Færra hefur gert mig meira undrandi en upplestur úr tölvupósti ritstjóra Morgunblaðsins, framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins og frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins í komandi kosningum. Hvernig má það vera að menn geti þrætt sig í gegnum tölvupóst manna með þessum hætti? Sumir ásaka tölvuþjónustur og aðrir einstaklinga. Mér sýnist hinsvegar að efni tölvupósts hafi verið birt nema að innihaldið sé staðfest með einhverjum hætti. Mér finnst þó sjálfri að það sé ekki gott þegar fjölmiðlar eru komnir með einkapóst fólks og farnir að lesa sig í gegnum hann. Nú ætla ég ekki að meta innihaldið á nokkurn hátt enda er það alls ekki auðvelt mál. Fréttablaðið sagði A og nú í Morgunblaðinu í dag byrjar Styrmir á því að ýja að því að hann ætli kannski að segja B með því að tala um sinn tölvupóst.
Nú hef ég fengið tölvupóst utanríkisráðuneytisins í ákveðinn tíma og þar á meðal upplýsingar sem mér eru alls ekki ætlaðar. Sumt verulega viðkvæmar upplýsingar sem hægt væri að misnota í pólitískum tilgangi. Mér hefur þó alltaf þótt það gersamlega óverjandi og hef því ekki gert það. Það sem berst mér óvart er ekki mér ætlað og utanríkisráðuneyti landsins er utanríkisráðuneyti landsins hvort sem ég er svo heppin að minn flokkur ræður þar ríkjum eða ekki.
Nú hinsvegar ber svo við að einhver kemur tölvupósti á framfæri við fjölmiðil og hann ákveður að nýta póstinn. Hér kemur óvæntur vinkill á rannsóknarblaðamennsku sem tækni nútímans ber með sér. Andstæðingur þessa fjölmiðils bregst illa við því að pósturinn sé nýttur og segir hann þjófstolinn. Á sama tíma ræðir hann sinn eigin póst, efni sem þar sé að finna sem hann geti hugsanlega nýtt sér sjálfur. Er hann þá að "stelast" til að senda eitthvað efni sem honum er trúað fyrir eða er það allt í lagi að birta í fjölmiðli póst sem manni berst sjálfum?
Eftir stendur í mínum huga að nú virðist birtast alveg ný hlið á átakamálum í samfélaginu. Átök milli stjórnmálaflokks og þeirra valda sem forsvarsmenn hans hafa haft og auðmanna sem vilja ekki hlýta þeim lögmálum sem eldri valdablokkir hafa stjórnað í landinu. Hvor er betri eða hvort annar sé betri hef ég enga hugmynd um en ljóst er að í þessum átökum mun eitthvað þurfa að láta undan.
Siðferðileg umræða um tölvupóst er hinsvegar bráðnauðsynleg og hvernig við skilgreinum hann í opinberri umræðu. Á sama tíma hlýtur siðanefnd blaðamanna að velta fyrir sér siðferðilegri hlið málsins þ.e. meðferð Fréttablaðsins á einkapósti (staðfestum af hlutaðeigandi) og síðan þegar ritstjóri ýjar að hugsanlegu innihaldi eigin pósts (óstaðfest). Ég aftur á móti myndi vara mjög við að túlka innihald pósts sem er sendur fyrir þremur árum á annan hátt en þann að menn voru að tala saman. Síðan geta menn verið misjafnra skoðunar um hvort ákveðnir aðilar eigi að tala saman eða ekki. Á ritstjóri Morgunblaðsins að aðstoða fólk til að fá einhverju framgengt eða ekki?
Sannleikur tölvupóstsins er hinsvegar viðkvæmur það eru ákaflega margar hliðar á hverju máli. Pósturinn getur hafa komið frá einhverjum hlutaðeigandi, honum getur hafa verið stolið af tölvu einhverra þeirra sem að málinu koma, einhver þeirra getur hafa selt tölvuna sína án þess að hreinsa póst út af henni, kerfisstjórar Morgunblaðsins gætu hafað tekið póstinn. Hver sá sem hefur aðgang að tölvu allra þeirra sem voru viðtakendur póstsins gætu hafa lekið honum, allir kerfisstjórar á leið þessa pósts, og síðan allir sem hafa þjálfað sig í tölvuinnbrotum. Svo það eru margir sem koma til greina.
Hvort sannleikurinn er hinsvegar að koma í ljós hef ég ekki hugmynd um, en það er víst að þetta mál er ekki búið.
Álit (8)
Sammála flestu af þessu, góð samantekt á stöðunni :)
Mánudagur 26. september 2005 kl. 14:54
Þetta þarf ekki að vera flókið. Jónína Benediktsdóttir vann sem dálkahöfundur á DV og víða. Oft er það þannig að við starfslok hreinsa menn borð og "Skjölin mín" í tölvunni. það gerist oft að menn gleyma að eyða tölvusamskiptum. Getur verið að tölvupósturinn hafi legið í tölvu á Miklabrautinni? Hefur það verið skoðað?
Gísli Baldvinsson
Mánudagur 26. september 2005 kl. 16:19
Tja, ef þessi samskipti hafa átt sér stað í gegnum vinnunetfang Jónínu á vegum DV þá eru þau tvímælalaust til á afritum hjá því fyrirtæki. Minn skilningur er samt að þarna sé um einkagögn að ræða og því útilokar það tengsl við vinnustaði, þar sem að ef um slíkt væri að ræða þá væri pósturinn eign vinnustaðarins en ekki Jónínu.
Mánudagur 26. september 2005 kl. 17:31
Merkilegur vinkill ef þetta er starfsmannapóstur.
Mánudagur 26. september 2005 kl. 18:18
Þetta er býsna heitt mál og það er skammt stórra högga á milli. Það er ekki síst alvarlegt að fyrstu viðbrögð málsaðila eru að ásaka aðstandendur tölvufyrirtækis um að bera ábyrgð á lekanum og einnig áhyggjuefni ef einhverjir eru tilbúnir að trúa þeirri ásökun strax. Nú er það fyrirtækisins að hreinsa sig af áburðinum og ef það tekst ekki fljótt og vel þá hefur tiltrú almennings á tölvuþjónustu beðið hnekki.
Miðvikudagur 28. september 2005 kl. 09:24
Ég er sammála þér Ragnar það er mjög alvarlegt ef ásökunin liggur hjá tölvufyrirtæki og miðað við allar kröfurnar sem ég þekki hjá mörgum þeirra þá er það lang ólíklegasti staðurinn. Mannleg mistök við eigin tölvuöryggi eru yfirleitt líklegust.
Miðvikudagur 28. september 2005 kl. 10:17
Þetta er mjög einfalt mál: Það skiptir bara alls engu máli hvernig ákæru þessa máls var hrundið af stað. Jóni Gerald er það full frjálst að leita réttar síns og fá til þess aðstoð, hvar, hvenær og hvernig sem er. Það kemur íslensku þjóðinni bara ekkert við, hvaða ráðum hann fór/fer eftir. Sama má segja með Styrmi Gunnarsson: Hann má liðsinna hvaða manni sem hann vill í hvaða máli sem er, án þess að skulda íslensku þjóðinni einhverjar skýringar á því framlagi sínu. Svo er það bara ákæruvaldsins að meta það hvort glæpur hafi verið framinn og gera svo viðeigandi ráðstafanir í framhaldi af því.
Mér finnst líklegt að flestir þeir er þurfa að kæra annað fólk, leyti ráða hvernig staðið skuli að slíkri kæru og er það algjört aukaatriði málsins hvort og þá hvernig slík ráðgjöf er fengin.
Miðvikudagur 28. september 2005 kl. 15:19
Vegna athugasemdar þinnar HH þá hef ég engri skoðun lýst á Baugsmálinu og stefni ekki að því að gera það. Dómsvaldið er með málið á sinni könnu.
Þessu innleggi var ætlað að velta upp hlutverki tölvupósta og annarra rafrænna upplýsinga og meðhöndlun þeirra. Það er mál sem mér er hugleikið og þykir áhugavert að skoða í ýmsu samhengi. Í innlegginu er heldur ekki verið að meta hver sendir hverjum tölvupóst um hvað heldur þegar póstur fer eitthvað annað en hann átti upphaflega að fara. Síðan hvernig er hægt að nota póst sem sendur er á einhverjum tilteknum tíma á öðrum tíma og stundum í öðru samhengi. Ég ætla ekki að meta hér hvort einhver á eða á ekki að senda öðrum tölvupóst enda getur slík sending verið til manns í ákveðnu hlutverki t.d. sem ritstjóra eða einfaldlega vegna vináttu eða kunningsskapar. Þá kemur upp sá flötur hvernig einstaklingar geta eða mega nota pósthólf sem þeir fá afhent í vinnunni sinni. Formlega á atvinnuveitandinn pósthólfið en hefur samt sem áður ekki heimild til að grandskoða póst starfsmanna.
Með aukinni tækninotkun koma upp nýjir fletir og ég hef ekki áður séð tölvupóst gerðan að þungamiðju máls eins og bæði Morgunblaðið og Fréttablaðið hafa gert í Baugsmálinu hvort á sinn hátt.
Ég hallast að þeirri skoðun að tölvupóst sem ekki er gefin heimild til að birta eða sýna öðrum en þeim sem hann er ætlaður sé einkamál viðkomandi. Eitt er hvort lögregla rannsakar slík samskipti í sakamáli en annað er þegar fjölmiðlar rannsaka tölvupóst. Er það rannsóknarblaðamennska? Mér finnst það líkjast hlerun símtala, upptöku á símtölum annarra og varðveislu slíkra upplýsinga. En sé það staðfest við fjölmiðil af viðkomandi að hann hafi sent eða fengið tölvupóst um tiltekið efni er það þá birtingarhæft? Það er á valdi viðkomandi að staðfesta eða synja tilsvörum um einkagögn.
Þetta eru allt áhugaverðar spurningar sem mér finnst mikilvægt að velta upp og geri það í innlegginu mínu.
Miðvikudagur 28. september 2005 kl. 15:45
Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri