« Mæting á bæjarstjórnarfundi | Aðalsíða | Máttur menningar »

Þriðjudagur 24. janúar 2006

Auglýsing fyrir fátækt heilbrigðiskerfisins

Ég fékk hroll þegar ég las í morgun um veikt fólk sem liggur á gangi hjartadeildar Landspítala-Háskólasjúkrahúss. Ég hef nefninlega legið á þessum gangi í einn dag og ég fæ ennþá hroll. Allir labba framhjá og kíkja yfir þilin ofaní rúmið þitt. Sumir reka sig utan í dótið sem er í kringum rúmið og þarna liggur maður eins og auglýsing fyrir fátækt heilbrigðiskerfisins.


Þennan dag sem ég lá þarna var tóm stofa en hún var ekki notuð vegna sparnaðar. Mér var ekki ljóst þá hvað var verið að spara annað en skúringar á þessari tilteknu stofu ef þrifnaður var seldur eftir fermetrum. Allavega er ekki fljótlegt að skúra gang sem er fullur af þiljum og rúmum. Þannig að ef svo er þá er verið að svína á skúringarfólki.

Þennan dag árið 1996 lá ég þarna, hafði farið í hjartaþræðingu um morguninn og beið upplýsinga um hvað hefði komið út úr henni. Ég var ekki veik eins og margir, ég var einungis í þessari rannsókn sem hjartaþræðingin er. En ég lá samt nærbuxnalaus undir sænginni með sandpoka yfir litla sárinu í náranum sem er gert til að þræða. Svo löbbuðu allir framhjá og kíktu ofaní rúmið til mín. Ef ég þurfti að pissa var komið með bekken og farið svo, þar lá ég ofaná koppi að reyna að pissa og enn gekk fólk framhjá. Það þurfti að kíkja undir sængina hvort allt væri ekki í lagi - enn gekk fólk framhjá og kíkti á mig liggjandi í rúmi á ganginum fyrir allra augum.

Ég sem hafði ekki áhuga á að allir vissu að ég hefði farið í þessa þræðingu enda virðist sem fólk álíti þig nánast dauðans mat ef hjartað í þér hefur verið rannsakað með þessum hætti. Sem er óttaleg vitleysa því eins mætti segja að allir sem fara í röntgenmynd séu dauðans matur. Mér hefur hinsvegar hægt gengið að sannfæra fólk um þessa staðreynd.

En ég gleymi aldrei deginum sem ég lá á ganginum, með kökk í hálsinum og tárin í augunum af niðurlægingu og áhyggjum hvað út úr greiningunni hefði komið. Orðalaust gekk fólk framhjá, kíkti í rúmið mitt, heilsaði ekki, rak sig í, sagði ekkert og ég var bara hluti af fyrirbærinu "veikt fólk á gangi".

Það er ekkert, alls ekkert sem réttlætir þessa meðhöndlun á fólki. Auðvitað viðurkenni ég að frekar vil ég að fólk komist í hjartaþræðingu og liggi á gangi en fái enga hjartaþræðingu. En eru þetta ekki orðin dálítið kúnstug rekstrarfræði þegar betra er að við sem förum í þræðingu liggjum á ganginum í staðinn fyrir inn á stofu sem er laus?

Það vildi ég óska að enginn þurfi að ganga í gegnum það að liggja á gangi, hvað þá að finnast það í lagi að liggja þar. Því það er ekki í lagi, það er niðurlægjandi og engin virðing borin fyrir mannréttindum fólks.

Það er skömm að þessu!

kl. |Pólitík

Álit (2)

Já, þetta er hryllilegt! Það liggur oftast fjörgamalt fólk á ganginum á deildinni "minni" þegar ég kem þangað. Mér finnst alltaf jafn sárt að sjá það.

Þriðjudagur 24. janúar 2006 kl. 23:31

já almáttugur minn, þetta er agalegt.

Fimmtudagur 26. janúar 2006 kl. 09:42

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.