Áfram velti ég fyrir mér könnun Akureyrarbæjar og þá sérstaklega því hvað í skýrslunni er leyndarmálið mikla sem krefst trúnaðar. Menn sem hafa séð skýrsluna greinir á um þennan þátt. Sumir segja að svörin séu keyrð saman á þann hátt að hægt sé að fá ótrúlega miklar upplýsingar - nánast þannig að hægt sé að finna út skoðanir einstaklinga. Aðrir segja þarna engin leyndarmál. Nauðsynlegt er að létta trúnaði af skýrslunni - allavega þeim þáttum sem ekki krefjast trúnaðar og segja hvert trúnaðarefnið er án niðurstaðna til að hægt sé að gera sér grein fyrir hvað er rétt. Síðan stendur eftir spurningin hversu mikilla upplýsinga eitt bæjarfélag getur kerfisbundið aflað sér um bæjarbúa og hvort slíkt gæti nálgast að rekast á lög og reglur um meðferð persónuupplýsinga. Er það kannski leyndarmál bæjarstjórans? Hér þarf að upplýsa okkur Akureyringa hvað var í rauninni gert.
Það olli mér vonbrigðum í gær hvernig bæjarstjóri brást við fréttum af skýrslunni, hún átti ekki alltaf að vera trúnaðarmál - ehemm voru ekki í henni viðkvæmar upplýsingar??? Fyrst átti að upplýsa bæjarstarfsmenn ... hvaða starfsmenn? Síðan hafði hann ekki hugmynd um hver setti inn spurningu um hvað menn ætluðu að kjósa. Er virkilega verið að keyra gögnin saman við pólitísk viðhorf bæjarbúa og er þá ljóst af skýrslunni hvað bæjarbúar - sem ekki ætla að kjósa bæjarstjórann - leggja áherslu á? Gefur þá plaggið atarna greinargóðar upplýsingar fyrir næstu kosningar hvaða mál þyrfti að setja á oddinn til að ná til sín kjósendum? Voru fjármunir bæjarbúa notaðir til þess? Er slíkt vilji bæjarbúa að nýta skattpeninga sína með þeim hætti?
Hvernig getur slík spurning komið "óvart" inn í könnun? Hvað á að gera við þær upplýsingar? Hversu nákvæmlega voru þau svör keyrð saman við svör bæjarbúanna sem svöruðu könnuninni?
Ég held að það þurfi gleggra svar en að menn viti ekki - hér þarf bæjarstjóri að fá svör og gefa bæjarbúum þau án tafar.
Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri