin var sennilega óþarfi. Sorrí aftur fyrir sníkjubloggið, Lára :)

Þriðjudagur 23. nóvember 2004 kl. 14:18

Verð að leiðrétta pínu... ég kenni í MA en ekki VMA, en ég veit alveg hvað þú meinar með sorteringunni. Það fer ekki framhjá mér að það er langt frá því að vera eins mikil áskorun að kenna skörpum nemanda eitthvað miðað við að kenna frústreruðum nemanda sem á á brattan að sækja og hefur átt það lengi. Oft er viðhorfið og fyrri áföll og ósigrar það sem stendur þeim nemendum mest fyrir þrifum.

Þriðjudagur 23. nóvember 2004 kl. 16:45

Voðalega er erfitt að halda aftur af sér stundum, örugglega merki um skort á sjálfsstjórn en hvað um það.
Ég hef nú heyrt Láru tala um það hvaða hugsjónir hún hafi í UTN kennslu og þær skil ég mjög vel. Ég hef líka heyrt viðbrögð nemanda við þessum hugsjónum.

Ég er kannski að bakka dónalega mikið í umræðunni en mig langar samt til að spyrja hvað það er sem þú (Lára) vilt kenna nemendunum með því að nota vefdagbækur? Mér finnst sú nálgun að kenna á verkfærið í gegnum verkefni með fókusinn á verkefnin en ekki verkfærið alltaf vera mjög heillandi en ég er ekki alveg að sjá:
1) hvert er verkefnið sem er verið að leysa?
2) hvers vegna að kenna á verkfærið (blog)?

Svörin við þessu er auðvitað að finna í kennsluáætlunum og námsskrám en væri fróðlegt að heyra/lesa þetta beint frá Láru.

Kannski týndi Lára sér í tæknifrumskóginum?

Þriðjudagur 23. nóvember 2004 kl. 16:47

Sæl mín kæru,

þið megið sníkjubloggast hér eins og ykkur sýnist, sé að ég þarf að búa til nýjan þráð á þetta því umræðan er svo ferlega skemmtileg. RSS og Spurl geymi ég þar til síðar - það er hliðargrein og ég er auðvitað snarósammála Hörpu um að það sé ekki hið gagnlegasta dót;-)

Ég er að mörgu leyti sammála þér Harpa um að það er ólíkt að kenna í MA og FÁ, tja eða fjarnámið sem ég kenni á netinu um Word, PowerPoint og gagnasafnsfræði. Svo er skólinn sem ég er að kenna við allt öðru vísi og það sem ég hélt ég væri að gera (en er ekki viss um að ég hafi gert) var að kenna nemendum að vera sjálfbjarga við tölvur. Bloggið sem slíkt skiptir svosem litlu máli þau áttu að skila verkefnum þar inn í Excel, PowerPoint, myndvinnslu og fleiru þvíumlíku. Þeim finnst hinsvegar að þau séu bara að læra blogg og kannski er það þannig. Ég held allavega að ef helmingurinn á ekki að falla í áfanganum að það þurfi að búa til annars konar viðfangsefni svo mikið er víst.

Það sem ég hélt ég væri að fara að gera í upphafi var að við myndum almennt nota bloggið sem n.k. verkefnabækur (portfolio) og efni úr öllum áföngum myndu rata þar inn svo þegar ég segði 3-5 innlegg á viku þá væri það að meirihluta viðfangsefni úr öðrum áföngum en ekkert sem kæmi UTN kannski sérstaklega við. Það rættist ekki hjá mér.

Það hlaut annars að vera að Valdís væri skyld þér, hitti hana fyrst þegar hún var við kennslu í Borgarhólsskóla á Húsavík og fannst hún ferlega skemmtileg, ég hef líklega genetíska skemmtan af þínu klani Harpa.

Kannski voru markmið mín aldrei nægilega skýr Tryggvi þó mér finndist það í upphafi og auðvitað eru nemendur mínir að fást við meira og annað en UTN. Þau eru ekki með sama kennslustundafjölda og aðrir, þau eru í nýjum skóla og eru að fást við svo margt annað. Þeim finnst áfanginn sem ég kenni óttalegt fokk (auðvitað ekki öllum - aldrei svoleiðis) og mér finnst mikilvægt að ég taki þeirri lexíu með opnum huga og sjái aðrar leiðir, hvort sem ég fer að kenna þetta aftur eða ekki.

