Þegar ég renndi yfir skrif Framsóknarmanna í kvöld vakti tvennt athygli mína, fyrst dagbókarskrif kvennanna um hvert þær fóru og hvar þær voru en svosem litlar skoðanir. Síðan beitt ádeila Kristins H. Gunnarssonar á slakt fylgi kvenna við flokkinn samkvæmt nýjum mælingum Gallup. Hann kennir um frákvarfi Siv úr ráðherrastóli, Freyjumálinu í Kópavogi ásamt framkomu eigin ráðherra við fyrri jafnréttisstýru Jafnréttisstofu. Fylgi kvenna við flokkinn er skv. könnun Gallup 7% sem er minnkun um 61%. Spurning hvort inn í þetta spili líka greinarskrif Valgerðar Sverrisdóttur þar sem hún gefur til kynna að Samfylkingarmaður á áttræðisaldri hafi staðið að því að kenna fyrri forsætisráðherra Framsóknar við morð og kenna fyrrum utanríkisráðherra þeirra um brugg. Allt gerist sífellt undarlegra á þessum bæ og erfitt að átta sig á ruglingslegum skilaboðum frá flokknum. Reyndar þykir mér vefsíða Valgerðar ævinlega dálítið ruglingsleg þar sem þar virðist einhver skrifa um ráðherrann (veit ekki hver - en sjálfsagt er það sagt einhversstaðar) og síðan skrifar ráðherrann sjálfur sínar skoðanir. Já og auðvitað eins og um hinar framsóknarkonurnar hvar hún var og hvert hún fór... svona eins og að spara Séð og heyrt sporin vilji þeir skrifa um frægar Framsóknarkonur og hvar þær voru. Þetta skrifa ég auðvitað vegna þess að enginn hefur áhuga á hvert ég fer eða hvar ég fór. En svona til að troða því að þá var ég á stofnfundi kvennahreyfingar Samfylkingarinnar í Hveragerði og skemmti mér gríðarlega og alls ekki síður sem veislustjóri hjá knattspyrnudeild Þórs á laugardagskvöldið. Kannski Hjörleifur hjá Vikudegi hafi frétt af því og skrifi um það í hornið sitt því ég er ekki bjartsýn á að Séð og heyrt hafi áhuga á hvar ég var. Það má alltaf vona að Hjörleifur spreði á mig 2-3 dálksentímetrum.
Hinsvegar held ég að Framsóknarmenn þurfi ekkert að óttast slakt fylgi enda endurspeglast það yfirleitt hjá æðstráðandi í flokknum þeir segja manni að venjulega rati þeirra fylgi heim þegar kjörklefar opna og fjarar út strax á eftir. En það er jú tíminn sem kjörklefarnir eru opnir sem telur og ekkert annað og það hefur dugað þeim vel. Því ættu þeir ekkert að vera svartsýnir og ef til vill eru áhyggjur Kristins algerlega óþarfar.
Hinsvegar finnast mér Framsóknarmenn ólíkir sjálfum sér undanfarið en átta mig ekki endilega á hvers vegna. Sumir kenna um ungum og djörfum aðstoðarmönnum silkihúfanna í flokknum en aðrir að einhverjir þingmenn séu vondu kallarnir og skemmi fyrir hinum. Eftir stendur að þeir virka á mann eins og úr tengslum við almenna flokksmenn og dálítið út og suður. Þeir eru ekki endilega vissir um hvort þeir séu að bjóða fram fulltrúa í öryggisráðið fyrr en framsóknarforsætisráðherrann segir það í útlöndum, þá ályktar unga fólkið að það sé alveg rétt hjá honum og hvetur flokksmenn sína að hætta ekki við (???). Ehemm, er ekki líklegt ef forsætisráðherra Íslands segir það á fundi Sameinuðu þjóðanna að það sé eitthvað sem til stóð að gera og af hverju þarf Samband ungra Framsóknarmanna að álykta sérstaklega um að standa við það sem forsætisráðherrann segir á virtri alheimssamkomu?
Hjálmar Árnason gagnrýnir síðan heilbrigðismál (voru þau ekki á könnu Framsóknar?). Hefði hann ekki bara átt að ræða málið á þingflokksfundi?
Eitt er þó nokkuð stabílt hjá Framsóknarmönnum, þeir eyða talsvert mörgum bætum vefsíðna sinna í að skrifa um hversu ómöguleg við í Samfylkingunni eru. Það er ágætt að þeir eru þó sammála um eitthvað. Kannski kemur næst ályktun frá Sambandi ungra Framsóknarmanna um að Framsóknarmenn eigi ekki að kjósa Samfylkinguna svona rétt eins og áminningin um að styðja formanninn sinn. Það er eins gott að það er ungt og minnugt lið í flokknum sem minnir hina eldri á hverjum þeir eigi að fylgja og hvað þeir eigi að gera því aðrir virðast hafa gleymt því.
Álit (1)
Ég hef lengi haft þá kenningu að framsóknarmenn þori varla að viðurkenna það fyrir konunni í símanum að þeir ætli að kjósa framsókn. Sveiflurnar eru þá aðallega út af þessum skápa-framsóknarmönnum sem vilja bara láta skoðun sína í ljós undir nafnleynd kjörklefans. Þeir eru svo sem ekkert verri fyrir vikið, enda ber fólki engin skylda til að svara svona könnunum.
Þriðjudagur 20. september 2005 kl. 08:14
Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri