« Myndablogg | Aðalsíða | Landsbyggðin knésett »

Miðvikudagur 20. júlí 2005

Mútur - eða svikin loforð

Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður segir í viðtali að KEA sé að reyna að kaupa stjórnvöld til að hafa áhrif á byggðastefnu með því almannafé sem þar er fyrir hendi. Hann talar síðan fallega um stefnu ríkisstjórnarinnar sem hann styður (oftast?) sem ætti að sjá um þennan málaflokk. Fallega hljómar það en hirðuleysi stjórnvalda um þennan málaflokk er slík að þeir lesa ekki sínar eigin skýrslur hvað þá að fara eftir þeim ráðleggingum sem keyptar eru af sérfræðingum. Svo virðist sem áhuginn sé meiri á að kaupa fólk til að gera skýrslur en fara eftir þeim. Lítum nánar á málið:


Í mars fyrir kosningar 2003 gaf Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið út skýrslu sem ber nafnið "Fólk og fyrirtæki: Um búsetu og starfsskilyrði á landsbygðinni" sem kynnt var með glæsibrag í Háskólanum á Akureyri. Að skýrslunni standa Byggðarannsóknastofnun og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Mér er minnistæður sá fundur sem nýgræðingi í pólitík þegar ráðherrann var spurður um hvort eitthvað ætti að gera í þessum efnum, ráðherrann var á leið út úr salnum, tímabundin mjög, veifaði hendi og sagði eitthvað á þá leið að þetta væri allt komið af stað eða í gangi. Mér þótti hún glæsileg og vænti mikils af stefnunni og sjálfsagt var svo um fleiri sem launuðu ráðherranum greiðann með atkvæði sínu. Félagar mínir í pólitík hlógu að mér og sögðu - æi, þetta er enn ein skýrslan - það verður ekkert gert með þetta plagg. Prentararnir græða meira en við á svona skýrslum.

Vongóð gætti ég skýrslunnar og hlakkaði til að sjá árangurinn fyrir okkur Akureyringa. Í meginatriðum var lagt til að "Norðurland með Akureyri sem miðpunkt, Vestfirði með Ísafjörð sem miðpunkt og Mið-Austurland með Egilsstaði sem miðpunkt.". Til að ná árangri átti að beita fjórum leiðum en þær voru:

1. Lækkun flutningskostnaðar til að stuðla að sjálfsbjörg fyrirtækja á landsbyggðinni - höfum við séð þá lækkun? Ónei.
2. Efla menntun og Háskólinn á Akureyri sérstaklega nefndur til sögunnar. Er það í einhverju samræmi við þær öflugu vaxtarhömlur sem við höfum séð í verki þar sem loka þarf deild og takmarka aðgang nemenda?
3. Samgöngubætur - sérstaklega auðvelda aðgengi að byggðakjörnunum sem ofan greinir. Jú líklega láta þau verða af Héðinsfjarðargöngum en falla Vaðlaheiðargöng ekki einmitt að þessu efni líka? Er ljótt af KEA að vilja leggja því máli lið?
4. Hraðvirkara netsamband - hér hefur eitthvað áunnist en óralangt er í að allir landsmenn búi við jafnræði að þessu leyti.

Óttalega lítið hefur komið af framkvæmdum og ég verð því miður að sætta mig við að mínir eigin þingmenn höfðu hárrétt fyrir sér "þetta var bara ein skýrslan". Þegar síðan heimamenn reyna að byggja upp og hafa áhrif á umhverfi sitt með því fé sem félagsmenn í KEA hafa byggt upp í gegnum árin til að reyna að stuðla að stöðugri og fjölbreyttri atvinnu í heimabyggð rís framsóknarþingmaðurinn Kristinn upp og nánast segir að það sé að bera fé á fólk og stjórnvöld eigi að stýra samgöngum og staðsetningu opinberra fyrirtækja. Það er svo sjálfsagt, en er ekki kominn tími til að hans eigin menn fari eftir þeim ráðleggingum sem þeir kaupa sér og veifa fyrir kosningar?

Við hér á Akureyri vitum harla vel að fyrirtæki vilja gjarnan koma hingað og starfa, hér er gott vinnuafl og margar hendur sem vilja vinna verkin og fleiri vilja koma. Hinsvegar er það alltaf það sama sem stendur í veginum - flutningskostnaður við að koma vörunni á markað. Hvað er þá til bragðs að taka? Auðvitað að reyna að laða að fyrirtæki og stofnanir sem þurfa ekki að flytja vörur á markað með flutningafyrirtækjum. Slík fyrirbæri eru til dæmis stofnanir á vegum ríkisins. Þegar biðlað er um að stofnsetja nýjar stofnanir eða flytja að hluta eða heild til Akureyrar er fyrirslátturinn að það kosti meira að koma því í gagnið heldur en í Reykjavík. Þarna hefur KEA boðið fram hjálparhönd en hver eru viðbrögðin. Á bjóðandi hönd er slegið - og menn nánast vændir um glæpsamlega aðferðir - mútur.

Ekkert myndi gleðja okkur KEA menn meira en ef stjórnvöld færu af alvöru í byggðastefnu og byggðu upp forsendur fyrir okkur hér til að bjarga okkur sjálf í stað þess að svelta okkur heilu hungri og steypa síðan yfir stórfabrikku eins og gert var á Austurlandi. Sulturinn hér á svæðinu birtist í nýjum tölum um atvinnuleysi á Norðurlandi eystra - hvergi er það meira á öllu landinu. Það eru konurnar sem verða helst fyrir barðinu á atvinnuleysinu hér, hvað er þá til ráða? Ekki eru stjórnvöld að leysa þennan vanda, hlusta ekki á ráð virtra stofnana og þegar boðin er fram hjálp er það bara ljótt...

Ekki er hægt að styðja okkur og ekki megum við styðja okkur sjálf. Er þá ekki stefna Framsóknarflokksins alveg skýr? Sveltum landsbyggðina eins og við getum, komum með fínpússuð loforð fyrir kosningar svo við fáum atkvæði og verum síðan harla fljót að gleyma þeim flestum.

Kristinn H. Gunnarsson er aðili að ríkisstjórn - ef hann vill að stjórnvöld geri það sem þau hafa lofað - ber honum að sjá til þess að hans eigin flokkur og hans eigin ríkisstjórn geri það en hættu að brigsla þeim sem eru að reyna að bjarga sér um glæpi. Nú höfum við nýja skýrslu sem kallast "Vaxtarsamningur Eyjafjarðar" sem KEA hefur virkilega lagt lið og lofað að leggjast á árar með stjórnvöldum, kannski sú skýrsla skili meiru? Eða er líka ljótt af KEA að vilja vinna með stjórnvöldum að þeirri stefnu sem hún felur í sér og fjöldi manns kom að því að vinna? Við trúum enn... KEA menn og vonandi gengur það eftir.

kl. |Pólitík

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.