Færslur í janúar 2006

« desember 2005 | Forsíða | febrúar 2006 »

Sunnudagur 1. janúar 2006

Gleðilegt ár

Ég óska öllum lesendum vefsíðunnar minnar gleðilegs árs og friðar um leið og ég þakka fyrir lesturinn á liðnum árum og sérstaklega vil ég þakka þeim sem skrifa inn á síðuna. Mér þykir vænt um þegar fólk gerir það hvort sem það er sammála mér eða ekki þá sýna skrifin að fólki þykir þess vert að tjá sig á síðunni minni. Ég held að árið 2005 hafi verið eitt albesta ár sem ég hef lifað, margt skemmtilegt gerðist og lífið gekk býsna vel. Ég eignaðist dótturdóttur í desember, skemmtilega tengdadóttur og kynjaköttinn Fredda. Dóttir mín gifti sig mætum dreng sem hugsar vel um allar telpurnar mínar. Gaman var að vinna í pólitíkinni ég fékk að spreyta mig á nýjum hlutum eins og að vera formaður prófkjörsnefndar þar sem allt gekk einstaklega vel, halda erindi hér og þar og hitta fólk sem hefur verið mér mikils virði.

Continue reading "Gleðilegt ár" »

kl. |Pólitík || Álit (4)

Mánudagur 2. janúar 2006

Arnaldur slakur, Árni góður

Ég hef verið að lesa glæpasögurnar sem ég fékk í jólagjöf, nú er allt í morðum, dópi og vansælum körlum í jólabókunum. Sakna Hringadróttinsjólanna hér forðum. Vetrarborgin eftir Arnald Indriðason olli mér vonbrigðum, eftir að hafa heillast mjög af Arnaldi eftir að lesa Grafarþögn, Mýrina, Dauðarósir og fleiri þá er nákvæmlega ekkert í þessari bók. Ekkert plott, ekkert sniðugt að uppgötva síðar, ekkert aha móment í bókinni. Þetta er bara fínt skrifaður texti á blaðsíðu eftir blaðsíðu um lítið, enginn hápunktur eftir fyrstu síður. Líkt og að lesa óspennandi dagbók. Ég er blátt áfram búin að gleyma um hvað hún var og ekkert situr eftir. Ég lokaði bókinni ósátt við að hafa eytt tíma í að lesa hana.

Tími nornarinnar eftir Árna Þórarinsson var hinsvegar fín, þar var eitthvað til að pæla í, fullt af aha mómentum og spennandi söguþráður. Ég meiraðsegja hafði smá áhyggjur af sögupersónum, fannst þær leiðilegar eða spennandi og nennti að hafa skoðun á þeim. Plottið gott og gengur upp. Ég hafði smá húmor fyrir lýsingum á Akureyri og datt stundum út þegar ég var að velta fyrir mér norðvestur horninu og suðaustur. Menn tala frekar um suður og niður, út og niður, suður og upp og út og upp. Mér fannst þegar ég var yngri að það vantaði norður og niður;-) En hann var ágætlega áttaður sem var þó aukaatriði þar sem söguþráðurinn var aðalatriði.

Continue reading "Arnaldur slakur, Árni góður" »

kl. |Tilveran || Álit (4)

Þriðjudagur 3. janúar 2006

Undarleg matarnefnd

Ég undrast stórlega skipan Halldórs Ásgrímssonar á nefnd um matvælaverð þar sem hvorki Neytendasamtökin né kaupmenn eru kvaddir til í þá nefnd. Er hugmyndin bara að slá upp nefnd svo Framsóknarflokkurinn geti sagst hafa gert eitthvað í málinu eða hvað er á ferðinni? Ekki virðist markmiðið að taka á matvælaverði eða kveða þá aðila til sem fyrst og fremst eru talsmenn neytenda og greiða matvælaverðið né þeirra sem eru síðasti hlekkurinn í myndun matvöruverðs þ.e. kaupmenn.

Continue reading "Undarleg matarnefnd" »

kl. |Pólitík || Álit (4)

Þriðjudagur 3. janúar 2006

Manchester United

wMattiMaggiGisli.JPG
Maggi og Matti frændi Gísla komu í heimsókn í kvöld til að horfa á leik með Manchester United. Það var mikið fjör hjá þeim félögum en leikurinn við Arsenal var markalaus.

kl. |Tilveran || Álit (1)

Miðvikudagur 4. janúar 2006

Ljósmyndun dagsins

wHola1.jpg
Ég fór austur í Hafralækjarskóla í dag og þar var gott að koma. Var að kenna kennurum sem voru einstaklega skemmtilegir og gefandi. Á leiðinni heim tók ég nokkrar myndir og vann í Photoshop er enn að læra hvernig mig langar að hafa ský. Þessi hola birtist allt í einu og ég var fljót út fyrir veg og myndaði. Hér eru líka fleiri myndir af skýjum. Fjórar frá deginum í dag en hinar tvær eru í sömu vinnslutegund sem ég er að pæla í þessa dagana.

kl. |Ljósmyndun || Álit (1)

Fimmtudagur 5. janúar 2006

Auðlegð fyrir ekki neitt

Ég skil ekki þessa auðlegð fyrir ekki neitt sem kemur fram í alskyns starfslokasamningum. Þegar ég var lítil stúlka var hámark auðlegðarinnar að vinna í happadrætti. Menn unnu íbúð og gott ef ekki einbýlishús og mig dreymdi um slíka auðlegð. Kannski er það þess vegna sem ég á alltaf happadrættismiða og spila í lottó. Ég hef sannfært mig um að þar fái ég útrás fyrir tvennt í mínu fari, spennu um hvort ég vinn og stuðning við gott málefni. Ég skil hinsvegar ekki auðlegð sem gerir fyrirtæki kleift að borga mönnum þrjúhundruðmilljónir fyrir að gera ekki neitt. Jafnvel að semja um að gera ekki neitt mjög lengi.

Continue reading "Auðlegð fyrir ekki neitt" »

kl. |Pólitík || Álit (0)

Föstudagur 6. janúar 2006

Slabb, MH og afmæli

Flaug suður í morgun úr rjómablíðu á Akureyri í rok, slyddu, slabb og salt í Reykjavík. Ég gleymi alltaf hversu hundleiðinlegt þetta salt er sem við erum alveg laus við á Akureyri. Komin er hvít skán á skóna mína og slabbið útum allt. Ég er að vinna í MH sem er frábært eins og alltaf því hér er svo vel á móti manni tekið að maður er ósjálfrátt farinn að brosa um leið. Mér kom á óvart að Gunnar Árnason gamall samkennari úr MA er farinn að kenna hér svo það er alltaf eitthvað;-) Gísli er að vinna upp í Borgarnesi en í kvöld förum við síðan í fimmtugsafmæli Andrésar Magnússonar skólabróður okkar og við gömlu skólasysturnar auðvitað að brugga einhver launráð þekktar fyrir að hrekkja þann góða mann. Svo er bara að kúra sig í Reykjavík í nótt og halda norður í fyrramálið fersk og fín eftir skemmtilega ferð;-)

kl. |Tilveran || Álit (1)

Sunnudagur 8. janúar 2006

Skyggnir Sjálfstæðismenn

Mér til mikillar gleði birtist efni aftur á vef Sjálfstæðismanna hér fyrir norðan. Menn á þeim bænum skrifa svargrein dagsetta 1. janúar 2006 við grein sem birtist á vef Samfylkingarinnar 4. janúar. Lýðræðisleg tjáning hafði kafnað í útlitsbreytingu og uppfærslu en það er kannski ekki úr vegi að benda mönnum á þarna innandyra að það er vaninn að vinna slíka vinnu bak við tjöldin og leyfa eldri vef að lifa þar til skipt er um en ekki byrja á að loka vef og vinna svo að útliti og uppfærslum.

Continue reading "Skyggnir Sjálfstæðismenn" »

kl. |Pólitík || Álit (2)

Mánudagur 9. janúar 2006

Vann brons!

Ég er búin að vera óskaplega montin í dag enda vann ég bronsverðlaun á Ljósmyndakeppni.is í keppninni "Skammdegi". Ég náði þessum árangri með mynd sem ég kallaði "Klaki í skammdeginu".

Continue reading "Vann brons!" »

kl. |Ljósmyndun || Álit (10)

Þriðjudagur 10. janúar 2006

Jarðarfarir

Þetta ár byrjaði með dánartilkynningum og síðan í viku tvö eru jarðarfarir. Verst er að ég er með kvef og það fer illa við jarðarfarir svo segja má að ég sé aðal hóstarinn í Akureyrarkirkju þessa viku. Fyrst má nefna bróður frænku minnar og fóstru Árna Brynjólfsson sem ég man fyrst eftir sem síbrosandi hlýlegum bónda fram í Öxnadal. Þá Dag Hermannsson sem ég man fyrst eftir að fylgjast með við bústörf í Lönguhlíð hinumegin ár þegar ég var barn og kynntist síðar. Sá þriðji er Jóhann Eyjólfsson frænda minn í Garðabæ en hann var bróðursonur föðurömmu minnar og nöfnu Láru Jóhannsdóttur. Hann verður jarðaður fyrir sunnan og ég kemst ekki suður því miður. Í þeim tveimur jarðarförum sem ég hef farið í hefur Óskar Pétursson sungið í þeim báðum svo vel að unun er á að hlýða.

Continue reading "Jarðarfarir" »

kl. |Tilveran || Álit (0)

Miðvikudagur 11. janúar 2006

DV - sjálfsmorð og mannvirðing

Mikill hiti er í mönnum vegna fréttar af sjálfsmorði manns á Ísafirði eftir umfjöllun í DV í gær. Undirskriftarlisti er kominn á netið og um fátt er meira talað. Þverpólitísk samstaða er bak við undirskriftarlistann og nú rétt áðan sá ég að komnar voru yfir 6.700 undirskriftir frá því um ellefu í morgun. Í rauninni snýr þetta mál að grundvallaratriðum lýðræðis og mannréttinda. Ekki um sekt eða sakleysi. Í þessu samhengi er mikilvægt að minna okkur á hvers vegna við höfum réttarkerfi, af hverju fólk hefur rétt á að halda uppi vörnum verði það fyrir sakfellingu og að fólk er saklaust þar til sekt þess er sönnuð. Á sama tíma má minna á að refsing er framkvæmd af ákveðnum yfirvöldum en ekki almenningi eða fjölmiðlum.

Continue reading "DV - sjálfsmorð og mannvirðing" »

kl. |Pólitík || Álit (4)

Fimmtudagur 12. janúar 2006

Lesblinda

Lesblinda er einn af þeim örðugleikum sem margir eru að glíma við og því miður virðist allt of oft skilningur manna að um einhverskonar greindarskort sé að ræða en það er alls ekki. Nú hafa rannsóknir sem betur fer aukið skilning á fyrirbærinu og því að skarpgreint fólk getur átt við þetta að stríða. Auðvitað er eftirsóknarvert að allir skrifi fullkomið íslenskt mál en það geta einfaldlega ekki allir. Eitt af lögunum sem ég samdi á diskinn okkar Gísla sem heitir Tilveran er einmitt lag um lesblindu sem ég kalla Orð. Mér finnst það nokkuð laglegt lag og lýsa því sem um er að ræða. Ég tel brýnt að við vinnum að því að við einbeitum okkur að stuðningi við fólk með lesblindu og einnig því að sýna því skilning og ætlast ekki til að allir skrifi fullkomlega. Skilningur er fyrsta atriðið.

kl. |Pólitík || Álit (2)

Föstudagur 13. janúar 2006

Nýr vinnustaður

Í dag hóf ég flutning á mér og mínu hafurtaski úr skrifstofunni minni hjá Þekkingu til Stefnu. Þekking ásamt KEA keypti hlut í Stefnu og flutti forritunina og mig sem deildarstjóra þangað yfir. Svo nú er ég farin að vinna hjá hreinræktuðu hugbúnaðarhúsi með öllu því sem það fylgir, haug af nördum, gríðarlegt magn af strákum (ég er eina kjéllíngin) og skemmtilegum viðfangsefnum. Mér líður eins og frægum fótboltamanni sem hefur verið seldur milli félaga. Fyrstu viðfangsefnin mín þar verða að sjá um námskeið sem þar eru, verkefnisstjórn með Gandafi og setja mig inn í þau verkefni sem eru hjá fyrirtækinu. Formlega starfsheitið er "verkefnisstjóri" þ.e. að taka við verkbeiðnum og úthluta á starfsmenn og sjá til þess að verkefni séu unnin innan tiltekins tíma. Fyrst þarf ég þó auðvitað að kynna mér málin vel. Síðan eru einhverjar frekari breytingar framundan með breyttu skipulagi og viðfangsefnum við þessar breytingar.

Þetta er mjög spennandi tækifæri og nýr vettvangur og ég hlakka mikið til að spreyta mig á þessu og vonandi stend ég mig bara vel í því. En mikið óskaplega er leiðinlegt að tæma eina skrifstofu;-)

kl. |Tilveran || Álit (1)

Laugardagur 14. janúar 2006

Við erum fyrst!

Í dag var frábær fundur hjá okkur á Samfylkingunni á Akureyri þar sem mættir voru yfir hundrað manns á Hótel KEA. Kynntur var framboðslisti flokksins en við erum fyrst allra tilbúin með listann langfyrst allra. Jóna Valdís sem er í 9. sæti listans lýsti fundinum frábærlega í innleggi á vefinn okkar. Ég er í 11. sæti á listanum og var stolt yfir því að standa þarna í þessum góða hópi. Það eru virkilega spennandi tímar framundan;-)

kl. |Pólitík || Álit (0)

Sunnudagur 15. janúar 2006

Tilfinningar framkvæmdastjóra

Í Kastljósi í kvöld var áhrifamikið viðtal við Arnþór Helgason fyrrverandi framkvæmdastjóra Öryrkjabandalagsins. Það er óvenjulegt að fólk sé tilbúið til að ræða starfslok sín eða störf af eins mikilli tilfinningu og Arnþór gerði í kvöld. Oft vill gleymast þegar verið að skipuleggja á plöggum rekstur á félögum og fyrirtækjum að starfsmennirnir eru fólk sem hefur lifibrauð sitt af þeirri atvinnu sem þeir stunda. Jafnvel hafa starfsmennirnir hugsjón sem tengist atvinnunni sem síðan hverfur á hraðar en auga á festir. Einn daginn er mætt í vinnuna en daginn eftir ekki neitt. Það sem var sérstakast við viðtalið er sú mannvirðing sem hann sýndi samstarfsmönnum sínum á sama tíma og hann lýsti þeirri skoðun sinni að hann teldi starfslokin erfið og það hafi verið óþarfi að beita þeim aðferðum sem beitt var. Spurningin sem maður veltir fyrir sér eftir viðtalið er hvort við erum hætt að bera virðingu fyrir mannverum og farin að vera harla kaldranaleg í atvinnutengdri iðju.

Continue reading "Tilfinningar framkvæmdastjóra" »

kl. |Pólitík || Álit (4)

Mánudagur 16. janúar 2006

Morgunblaðið orðið útlenskt sjónvarp?

Ég var að bregða mér á vef Morgunblaðsins eins og ég geri nú gjarnan og lesa úrslit úr prófkjörum flokksins þeirra. Las þar um að Sjálfstæðisflokkurinn vill bara karla í Garðabæ í bæjarstjórn en það er nú ekki nýtt að sá flokkur ýti konum kyrfilega til hliðar með fáum undantekningum. En þá bregður svo við að vefurinn er kominn með sjónvarpsefni - óþýddu - frá Reuters. Þannig gat maður fræðst á ensku um verkfall hafnarverkamanna. Einnig flett upp fleiri klippum af alskyns fréttum á jafnmikilli útlensku. Nú hélt ég að það væri ætlast til að íslenskir miðlar miðluðu fréttum á íslensku eða textuðu efni. Hvað er að gerast? Verða íslenskir fréttamiðlar nú bara samsafn erlendra frétta? Ég varð vægast sagt dálítið hissa...

kl. |Pólitík || Álit (0)

Mánudagur 16. janúar 2006

Konur í flokki sjálfstæðis

Óttalegt er að sjá þetta hjá Sjálfstæðismönnunum í Garðabæ. Mig minnti endilega að menntamálaráðherrann hefði verið að tala um "félagslegan þroska" og hennar menn þyrftu ekki neinar "girðingar" o.s.frv. Ógirta túnið í Garðabænum verður erfitt til smölunar í vor þegar búið er að hafna konunum. Nú er bara að sjá hvort hér á Akureyri verði vösk sveit kvenna sem þyrpist í prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum. Eða verður strokukindin okkar úr Samfylkingunni kannski ein fárra? Kannski er bara gustukaverk að senda eina sem þorir í prófkjör?

Í dag var síðasti dagurinn til að skrá sig til prófkjörs og á morgun hljótum við að fá að vita hverjir buðu sig fram. Allavega var ekkert að sjá á hinum hljóða og prúða islendingur.is rétt í þessu. Hlakka til að sjá kynjahlutfallið í framboði.

kl. |Pólitík || Álit (4)

Þriðjudagur 17. janúar 2006

Fáar Sjálfstæðiskonur þora á Akureyri

Því miður voru það fáar konur sem buðu sig fram í prófkjör Sjálfstæðisflokksins á Akureyri einungis 6 af 20 manns sem býður sig fram. Það er greinilega ekki auðvelt að vera kona í Sjálfstæðisflokknum og verður ekki auðvelt fyrir þær í prófkjörinu. Nú er bara að sjá hvort Akureyringar feta í fótspor Garðbæinga og spreða ekki atkvæði sínu á konur. Þó eru þarna gríðarlega sterkar konur í pólitík. Sigrún hefur verið dugnaðarforkur á kjörtímabillinu, Elín Margrét hefur einnig verið mjög virk og ekki verður af henni Oktavíu skafið að hún er dugleg í pólitík og vinnusöm. Þarna eru líka karlar sem eru vel frambærilegir svo nú er að sjá hvernig þeim gengur. Nú er spurningin hvort karlarnir sem kjósa í prófkjörinu (það eru nefninlega miklu fleiri karlar en konur í Sjálfstæðisflokknum) velji konurnar sínar eða fleygi þeim út eins og kollegar þeirra í Garðabæ.

kl. |Pólitík || Álit (7)

Þriðjudagur 17. janúar 2006

Veðurstúlkan

The WeatherPixieRakst á þessa veðurstúlku sem mér fannst nokkuð kúl. Hún á síðan að uppfærast eftir því sem veðrið breytist. Ég vona allavega að ég hafi gert þetta rétt til þess. Best að fylgjast með því. Spurning að koma henni fyrir blessaðri á síðunni einhversstaðar. Hún er nefninlega með hund;-) Og svo er hún algerlega ónauðsynleg því ég er á Akureyri og veit hvernig veðrið er. En hún er tæknileg unaðssemd í anda Pjúsarafélags Íslands.

kl. |Tilveran || Álit (3)

Fimmtudagur 19. janúar 2006

Tæknileg unaðssemd

Þá er ég komin með nýja tæknilega unaðssemd sem heitir HP iPAQ hw6500 og ég kann ekkert á en þess fullviss að mínir tæknilegu unaðsdagar verða enn fleiri. Spurning hvaða áhrif svona tækni hefur á mann. Nú vantar mig góð ráð frá þeim sem hafa yfir svona tækni að ráða. Hvað er sniðugt að gera og hvernig er sniðugast að nota græjuna?

kl. |Tilveran || Álit (3)

Föstudagur 20. janúar 2006

Lýðræði, fjármagn og Gallup

Undanfarið velti ég sífellt meira fyrir mér lýðræði í samfélagi við fé í miklu magni eða fjármagni. Fyrst vöknuðu þessar spurningar eftir hlutafélagavæðingu Símas á sínum tíma því þar var einungis eitt hlutabréf og einn maður ráðherra samgöngumála var með allt hlutaféð og ekki einusinni Alþingi gat fengið upplýsingar. Bara einn maður fékk þær af því hann varð eini hluthafinn. Í dag var kynnt fyrir okkur Akureyringum Gallup könnun um íþróttavöllinn í miðbænum sem keypt var af fyrirtækinu Þyrpingu sem vill byggja þar verslun. Sama fyrirtæki vill byggja verslun á íþróttavellinum. Fyrir stuttu las ég pistil í Vikudegi (staðarblað okkar hér fyrir norðan) eftir Ragnar Sverrisson talsmann verkefnisins Akureyri í Öndvegi þar sem hann sagði Akureyringa hafa lýst því á íbúaþingi að þeir vildu Hagkaupsverslun á þetta svæði. Ég man ekki eftir því að það hafi verið álit íbúaþings, heldur vildu menn útivistarsvæði þar eða húsdýragarð ef ég man rétt.

Continue reading "Lýðræði, fjármagn og Gallup" »

kl. |Pólitík || Álit (0)

Laugardagur 21. janúar 2006

Frábær ljósmyndaferð

Þátttakendur á ljósmyndakeppni.is fóru í ljósmyndaferð hér á Akureyri í dag. Ferðin var í alla staði mjög vel heppnuð og mættu alls 9 manns í ferðina en voru ekki allir allan tímann. Við byrjuðum í Listigarðinum og fórum síðan yfir í Vaðlareitinn og þaðan var farið í kaffi á Bláu könnuna og endað á myndatöku í miðbænum. Mikið var spjallað um linsur og myndavélar, ljósmyndaferðir og keppnir. Allir voru býsna glaðir og ákveðið að halda fljótlega aftur í slíka ferð;-)

kl. |Ljósmyndun || Álit (0)

Sunnudagur 22. janúar 2006

Fjórða sæti sigur???

Ég á ekki til orð, fjórða sæti í prófkjöri er orðið sigursæti fyrir konu. Allavega hjá Sjálfstæðisflokknum í Kópavogi en nýverið var prófkjör í Garðabæ og þar lenti efsta konan í fimmta sæti og það var mikið afhroð. Svo nú er skilgreiningin sú að sigursæti kvenna er að lenda í fjórða sæti. Þar þarf ekki að taka mikið tillit til þeirra en ef Sjálfstæðismenn í bænum ná aftur fimm mönnum í bæjarstjórn fá þær að fara með en greinilegt að það þarf ekki að gefa þeim neitt veigamikið hlutverk. Synd og skömm hvernig Sjálfstæðismenn fara alltaf með sínar konur.

kl. |Pólitík || Álit (16)

Mánudagur 23. janúar 2006

Mæting á bæjarstjórnarfundi

Á morgun er fyrsti bæjarstjórnarfundur á Akureyri eftir að bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar fór til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Það er erfitt fyrir flokksmenn að reyna að standa sína plikt undir þeim kringumstæðum en með því að mæta á bæjarstjórnarfundi á áheyrendapalla tryggjum við að umræður á fundinum komast beint til skila inn í málefnavinnuna okkar sem einmitt stendur nú yfir. Ég kemst því miður ekki á morgun en er ákaflega stolt af þeirri ábyrgðartilfinningu samflokksfélaga minna sem ætla að mæta og sinna starfi fyrir flokkinn okkar.

kl. |Pólitík || Álit (3)

Þriðjudagur 24. janúar 2006

Auglýsing fyrir fátækt heilbrigðiskerfisins

Ég fékk hroll þegar ég las í morgun um veikt fólk sem liggur á gangi hjartadeildar Landspítala-Háskólasjúkrahúss. Ég hef nefninlega legið á þessum gangi í einn dag og ég fæ ennþá hroll. Allir labba framhjá og kíkja yfir þilin ofaní rúmið þitt. Sumir reka sig utan í dótið sem er í kringum rúmið og þarna liggur maður eins og auglýsing fyrir fátækt heilbrigðiskerfisins.

Continue reading "Auglýsing fyrir fátækt heilbrigðiskerfisins" »

kl. |Pólitík || Álit (2)

Miðvikudagur 25. janúar 2006

Máttur menningar

Ég hef tekið að mér að vera hópstjóri fyrir málefnahóp um menningarmál í undirbúningnum undir sveitarstjórnarkosningarnar. Þetta er spennandi málefni sem ég hlakka til að takast á við. Mér finnst ég hinsvegar ekkert sérstaklega fróð um málið og því er um að gera að bretta upp ermar. En svo er auðvitað að biðja um hjálp og samvinnu. Ég er auðvitað ekkert ein í þessu en það væri svo aldeilis frábært að fá fleiri Samfylkingarmenn í þessa vinnu. Blessuð hafið samband við mig og verið með mér í þessari vinnu ég held að hún verði býsna skemmtileg. Menningarmál á Akureyri eru mikilvæg og máttarstólpi í svo mörgu þannig að nóg verður að gera;-)

kl. |Pólitík || Álit (3)

Föstudagur 27. janúar 2006

Sakamál sem þarf ekki að kanna

Undarleg þóttu mér svör utanríkisráðherra um fangaflug Bandaríkjamanna. Erlendis eru ríkisstjórnir og þing að kanna þetta mál en okkar ráðherra segist bara trúa Bandaríkjamönnum. Svona blind trú, sama gagnvart hvaða ríki það er, er hættuleg.

Continue reading "Sakamál sem þarf ekki að kanna" »

kl. |Pólitík || Álit (3)

Laugardagur 28. janúar 2006

Óvænt úrslit VG á Akureyri

Það voru óvænt útslit í prófkjöri VG á Akureyri í dag. Valgerður Bjarnadóttir sem hefur verið í fyrsta sæti beið óvænt lægri hlut fyrir Baldvin H. Sigurðssyni. Baldvin hefur ekki verið virkur þátttakandi í stjórnmálum hér á Akureyri en Valgerður aftur á móti verið fyrsti bæjarfulltrúi flokksins á yfirstandandi kjörtímabili. Sérstakt var að í fréttatilkynningu frá prófkjörsnefnd er skrifað "ekki er vitað hvort allir vilja það sæti sem þeim er boðið". Fyrir það fyrsta er niðurstaða í prófkjöri varla boð heldur niðurstaða lýðræðislegrar kosningar og síðan er dálítið sérstakt að eiga von á því að fólk taki ekki sín sæti.

Continue reading "Óvænt úrslit VG á Akureyri" »

kl. |Pólitík || Álit (0)

Sunnudagur 29. janúar 2006

Hrísey, perla Eyjafjarðar

Ég var í Hrísey ásamt flokksfélögum mínum í gær þar sem við nutum gestrisni félaga okkar af framboðslistanum til bæjarstjórnarkosninga. Hér má sjá myndir úr þeirri ferð. Markmið ferðarinnar var að fræðast og kynnast því sem skiptir Hríseyinga meginmáli þegar kemur að stjórnun bæjarfélagsins. Auðvitað trónir hæst sú framsýni íbúanna að stofna til vistvæns samfélags og stefna að sjálfbæru samfélagi að sem mestu leyti. Þetta endurspeglast víða um samfélagið. Þrennt er mér minnisstæðast og langar að segja aðeins frá en það er hrífugerð í Hrísiðn, hugmynd að byggðasafni að Holti og jarðgerð í bænum.

Continue reading "Hrísey, perla Eyjafjarðar" »

kl. |Pólitík || Álit (1)

Mánudagur 30. janúar 2006

Kjöt og meira kjöt

wSkurdur4675.JPG
Í dag fór ég með félögum mínum í stjórn KEA að skoða kjötvinnslu Norðlenska bæði hér á Akureyri sem og á Húsavík. Á myndinni má sjá Bjarna Hafþór nýjan framkvæmdastjóra Hildings og Upphafs-Nýsköpunar að læra að skera kjöt.

Þar sem ég er mikill áhugamaður um hagnýtingu upplýsingatækni og þróun tækniiðnaðar á Íslandi var ferðin afar spennandi. Það er ótrúlegt hversu þróuð tæknin er og að hægt sé að fylgja grip eftir frá slátrun í umbúðir. Gaman væri að geta valið sér lambalundir frá ákveðnum bæ eða sveit en merkingar eiga örugglega eftir að þróast verulega.

Continue reading "Kjöt og meira kjöt" »

kl. |Ymislegt || Álit (0)

Þriðjudagur 31. janúar 2006

Nikótín hér og þar

Heilbrigðisráðherra leggur nú fram frumvarp til breytinga á lögum um tóbaksvarnir. Ég er nú bara býsna sammála honum um að það er eftirsóknarvert að vera laus við reykingar hér og þar og allsstaðar. Þegar ég reykti fannst mér í góðu lagi að smeygja mér útfyrir og stússast við þessa iðju mína. Eini gallinn var fólk sem labbaði framhjá og þurfti að hnýta í mann ónotum, háðsgósum og spotti. Yfirlætissvipurinn á þeim er frekar minnisstæður og nokkrir einstaklingar sem ég sá nýja hlið á. Það er alger óþarfi að vera með einhvert yfirlæti og hroka við þá sem reykja. Yfirleitt reynir fólk í dag að taka tillit til þeirra sem reykja ekki og þegar menn standa útivið og fólk kemst bærilega framhjá án þess að fá reykinn ofaní sig þá á bara að vera þakklátur fyrir að fólk tekur þetta tillit. Allir vita um skaðsemi reykinga og það þarf ekkert að vera að halda fyrirlestra fyrir þetta fólk eða ata í það yfirlætisfullum setningum.

Continue reading "Nikótín hér og þar" »

kl. |Pólitík || Álit (4)

Knúið af Movable Type 3.33
Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.