Nú eru hinir stjórnmálaflokkarnir að fara að velta fyrir sér prófkjörum, löngu á eftir okkur Samfylkingarmönnum. Vinstri grænir verða með sitt 21. janúar bindandi í efstu sex sætin. Þar á eftir Sjálfstæðismenn þann 11. febrúar og síðastir verða líklega Framsóknarmenn en dagsetninguna þeirra fann ég ekki. Það er einnig opnasta prófkjörið því menn verða að ganga í Vinstri græna og Sjálfstæðisflokkinn til að kjósa en einungis lýsa yfir stuðningi við Framsókn til að geta kosið þar.
Í prófkjörum af þessu tagi mun skipta sköpum hverjir eru duglegastir að smala fólki til kosninga og hefur þá einnig áhrif hversu margir eru skráðir í flokkinn fyrir. Hjá Vinstri grænum tel ég líklegt að Baldvin muni hafa Valgerði einfaldlega vegna þess að hann er nýr og mun ekki reiða sig á að menn kjósi sig og væntanlega vinna af miklum dugnaði í prófkjörinu.
Hjá Sjálfstæðismönnum verður um hlýðnikönnun við forystu flokksins að ræða. Hversu margir tölta hlýðnir og kjósa Kristján þó hann lýsi því yfir að hann viti ekkert í hvort fótinn hann er að stíga, kannski ætlar hann í þingframboð og kannski ætlar hann bara að gera eitthvað allt annað eins og hann sagði í útvarpinu í kvöld. Enda hlýtur margan einkavæðingarsinnann í flokknum að vera farið að sundla eftir samning Kristjáns við æskuvinkonu eiginkonu sinnar um leikskólann Hólmasól þar sem reksturinn á að kosta talsvert meira einkavæddur en bæjarrekinn. Líklegt er að einhverjir sem hafa lesið rekstrarhagfræði í þeim flokki finnist nú ekki alveg vera farið eftir kenningunni. Einhverjir þar héldu sumsé að einkavæðing hefði eitthvað með hagkvæmni að gera en það er ekki skoðun Kristjáns. Líklegt er að konurnar verði nokkuð öflugar hjá Sjálfstæðismönnum en bæði Elín og Sigrún hafa verið hörkuduglegar í pólitík hvor á sinn hátt.
Framsókn er síðan algerlega óskrifað blað ennþá en það breytir sjálfsagt ekki miklu enginn er klókari þeim að safna mönnum saman á kjördag og því mun þeirra prófkjör sjálfsagt fara eftir hver er duglegastur í þeim fræðunum.
Þá er bara spurning hvað Oddur Helgi gerir með Lista fólksins en eins og við vitum hefur sá flokkur tvo menn í bæjarstjórn sem hafa látið lítið fyrir sér fara á kjörtímabilinu. Það getur verið vænlegt til sigurs að segja ekkert, gera lítið og kjósa í bæjarstjórn líkt og Framsóknarmenn enda er Oddur Helgi auðvitað klofningur úr þeim flokki. Með vinsældarpoppi og vera vinur allra með sömu skoðanir og þeir mun þeim áreiðanlega ganga vel.
Svo er bara að sjá hvernig okkur Samfylkingarmönnum gengur í baráttunni við þá sem bera sigur úr býtum.
Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri