Umræða um móðurmálið hefur eflst undanfarið eftir að Frú Vigdís Finnbogadóttir lýsti áhyggjum sínum á Hólahátíð með bloggskrif ungmenna. Ég verð nú að segja að fyrst og fremst finnst mér bráðmerkilegt og mikilvægt hversu mikið ungmenni á Íslandi eru að skrifa, um daginn og veginn, hvað þeim finnst og margt fleira. Þau hafa þarna jafnvel samskipti milli blogga eða vefdagbóka. Þetta höfum við Harpa Hreinsdóttir svosem gert, miðaldra kjéllíngarnar, lengi og haft gaman af. Sérstaklega ef við erum ósammála eins og má finna með góðum vilja í tengslum við nýja færslu hennar um blogg og forsetann fyrrverandi. En vefdagbækur eru einmitt bráðskemmtilegt tjáningarform þar sem hægt er að hafa samskipti við þá sem vilja lesa það sem maður skrifar, tja eða bara orða hugsanir sínar sem getur verið virkilega skemmtilegt þó enginn lesi stafkrók.
Móðurmálarinn Harpa er hinsvegar dálítið þröngsýn í sinni grein þegar kemur að bloggum og eigin tilraunar með slíkt í kennslu sem hún er búin að prófa og hefur sannfærst um að virkar ekki eða eins og hún segir "hvorki mér né nemendunum fannst hún lukkast sérlega vel". Í þessu sambandi má minna á að fjöldi manna hefur verið að kenna íslensku hinum og þessum og játast undir að stundum hafi það ekkert "lukkast". Enda má með sönnu ræða allan þann tíma sem fer í kennslu íslensku, sem hefur að stórum hluta það viðfangsefni að skrifa ritgerðir og lesa hundgamlar bækur. Ekki svo að skilja að ég sé á móti hundgömlum bókum né heldur ritgerðum en oft á tíðum hefur mér fundist nám í móðurmálinu dálítið gamaldags og trénað. Allavega hafa menn sífellt áhyggjur af móðurmálinu þrátt fyrir að allir Íslendingar þurfi að sitja nám í íslensku í 10 ár, og margir gott betur en það ef þeir fara í framhaldsskóla.
Auðvitað eru til alskyns frumkvöðlar í íslenskukennslu sem hafa tekið upp á ýmsum spennandi hlutum en þeir eru nákvæmlega það, frumkvöðlar og stundum "lukkast" breytingar hjá þeim og stundum "lukkast" þær ekki neitt. Kennurum móðurmálsins finnst reyndar fæstum að nútíminn komi þeim eitthvað sérstaklega við nema kannski nokkrar bækur eftir "virta" höfunda sem stungið er inn sem lesefni sisvona til endurnýjunar. Þeir una glaðir við sína Njálu og Gísla sögu Súrssonar. Eyða löngum hluta vetrar í að útskýra fyrir nemendum mis áhugasömum hvað gömul orð þýða (sem enginn ætlar að fara að brúka) svo börnin skilji sögurnar - hugsanlega. Þetta er fínt og ekkert svosem að því ef menn myndu síðan snúa sér dálítið að nútímanum því merkilegt nokk ætla þessi börn að beita íslenskunni þar. Á spjalli (MSN eða Skype), á bloggsíðum, með SMS skeytum, texta með myndskilaboðum (MMS), mitt í spennandi tölvuleik og víðar. Þessi íslenska er einkamál barna og ungmenna, þau þróa hana á spennandi hátt, hún er síkvik og lifandi. Skammstafanir koma þó oft úr ensku en gaman væri að nota t.d. krs (kem rétt strax) í staðinn fyrir brb (be right back).
Fáir standast síðan þann snúning að ræða íslenskukennslu við íslenskufræðinga og allra síst ég. Þetta eru auðvitað meistarar móðurmálsins, innvígðir í heim hinna rétttalandi og réttskrifandi. Við hin ættum í rauninni ekkert að segja og því skil ég mig reyndar ekki neitt að skrifa þetta innlegg sem er ávísun á hnútuköst úr veröld móðurmálaranna. Ég er því bara hætt en mæli samt enn með því að kenna nemendum móðurmál í samhengi við notkun þess í nútímasamfélagi í ríkari mæli en gert er og muna þá að það stendur til að undirbúa nemendur undir líf og starf í lýðræðislegu þjóðfélagi þar sem þau hafa móðurmálið að vopni til að iðka lýðræðið með þeim miðlum sem þeir kjósa. Fæstir skrifa ritgerð með inngangi, meginmáli og niðurlagi um allt það sem þeir vilja segja. Talað mál og snarritað (stuttur texti) er mikilvægt og það þarf að leggja ríkari áherslu á það í námi.
Álit (14)
Það er aldeilis engd fyrir mann gildruhrúgan! ;)
Sem "meistari móðurmálsins" (eða fóðurkálsins) sé ég mig auðvitað knúna til að ganga í einhverjar gildrurnar og vonast til að svp pompi svo í hinar.
Það sem vekur mig sérstaklega til umhugsunar er að þú telur mig þröngsýna - ég hélt að allir vissu hversu víðsýn og fordómalaus manneskja ég er, tiplandi af varúð kringum misviturt fólk og æ sýnandi aðgát í náveru sálar ...
Njálubloggið barnanna og mitt var mislukkað af því það var of stýrt. Það er bara ekki eðli blogga að renna í þröngum farvegi. Þessu hef ég sumsé áttað mig á og geri nú aðra tilraun, með frjálsari efnistökum. Svo fannst krakkaskinnunum miklu skemmtilegra að ræða mál í kjötheimum, einkum væru þau ekki sammála, og vildu endilega að ég setti inn fleiri umræðutíma, sem ég mun gera næst þá ég kenni áfangann. Sennilega vantar þau orðið kjötheimasamskipti því flestir áfangar eru orðnir gegnsósa af upplýsingatækni.
Ég hef þá (þröngsýnu) trú að hverjum nemenda(hópi) skuli sníða stakk eftir vexti og þess vegna mun ég láta hina bloggsnauðu blogga (ÍSL 193) en hina bloggríkari (ÍSL 303) skrifa klassíska ritgerð um Egils sögu eða álíka gamlan reyfara. Sé enga ástæðu til að brúka SMS í neinum áfanga enda tel ég alla nema mig vera fullfæra í þeim fræðum. (Þótt áhugavert sé að bera saman SMS og bönd í handritum per ser.)
Hinir málsnauðu og lesstolnu (byggi þennan pínulitla fordóm á reynslu og viðruðum skoðunum annarra íslenskukennara sem þó hafa fáir kynnst þessum hópi af eigin raun) fá síðan að rísla sér við að lesa innbundna íslenska hryllingssögu, þá fyrstu sem kom út hér á landi. Kemur sér nú vel að kennarinn er sérlesinn í Stefáni King og öðru ógeði. Reyndar er ég einmitt að slá upp verkefnavef í þessari ágætu hryllingssögu. Tek þetta fram svo þú sjáir að ég nýti "nýja" tækni (sem er nú reyndar að verða hundgömul) og læt alls ekki alla nemendur mína liggja í gömlu reyfaradóti.
Sjálf hef ég oft þýfað mína kollega um hvenær líklegt sé að obbinn af okkar nemendum þurfi að skrifa heimildaritgerð í sínu lífi og verið svona heldur andstæðingur hefðbundinna ritgerðarskrifa. Hef þó hallast æ meir á ritgerðasveifina sem glærusýningagerð öðlast meiri hylli meðal kolleganna, enda finnst mér af tvennu hrúleiðinlegu þó ritgerðirnar skárri.
Nú, ég reikna með að þú svarir þessu, ljúfan, og hlakka til að líta upp úr klassískri verkefnagerðinni til að bera fyrir mig sosum eins og einn skjöld á bloggvellinum þínum ;)
Miðvikudagur 17. ágúst 2005 kl. 10:37
Úpps, just for the record: Þetta átti náttúrlega að vera nærveru sálar og hrúTleiðinlegu, tæknileg mistök við áslátt hljóta að hafa valdið þessum (ófyrirgefanlegu) innsláttarvillum ...
Miðvikudagur 17. ágúst 2005 kl. 10:43
Hmm... er samt ekki spurning um það að kenna blessuðum börnunum á tólin sem þau ekki kunna á, frekar en að láta þau endalaust hjakka í þeim tólum sem þau þegar kunna vel á? Ég er reyndar alltaf afskaplega föst í að hugsa um stúdentsprófsbrautirnar bóklegu, en það nám á að undirbúa þau fyrir háskóla og þau eru nú illa sett ef þau mæta í háskólann og kunna bara að blogga og senda SMS en ekkert að setja upp ritgerð.
Miðvikudagur 17. ágúst 2005 kl. 17:12
Sé að ættingjarnir bregðast mér ekki í stuðningnum :)
Þar sem stór hluti nemenda minna stefnir á annað en háskólanám, frá því að vera iðnaðarmenn til þess að mæla göturnar, hef ég ekki séð ríka ástæðu fyrir ritgerðasmíðakennslu umfram annað. Aftur á móti skipti ég yfir í ritgerðir í fornbókmenntaáfanganum (sem er eingöngu fyrir stúdentsefni) og hætti glærusýningagerð um leið og ég jarðaði dreifkennsluna þar (eftir nokkurra anna tilraunir í hvoru tveggja).
Ætli ég verði ekki að sætta mig við það að vera ævinlega svona 2- 5 árum á undan hinum: Núna eru margir að uppgötva glærusjóin og hafa glýju í augum yfir dreifkennslunni ... Lára hefur svona nokkurs konar skyldublik í auga þegar þetta berst í tal!
Miðvikudagur 17. ágúst 2005 kl. 17:45
Ég verð nú að segja eins og er stelpur að láta sér detta í hug að nemendur skrifi ekki ritgerðir í grunnskóla og framhaldsskóla. Ef ritgerðunum þeirra væri staflað upp eftir 10 ár í grunnskóla og 4 ár í framhaldsskóla er ég viss um að hillumetrarnir hans Laxness myndu blikna. Þau eru sífellt að skrifa ritgerðir, þið getið hinsvegar svosem komið ykkur upp þeirri skoðun að þau kunni ekki að skrifa ritgerðir þrátt fyrir öll skrifin en það er hinsvegar allt annað mál. Nemendur skrifa ritgerðir, í íslensku, í sögu, í félagsfræði og samfélagsgreinum af öllum gerðum, í jarðfræði, í líffræði, það er nánast engin kennslugrein nema ef vera kynni - jafnvel ekki alltaf - stærðfræðin.
Svo finnst mér takmarkandi að ræða menntun barna og unmenna einungis í því samhengi að þau ætli að læra í háskóla. Hluti menntunar felst í því að búa nemendur undir frekara nám en það er líka alveg jafngildur þáttur að búa þau undir líf og starf í lýðræðissamfélagi ef ég man hvernig þetta er nú sagt í námsskránum.
Því finnst mér undirbúningurinn fremur einhæfur og þar að auki eru lærðir menn sífellt að kvarta um að þau kunni ekki nógu vel það sem þó sífellt er verið að innprenta þeim. Þá stagla menn á sömu hlutunum aftur og aftur og aftur og aftur þangað til blessuð börnin eru orðin hundleið á þessu öllu saman. Þetta er ekki rétta leiðin að mínu mati.
Málið snýst ekki um að þau eigi sífellt að vera að brúka nýja tækni í námi ef nýja tækni skyldi kalla. Mest af henni hefur verið til meira og minna alla mína starfsævi í mismunandi mynd og ég er orðin miðaldra amma.
Málið snýst um að þau fái LÍKA að vinna með þeim verkfærum sem menn eru að vinna með í samfélaginu. Það er þau séu ekki látin hræra deig í kökur þegar aðrir nota hrærivélar, slá með orfi og ljá þegar aðrir nota sláttuvélar, morsa þegar hægt er að nota síma, og svo framvegis.
Það er alltaf verið að snúa þessum hlutum upp í einhverja endaleysu, málið er einfaldlega að nútíminn er að ótrúlega litlu leyti hluti menntunar í dag. Þar af leiðandi eru nemendur að mínu mati menntaðir til fortíðar, að ganga inn í samfélag sem er ekki til.
Ég held að það ætti að hafa klásúlu í námsskrám nútímans þar sem kennarar eru minntir á að mennta nemendur fyrir líf og starf í NÚTÍMA lýðræðissamfélagi.
Svo megið þið alveg spreyta ykkur á að snúa út úr þessu og tala um að þau þurfi bakgrunn og sögu og reynslu og hugmyndir annarra. En ég dreg það ekki í efa og er mjög hlynnt því en það gefur okkur ekki heimild til að hafa það nánast einvörðungu menntun Íslendinga í dag.
Fimmtudagur 18. ágúst 2005 kl. 08:59
Harpa, ég er hundleið á glærum svo ég sé alveg heiðarleg;-) Hvað varðar dreifkennslu þá tel ég að hluti nemenda þurfi að sitja endalausar kennslustundir sem hafa lítinn tilgang og reyndar tefja þá frá námi og vekja námsleiða. Það er hinsvegar umræðan um hvort allir eigi að læra sömu hluti á sama hátt þ.e. hvort allir séu eins ... sem er líka skemmtileg umræða;-)
Takk fyrir innleggin - frábært að brydda gogga smávegis;-)
Fimmtudagur 18. ágúst 2005 kl. 09:02
Mors er reyndar góð hugmynd, ég sé það strax í hendi mér. Gæti sjálfsagt einhvern tíma komið sér vel að kunna að morsa ... maður veit aldrei.
Námsleiði skapast ekki af kennaranum eða kennsluefninu. Ég vorkenni þessum krökkum ekkert að þurfa að horfa á mig leika Egil (og öll hin hlutverkin) í kennslustundum ... þeir geta bara litað í litabækurnar sínar ef þeim leiðist (og þjálfað þannig fínhreyfingar - óvíst að nemendur hafi allir skriðið í bernsku og eru þess vegna kannski einhverjir með fínhreyfingarhandíkapp, skv. fræðunum). Auk þess leik ég orðið Egil ansi vel eftir langar samvistir okkar alkanna og geðsjúklinganna (altso mínar og Egils). Held að fáir kennarar bíti sig jafnvel á barkann og ég (þetta er einleikur svo ég leik bæði Atla hinn skamma og Egil, doldil kúnst að fá þetta til að ganga upp, skal ég segja þér!)
Fimmtudagur 18. ágúst 2005 kl. 18:16
Er ekki kominn tími til að gera eitthvað róttækt í því að tengja nám á Íslandi við nútímann? Ég meina mest af krökkum er ekkert að hugsa sér að fara í háskóla og þeir sem eru góðir ætla sér miklu frekar að fara í eitthvað nám sem borgar sig og hafa ekkert að gera með að skrifa endalausar ritgerðir um eittkvað aftur og aftur. Á Íslandi lærir maður fyrst að skrifa um dag í sveitinni og uppáhalds dýrið og svo um félagsleg vandamál unglinga í félagsfræði upp eftir öllu skólakerfinu. Ef framhaldsnám á einmitt að vera einhvers konar undirbúningur undir nútíma þjóðfélag er vitaskuld rétt að nemendur læri að nota sér nútímatækni sem kemur þeim að einhverju gagni í stað þess að hanga fastur á einhverjum gömlum gildum og aðferðum eins og formlega uppbyggðu ritgerðamáli með sífelldu stagli um að rökstyðja og stafsteja rétt. Í þeim greinum Noam Chomskys sem núna eru lesnar við félagsvísindadeild færir hann einmitt rök fyrir því að tungumál sé ekki afstæð heldur síbreytileg. Þannig á svokallað bloggmál fullan rétt á sér og þágufallssýki er eðlileg málþróun. Að staglast á því að kenna unglingum eitthvað gullaldarmál úr Egilssögu eða Grettirssögu er löngu úrellt.
Föstudagur 19. ágúst 2005 kl. 19:00
Chomsky er nú ekkert sérlega glænýr í fræðunum þótt hann sé kannski ekki alveg eins gamall og Björn Guðfinnsson, sem lifir æ eins og Presley. Mér fannst kenningar Chomskys alltaf frekar leiðinlegar, nema setningin um grænu hugmyndirnar sem var skondin. Fannst hann vera svona freudískur málfræðingur og slæ sömu varnagla við svoleiðis kenningum eins og sálfræðikenningum Freuds eða afleiddri bókmenntafræði af þeim.
Af hverju heldur fólk því fram að verið sé að kenna krökkum gullaldarmál úr fornsögum? Í fornsögum er orðaforði miklu minni en nútímamáli, mætti jafnvel halda því fram að þar væri orðaforði á smábarnastigi. Svo ekki reynum við móðurmálarar að nýta þessar léttlestrarbækur til að auka orðaforða heldur fremur til að fá nemendur til að skilja sálarlíf fólks eða líta á þessar sögur sem skemmtilegar sápur.
Mér vitanlega er ekki til neitt sérstakt bloggmál. Það sem kallast bloggmál (fyrir misskilning og vanþekkingu) er irk-mál og SMS-mál. Fáir nenna að halda þessu málsniði á bloggi til lengdar, óháð aldri bloggara. Aftur á móti er skynsamlegt að nota skammstafanir við iðju eins og irk og SMS, til að vera fljótari að skrifa.
Ég er samála þér að "þágufallssýki" (líka kölluð "mérun") er ekki stórkostlegur krankleiki. Varandi persónulegar sagnir sem menn vilja beygja óperónulega hefur mér fundist best að kenna fólki að nota kvíða og hlakka sem rímorð við ríða og smakka. Það eru allir með "Ég smakka / Við smökkum/ Þið smakkið ... á súpunni" á hreinu, svo setur maður bara "hlakka ... hlökkum ... til jólanna" í staðinn, á þar til gerðum drillum í þessum sögnum. (Ríða beygist reyndar ekki alveg nákvæmlega eins og kvíða en nógu líkt ... og ef kennarinn er púrítani má nota sögnina "bíða" sem rímorð.) Mér hefur reyndar fundist aðalatriði að nemendur hlakki til einhvers en ekki nákvæmlega hvaða tölu og mynd persónufornafns þeir nota til að tjá tilhlökkun sína.
Föstudagur 19. ágúst 2005 kl. 20:00
Mér finnst sko varla hægt að afgreiða bara virta vísindamenn eins og Chomsky með því að þeir séu leiðinlegir og ég er eiginlega ekki alveg að skilja af hverju það er gert. Ef við tengjum kenningar hans við það sem er einna helst uppi á tengingnum innan félagsvísindadeildar eins og Spivak þá fynndist mér eginlega vera betra að hafa lært eitthvað um hvernig maður getur sko fundið kjarnan hjá hverjum höfundi með því að greina hann upp í einingar en bara það eina sem maður lærði með sona greiningu í fjölbraut var orðflokkar og svoleiðis sem gagnast manni ekkert í háskólanum. Mér finnst einmitt að þegar maður er að skoða nútíma samskipamáta eins og blogg og rafræn samskipti almennt þá sé í raun hægt að sjá skammstafanirnar sem kjarna hvers boðskapar í anda Spivak. Oft á tíðum hef ég þá reynslu í hópastarfi að sms geri meira gagn innan hópsins en lengri umræður þar sem kjörnunin fer fram um leið og maður er að nota nútíma samskiptatækni í stað þess að skrifa einhverjar skírslur. Ég hllustaði einmitt um daginn á Frú Vigdísi og ég var ekki alveg að fatta afhveru hún var svona ganrýnin á það sem ég vil kalla kjörnun málsins. Mér finnst þetta meir að segja soldið vera eins og frummál líkt og í Íslendingasögunum (Deyr fé, deyr frændr).
Föstudagur 19. ágúst 2005 kl. 20:46
Ég vildi nú bara benda síðasta ræðumanni á að það var Jaques heitinn Derrida en ekki hún Spivak sem má kannski telja upphafsmann orðræðugreiningarinnar og ég hef satt best að segja ekki séð neina tengingu á milli hans og Chomsky áður.
Föstudagur 19. ágúst 2005 kl. 21:11
Takk Einar bró, ég hafði nefnilega ekki hugmynd um hvaða skepna þessi Spivak er. Í hvert sinn sem orðið "orðræðugreining" ber fyrir sjónir mínar dettur mér í hug helv... kvennabókmenntafræðin, Kristeva, Kress og hvað þessar píu nú heita. Svo ég er með a.m.k. einn pínulítinn fordóm í garð orðræðugreiningar. Fyrir svo utan það að vera ekki málfræðingur.
Aftur á móti hefur hún Margrét Pála skrifað afar skiljanlegan texta um listina "að kjarna" í bók sinni um Hjallastefnuna. Þori að veðja að allavega Chomsky er ekki nærri eins góður að kjarna eins og Margrét Pála.
Ég get ekki ímyndað mér annað en hópastarf sem hafi gagn af SMS-um fremur en umræðu sé ógislega leiðinlegt hópastarf! Væri sjálfsagt enn meira til bóta að leysa hópinn hreinlega upp.
Föstudagur 19. ágúst 2005 kl. 22:04
Gleymdi að taka fram að ég hef auðvitað lært að greina setningar a la Chomsky (djúpgerð, yfirborðsgerð og svoleiðis kjaftæði) sem og kennt nemendum hríslumyndarsetningafræði sem er byggð á kenningum hans. Nemendum þótti þetta hundleiðinlegt og skásta leiðin til að fá þá til að læra þessa greiningu var að fá þá til að líta á þetta eins og hvern annan samkvæmisleik eða krossgátu; Ég notaði kennsluðaðferðina: "Ef þér leiðist í Akraborginni þá getur alltaf hríslað nokkrar setningar þér til dægrastyttingar". Sem sjá má er nokkuð langt síðan ég hætti þessari kennslu en tók reyndar um leið upp krossgátur sem verkefni fyrir þá lökustu. Það gekk líka illa, þótt ég hafi passað mig að nota ljósritaðar barnakrossgátur úr Vikunni ...
Föstudagur 19. ágúst 2005 kl. 22:10
Þetta er ný farið að minna að snýkjublogg systkina þinna Harpa! En enívei, G. Spivak er afskaplega merkileg kona sem er alltaf og sein á alla sína fyrirlestra og í eina skiptið sem ég hef séð hana tala læf kom hún hálftíma og seint og eyddi næsta hálftíma í að tala illa um tölvuna sína. En Spivak er sem sé indverskur prófessor sem er gúrú í póstkólóníalfræðunum sem eru samtök fólks sem er hrifið af td. kynjafræðum, menningattogstreitu og því að gera lítið úr póstmódernistum. Hybridity er sennilega skemmtilegasta hugtakið sem Spivak og kompaní hefur haft á sínum takteinum. Þetta er afar erfitt að útskýra en kannski er ég hybridity, sem verandi fæddur á Raufarhöfn og landsbyggðarplebbi sem styður landsbyggðina en bý í 107, á móti álverum og stíflum og hlæ mig máttlausan af tilraunum KEA til að kaupa t.d. Hafró Norður.
Laugardagur 20. ágúst 2005 kl. 00:10
Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri