Færslur í mars 2005

« febrúar 2005 | Forsíða | apríl 2005 »

Fimmtudagur 3. mars 2005

Myndablogg


Aðalfundur Samfylkingarinnar á Akureyri.
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

kl. |Pólitík || Álit (0)

Föstudagur 4. mars 2005

Á UT2005

Í dag er ég á UT2005 og þar er frábært að vera, margt um manninn og hægt að hitta á einum og sama staðnum fjölmarga sem ég hef kynnst í gegnum tíðina á þessu sviði. Frábært að þessi ráðstefna er haldin á hverju ári! Var að skoða nýju stefnu menntamálaráðuneytisins um upplýsingatækni og menntun sem mér líst harla vel á og kallast "Áræði með ábyrgð". Þarf að skoða hana nánar, en nú er að einbeita sér að ráðstefnunni, taka myndir og síðan leggja af stað til Jórdaníu á morgun. Fyrst til Amsterdam þar sem ég ætla að gá hvort ég finn Tinna söngleikinn og síðan áfram til Amman um kvöldið.

kl. |Menntun || Álit (2)

Laugardagur 5. mars 2005

Schiphol

Þá er ég að dunda mér á Schiphol flugvelli í Amsterdam. Ég ætlaði að fara niður í bæ og skemmta mér við að skoða en þar sem hér er nokkur snjór og skítakuldi (ég tók ekki kuldagallann með) hætti ég við það. Ég er búin að lesa, skoða flestar búðir og nú komin í netsamband sem hefur ágætlega ofan af fyrir mér. Til að fara til Amman þarf ég að tékka mig inn í aðra álmu og ég sá ekki betur en að á þeirri leið sé útstilling frá ríkislistasafni þeirra Hollendinga svo ég ætla að fara frekar snemma og kíkja á hvort þetta sé rétt. Schiphol er annars mjög þægilegur flugvöllur þó hann sé stór og mér finnst ferlega þægilegt að geta farið með farangurskerruna inn á klósett í staðinn fyrir að þurfa að losa dótið, drösla því inn í postulínshverbergið og síðan finna annan vagn þegar ég kem út. Þetta er þrælfínt.

Continue reading "Schiphol" »

kl. |Ferðalög || Álit (1)

Sunnudagur 6. mars 2005

Komin til Amman

wGluggi.jpgHér er hluti útsýnisins út um hótelgluggann minn á Intercontinental hótelinu í Amman. Hér má finna fleiri myndir. Fyrsta sem vakti athygli mína voru gluggar, hér eru gluggar einfaldlega fjölbreyttari heldur en á öðrum stöðum sem ég hef komið til í veröldinni. Ferkantaðir gluggar hafa gluggapóstana einhvernvegin öðruvísi (þarf að mynda það meira) en síðan eru gluggar af nánast öllum hugsanlegum gerðum. Ferðin gekk annars mjög vel þó löng væri.

Ég lenti dálítið seint á flugvellinum hér í Amman, talsverðar tafir voru á flugi í Amsterdam vegna snjós á flugvellinum. Því beið flugvélin sem við vorum í dálitla stund eftir farþegum úr öðru flugi og ég var því tæpum klukkutíma seinna en reiknað var með. Það var í fínu lagi því ég ætlaði hvort sem er að vera samferða Odd de Presno frá Noregi sem er stjórnandi Kidlink sem kom um Frankfurt. Seinkunin gerði það að verkum að við vorum hér á sama tíma sem var mjög þægilegt. Tímasetningin var hinsvegar frekar erfið við vorum að lenda um tvöleytið í nótt en allt gekk eins og í sögu.

Continue reading "Komin til Amman" »

kl. |Ferðalög || Álit (1)

Sunnudagur 6. mars 2005

Kallað til bæna í Amman


#
Skilaboð sendi Lára
Sent með GSMbloggi Hex

kl. |Ferðalög || Álit (0)

Sunnudagur 6. mars 2005

Vinnudagur

wKona.jpg Við Odd unnum á hótelinu á meðan Grethe og Epi voru í skólum að kenna nemendum. Síðan fengum við okkur gönguferð þar sem ég sá m.a. þessa konu. Svona fyrstu dagana er allt nýtt, fötin sem fólk gengur í, húsin, skilti bara allt. Enduðum á veitingastað þar sem eigandinn kallaði eftir okkur og vildi láta taka af sér mynd við veitingahúsið. Sagðist bjóða upp á heimsis besta filet og benti okkur á greinar sem höfðu verið skrifaðar um hann, verðlaun sem hann fékk - heimsmeistaraverðlaun - og teikningar. Ég vildi auðvitað prófa þetta verðlaunafilet og það er mynd af þeim rétti líka á myndasíðunni.

kl. |Ferðalög || Álit (1)

Mánudagur 7. mars 2005

Menntamálaráðuneyti Jórdaníu

Við fórum í menntamálaráðuneytið í Jórdaníu í dag til að fara yfir áætlanir um Kidlink verkefnið hér og kynna það fyrir ráðamönnum sem ekki þekktu það. Hér eru myndir úr ráðuneytinu. Helst hefur mér komið á óvart að þjónn í gærkvöldi bað Odd um leyfi til að fá að tala við mig (dálítið fyrir þolinmæðistaugina). Einnig að piltar og stúlkur hafa ekki sömu námskrá og eru ekki í sömu skólum. Annars er hér ýmislegt líka líkt því sem er heima og áhersla á einstaklingsnámskrá og vöxt einstaklingsins eins og við þekkjum heima. Fer í bæinn með tveimur íslenskum konum sem búa hér á morgun til að skoða handverk og hlakka mikið til!

kl. |Ferðalög || Álit (1)

Þriðjudagur 8. mars 2005

Meira frá Jórdaníu

Í gærkvöldi eftir ferðina í jórdanska menntamálaráðuneytið hitti ég forseta jórdanska þingsins (ef ég skil titilinn rétt) M.P.Dr. Nayef H. Al Fayez sem hefur verið stuðningsmaður Kidlink hér í Jórdaníu. Einnig Nayef Al-Abdallat hjartalækni sem er mjög áhugasamur um verkefnið Odd de Presno stjórnandi Kidlink er með honum á myndinni. Hann er í hóp lækna sem gefur einn vinnudag í mánuði þeim sem hafa ella ekki tök á að sækja þjónustu hans. Báðir þessir menn voru greinilega vel með á nótunum út á hvað verkefnið gekk og höfðu lagt sig í líma við að styðja framgang þess. Frábært kvöld. Nú er ég á leið í bæinn með Stefaníu ræðismanni og Guðríði, en þær hafa báðar búið hér lengi. Kidlink hópurinn er hinsvegar á ferð til Bedúínanna og ég hlakka til að heyra frá þeim í kvöld.

kl. |Ferðalög || Álit (1)

Miðvikudagur 9. mars 2005

SMS frá Sahara

Er i Sahara eydimorkinni a leidinni til Petra. Beduinatjold, kindur, kameldyr, hjardmenn. Sahara er lik Islandi, bara ljosari.

Örbloggfærslu sendi Lára
Sent með GSMbloggi Hex

kl. |Ferðalög || Álit (4)

Miðvikudagur 9. mars 2005

Afmælisdagur í Petra


#
Skilaboð sendi Lára
Sent með GSMbloggi Hex

kl. |Ferðalög || Álit (5)

Fimmtudagur 10. mars 2005

Á úlfalda í Petra í Jórdaníu

wLaraCamelD.jpg Afmælisdagurinn var frábær, við ókum til Petra og fórum í hestvagni með gömlum Bedúína Muhammed inn í þessa gömlu borg. Þar fór ég á úlfalda milli staða sem var frábært, úlfaldinn minn fékk sér vatn að drekka úr vatnsflösku í ferðinni sem mér þótti ótrúlega flott. Á leiðinni til baka skiptumst við Muhammed á söngvum, ég söng eitt íslenskt og hann eitt arabískt. Söngur gamla mannsins var yndislegur, hárfínn tónn og hann fór með ljóð og fleira. Ótrúlega skemmtilegt!!! Svo eru komnar inn fleiri myndir úr ferðinni.

kl. |Ferðalög || Álit (3)

Fimmtudagur 10. mars 2005

Kennarar í Al-Husseinia

wTeachers1.jpgMynd af kennurum sem voru á Kidlink námskeiði í dag. Epi Sepulveda frá Puerto Rico var aðalkennari en ég henni til aðstoðar. Epi er lista kennari og hefur mikla reynslu af að kenna kennurum og aðstoða götubörn í La Paz í Bólivíu. Hér má sjá mynd af Epi frá úlfaldareiðinni í gær. Odd de Presno stjórnandi Kidlink á öðrum úlfalda á bakvið.

kl. |Ferðalög / Kidlink / UT || Álit (0)

Föstudagur 11. mars 2005

Stórkostleg ferd til Jerash

Í dag fór ég til Gurrý sem ég kynntist í gegnum ljosmyndakeppni.is og verð hjá henni þar til ég fer heim. Hún býr í mjög fallegu húsi í Amman en ég verð hjá henni þar til ég fer heim. Í dag byrjuðum við á ljósmyndaferð sem var mjög skemmtileg og sjálfsagt hefur ekki verið síðra að sjá okkur príla, skríða, hallast og allt sem þarf til að taka góðar myndir. Síðan fórum við til Jerash ásamt Arami eiginmanni hennar og dótturinni Tamara. Þetta var frábær ferð, rústirnar gríðarlega tilkomumiklar og stærra svæði heldur en ég bjóst við. Við Gurrý tókum mikið af myndum svo við gætum búið til ferðasögu um svæðið býst ég við;-) Á morgun förum við til Madaba og Mt. Nebo sem eru mjög spennandi staðir þar sem ég hlakka til að sjá mósaíklist heimamanna.

kl. |Ferðalög || Álit (2)

Sunnudagur 13. mars 2005

Á leiðinni heim

wAsni.jpgSit á Schiphol flugvelli á leiðinni heim. Lagði af stað um miðnætti síðustu nótt og flaug þá frá Amman og hingað og nú fer að koma að fluginu heim til Íslands. Svo er bara að komast norður. Við Gurrý vorum í ljósmyndaferð í gær og ég er ekki búin að vinna mikið af myndunum en hér er ein af dásamlegum asna sem ég sá á leiðinni til Mt. Nebo þar sem voru undurfagrar mósaíkmyndanir sem og í Madaba. Takk Gurrý ef þú lest þetta fyrir allt, samveruna, spjallið, ferðirnar og síðast en ekki síst fyrir að hafa eignast frábæra vinkonu!

kl. |Ferðalög || Álit (2)

Sunnudagur 13. mars 2005

Reykjavíkurflugvöllur


Alveg að komast heim
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

kl. |Ferðalög || Álit (0)

Mánudagur 14. mars 2005

Slippstöðin sniðgengin

Það voru ömurlegar fyrstu fréttirnar sem ég heyrði þegar ég opnaði útvarpið á Íslandi eftir Jórdaníuförina. Samið er við erlenda aðila að gera við varðskip Íslendinga fremur en að vinna vinnuna hér heima. Samkvæmt Morgunblaðinu í dag virðast s.k. ráðgjafar frekar fara með vinnuna úr landi þar sem þá fá þeir meira fyrir sinn snúð sem eftirlitsaðilar. Verðmunurinn er lítill og augljóslega kemur meira til baka í íslenskt samfélag sé verkið unnið hér. Græðgi í íslensku samfélagi er orðin svo mikil að menn hugsa ekki fram fyrir nefið á sér og óforsjálni Ríkiskaupa ömurleg fyrir íslenska þjóð, með þessu eru Ríkiskaup að éta útsæðiskartöflur íslensku þjóðarinnar. Með þessu áframhaldi eigum við ekkert sjálf, fáum ekkert að gera sjálf, Íslendingar eru smá saman að verða verkamenn auðhringa og útlendinga. Eigin fyrirtæki og rekstur eru hundsuð og fyrirlitin af íslenskum yfirvöldum.

Continue reading "Slippstöðin sniðgengin" »

kl. |Pólitík || Álit (0)

Miðvikudagur 16. mars 2005

Síminn óþarfur!

Eftir að hafa notað Skype um nokkurt skeið hef ég komist að þeirri niðurstöðu að sími í þeirri mynd sem við þekkjum hann núna sé á undanhaldi. Enda kostar notkun á Skype hreint ekki neitt. Ég hef verið á símafundi með fólki í Puerto Rico og Noregi á sama tíma. Á meðan ég var í Jórdaníu gat ég notað Skype til að tala við fólk hér og þar í heiminum fyrir ekki neitt og nú hef ég verið að ræða til Amman í Jórdaníu héðan á gæðum sem taka fram venjulegu símtali. Síminn í þeirri mynd sem hann er núna er því á hröðu undanhaldi og von bráðar tel ég að hann hverfi í þeirri mynd sem hann er. Þróun er einnig gríðarleg eins og kemur fram í viðtali við Niklas Zennström frá Skype í InfoWorld.

Continue reading "Síminn óþarfur!" »

kl. |Pólitík / UT || Álit (3)

Fimmtudagur 17. mars 2005

Fundur um Grunnetið á Akureyri


Fundur um grunnnet samskipta á Íslandi í HA.
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

kl. |Pólitík || Álit (0)

Fimmtudagur 17. mars 2005

Samfylkingarfundur á Húsavík


Ingibjörg Sólrún á Samfylkingarfundi á Húsavík.
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

kl. |Pólitík || Álit (0)

Mánudagur 21. mars 2005

Misjafnt gengi í keppnum

Ég hef verið að taka þátt í ljósmyndakeppnum undanfarið og gengið hefur verið ansi mikið upp og niður. Hinsvegar er þetta ofboðslega gaman. Ég er einstaklega ánægð með að hafa íslenska keppni ljosmyndakeppni.is en síðan tek ég líka þátt hjá DPChallenge. Niðurstöðurnar mínar í dag eru að ég lenti í 326 sæti af 331 með mynd af línum á DPChallenge (var síðast í 98 sæti af 183), 2 sæti af 5 með mynd frá Jórdaníu og 15 af 22 í keppni um dægurlög. Ég er sumsé verulega slakur meðaljón (ehemm eða léleg) og legg metnað minn í að klifra upp verðlaunastigann. Ekki gefast upp - bara læra betur og æfa sig meira;-) Vonandi líður ekki á löngu þar til ég get montað mig hérna af góðum árangri;-)

kl. |Ljósmyndun || Álit (3)

Miðvikudagur 23. mars 2005

Mér fer fram!

Nú lenti ég í 101 sæti af 239 sem er mikil framför með mynd af vinum frá því að kúra á botninum síðast hjá DPChallenge. Sumsé ég er meiri en meðalmaður í þessari keppni, það er alveg hreint ágætt;-)

kl. |Ljósmyndun || Álit (5)

Miðvikudagur 23. mars 2005

Besta afmælisgjöfin

Ég átti afmæli 9. mars eins og Bobby Fisher, besta afmælisgjöfin var frá Gísla mínum nýtt lag sem heitir Ef. Ég er búin að setja það hérna inn ef einhver hefur áhuga á að heyra þetta fallega lag. Ég skil aldrei hvernig hægt er að semja svona ljúf lög eins og Gísli minn gerir. Ég er óttalegur gaddavír;-) Annars erum við á kafi við að æfa lög sem við erum búin að semja fyrir brúðkaupið hennar Hildu Jönu og hans Ingvars Más á laugardaginn. Þar er eitt lag sem fjallar um þegar ég varð ófrísk af Hildu Jönu (læknirinn laug í mig að ég væri ófrísk og ég hætti að taka pilluna....), annað skondið og skemmtilegt um þau og svo eitt voða ljúft brúðkaupsdagslag sem þau geta bara dansað við - enda búin að fara í æfingar;-)

kl. |Tilveran || Álit (3)

Laugardagur 26. mars 2005

Brúðurin dóttir mín


Falleg brúður Hilda Jana dóttir mín í brúðkaupsveislunni.
Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

kl. |Tilveran || Álit (5)

Sunnudagur 27. mars 2005

Lögin í brúðkaupinu

Við Gísli fluttum nokkur lög í brúðkaupinu í gær. Fyrst er hér lagið Plat um hvernig Hilda Jana varð til, læknir nokkur sagði mér að ég væri ófrísk svo ég hætti að taka pilluna svo stelpuskottið plataði sig í heiminn. Síðan lag um þau Hildu Jönu og Ingvar Má og síðast brúðkaupslagið Í dag fyrir þau. Með því söng fjölskyldukórinn í viðlaginu sem var mjög vel heppnað.

kl. |Tilveran || Álit (0)

Þriðjudagur 29. mars 2005

Ný stefna um UT og menntun

Nú hefur birst á netinu ný stefna menntamálaráðuneytisins um UT og menntun sem kallast Áræði með ábyrgð. Ég var búin að skanna hana en á eftir að kryfja hana gaman væri að heyra í öðrum sem eru að pæla í gegnum ritið. Eða eru svona plögg kannski mest fyrir skúffuna og námsmenn?

kl. |Menntun || Álit (11)

Miðvikudagur 30. mars 2005

Fallegt blóm

wTulipani2.jpgÉg hef verið að spreyta mig á s.k. macro ljósmyndun og gengur misjafnlega. Þegar ég var að keyra Fífu systir á flugvöllinn á annan í páskum sá ég túlípana baðaða í sólarljósi á borðinu hjá Baldvin í kaffiteríunni og þeir komu svona líka ljómandi út. Bara ánægð með þá hjá mér en hef ekki sent þá í neina keppni. Líklega hefði ég átt að gera það;-)

kl. |Ljósmyndun || Álit (2)

Fimmtudagur 31. mars 2005

Á Alþingi á morgun

Á morgun fer ég á Alþingi að leysa Kristján L. Möller af sem er að fara á fund alþjóða þingmannasambandsins IPU sem verður í Manila á Filippseyjum. Ég hélt að ekki yrði þingfundur fyrr en á mánudag en það er fundur á morgun svo það er tími til kominn að skella sér suður. Nú er að koma sér inn í málin eins hratt og auðið er því það er ekki einfalt að fara frá verkefnunum í vinnunni og stökkva inn í þau mál sem eru á Alþingi sem mörg hver eru talsvert flókin. Hinsvegar er virkilega gaman að láta reyna á sjálfan sig og þetta er svo sannarlega tækifæri til þess sem ég er þakklát fyrir að fá;-)

kl. |Pólitík || Álit (2)

Knúið af Movable Type 3.33
Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.