« Slippstöðin sniðgengin | Aðalsíða | Fundur um Grunnetið á Akureyri »

Miðvikudagur 16. mars 2005

Síminn óþarfur!

Eftir að hafa notað Skype um nokkurt skeið hef ég komist að þeirri niðurstöðu að sími í þeirri mynd sem við þekkjum hann núna sé á undanhaldi. Enda kostar notkun á Skype hreint ekki neitt. Ég hef verið á símafundi með fólki í Puerto Rico og Noregi á sama tíma. Á meðan ég var í Jórdaníu gat ég notað Skype til að tala við fólk hér og þar í heiminum fyrir ekki neitt og nú hef ég verið að ræða til Amman í Jórdaníu héðan á gæðum sem taka fram venjulegu símtali. Síminn í þeirri mynd sem hann er núna er því á hröðu undanhaldi og von bráðar tel ég að hann hverfi í þeirri mynd sem hann er. Þróun er einnig gríðarleg eins og kemur fram í viðtali við Niklas Zennström frá Skype í InfoWorld.


Í dag eru 29 milljón notendur á Skype og 155.000 bætast við á hverjum degi eftir því sem Niklas Zennström segir. Auðvitað eru menn ekki með tölvurnar sínar í gangi alltaf og allsstaðar en þá má minna á að þeir sem eru með VasaPésa (Pocket PC) eru nú um 1,5 milljón notenda á Skype. Margir eru með tölvuna fyrir framan sig allan daginn og því ágætt að fá símtalið í gegnum hana.

Gæði símtala fara eftir gagnaflutningsnetum í heiminum. T.d. var erfitt að tala við samstarfsmann í Khatmandu í Nepal þar sem hann var ekki á háhraðaneti en samtöl til Amman þar sem menn eru á góðu neti eru betri en símtöl eins og ég sagði áður. Ég var mjög hissa á því. Þó símtöl gangi hægt þá ganga þau og ekki má gleyma að beinn símkostnaður er enginn.

Nú er Skype að þróa SMS þjónustu og er að þróa myndfundi enda vefmyndavélar orðnar algengur kostur.

Í ljósi þessa er umhugsunarefni hvernig þróunin verður hér á landi og hvað verið er að selja þegar Síminn er seldur. Ég er ekki viss um að menn viti hvað þeir eru að láta úr höndunum. Sjálfstæðismenn hafa komið mér verulega á óvart hversu lítið viðskiptavit þeir hafa, þar sem maður gerir eiginlega ráð fyrir því að þeir hafi það. Íslenska ríkið er að selja útsæðiskartöflur íslensku þjóðarinnar og finnst bara sniðugt að græða á þeim. Á sama tíma munu þær ekki verða útsæði íslensku þjóðarinnar við vöxt á hagnýtingu upplýsingatækni í nútíma samfélagi. Þar munu gróðapungar og flokksvinir maka krókinn en hættan er sú að þeir setji tappa í þróun upplýsingatækni hér á landi.

Það er ekki hagkvæmt fyrir íslenska þjóð að selja allt sem hún á til að byggja á til framtíðar. Það er slakt viðskiptavit og engin hagsýni. Stundargróði er ekki það sem við getum byggt á til framtíðar.

kl. |Pólitík / UT

Álit (3)

Það er nú alveg í spilunum að þessi burðarkerfi (sími,gögn auk sjónvarps) munu renna saman á einn eða annan hátt. Það eru miklir möguleikar bæði í að sameina "fæðingu" til heimila/fyrritækja og í grunnkerfinu sjálfu.
Vandamálið hefur verið með gæði og uppitíma á gagnakerfunum. Þau voru (eru?) ekki enn búin að ná 99,999% uppitímanum sem við treystum á í hefðbundna símakerfinu. Skype er líklegast skref í þá átt að fá sömu gæði/áreiðanleika í net-síma og við erum vön í hefðbundna símakerfinu.

Miðvikudagur 16. mars 2005 kl. 11:19

Þetta er samt ekki alveg svo einfalt. Skype hefur náð ótrúlega hraðri útbreiðslu og raddgæðin hafa verið umtalsverð. Hins vegar hefur gæðum þjónustunnar hrakað að undanförnu af því að kerfið byggir upp á dreifðri ókeypis vinnslu. Skype sjálfir eru ekki að þjónusta þessi samtöl heldur tölvur notendanna. Samtal A við B fer þannig gjarnan í gegn um tölvu á heimili C og notar bandvídd hans. C, sem þarf hugsanlega að borga fyrir bandvíddarnotkun er farinn að uppgötva að þetta kostar hann stórfé eftir allt saman og annað hvort slekkur á Skype eða hreinlega blokkar það í eldvegg.

Mánudagur 21. mars 2005 kl. 15:52

H Geirs.:

Og svo er spurningin hvenær Skype fer að hlaða auglýsingum og vitleysu inn á okkur :o(
Það er ekkert til sem heitir ókeypis í þessum heimi og þeir sem standa bak við Skype voru áður með KaZaa sem fyllti tölvuna manns að auglýsingarusli.
Það er auðvitað þeirra leið til þess að græða pening og ekki spurning um að þeir munu nota hana um leið og tækifæri gefst.

Varðandi söluna á Símanum þá sé ég ekki hvernig Skype mun hafa áhrif á hana. Við þurfum áfram línur eða örbylgjur til þess að útvega okkur internetsamband og það er víst enginn betri til þess fallinn að útvega slíkt en fjarskiptafyrirtækin.
...og þau kunna að rukka fyrir slíkt.

Sem sagt ekkert ókeypis...

Þriðjudagur 19. apríl 2005 kl. 18:21

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.