Það var virkilega hvetjandi að taka þátt í kvennafríinu í dag sem gaf manni aukinn kraft og trú á að við konur missum ekki móðinn þó hægt gangi og berjumst áfram fyrri jafnrétti. Það er ömurlegt að hlusta á setningar eins og "konur velja sér bara svoleiðis vinnu". Hver segir að vinnan við að kenna börnum á leikskóla eigi að vera "svoleiðis vinna??? Konur á Akureyri eru vegna erfiðisvinnu frekar öryrkjar en á nokkrum öðrum stað á landinu og launaleynd felur muninn svo konur eru "plataðar" til að halda að þær séu bara nokkuð vel launaðar.
Ástandið á leikskólum Reykjavíkur ætti að vera okkur öllum hörð áminning um hvað samfélagið er að gera konum og um leið börnunum sem þar stunda nám. Ekki má gleyma áhrifunum á fjölskyldur. Ekkert - nákvæmlega ekkert - virðist gera það að verkum að fólk fái nóg. Hversu lengi sættum við okkur við þetta? Ég tek undir með Steinunni Valdísi Óskarsdóttur borgarstjóra Reykjavíkur þegar hún hvetur til þjóðarsáttar um að leiðrétta laun kvennastétta umfram aðrar stéttir. Það er svo sannarlega kominn tími til.
Í síðustu viku hlustaði ég á kynningu frá starfsmönnum félagsþjónustunnar hér á Akureyri. Þar kom fram að konur á Akureyri eru í meira mæli öryrkjar en nokkrar aðrar konur í landinu. Þetta telja menn að sé vegna þess að konur hér hafa unnið erfiðisstörf í verksmiðjum um langan aldur og séu því slitnar og starfsorka þeirra skert. Það þarf að hafa í huga þegar verið er að byggja upp atvinnu á landsbyggðinni.
Launaleynd er orðin alþekkt fyrirbæri á Íslandi. Allt er leyndarmál og þannig má launa konur lægra en karla. Launamunurinn er staðreynd og því ættu konur að ganga út frá því sem vísu og biðja um launahækkanir sem svarar þeim launamun sem rannsóknir sýna að sé munur á konum og körlum. Þessi launamunur er oft útskýrður með s.k. "jafnaðarlaunum" þ.e. að ætlast sé til lengri vinnutíma á móti. Jafnaðarlaun eru líklega hættulegust launin sem samið er um því ég þekki til dæmis þar sem maður sem taldi sig hálaunamann reyndist vera með minna en lágmarkslaun þegar tímarnir voru taldir saman.
En dagurinn í dag minnir okkur á konur, berjumst allar saman, ekki láta plata okkur með fullyrðingum sem hafa platað okkur svo lengi.
Álit (4)
Heyr heyr....kv. litla stelpan
Mánudagur 24. október 2005 kl. 21:40
Ég er sammála. Hendum launaleyndinni, hún er bara til trafala.
Þriðjudagur 25. október 2005 kl. 08:59
Ég hef nú persónulega aldei heyrt almennileg rök fyrir launaleynd, gersamlega ofar mínum skilningi af hverju slíkt má ekki bara vera opið öllum, hvort sem það er í einkageiranum eða annarsstaðar.
Nú... ef að atvinnurekendur vilja borga körlum hærri laun, þá hljóta þeir bara að vera með frambærileg rök fyrir því þegar að konan kemur og spyr... eða hvað?
Finnst alltaf góður brandarinn um kynskiptinginn sem að vinir spurðu, píndir á svip, spjörunum úr hvað hefði nú verið sársaukafyllst við aðgerðina... þegar að, þið vitið, var skorið af, eða hvað? Nei, hinn fyrrum karlmaður, nú kona, svaraði því til að sársaukafyllst hefði verið þegar launin voru skorin.... niður.
Miðvikudagur 26. október 2005 kl. 15:43
Það er reynt að réttlæt launaleynd með ýmsum hætti. Flest er það til að auka hag vinnuveitenda. Þ.e. geta "platað" fólk til að samþykkja laun sem eru lægri en ástæða er til með því að útiloka eðlilegan samanburð. Þetta bitnar verst á þeim sem eru að gera einstaklingssamninga og eru með lægri væntingar til launa.
Ég hef hins vegar ekkert fundið jákvætt við þetta gagnvart starfsmanninum. Skapar óvissu, gerir fólki erfiðara fyrir með að meta sanngirni (equity) á vinnustað o.s.frv.
Það er ríkjandi launleynd á mínum vinnustað og mér finnst það hreinlega ekki gera neitt gott fyrir starfsfólkið.
Mér finnst einkennilegt að þetta haldi velli eins og ástandið er í lagi. Vinnumarkaðurinn er fyrir flesta markaður seljenda í dag.
Föstudagur 28. október 2005 kl. 10:51
Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri