Færslur í september 2005

« ágúst 2005 | Forsíða | október 2005 »

Fimmtudagur 1. september 2005

Ólgusjór

Ég ætlaði ekki að skrifa meira um Barnaland, ætlaði að hafa fjör á síðunni minni og setja inn niðurstöðu spurningakönnunar um að ég líktist helst Dumbeldore úr Potterbókunum sem ég fann á netinu. En þá fannst mér ég bara kveif og liðleskja, ég yrði að segja hvað mér finnst og skýra betur af hverju ég skrifaði bréf til ýmissa aðila. Af hverju ég yfir höfuð var að skipta mér af.

Ég hef fengið talsvert af bréfum og upphringingum útaf þessu máli. Ég hef fundið til með þeim sem hafa orðið illa úti í samskiptum sínum við fólk á Barnalandi en það kom mér ekki á óvart. Mér hefur verið tjáð hver er hver af nokkrum sem ég þekki persónulega þarna inni og það kom mér heldur ekki á óvart hversu ólíkt þeir koma fram beint við mig og síðan nafnlaust á síðunni minni eða á Barnalandi. Margar Barnalandskonur telja að engin börn séu að lesa síðurnar, við mig hafði samband fólk sem átti börn sem höfðu gert það - kom mér heldur ekki á óvart. Illmælgi um mig var mikil - það var nákvæmlega það sem ég bjóst við. Sumir skrifa svo fallega um Barnalandsspjallið og segja að hið ljóta sé "bara grín" og "mikill húmor" því miður lýsti fólk fyrir mér raunverulegum afleiðingum sem eru svo fjarska langt frá því. Það væri svo óskaplega gott að lifa í trú margra á Barnalandi um fegurð samfélags sem þau hafa skapað. Það sorglega við að hafa lifað lengi er að í reynslusarpinn hefur safnast lífsreynsla og í mínum sarpi er talsverð mikil reynsla af netsamfélögum - þess vegna - því miður hefur lítið komið mér á óvart. Þó var það fyrst og fremst eitt, sem kannski átti ekki að gera það.

Continue reading "Ólgusjór" »

kl. |Pólitík / Tilveran || Álit (35)

Föstudagur 2. september 2005

Sameining?

Nú er stutt í sameiningarkosningar við Eyjafjörð og lítið hefur farið fyrir umræðu um sameiningu eða hvað hún myndi fela í sér. Svæðið er stórt, allt frá Siglufirði til Grenivíkur og sveitarfélögin níu sem hugmyndin er að sameina eiga mis mikið sameiginlegt. Þrátt fyrir litla umræðu er talað um að Vinstri grænir og Samfylking hafi rætt um að vinna saman en ekkert slíkt hefur átt sér stað. Enda klufu Vinstri grænir sig út úr samstarfi við Samfylkinguna fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar á Akureyri og væri dálítið sérstakt ef þeir óskuðu samstarfs einungis einum kosningum síðar. Hugmyndir um samstarf sömu flokka og stóðu að R listanum í Reykjavík eru furðulegar í ljósi þess að hér er pólitískt umhverfi með allt öðrum hætti og spurning hvort Framsóknarflokkurinn sér nokkurn hag í því frekar en aðrir.

Continue reading "Sameining?" »

kl. |Pólitík || Álit (0)

Laugardagur 3. september 2005

Ræður BNA ekki við hamfarir?

Afleiðingar fellibylsins Katrínar í Bandaríkjunum eru ægilegar og þær hörmungar sem fólk býr við svo miklar að það er ekki mögulegt að gera sér þær í hugarlund. Þeir eiga alla okkar samúð. Á sama tíma bregður manni illilega við að sjá hversu illa Bandaríkjamenn ráða við afleiðingarnar. Seint er brugðist við, fólk hefst við matarlaust, vatnslaust og án húsaskjóls í miklum hita í marga daga. Þetta mikla herveldi sem heimurinn hefur horft til og trúað að gæti tekist á við nánast hvað sem er þvælist um ráðalaust. Viðtal við bogarstjóra New Orleans Ray Nagin sýnir örvæntingu sína og bræði í útvarpsviðtali sem hefur titilinn "rífið ykkur upp á rassgatinu" (Get off your asses) sem er á CNN. Þetta viðtal snertir mann djúpt, hér er örvæntingarfullur borgarstjóri að hugsa um fólkið sitt og fær ekki aðstoð.

Continue reading "Ræður BNA ekki við hamfarir?" »

kl. |Pólitík || Álit (0)

Sunnudagur 4. september 2005

Haustar

Haust.jpg
Ég fór í smá ljósmyndaferð í gær því mér finnst afar falleg sýn þegar fjöllin fara að fá hvíta kolla. Þegar haustlitirnir koma þá gefast mörg tækifæri og mikilvægt að nýta þann tíma vel. Birtan var ekki alveg nógu góð þannig að það er spurning að prófa aftur í dag en mér fannst þetta sjónarhorn mjög skemmtilegt svo það er um að gera að prófa það aftur;-)

kl. |Ljósmyndun || Álit (2)

Þriðjudagur 6. september 2005

Símapeningarnir - hvert fara þeir?

Nú á að tilkynna síðdegis hvernig stjórnarflokkarnir ætla að eyða peningunum sem við fengum fyrir Símann. Samkvæmt RÚV nú áðan þá er það í "Miklum hluta fjárins verður varið til byggingar nýs hátæknisjúkrahúss, fé fer til lagningar Sundabrautar og til niðurgreiðslu skulda svo eitthvað sé nefnt." Það er gríðarlega mikilvægt að þessu fé sé ráðstafað skynsamlega þannig að það nýtist til lengri tíma og því er mjög skynsamlegt að nýta hluta þess til að greiða niður skuldir enda losnum við við vexti af skuldinni. Besta arðsemin er væntanlega fólgin í því þar sem það losar okkur til lengri tíma undan afborgunum og vaxtabyrði. Enda má gera ráð fyrir að minni peningar komi inn til að standa undir þeim þegar hagnaður Símans fer ekki í ríkiskassann.

Continue reading "Símapeningarnir - hvert fara þeir?" »

kl. |Pólitík || Álit (1)

Miðvikudagur 7. september 2005

Kosningaloforðin 2007

Ég verð að viðurkenna að mér finnst dálítið á listanum yfir góðgætið sem stjórnarflokkarnir ætla að kaupa fyrir peningana sem við fengum fyrir Símann óma af kosningaloforðum. Ég nefnilega man eftir loforðum þeirra frá 2003 (sem voru þá kannski fyrir bankapeningana) sem gufuðu ótrúlega fljótt upp. Til að gæta allrar sanngirni vil ég ítreka það sem ég sagði í gær um málið að ég er mjög ánægð með að við lækkum skuldir okkar til útlendinga og hef ekki út á það að setja. Einnig skil ég að ýmsar framkvæmdir séu dregnar fram til 2007 þegar við væntum niðursveiflu í hagkerfinu eftir miklar framkvæmdir fyrir austan. En að skilgreina hverja krónu til ársins 2012 hlýtur að segja okkur öllum að það er loforð sem erfitt er að standa við sérstaklega í ljósi þess að það verður væntanlega ekki þessara manna að efna þau.

Continue reading "Kosningaloforðin 2007" »

kl. |Pólitík || Álit (0)

Miðvikudagur 7. september 2005

Akureyri



Yfir Akureyri frá Kotárgerði fallegan haustdag. Mynd sendi: Lára
Sent með GSMbloggi Hex

kl. |Tilveran || Álit (0)

Miðvikudagur 7. september 2005

Takk Davíð

Nánast frá því ég man eftir pólitík var Davíð Oddsson þar einhversstaðar. Ungur í borgarstjórn, borgarstjóri, forsætisráðherra og nú síðast utanríkisráðherra. Fáir endast eins lengi í pólitík eins og hann í þjónustu við Reykjavík eða Ísland. Sumir kvarta yfir armæðu og amstri pólitíkurinnar en ekki kvartaði Davíð í dag. Þó ólíklegt sé að hann lesi nokkru sinni síðuna mína vil ég þakka honum fyrir það sem hann hefur lagt til íslenskra stjórnmála. Þó ég hafi oft talið að aðrar leiðir væru betri en þær sem hann hefur valið þá skiptir ekki alltaf mestu máli að allir séu sammála í stjórnmálum heldur fyrst og fremst sýni þá lýðræðislegu ábyrgð að láta þau skipta sig máli þau snúast um líf okkar og starf í íslensku samfélagi. Það hefur Davíð Oddsson látið skipta sig máli og megi hann eiga þökk fyrir og ég óska honum velfarnaðar í þeim störfum sem hann tekur sér fyrir hendur.

kl. |Pólitík || Álit (2)

Fimmtudagur 8. september 2005

Kvennahreyfing Samfylkingarinnar

16.-17 . september n.k. verður kvennahreyfing Samfylkingarinnar stofnuð í Hveragerði. Ég hef fengið þá spurningu aftur og aftur hvers vegna það þurfi eitthvað sérstakt fyrir konur hvort þær eigi ekki bara að vera með öðrum og jafnrétti eigi að ríkja. Auðvitað, en vandinn er að það gerir það bara ekki. Ósýnilegir veggir, þök og hindranir eru við mörg fótmálin og talsvert fleiri úti á landi en í höfuðborginni eftir minni reynslu að dæma, allavega hér á Akureyri.

Continue reading "Kvennahreyfing Samfylkingarinnar" »

kl. |Pólitík || Álit (4)

Fimmtudagur 8. september 2005

Kristján Þór á framabraut?

Nú hefur bæjarstjórinn á Akureyri Kristján Þór Júlíusson lýst því yfir að hann sækist eftir varaformannsembættinu í Sjálfstæðisflokknum. Augljóst er að metnaður bæjarstjórans snýr að landsmálunum og metorðum innan síns flokks. Hann ætlar fyrst að leiða bæjarstjórnarkosningar hér næst og síðan má telja nánast öruggt að hann ætlar í landsmálin. Þá er spurning hvort hann hugsar sér að vera bæði þingmaður og bæjarstjóri ef allt gengur eftir. Hinsvegar held ég að Kristjáni verði bæði hollt og gott að etja við konu um varaformannsembættið þar sem keppinautur hans verður Þorgerður Katrín menntamálaráðherra. Hann getur kannski fjallað sérstaklega um jafnréttismál þar sem hann er þrautþjálfaður í að vera kærður fyrir hönd Akureyrarbæjar um brot á jafnréttislögum.

kl. |Pólitík || Álit (0)

Mánudagur 12. september 2005

Myndir í Séð og heyrt

Mér til mikillar ánægju voru nokkrar af myndunum mínum úr Samfylkingarferðinni í Þórsmörk notaðar í Séð og heyrt nr. 36/2005. Ég varð harla stolt enda búin að vera að streða mikið við að geta tekið myndir sem má nota faglega. Ég á nokkuð í land en samt sem áður þá held ég að þetta sé smám saman að koma hjá mér;-) Þetta voru myndir af Steinunni Valdísi borgarstjóra ásamt Sigrúnu Hjartardóttur, Ingibjörgu Sólrúnu ásamt þeim Þórunni Sveinbjörnsdóttur, Önnu og Árdísi, Olav Veigari og Björgvini G. Sigurðssyni og síðast en ekki síst af Gunnari Svavarssyni formanni framkvæmdastjórnarinnar. Ég var ekkert búin að vinna þessar myndir þar sem lá á að fá þær en sé ekki betur en þeim hjá blaðinu hafi tekist það mætavel þar sem þess þurfti.

kl. |Ljósmyndun / Pólitík || Álit (2)

Mánudagur 12. september 2005

Emilía er týnd:-(

Emilia.jpg Emilía er horfin og við finnum hana hvergi. Hún er með eyrnamerkinguna AE203 ef einhver hefði séð til hennar. Við höfum ekkert séð hana síðan á miðvikudaginn var og erum orðin verulega áhyggjufull.

Emilía er sjálfstæður köttur sem er að verða 9 ára en í ungdæmi sínu var hún mikil veiðikló og veiddi bæði hettumáv og rjúpu. Að vísu höfum við hana grunaða um að hafa rænt rjúpunni af einhverjum nágranna okkar. Hún og hundurinn Kátur eru miklir vinir en hún stjórnar honum eins og henni sýnist. Ef einhver fréttir af Emilíu látið okkur endilega vita.

kl. |Tilveran || Álit (0)

Þriðjudagur 13. september 2005

Veðurteppt:-(

Nú er ég veðurteppt á Akureyri ekkert búið að fljúga síðan í gær um hádegi. Ég ætlaði að vera snemma á ferðinni en svona fer þetta stundum, ísing í lofti segir veðurstofan og líklega ekki gott að koma eins og grýlukerti í höfuðstaðinn. Ég ætlaði að sýna efni í Menntaskólanum við Hamrahlíð áður en ég leggði fyrir símenntunargreiningu sem síðan verður notuð til að skipuleggja símenntun fyrir kennara í framhaldinu. Alltaf best að bjóða uppá það sem menn hafa áhuga á að læra þannig nýtist það best. Ida Semey hljóp undir bagga með mér sú frábæra kona og ætlar að leggja könnunina fyrir og sýna smávegis áður. Það er einstakt að vinna í MH þar eru allir mér hjálplegir og þar er alltaf svo vel á móti manni tekið svo ég mun sakna þeirra í dag:-(

kl. |Ferðalög || Álit (15)

Fimmtudagur 15. september 2005

Fann Emilíu!!!

Emilia.jpgÞessi morgunn er búinn að vera mikill tilfinningamorgunn. Kátur horfði á mig frekar leiður þegar ég var að fara í vinnuna því ég hafði ekki farið út með hann í morgun heldur dottið í að lesa bók og klukkan varð hálf átta áður en ég uggði að mér. Svo ég ákvað í stað þess að mæta klukkan átta að mæta eilítið síðar og leika svolítið við hann í garðinum.

Þá heyrði ég fjarlægt ámátlegt málm.

Continue reading "Fann Emilíu!!!" »

kl. |Tilveran || Álit (10)

Laugardagur 17. september 2005

Kvennahreyfing

wSigrunFl.JPGNú um helgina er verið að stofna kvennahreyfingu Samfylkingarinnar á Hótel Örk í Hveragerði. Hér eru um eitt hundrað konur víða að af landinu og stilla saman strengina. Margir telja að jafnrétti kynjanna sé náð og nú sé nóg komið. Að mínu mati er slík afstaða alger blinda á raunverulega stöðu eins og hún er. Nægir að nefna síðustu úttekt Hagstofu Íslands á stöðu karla og kvenna árið 2004 sem út kom á þessu ári. Því skiptir miklu að efla stöðu kvenna - beggja kynja vegna - til að ná góðum árangri í lífi og starfi.

Hér eru nokkrar myndir...

kl. |Pólitík || Álit (4)

Mánudagur 19. september 2005

Kvennafæð og óvissa Framsóknar

Þegar ég renndi yfir skrif Framsóknarmanna í kvöld vakti tvennt athygli mína, fyrst dagbókarskrif kvennanna um hvert þær fóru og hvar þær voru en svosem litlar skoðanir. Síðan beitt ádeila Kristins H. Gunnarssonar á slakt fylgi kvenna við flokkinn samkvæmt nýjum mælingum Gallup. Hann kennir um frákvarfi Siv úr ráðherrastóli, Freyjumálinu í Kópavogi ásamt framkomu eigin ráðherra við fyrri jafnréttisstýru Jafnréttisstofu. Fylgi kvenna við flokkinn er skv. könnun Gallup 7% sem er minnkun um 61%. Spurning hvort inn í þetta spili líka greinarskrif Valgerðar Sverrisdóttur þar sem hún gefur til kynna að Samfylkingarmaður á áttræðisaldri hafi staðið að því að kenna fyrri forsætisráðherra Framsóknar við morð og kenna fyrrum utanríkisráðherra þeirra um brugg. Allt gerist sífellt undarlegra á þessum bæ og erfitt að átta sig á ruglingslegum skilaboðum frá flokknum. Reyndar þykir mér vefsíða Valgerðar ævinlega dálítið ruglingsleg þar sem þar virðist einhver skrifa um ráðherrann (veit ekki hver - en sjálfsagt er það sagt einhversstaðar) og síðan skrifar ráðherrann sjálfur sínar skoðanir. Já og auðvitað eins og um hinar framsóknarkonurnar hvar hún var og hvert hún fór... svona eins og að spara Séð og heyrt sporin vilji þeir skrifa um frægar Framsóknarkonur og hvar þær voru. Þetta skrifa ég auðvitað vegna þess að enginn hefur áhuga á hvert ég fer eða hvar ég fór. En svona til að troða því að þá var ég á stofnfundi kvennahreyfingar Samfylkingarinnar í Hveragerði og skemmti mér gríðarlega og alls ekki síður sem veislustjóri hjá knattspyrnudeild Þórs á laugardagskvöldið. Kannski Hjörleifur hjá Vikudegi hafi frétt af því og skrifi um það í hornið sitt því ég er ekki bjartsýn á að Séð og heyrt hafi áhuga á hvar ég var. Það má alltaf vona að Hjörleifur spreði á mig 2-3 dálksentímetrum.

Continue reading "Kvennafæð og óvissa Framsóknar" »

kl. |Pólitík || Álit (1)

Miðvikudagur 21. september 2005

Dreki og súkkulaði

Ég fór í bíó með Hildu Torfa vinkonu minni á mánudaginn til að sjá Charlie and the chocolate factory. Mikið var þetta góð skemmtun, tölvuvinnan dásamleg og Depp veldur manni ekki vonbrigðum. Svo er ágætis uppeldislexía líka.

Nú er ég að lesa "Eldest" eftir Christopher Paolini sem er frábær. Ég hreifst af fyrstu bókinni í þessari tríólógíu og vissi ekki fyrr en lestrinum var lokið að hún var skrifuð af táningsdreng sem útskrifaðist úr framhaldsskóla 15 ára gamall (í USA útskifast menn 18 ára). Fyrstu bókina var hann búinn að gefa út 18 ára ef ég man rétt. Ótrúlegt hvað Cristopher hefur góðan frásagnarstíl drengurinn, sagan hrífur mann með sér hann hefur næmt auga fyrir ævintýrum, flóknum samskiptum og spennu. Svo þegar ég var búin með Eragon pantaði ég Eldest fyrirfram og nú gleymi ég mér við lestur á morgnana um ævintýri Eragon og drekans Saphira.

kl. |Tilveran || Álit (0)

Miðvikudagur 21. september 2005

Viðsnúningur Raufarhafnar

Það var virkilega ánægjulegt að lesa nýja frétt á vef Raufarhafnarhrepps um ársreikning sveitarfélagsins fyrir árið 2004. Eins og kunnugt er gekk reksturinn illa og nýr sveitarstjóri var ráðinn Guðný Hrund Karlsdóttir sem hefur gengið ákveðin til verka. Árangurinn blasir við og nú hefur eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga lýst því yfir að hún þurfi ekki að hafa afskipti af rekstri Raufarhafnarhrepps. Breytingarnar hafa verið erfiðar fyrir Raufarhafnarbúa þar sem allir þurftu að leggjast á eitt til að ná árangri. Slík samstaða hefur greinilega náðst og eiga sveitarstjórinn og íbúarnir hrós skilið. Eftir standa ýmsir erfiðleikar sem gera þeim erfitt fyrir en með sama áframhaldi er full ástæða til að vera bjartsýnn fyrir hönd hinnar fallegu Raufarhafnar.

kl. |Pólitík || Álit (5)

Mánudagur 26. september 2005

Ljósár

Ég hef verið að herða upp hugann og setja ljósmyndir í nýja bók áhugaljósmyndara sem kallast Ljósár. Ætla að nota þar einhverjar ísnálamyndanna minna. Nú vantar okkur að selja bókina en milli 40 og 50 ljósmyndarar eru hver með eina opnu í bókinni sem er af stærðinni 20x20. Ef einhver hefur áhuga þá endilega skráið ykkur fyrir eins og einni bók, hér er tengill á það: Árbók áhugaljósmyndara, Ljósár, er nú komin í forsölu á aðeins 2.500 kr og fá allir þeir sem kaupa hana í forsölu nafnið sitt á þakkarsíðu í bókinni. Allar upplýsingar um hvernig á að panta bókina og fá nafnið sitt á þakkarsíðu er að finna hér.

kl. |Ljósmyndun || Álit (0)

Mánudagur 26. september 2005

Sannleikur tölvupóstsins

Færra hefur gert mig meira undrandi en upplestur úr tölvupósti ritstjóra Morgunblaðsins, framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins og frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins í komandi kosningum. Hvernig má það vera að menn geti þrætt sig í gegnum tölvupóst manna með þessum hætti? Sumir ásaka tölvuþjónustur og aðrir einstaklinga. Mér sýnist hinsvegar að efni tölvupósts hafi verið birt nema að innihaldið sé staðfest með einhverjum hætti. Mér finnst þó sjálfri að það sé ekki gott þegar fjölmiðlar eru komnir með einkapóst fólks og farnir að lesa sig í gegnum hann. Nú ætla ég ekki að meta innihaldið á nokkurn hátt enda er það alls ekki auðvelt mál. Fréttablaðið sagði A og nú í Morgunblaðinu í dag byrjar Styrmir á því að ýja að því að hann ætli kannski að segja B með því að tala um sinn tölvupóst.

Continue reading "Sannleikur tölvupóstsins" »

kl. |Pólitík || Álit (8)

Fimmtudagur 29. september 2005

Klukk

Úff ég var klukkuð af Gunnari Svavarssyni og það þýðir víst ekki annað en að hlýða því og reyna að finna upp fimm atriði um mig sem eru ekki á allra vitorði. En vandinn er hvað það á að vera því það sem aðrir vita ekki um mig fer að flokkast undir það sem ég veit barasta ekki sjálf. En best að velja eitthvað sem er kannski ekki alveg nýtt;-)

Continue reading "Klukk" »

kl. |Tilveran || Álit (4)

Knúið af Movable Type 3.33
Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.