Ég erbúin að horfa talsvert á auglýsingu Símans sem ber titilinn "Sælir eru hófsamir". Heimilisfaðirinn liggur að því er virðist dauður fyrir framan jólatréð og pakkana en dæturnar tvær (varla konan hún er svo ung) eru glaðar og brosandi með pakka og síma. Af brosinu á stúlkukindinni að dæma er hún ekki að hringja í 112 þó pabbi sé dauður. Nú er spurningin hvort pabbi keyrði sig út fyrir jólin til að geta keypt símagóðgæti fyrir telpurnar sínar og hafi andast á endasprettinum.
Nú svo má skilja þessa auglýsingu þannig að stúlkan hafi pantað pabba í símanum og hann hafi verið afhentur rétt í þessu og ekki búið að skrúfa hann í gang.
Kannski hafði karlinn bara étið svona mikið af jólamatnum og þess vegna hafi hann liðið útaf og dótturinni þyki það þrælfyndið og sé í rauninni að hringja í 112. Þeirri yngri er alveg sama því hún er bara brosandi að opna næsta pakkann sinn.
Svo er næsti möguleiki tengdur þeirri hendi eldri stúlkunnar sem ekki er á símanum því hún virðist vera þar að moka upp góðgæti. Kannski er hún að fóðra föður sinn til bana. Allavega liggur hann nokkuð beint við fóðrun af því tagi.
Svo má að síðustu kannski skilja þetta þannig að menn séu úrvinda eftir fjármögnun á einkavæddu fyrirtæki Símans og séu því dauðir.
Ég er allavega mát og skil betur auglýsingu Kúnígúnd sem segir bara "Gleðileg jól og takk fyrir viðskiptin á árinu". Mjög skiljanleg og falleg en ekki til mín því ég verslaði ekki þar á árinu. Miklu skiljanlegra en dauðir fjölskyldufeður eða hvað finnst ykkur?
Álit (3)
Mér finnst ofátskenningin líklegust - en pöntunarkenningin óneitanlega skemmtilegri.
Fimmtudagur 22. desember 2005 kl. 17:27
Já það er ekki ólíklegt en auglýsingin er mér annars alveg óskiljanleg - en það er kannski minn eigin einfaldleiki;-)
Fimmtudagur 22. desember 2005 kl. 19:38
Gleðileg jól Lára, skilaðu kveðju á fjölskylduna og njóttu jólanna.
Laugardagur 24. desember 2005 kl. 14:39
Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri