Eftir ferð mína til Bretlands um daginn að skoða hvað hátækifyrirtækjum stendur til boða í því landi hef ég verið mjög hugsi yfir því hvort það sé yfir höfuð skynsamlegt fyrir þessi fyrirtæki að vera hér á landi þar sem rekstrarforsendur eru allar aðrar. Ríkisstjórn Kanada bjóða þessum fyrirtækjum einnig alskyns fyrirgreiðslu og þangað eru einhver fyrirtæki farin frá Íslandi. Á sama tíma er Netsamband við Ísland ótraust og þau fyrirtæki sem eru hér eiga erfitt með að afhenda vöru sína um netið og verða því að flytja gögnin úr landi og hafa þau á tölvum í löndum þar sem netsamband er tryggara. Við erum á hættulegri braut - stórhættulegri. Hátæknifyrirtækin eru alls ekki bara fyrir háskólamenn því háskólamenntaðir starfsmenn eru frá 20%-70% starfsmanna.
Gengi krónunnar gerir restur útflutningsfyrirtækja afar erfiðan og við það aukast enn líkurnar á að fyrirtæki í útflutningi fari úr landi. Hátækifyrirtækin eru okkur verulega mikilvæg og ekki má gleyma að s.k. 11.tbl. 11. árg. Íslensks iðnaðar hafa þau skapað 3500 ný störf eða 20% allra nýrra starfa í landinu. Þau öfluðu 7% gjaldeyristekna árið 2004 og lögðu um 10 milljarða króna í rannsókna- og þróunarstarf árið 2003. Aukinheldur má rekja um 10% aukningar landsframleiðslu frá 1990 til hátæknifyrirtækjanna. Þrátt fyrir þetta er Ísland með eitt lægsta hlutfall hátæknivara í vöruútflutningi landa innan OECD.
Við erum smá saman að grafa okkar eigin gröf ef við ekki náum að þróast og byggja upp okkar eigin störf í nútímanum. Forsendur íslenskra fyrirtækja í hátækniiðnaði eru raunalegar miðað við sambærileg fyrirtæki í Kanada og Bretlandi. Með stefnuleysi stjórnvalda á þessu sviði má telja líklegt að nýsköpun og hátækni verði eitthvað sem við heyrum bara frá í útlöndum en ekki hér heima. Nú er brýnt að grípa til kröftugra aðgerða á þessu sviði svo Ísland verið samkeppnishæft um okkar eigið fólk og okkar eigið hugvit.
Álit (13)
Já er nú ekki betra að fá bara raforkuverk og álið frekar en einhverja lúðalega menntamenn og besservissera ;)?
Þriðjudagur 6. desember 2005 kl. 10:50
Nah, ég held að það sé misskilningur að allir þurfi að vera svo fjarskamikið menntaðir í kringum þennan tæknigeira. Það er alskyns fólk sem þarf í kringum það svo ekki sé gleymt menningu og listum sem þessir hátækninördar vilja gjarnan hafa í kringum sig. Var mjög hrifin af The Boho Zone sem menn eru að skapa í norðaustur Englandi til að laða að sér þá sem eru í tölvugrafík.
Þriðjudagur 6. desember 2005 kl. 11:13
Það er líka bara svo miklu þægilegra að reikna út þjóðhagslega hagkvæmni stóriðju heldur en þekkingariðju ;)
Mér finnst alveg skelfilegt að það sé verið að flæma þessi hugsanlega mjög arðsömu fyrirtæki úr landi og merki um bananalýðveldishugsunarhátt (langt orð?).
Þriðjudagur 6. desember 2005 kl. 14:25
Ég sé svosem enga ástæðu til að skapa neikvætt orð úr þeim löndum sem framleiða banana. En einfeldninsháttur varðandi nútímastörf er orðinn býsna alvarlegur. Þróun atvinnuhátta er og hefur alltaf verið grundvallarforsenda þróunar ríkja í átt að meiri arðsemi og ábata fyrir þegnana. Áhrif tækninnar á atvinnu manna er mikil og það þarf að taka ábyrgð á því gagnvart íslensku samfélagi.
Þriðjudagur 6. desember 2005 kl. 14:38
Tryggvi; það er miklu auðveldara að ljúga þjóðhagslega hagkvæmni útúr stóriðju þar sem allar tölur eru leyndarmál og fullt af breytum er sleppt.
Þriðjudagur 6. desember 2005 kl. 14:50
Enda hefur bananlýðsveldis-orðið held ég minnst með framleiðslu á bönunum að gera í dag ;) En satt með nútímastörfin, af hverju er endalaust verið að fjárfesta í fortíðarstörfum? Æ nú er maður orðinn eins og biluð plata.
En Gunnar, ég held að það sé einmitt auðveldara að ljúga þegar það er eitthvað óræðið eins og þekking sem er verið að búa til, svona ef maður hefur smá ímyndunarafl og góðan penna...
Það er hins vegar auðvelt að meta "hagnaðinn" af stóriðju en ekki að sama skapi jafn auðvelt að meta kostnaðinn, t.d. aukinn kostnað við löggæslu og heilbrigðisþjónustu á Austurlandi... Þess vegna verða útreikningar mjög skekktir.
Þriðjudagur 6. desember 2005 kl. 16:14
Varðandi stórfyrirtæki erlendra stórfyrirtækja hef ég mestar áhyggjur af flutningi þeirra til og frá í veröldinni. Í ferð minni til Bretlands um daginn um tækni- og vísindagarða kom nokkrum sinnum fram það sjónarmið að stóriðja skapaði ekki ný störf heldur flytti til störf. Ég dvaldi dálítið við þá hugsun og verð að viðurkenna að það er heilmikið til í því. Í alþjóðavæðingunni þá rekur alþjóðafyrirtækið framleiðslu sína þar sem hún er arðbærust. Minnki arðsemin, eða hagkvæmni, er framleiðslan einfaldlega flutt eitthvað annað. Þetta er mjög sýnilegt í rekstri t.d. Alcoa þar sem þeir loka verksmiðjum og opna nýjar hér og þar um heiminn. Þannig má segja með réttu að störfin flytjist annað en verði svosem ekki til. Þannig eru þau störf sem hér myndast fyrir austan auðvitað störf sem hafa verið einhversstaðar annarsstaðar í veröldinni. Síst er mér í huga að segja að verksmiðjan fyrir austan sé ekki að rífa upp athafnalíf fyrir austan en á sama tíma er það ákvörðun fyrirtækisins að flytja þau störf eitthvað annað í veröldinni. Þetta gerist þegar og ef ódýrara rafmagn til bræðslu verður boðið af einhverju ríki sem gæti einnig haft aðra kjarasamninga, eða enga, og þar með lægri laun.
Hinsvegar er svosem ekkert stabílitet í störfum í hátæknigeiranum ef þau eru síðan að flytja úr landi hvert á fætur öðru. Því skiptir miklu máli að skapa þessum fyrirtækjum gott rekstrarumhverfi og semja um sérstök kjör þeirra. Þau búa til störf sem hafa ekki verið til og eru ekkert á förum ef starfsumhverfið er gott.
Miðvikudagur 7. desember 2005 kl. 08:58
Þessi flótti er minnir mig kallað "social dumping" og er dálítið mikið umrætt núna í Industrial Relations bransanum og meira að segja stórt í nokkrum greinum sem ég er einmitt að lesa fyrir próf á föstudaginn (eða á að vera að lesa ...).
Mér finnst til dæmis slæmt að sjá Hjartavernd fara illa, UVS að segja ÖLLUM upp? Flaga að fara með framleiðslu (?) og hugbúnaðarþróun úr landi en skilur þróun á vélbúnaði eftir hér? Það hlýtur að vera þekkingarspurning þar á ferð, hvað réði því að vélbúnaðarþróunin fór ekki líka út?
1 verkfræðingur á Íslandi kostar á við 100 í Kína, þá þurfum við að vera 100x betri ;)
Miðvikudagur 7. desember 2005 kl. 11:10
Merkileg umræða hér á ferð.
En málið er Tryggvi, að við erum bara ekki 100x betri en kínverjarnir. Kannski eitthvað betri en alls ekki 100x. Þannig að ef íslendingar vilja halda í þessi störf þá þarf eitthvað annað að koma til.
Það er í raun nauðsynlegt fyrir okkur vesturlandabúa að hjálpa heimamönnum í þessum ódýru löndum til að bæta kjör heima fyrir til þess að halda störfum hjá okkur! En þar er á brattann að sækja.
