« Í Dublin | Aðalsíða | Mamma mín og MND »

Þriðjudagur 11. október 2005

Dómstólar gamaldags og úreltir?

Í annað skipti á tiltölulega stuttum tíma verða mál tengd Netinu hitamál í samfélaginu. Fyrir stuttu var það tölvupóstur en nú lögsókn vegna skrifa á vefsíðu sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson skrifar á. Þar sem ég hef komið að nokkrum málum tengd vefskrifum þá er þetta mál áhugavert. Maður búsettur á Íslandi er dæmdur á Bretlandseyjum fyrir skrif á síðu sem er á Íslandi en merkilegt nokk ekki skrifuð á íslensku fyrir Íslendinga heldur á ensku fyrir útlendinga. Þar með er markmiðið greinilega lesendur sem lesa enska tungu og geta ekki stautað sig fram úr ástkæra ylhýra móðurmálinu. Hver er lögsagan yfir slíkum skrifum og hver er réttur manna til að verjast ummælum sem þeir sætta sig ekki við og hver er réttur þess sem skrifar?


Í þessum skrifum ætla ég ekki að hafa skoðun á dómsmálinu, né heldur ummælunum sem málið snýst um. Hinsvegar vil ég velta því upp hvort við séum að sjá birtast regluverk um Netið sem ekki hefur verið augljóst áður. Eðlilegast er í upphafi að álykta að vefefni sem skrifað er af Íslendingi á Íslandi heyri undir íslenska dómstóla. Sé efnið hinsvegar augljóslega ætluð lesendum sem ekki eru á landinu hver er þá réttur þeirra sem búsettir eru erlendis? Eiga þeir að sækja málið á Íslandi eða í sínu heimalandi? Eða kannski bara einhverju landi sem þeir velja sér þar sem þeir telja líklegt að niðurstaðan verði þeim í vil?

Í þessu tilfelli er málið sótt í því landi sem ákærandi hefur heimilisfestu og þar fæst niðurstaða. Þá er spurningin hvort dómurinn hefur áhrif í öðru landi þar sem hinn ákærði býr? Hér hlýtur að reyna á milliríkjasamninga sem eru fyrir hendi. Ætla menn að láta þá gilda eða ætla menn að hafa önnur lög milli ríkja sé sakamálið tengt Netinu?

Hér held ég að kjarni málsins sé kominn. Við erum illa undirbúin undir mál af þessu tagi og erum sjálfsagt ekki ein um það. Ég þekki ekki alla króka lagasetninga af þessu tagi í veröldinni en það væri afar gott að fá upplýsingar um það frá fróðum um þessi efni.

Sem dæmi um mál sem hafa komið inn á borð hjá mér sem kerfisstjóra var til dæmis klámfengið einelti netnotanda á Íslandi gagnvart ungri ástralskri stúlku. Í þessu tilfelli lánaði notandinn syni sínum netfangið sem reyndist hinn eiginlegi eineltir. Þá er spurningin, hafi verið um raunverulegt brot að ræða hvar hefði átt að sækja það og af hverjum? Geta foreldrar í Ástralíu sótt mál til varnar stúlkunni fyrir dómstólum á Íslandi? Geta þeir gert það í Ástralíu gegn manni sem búsettur er á Íslandi?

Annað mál sem líka kom inn á borð til mín voru grófar árásir á unga stúlku, enn og aftur talsvert klámfengið efni sem skrifað var frá Íslandi á vefsíðu í Bandaríkjunum. Hvar ætti að sækja slíkt mál? Þar sem vefsíðan er hýst í þessu tilfelli í Bandaríkjunum? Í landinu þar sem bæði sá er skrifaði efnið og sá er varð fyrir skrifunum eru búsettir? Vinnist sigur gegn þeim sem skrifaði er þá hægt með einhverjum hætti að stöðva dreifingu efnisins á bandarískum vefmiðli?

Enn eitt málið eru síðan einföld dæmi eins og vefsíður ólögráða ungmenna sem notaðar eru til árása og eineltis á jafnaldra. Hver sem er getur stofnað sér vefsíðu og ekki er ætlast til undirritunar forráðamanna um að ólögráða ungmenni megi stofna og halda úti vefsíðu. Er það rétt? Hver getur gripið inn í svona mál og verði kært hver er þá réttur eða skylda þess sem hýsir viðkomandi vefsíðu?

Öll þessi mál eru þess eðlis að nauðsynlegt er að ræða sig að niðurstöðu hvernig eigi að fást við kærur og afbrot þegar Netið er notað til afbrota. Menn þurfa með einföldum hætti að geta varið sig frá því landi sem þeir eru búsettir en einnig að sækja mál frá landi þar sem þeir eru búsettir og síðan að hafa inn í dómsmálinu landið þar sem viðkomandi efni er hýst eigi það við.

Eru hefðbundnir dómstólar ef til vill úreltir? Vantar dómstóla fyrir nútímann og regluverk í kringum þá? Nú þætti mér gott að fá álit manna á þessu efni þar sem þetta hefur verið mér hugleikið í mörg ár án þess að nokkur hafi treyst sér til að skera úr um mál af þessu tagi.

kl. |Pólitík / UT / Um blogg

Álit (14)

Dómstólar eru ekki úrleltir og nauðsynlegur partur af samfélagi okkar - en þeir eru eins og aðrar stofnanir samfélagsins búnir til fyrir allt öðru vísi samfélag - ekki fyrir netsamfélagið þar sem fólk lifir og tjáir sig í rými sem þekkir engin landamæri.

Það verður erfitt að samræma tjáningarfrelsi og að það verði strangari hömlur settar á Internetið. Ég held að það sé töpuð barátta fyrirfram að setja strangari alþjóðlegar reglur - það er ekki hægt nema verða eins og Kína og breytast í alræðisríki - það er sennilega langt best að hafa mjög frjálsar reglur um tjáningu á Interneti - en að takmarka með einhverjum hætti dreifinguna innan landsvæða sem sameiginleg lög gilda um... t.d varðandi klám, efni sem virðir ekki höfundarrétt oþh - það er hægt sækja til saka fjóra aðila á Internetinu, þann sem er uppspretta inntaksins, þann sem flytur inntakið, þann sem geymir inntakið og þann sem les eða notar inntakið. Á þessum miklu breytingatímum sem eru núna þá er sennilega best fyrir alla framþróun að þeir sem sjá um eftirlit með lögum og dómskerfi sé ekki mjög aðgangshart. Við erum að fara inn í tíma þar sem hakkaramentalitet er ekki eðli glæpamannsins heldur partur af því netumhverfi sem fleytir framþróuninni áfram.

Þriðjudagur 11. október 2005 kl. 12:49

Katrín:

Er ekki málið að kynna sér kannski málið áður en þú slengir fram allskonar fullyrðingum um fánýti dómstólanna? Lestu grein Ragnars Aðalsteinssonar í Fréttablaðinu í dag, þar er ágætis inngangur að þessu.

Þriðjudagur 11. október 2005 kl. 13:40

Ég les nú ekki út úr fyrirsögn Láru að hún sé þeirrar skoðunar að "dómstólar séu úreltir og gamaldags". Það verður nefnilega að lesa spurningarmerkið með fyrirsögninni. (Sjá einnig um þýðingu spurningarmerkis í bókinni Fjölmæli e. Gunnar Th.)
Reynar er margt hægt að uppfæra úr bók Gunnars og inn í íslenskar réttarheimildir. En Lára veltir hér upp stórmerkilegu lögfræðilegu, siðlegu og heimspekilegu efni sem þyrft að skoða - jafnvel efni í ráðstefnu.
En...ef áfram er lesið út úr ummælum manna... þá get ég ekki lesið annað út úr vefskrifum dómsmálaráðherra en að áfram verði haldið Baugsklúðrinu. Þar getur hann ekki falið sig á bak við það að skoðanir sínar á heimasíðu séu starfi hans óviðkomandi. Er það annars? Dómar hafa fallið um opinberar persónur. Dæmi um slíkt er Kjartan Gunnarsson, fasteigangrósser.
Gísli B

Þriðjudagur 11. október 2005 kl. 15:19

Takk fyrir innleggið Salvör, ég er sammála þér að hér ber að fara verulega varlega. Þankar mínir fara hinsvegar í að velta fyrir mér hvernig hægt er að leysa þessi mál án þess að kostnaður þeirra sem þurfa að standa í hugsanlegum málaferlum fari algerlega úr böndunum vegna fjarlægðar milli heimalanda þeirra sem eru að takast á.

Síðan er hinsvegar tjáningarfrelsið, reglur um það eru verulega mismunandi frá landi til lands og frá menningarsvæði til menningarsvæðis. Flestir eru með einhver lög um hvað flokkast sem meiðyrði og hver viðurlögin eru. Eiga aðrar reglur að gilda um það sem er á netinu?

Þriðjudagur 11. október 2005 kl. 15:35

Katrín,
ég hef ekki fullyrt neitt ég spyr, og velti fyrir mér, hvort lög gagnist ekki í málum er tengjast Netinu og þar af leiðandi geti dómstólar í núverandi mynd verið úreltir og nauðsynlegt að huga að breytingum. Mér þykir mjög gagnlegt að fá viðbrögð frá þeim sem líka eru að hugsa þessi mál. Kíki á greinina sem þú bendir á, takk fyrir ábendinguna.

Þriðjudagur 11. október 2005 kl. 15:39

Gísli,
þetta er áhugaverður flötur, tengist það sem þú skrifar á heimasíðu þína vinnunni þinni eða ekki? Er heimasíðan gefin upp í starfi þínu eða á vinnustað? Ef svo tengist þetta tvennt? Var ekki verið að reka mann sem skrifaði eitthvað á heimasíðu sína sem ekki þótti ásættanlegt?

Þriðjudagur 11. október 2005 kl. 15:45

Heimasíða mín og vinnusíða eru nánast ótengdar, spurðu Hildu! Ég get staðfest það að margt sem ég hef skrifað á MINNI heimasíðu er ekki valdamönnum þóknanlegt. Get einnig staðfest að ég þekki mann sem var rekinn fyrri skriftir á heimasíðu.
GísliB

Þriðjudagur 11. október 2005 kl. 16:25

thorby:

Hvað með þessi bréf sem ég fann í einhverjum Skyrr listum, meðal annars bréf frá þér og fleirum, er þetta löglegt ? Eða eru fleiri internetþjónustur með svona lista, getur maður búist við að sjá bréf frá sér á netinu, ég er hjá Símanum ? Bara svona smá forvitni.

Þriðjudagur 11. október 2005 kl. 19:41

Ég veit ekki hvaða bréf þú átt við en ef það eru bréf á einhverja opinbera póstlista þá já getur það verið fullkomlega löglegt. Opinberir póstlistar eru svipaðir og spjallborð eða ráðstefnur. Ég veit að Menntanetið og fleiri eru með slíka lista.

Þriðjudagur 11. október 2005 kl. 21:13

thorby:

Það eru einhverjir svona listar sem ég var að spá í, varð svo hissa þegar ég sá þetta, því þetta er alveg eins og bréf. En þetta er þá löglegt, þetta eru nú svo sem engin persónuleg einkabréf sýnist mér.

http://listar.skyrr.is/pipermail/tol-3f/2002-February/000007.html

http://listar.skyrr.is/pipermail/tol-3f.mbox/tol-3f.mbox

Þriðjudagur 11. október 2005 kl. 21:32

Þetta er opinber póstlisti 3F-Félags um upplýsingatækni og menntun og umræðan opinber líkt og á spjallfundi á Netinu sem er öllum opin og aðgengileg. Mig minnir að það sé hægt að stilla hvort menn komast inn eða ekki í þessu kerfi en það er misjafnt milli póstlistakerfa. Menn geta flett í gamalli umræðu en þarna á hún að fjalla um hagnýtingu upplýsingatækni í námi og skólastarfi og árið 2002 sem þú vísar í er ég formaður þess félags.

Þriðjudagur 11. október 2005 kl. 22:45

Bara til að bæta einu við að umræðan t.d á Barnalandi sem ég gagnrýndi um daginn er einmitt uppflettanleg, ég veit ekki hversu lengi en það er hægt að þræða sig í gegnum umræðuna í talsvert langan tíma og kryfja ákveðna einstaklinga og þá sem þeir skrifa um þar inni. Það er hægt að vita talsvert mikið um einstaklinga sem yfir höfuð eru í Netheimum. Ég frétti til dæmis oft eitthvað um mig með því að fletta mér upp í Google - svona talandi um einkalíf og þessháttar;-)

Þriðjudagur 11. október 2005 kl. 22:50

thorby:

Já, ég er ekkert að gagnrýna þig fyrir eitt né neitt, ég einmitt fylgdist með Barnalandsumræðunni og sá þá að þú veist ansi mikið um einmitt svona tölvumál og hefur áhuga á þessu.
En ég fór að spá í þetta af því ég var að gera heimasíðu og setti teljara þar inn, svo nú get ég séð allar IP tölur sem koma á síðuna. Og af því ég var svo forvitin hverjir þetta væru, þá fór ég að skoða þetta með IP tölurnar. Er hægt að finna út frá IP tölu hvaða einstaklingur kemur inn á síðuna, bara svona fyrir forvitnis sakir. Ekki þannig að maður þurfi að fá einhverja lögregluheimild, því þetta fólk er ekkert að gera af sér, ég get séð hjá hvaða "server" þessir einstaklingar eru, frá hvaða löndum, og stundum ef þeir koma beint af annarri heimasíðu. En er hægt að skella einhvers staðar inn IP tölu og finna út nákvæmlega hver þetta er, eða frá hvaða tölvu þetta kemur ?

Þriðjudagur 11. október 2005 kl. 23:10

Blessuð vertu ég tók þetta ekki sem gagnrýni heldur sem vangaveltur og var líka forvitin hvað þú áttir við. Já það er hægt að finna hvaðan IP tala kemur EN hún getur svosem verið falin bak við ákveðið net þar sem henni er úthlutað tilviljanakennt en ákveðnar logskrár geta fundið út hver er hvað. Svo er bara dæmið að fá viðkomandi veitu til að gefa upp hver er hvað ... sumsé hægt en á sama tíma ekkert sérstaklega auðveld þar sem stundum þarf að kæra til að finna út hver á í hlut.

Miðvikudagur 12. október 2005 kl. 00:06

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.