« Ísnálar | Aðalsíða | Myndablogg »

Mánudagur 28. febrúar 2005

Flokksþing Framsóknarmanna

Ég er ekki búin að vera lengi í pólitík svo alltaf lærir maður eitthvað nýtt. Mér finnst alveg stórkostlegt hvernig Framsóknarmenn gátu tekið fókusinn af innri vandamálum, einmitt á þeim tíma sem helst þurfti að takast á við þau - á landsþingi og fara að tala um eitthvað allt annað. Greinilegt var að þeir sem skipulögðu fundinn vissu að evrópumálin væru bitastæð til að fá útrás fyrir ágreining og öll orka manna fór í það og síðan var bara kosið í stjórn flokksins eins og áður var. Þessi aðferðafræði er greinilega að svínvirka - allavega sé maður Framsóknarmaður.

Kannski voru mestu vonbrigðin fyrir mig sem áhugamann um stöðu kynjanna í stjórnmálum að sjá hvernig barátta kvenna fyrir stöðu sinni í flokknum gersamlega hvarf. Konur voru ekki með neina uppsteit á þessu landsþingi heldur réru hljóðlega í sínum árabátum. Kannski gerðist eitthvað bak við tjöldin sem enginn veit - vonandi hafa konur í flokknum náð að styrkja stöðu sína því það hefur verið grátlegt að sjá flokk sem kom nokkuð jafn til kosninga virðist hafa haft lag á að ýta konum til hliðar.

Hitt er svo með Evrópumálin að Framsóknarflokkurinn er greinilega ekki tilbúinn til að horfast í augu við þá þróun nútímans að Evrópulönd vilja vinna saman og gera það. En ekki við, við viljum ekki vera með heldur standa utan við allt sem mögulegt er en þiggja lög algerlega án orðræðu og styrki eins og við getum í okkur látið. Afstaða Íslands gagnvart Evrópusambandinu er ábyrgðarlaus, við viljum ekki taka þátt í samstarfi Evrópuþjóða eins og fulltíða land heldur látum eins og börn, aðrir segja okkur fyrir verkum og við þiggjum sælgæti eins og við getum náð í. Framsóknarflokkurinn vill ekki vaxa upp úr þessu barnalega hlutverki - svo mikið er víst.

kl. |Pólitík

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.