Kannski er málið líka að ég ætlaði ekki að fara að kenna þennan áfanga og hef nóg annað að gera. Hinsvegar held ég að ég hafi lært heilmikið af því og það er svosem alltaf gott. Ég held líka að ég hafi kannski gott af því að láta þessar kognitífu kennslufræðihugmyndir mínar bíða arminilegt skipbrot;-)

Kær kveðja
Lára

Miðvikudagur 24. nóvember 2004 kl. 09:38

Ég get svarið að þessi umræða heldur í mér lífinu þessa dagana. (Get rifist um UTN á átópælot, sem betur fer.) Andmæli Láru að sjálfsögðu um leið og ég get. (Eða verð sammála, þarf að þrílesa það sem hún skrifar áður en mér tekst að ná því og gá hvort ég er sammála eða ekki.)

Miðvikudagur 24. nóvember 2004 kl. 10:04

Ég fagna mögulegu skipbroti kognitífra kenninga ;)

Kannski var vandinn sá að nemendur á þessum aldri og skólastigi eru ekki vanir að fög skarist á nokkurn hátt?
Ég man hvað það olli miklum skjálfta eftir eitt eðlisfræðipróf hjá Brynjólfi þegar hann sagði: "Kva! Þið lærðuð þetta í efnafræði! Hugsa út fyrir kassann!", held að þetta hafi verið í fjórða bekk í MA. Það má vera að þetta hafi breyst eitthvað síðan ég var í þessum sporum.

Miðvikudagur 24. nóvember 2004 kl. 10:05

Veistu, Tryggvi, ég held að það gæti bara meira en verið. Það gekk alveg fram af fyrstu bekkingunum mínum um daginn þegar þau kvörtuðu yfir því við umsjónarkennarann sinn, sem kennir þeim íslensku, að í STÆ103 væru notuð asnaleg orð eins og mengi, höfuðstóll og rentufótur, og hann svaraði að það væri þeim hollt að læra nokkur fleiri íslensk orð! Auka við orðaforðann! Þess vegna held ég að það sé um að gera að tengja sem mest saman greinar, venja þau við það!

Miðvikudagur 24. nóvember 2004 kl. 11:32

Satt, ég varð fyrst var við þetta á fyrsta ári í háskólanum þegar ég var að læra aðferðafræði (tölfræði og rannsóknaraðferðir), almenna sálfræði (þekkingaratriði) og svo var lítil bók í öðru fagi sem hét Critical Thinking in Psychology (algengar rökvillur o.fl.).
Þetta þrennt virkaði vel saman og þá brotnuðu múrarnir á milli eldri faga líka og maður fór að sjá ýmis tengsl sem voru hulin áður.
En þetta var nú algert rán á umræðunni hjá Láru og ég ætla að skila henni aftur til hennar.

Miðvikudagur 24. nóvember 2004 kl. 13:07

Ég lærði nýtt orð í gær "lífmassi" yfir þyngd lifandi lúðu í kari, hafði heyrt orðið en hélt það alltaf meina eitthvað sem var lífrænt í méli eða hakki;-)

Kær kveðja
Lára

Miðvikudagur 24. nóvember 2004 kl. 13:29

Tryggvi,

ég er viss um að Búkollu er slétt sama og þar af leiðandi mér þó þessi umræða fari út um allar þorpagrundir;-)

Kær kveðja
Lára

Miðvikudagur 24. nóvember 2004 kl. 13:32

Búin að þrílesa og ná:
1) bloggið var hugsað sem utanumhald um verkefnaskil
2) bloggið átti að akta sem ferilmappa (portfolíó)

En í praxís var síðan Angel blandað inn í utanumhaldið um verkefnaskil (tilkynningar um að lokið væri að skila inn verkefni á blogg) svo þar með datt botninn úr fyrra markmiðinu.

Veit ekki hversu praktískt er að nota blogg sem portfólíó - er ekki einmitt meginhugmyndin með slíku að nemendur haldi verkefnum sínum til haga, velji svo úr þeim nokkur verkefni sem þeir sjálfir vilja leggja fram til mats og skili jafnframt rökstuðningi um hvers vegna þeir telji akkúrat þessi verkefni sín best? Aðalplúsarnir eru að nemendur axla ábyrgð með því að meta sjálfir hvað af dótinu sínu er best og einnig að kennarinn þarf þá bara að fara vandlega yfir hluta efnisins, svo tékkar hann bara á að hitt hafi verið unnið. Svo eru afbrigði af þessu eins og að nemendur endurvinni verkefni sem þeir fengu lágt fyrir í fyrstu umferð o.s.fr.

Ef þú ert bara að meina einfalda tilkynningu um að verkefni hafi verið unnið og síðan krækju í verkefnið er sjálfsagt hægt að nota ýmis tól til þess, frá venjulegu bloggi til venjulegrar vefsíðu, að því tilskyldu að nemandi geti lagt verkefnið inn á innranet eða internet (svo hægt sé að linka í það og skoða það).

Ég get í augnablikinu ekki tjáð mig um kognitívar kennsluhugmyndir því ég man ekki almennilega hvað það er, man eftir hugrænni atferlismeðferð hjá sálfræðingi, þar sem ég náði hugræna (kognitíva) stöffinu ágætlega en reyndist of veik fyrir atferlisdótið (sem einkum fólst í ákveðnum æfingum og svo exposure - sem hefur verið kallað "að útsetja sig fyrir eitthvað" á íslensku heilbrigðisstétta). Kannski hefurðu útsett nemendurna of hratt fyrir UTN, Lára ;-)

Annars held ég að bæði Lára og Trigger séu að rugla saman við konstruktívisma, getur það ekki verið? Það er bullukenning sem heimspekingar gáfust upp á fyrir langalöngu, bókmenntafræðingar fyrir nokkrum áratugum en er skyndilega farin að dúkka upp í máli UTN pedagóga, einkum þó sósíal-konstrukívismi, sem heitir á ástkæra ylhýra "félagsleg hugsmíðahyggja". Kognitívt er jú bara vitrænt og ætti þannig að eiga við flest nám, bara svona ósjálfrátt og án nokkurrar stefnu í þá átt, ef vel gengur.

Aftur að praktískum vanda:

Nýnemarnir þínir, Lára, eru eflaust búnir að fá upp í kok af samþættum þemaverkefnum grunnskólans. Þannig að þótt samþætting tíðkist ekki mikið á framhaldsskólastigi og hún sé ný fyrir kennurum á því skólastigi (og þess vegna finnist þeim þetta svo voðalega sniðugt fyrirbæri stundum) þá hafa nemendur þurft að vinna endalaus þemaverkefni (um eigin heimabyggð, hollan og óhollan mat o.s.fr.) frá blautu barnsbeini og eru oft orðnir leiðir á aðferðinni.

Það sem þið nefnduð um hólfun nemenda á námsgreinum er alveg rétt (ég læt nemendur reikna út hlutfall réttra svara í málfræðiverkefnum og svara spurningunni: "Eiga þetta ekki að vera íslenskutímar?" hundraðsinnum á hverri önn). Unglingar hólfa allt. T.d. geyma þeir mörg leynihólf fyrir það sem fullorðið fólk má ekki vita. Að ætlast til að þeir viti eitthvað úr sögu þegar þeir eru í íslenskutíma, eða jafnvel að nemendur í ÍSL 303 viti eitthvað af því sem þeir lærðu í ÍSL 203 finnst þeim ósanngjörn krafa. Man ekki betur en þetta hafi líka verið svona í eigin skólatíð og held að þetta sé bara bundið við aldur og þroska, það er ekki fyrr en maður skríður yfir tvítugt sem maður fer að sjá samhengi í hlutunum. Ég mundi ekki hafa stórar áhyggjur af þessari hólfun, en reyndar kemur hún væntanlega einnig fram í því að SMS og MSN eru í hólfinu merkt "félagar og vinir" en ekki "skóli og nám".

Settu nú fyrir eftirfarandi, Lára mín:

"Þeir sem ekki hafa staðið í skilum með verkefni (í blogginu) munu fá einkunnina 4,0 í áfanganum UTN 102 nema þeir skili inn, á tölvutæku formi (má vera á geisladiski, disklingi, lagt inn á netið eða skilað í Angel):

Einni glærusýningu (a.m.k. fimm glærur);
Einu Excel-skjali;
Einni hugleiðingu um áfangann UTN 102 þar sem taldir eru upp kostir og gallar áfangans ásamt því að koma með tillögur að því hvernig svona áfangi á að vera. Þessi hugleiðing á að vera skrifuð í Word, a.m.k. 2 bls. löng, miðað við línubil 1,5 og 12 punkta letur, vel sett upp (mátt tiltaka eitthvað nánar þarna), á góðu máli og án stafsetningarvilla.

Skilafrestur rennur út á miðnætti þann 9. desember 2004. Dreginn verður 1 heill af einkunn fyrir hvern sólarhring sem dregst að skila eftir að skilafrestur rennur út, helgidagar taldir jafnt og virkir dagar."

Bara svona tillaga ...


Svo finnst mér að þú ættir að kenna áfangann aftur eða framhaldsáfanga því til þess eru mistök að læra af þeim. Það er allt í lagi að gera mistök einu sinni en ekki í lagi að gera sömu mistökin tvisvar (þetta segi ég alltaf nemendum um leið og ég hvet þá til að geyma ritgerðirnar sem þeir fengu skid og kanil fyrir svo næstu ritgerðir fái ekki sömu útreið).

Miðvikudagur 24. nóvember 2004 kl. 13:53

Harpa mín,

jú lausnin sem þú ert með er rétt, ég var með svipaða hugmynd en aftur að markmiðunum þar sem ég afgreiddi það frekar simpilt í fyrra innleggi.

Hugmyndin með ePortfolio er sú sem þú nefnir en einnig að hafa þar umfjöllun um hvað þú ert að fást við í skólanum e.k. "reflective thinking" en líklega er það ekki spennandi þó það geti verið gagnlegt að velta aðeins fyrir sér hvað maður var að læra og geta flett því upp. Hefur ekkert virkað - nemendur skrifa frekar um sig, djammferðir og ýmis börn í sinni eigin fjölskyldu eða öðrum.

Hvað varðar að kenna áfangann aftur, þá held ég að það sé frekar ólíklegt - þetta var redding núna þar sem það voru miklu fleiri nemendur en búist var við. Ég held að menn ráði við þetta sjálfir hér eftir;-) En ég er hinsvegar algerlega sammála þér í því að það væri gott að kenna svona áfanga aftur. Ég er hinsvegar á leiðiskeiði sem yfirleitt lýsir sér í því að mig langar að gerast bíóstjóri. Sé í hillingum að það væri gaman að þurfa að horfa á 100 bíómyndir til að velja í bíóhús. Svo átta ég mig á því að það er algerlega miðlæg dreifing bíómynda og ég fengi ekkert að vinna við að skoða bíómyndir og velja í bíóið svo þá held ég venjulega áfram við mína vinnu. Ég er hinsvegar að taka upp lögin mín í stúdíói hjá Johnny King og það er ferlega gaman. Nota píanótímana til að átta mig á hvernig er best að fara í lögin. Gerði það einmitt í dag og síðan upptaka í kvöld;-)

Kær kveðja
Lára

Miðvikudagur 24. nóvember 2004 kl. 14:35

Harpa:

Bíóstjórahugmyndin er góð. Er nú að útbúa munstur byggð á geðveikismyndum Lois Wain (hann málaði sækadelíska ketti) og undirbúa mig undir að prjóna enn eina helvítis peysuna (á ábyggilega um 30 peysur og vantar ekki fleiri ... en úr því að þetta er það eina sem ég get gert þá geri ég það náttúrlega). Er samt ævinlega til í umræðu um kennslu, tölvur og nemendur (gæti sagt þér ýmislegt um suma þessara nemenda sem þú ert með en ekki á opinberu bloggi). Ef ég verð enn geðveikari prjóna ég Ópið hans Munchs (sótti myndina til vonar og vara og tékkaði á hvernig væri að gera úr henni munstur en met mig ekki nógu langt niðri til að prjóna þá mynd).

Miðvikudagur 24. nóvember 2004 kl. 14:47

Elsku besta prjónaðu bara peysu á mig, mig vantar svo sannarlega peysu, mér er alveg sama hvernig hún er í laginu svo fremi sem hún passar á bústna miðaldra ömmu. Ég get notað hana til að fara út að labba með hundinn minn, ég er viss um að honum finnst bara að ég sé betri í geðveikislegri peysu;-)

Kær kveðja
Lára

Miðvikudagur 24. nóvember 2004 kl. 14:54

Kannski þarf bara ákveðinn þroska til að færa á milli hólfa sem ætti ekki að reyna á fyrr en hann er til staðar? Eða allavega byggja upp rólega en ekki ganga út frá að sé til staðar.
Ég er allavega að tala um "cognitive" sbr "Cognitive Behavioural Therapy" sem er held ég kallað hugrænt á Íslensku. Það koma allavega margar mjög svo vafasamar kenningar úr þeim hluta sálfræðinnar sem kennir sig við "cognitive psychology" sem hafa valdið ýmsum vandræðum í gegnum tíðina.

Miðvikudagur 24. nóvember 2004 kl. 15:40

Harpa:

Cognitive Behavioural Therapy heitir Hugræn atferlismeðferð á íslensku. Hugræni parturinn er að sjúklingurinn fatti hvað er að honum og af hverju það stafar (að svo miklu leyti sem það er vitað). Atferlisparturinn felst í einhvers konar athöfnum (æfingum og útsetningum) sem smám saman lækna sjúkdómseinkennin, einkum með það að leiðarljósi að sjúklingurinn fatti að einkennin eru ekki hættuleg og nái að ignórera þau, í stað þess að þau magnist upp í slæmt kast.

Í mínu tilviki veit ég t.d. allt um kenningar um af hverju kvíði stafi (einkum ofsakvíði - sem heitir reyndar felmtursröskun) og fóbíur (fælni) sem menn koma sér upp í kjölfar kvíða. (Vek athygli á að þarna er hugtakið kvíði notað yfir talsvert víðara fyrirbrigði en almenningur er vanur að skilja orðið.) Dæmigerður atferlispakki við akkúrat þessu er að láta sjúklinginn fylla út mat á kvíða við mismunandi aðstæður (skalinn 1 - 10), gera viðbragðsáætlanir, æfa sig í aðstæðunum o.s.fr. Dæmigert líka er að gera æfingar sem framkalla ofsakvíðakast, ein þeirra er t.d. að anda gegnum mjótt plaströr í 90 sekúndur (til að venjast andnauðinni sem fylgir svona kasti og uppgötva að hún þarf ekki að vera hættuleg), hoppa á staðnum í 90 sekúndur (æfa sig í dynjandi hjartslættinum), halla sér fram og hrista hausinn milli hnjánna í 90 sekúndur (æfing í að höndla svimann og yfirliðakennd), halda niður í sér andanum o.s.fr. Mín reynsla var að hoppa á staðnum var pís of keik, rörið var erfið æfing, haushristinginn setti af stað tveggja klukkutíma ofsakvíðakast. Þannig að sálinn taldi mig of veika til að hafa gagn af meðferðinni (eins og ég hafði nú staðið mig vel í hugræna partinum) og sagði mér að koma seinna, þegar ég væri minna veik. Þetta var afar aðlaðandi sálfræðingur og mér þótti leiðinlegt að þurfa að hætta að hitta hann og snúa mér á ný í faðm vestrænnar læknisfræði sem einkennist af lyfjagjöf.

Hvernig menn tengja svo hugræna atferlismeðferð við kennslu og nám er mér algerlega hulin ráðgáta en sem lækningaraðferð við afmörkuðum geðsjúkdómum nýtist hún sennilega vel.

Miðvikudagur 24. nóvember 2004 kl. 17:05

Ég greip hugrænu atferlismeðferðina sem þekkt dæmi um hugrænan hlut. Það var kannski ekki mjög gott dæmi þar sem það tengdist kennslu ekkert. Hugrænar kenningar og atferliskenningar eru notaðar sitt i hvoru lagi til að lýsa því hvernig fólk lærir. Kenningar um nám (learning theories) sem eru flestar úr sálfræði flokkaðast í:
* Behavioral (atferlis)
* Cognitive (hugrænar)
* Humanistic (húmanískar?)
* Social (félagslegar)
Flokkarnir gætu verið fleiri en þetta eru allavega þeir helstu.
Það er farið að setjast ryk á þessa þekkingu hjá mér síðan í BA náminu minu en maður ætti kannski að rifja þetta upp.

Miðvikudagur 24. nóvember 2004 kl. 20:36

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.