En það er rétt að stóriðjustörfin eru bara störf sem einhver annar vann annars staðar áður. Sennilega þarf ekki mjög mikið fyrir Alcoa til að færa sig aftur. Launakostnaðurinn er svo hár hér á landi. Þá má spurja sig: hvað gera austfirðingar þá?
Miðvikudagur 7. desember 2005 kl. 13:14
Enda var ég ekki að reyna að segja að við værum 100x betri ;) En satt er það, eitthvað þarf að koma á móti. Er allt sem við höfum fram að færa ódýrt rafmagn?
Hvað gerist t.d. ef Kínverjar ná að koma sér upp stöðugri raforkuframleiðslu? Þá eru þeir komnir með gríðarlegt framboð á ódýru rafmagni og ódýrt vinnuafl. Þá er spurning hvort það sé hægt að búa til meiri stöðugleika í öðrum greinum líka? Það er líka ákveðin speki í því að setja ekki öll eggin sín í eina körfu ;)
Miðvikudagur 7. desember 2005 kl. 14:25
Ég held að þessi hugsun krystallist svolítið í ráðherraskipan. Við erum með IÐNAÐAR ráðherra, væri réttara að kalla hann STÓRIÐNAÐAR ráðherra, SJÁVARÚTVEGS ráðherra, LANDBÚNAÐAR ráðherra. Nútíma atvinnuvegir, ss hátækni, fjármálaþjónusta, fjarskipti, ferðaþjónusta og ýmis önnur þjónusta fá ekki ráðuneyti - eru í besta falli - og ráðuneyti (sbr IÐNAÐAR- og viðskipta ráðuneyti).
Nú segja mér mér fróðari menn um pólitík að þetta skipti engu máli og atvinnumálaráðuneytin séu úrelt fyrirbæri - engu að síður eru þetta afar valdamiklir menn sem eru skipaðir til að vinna að ákveðnum málefnum. Við þurfum ekki að hugsa mjög langt aftur til að minnast vanhæfni og vankunnáttu - og samskiptaráðherra í nánast öllum málefnum sem varða fjarskipti - enda vinnur hann eftir skipun frá 1969 þar sem fjarskiptamál eru liður 11 af 11 af máluefnum þeim sem honum ber að sinna (sbr http://samgonguraduneyti.is/raduneyti/sogulegt/).
Ég held hins vegar að þetta skipti verulegu máli og þetta endurspegli þá staðreynd að nú á seinni helmingi fyrsta áratugar 21. aldarinnar erum við ennþá að miða við 19. aldar atvinnuhætti.
Miðvikudagur 7. desember 2005 kl. 15:10
Hér er ég alveg sammála þér Helga, það er fullt af starfsfólki að vinna í þágu ákveðinna atvinnugreina. Þetta fólk er auðvitað sölumenn innlendra aðila og ekki ætla ég að halda því fram að ekki sé þörf á slíku varðandi landbúnað og sjávarútveg. Hinsvegar hefur þekkingariðnaðurinn algerlega orðið útundan. Það eru heldur ekki margir ráðamenn sem þekkja þennan iðnað eða treysta sér til að hafa skoðanir á honum. Hinsvegar er þekking á rækjum og þorski talsverð ásamt því að það eru sérstakar stofnanir sem stöðugt er hægt að spyrja um atriði þessu tengt. Sama á við um landbúnað. Svo er heill stjórnmálaflokkur sem helst helgar sig sjávarútvegi, því má ekki gleyma að hann heldur því máli öllu í fókus. Kannski ætti að stofna Þekkingarflokkinn;-)
En hverjir eru að vinna á sambærilegum vettvangi varðandi þekkingariðnaðinn. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið ætti að vera það ráðuneyti sem helst gerir það en nýverið hefur ráðherrann tilkynnt um algera uppstokkun t.d. á nýsköpun í tengslum við Byggðastofnun þannig að allt er frekar óljóst. Búið er að lofa heilum helling af peningum sem fengust fyrir Símann en hvert fara þeir, hvenær og hvernig?
Það er orðið algerlega lífsspursmál að stokka upp ráðuneytin og vera að starfa í samræmi við nútímann en ekki fortíðina. Við látum eins og það sé alltaf best að slá með orfi og ljá eða veiða fisk á færi.
Miðvikudagur 7. desember 2005 kl. 15:30
Athyglisverð umræða. Umhgsunarvert þetta með flutning á störfum í stóriðju.
Miðvikudagur 7. desember 2005 kl. 23:31
Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri