Færslur í október 2005
« september 2005 | Forsíða | nóvember 2005 »
Laugardagur 1. október 2005
Ég fór á tónleika með Sissel Kirkebø í Háskólabíó í gærkveldi sem voru stórkostlegir. Rödd þessarar konu er íðilfögur og með sér hafði hún frábæran kvennakór, symfóníu og hljómsveit sína. Skipulagið á tónleikunum var einnig mjög gott hún nýtti tímann vel og á meðan hún hvíldist smástund söng kórinn. Þannig var ekkert hlé. Sérstaka athygli mína vakti að hún talaði á norsku (ekkert að tala við landann á ensku) og lögin sem hún valdi voru nánast öll norræn og þar á meðal íslenskt. Þetta þótti mér gaman og þar með varð þetta kvöld ekki bara frábær söngveisla heldur líka norræn menningarhátíð sem auðgaði sálina svo um munaði.
Laugardagur 1. október 2005
Átök stjórnarliða í Morgunblaðinu?
Mér þótti miðja Morgunblaðsins í morgun dálítið átakamikil sem ég las yfir tebollanum mínum á Pottinum og pönnunni sem er morgunverðarsalur hins ágæta Hótels Bjarkar í Reykjavík (sem ég mæli nú reyndar með í leiðinni). Þrír þingmenn Framsóknarflokksins þar af tveir ráðherrar trítla þar um tún og minna þjóðina á ýmist á að "viðhalda stöðugleika" (???), viðbrögð við peningastefnunni, já og hvað gott er hægt að gera fyrir Símaauðinn. Á sama tíma eru þar greinar um þing Alþýðusambands Norðurlands um kaupmáttarrýrnun og leiðari Morgunblaðisins gagnrýnir peningastjórn landsins harðlega. Eru menn í stjórnarsænginni farnir að glíma á síðum Morgunblaðsins leynt og ljóst?
Miðvikudagur 5. október 2005
Ég segi já!
Ég er búin að velta sameiningu sveitarfélaga talsvert fyrir mér, mismunandi sjónarmiðum, möguleikum og vandamálum. Ég fór á fund um sameiningarmál í Hörgárbyggð eins og ég hef áður skrifað um og í gærkveldi á Akureyri. Eftir að hafa vegið og metið kosti og galla tel ég að sameining sé góður kostur. Á sama tíma þarf að hafa í huga að það eru kosningar næsta vor sem væru þá í nýju sveitarfélagi og þá er áríðandi að velja til forystu fólk sem vinnur vel að uppbyggingu á öllu Eyjafjarðarsvæðinu. Akureyri getur ekki - og má ekki - valta yfir önnur svæði en leggja þarf áhersu á samstarf og samvinnu frá öllum svæðum Eyjafjarðar. S.k. hverfisnefndir sem hafa áhrif eru grundvallarforsenda og mikilvægt að ráðandi aðilar beri meiri virðingu fyrir þeim en núverandi bæjarstjórn á Akureyri hefur gert.
Sunnudagur 9. október 2005
Þriðjudagur 11. október 2005
Dómstólar gamaldags og úreltir?
Í annað skipti á tiltölulega stuttum tíma verða mál tengd Netinu hitamál í samfélaginu. Fyrir stuttu var það tölvupóstur en nú lögsókn vegna skrifa á vefsíðu sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson skrifar á. Þar sem ég hef komið að nokkrum málum tengd vefskrifum þá er þetta mál áhugavert. Maður búsettur á Íslandi er dæmdur á Bretlandseyjum fyrir skrif á síðu sem er á Íslandi en merkilegt nokk ekki skrifuð á íslensku fyrir Íslendinga heldur á ensku fyrir útlendinga. Þar með er markmiðið greinilega lesendur sem lesa enska tungu og geta ekki stautað sig fram úr ástkæra ylhýra móðurmálinu. Hver er lögsagan yfir slíkum skrifum og hver er réttur manna til að verjast ummælum sem þeir sætta sig ekki við og hver er réttur þess sem skrifar?
Miðvikudagur 12. október 2005
Mamma mín og MND
Nú er mikil umræða um þennan óhugnanlega sjúkdóm sem mamma fékk en hún dó í nóvember 1987 um ári eftir að sjúkdómurinn greindist. Mamma hét Sveinsína Tryggvadóttir og var kölluð Sísí. Hún var kraftmikil kona og varð fyrst vör við eitthvað óeðlilegt í fjallgöngu við Siglufjörð þá 50 ára. Ég hafði aldrei heyrt um þennan sjúkdóm, skildi hann ekki og horfði máttvana á mömmu rýrna, missa orku, verða bjargarlausa og deyja á einu ári.
Sunnudagur 16. október 2005
Ágætt hjá bæjarstjóranum
Bæjarstjórinn okkar hér á Akureyri stóð sig bara vel í varaformannskjörinu hjá Sjálfstæðismönnum. Miðað við yfirlýsingar þungaviktarmanna og merkja um "miðstýringu" atkvæða þá fékk hann talsverðan stuðning eða 36,3%. Þetta verður að taljast harla gott.
Annars virðist fundur Sjálfstæðismanna bara hafa gengið ljómandi vel en nú verður fróðlegt að fylgjast með með hvernig nýrri forystu text að taka við flokki sem Davíð Oddsson hefur stýrt með járnaga í langan tíma.
Annars virðist fundur Sjálfstæðismanna bara hafa gengið ljómandi vel en nú verður fróðlegt að fylgjast með með hvernig nýrri forystu text að taka við flokki sem Davíð Oddsson hefur stýrt með járnaga í langan tíma.
Mánudagur 24. október 2005
Berjumst konur! Látum ekki plata okkur!
Það var virkilega hvetjandi að taka þátt í kvennafríinu í dag sem gaf manni aukinn kraft og trú á að við konur missum ekki móðinn þó hægt gangi og berjumst áfram fyrri jafnrétti. Það er ömurlegt að hlusta á setningar eins og "konur velja sér bara svoleiðis vinnu". Hver segir að vinnan við að kenna börnum á leikskóla eigi að vera "svoleiðis vinna??? Konur á Akureyri eru vegna erfiðisvinnu frekar öryrkjar en á nokkrum öðrum stað á landinu og launaleynd felur muninn svo konur eru "plataðar" til að halda að þær séu bara nokkuð vel launaðar.
Continue reading "Berjumst konur! Látum ekki plata okkur!" »
Laugardagur 29. október 2005
Prófkjör í Samfylkingunni
Síðast liðna viku hef ég verið á kafi í vinnu við prófkjör Samfylkingarinnar á Akureyri. Ég var fyrst formaður nefndar sem vann að reglum fyrir prófkjörið og síðan formaður prófkjörsnefndar. Prófkjörið hefur gengið afar vel í framboði eru tólf einstaklingar allir mjög efnilegir á framboðslista flokksins. Í dag var opinn fundur með frambjóðendum í Lárusarhúsi og mættu milli 40 og 50 manns sem mér þótti afar gott. Frambjóðendur eru mjög duglegir í þessu krefjandi hlutverki enda fátt erfiðara en að keppa við félaga sína og vini um sæti á lista. Þau standa vel saman í framboðinu á sama tíma og þau eru að keppa sín á milli. Það verður spennandi að sjá hvernig þetta allt fer en kjördagur er eftir viku þann 5. nóvember. Ég er búin að læra heilmikið á þessu hingað til og á örugglega eftir að læra miklu meira áður en prófkjörið er búið;-)
Sunnudagur 30. október 2005
Papalangi
Ég glugga stundum í bókina Papalangi (Hvíti maðurinn) sem er skrifuð af Eric Scheurmann eftir ræðum Tuiaviis höfðingja frá bænum Tiavea sem er á Upolu eyju í Samoa eyjaklasanum. Í morgun las ég kaflann "Um málmskífur og þungpappír" þar sem Tuivaiis er að útskýra peninganotkun Evrópumanna fyrir sínu fólki. Hann kallar peningana Guð hins hvíta manns . Hugsanir svo ólíkar því sem maður þekkir hafa þann góða eiginleika að rífa hugann upp úr hefðbundnum farvegi og fá mann til að líta yfir eigin þekkingu sem e.t.v. hafði verið ómeðvitaður þáttur hugsunar, viðmið án gagnrýni og endurskoðunar. Lítill kafli í lítilli bók getur fengið mann til að hugsa og ég mun að öllum líkindum velta fyrir mér hlutverki peninga í nokkra daga.
Knúið af Movable Type 3.33

Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is
www.flickr.com |
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is
Email: lara [at] lara.is

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.