Ég óska öllum lesendum vefsíðunnar minnar gleðilegs árs og friðar um leið og ég þakka fyrir lesturinn á liðnum árum og sérstaklega vil ég þakka þeim sem skrifa inn á síðuna. Mér þykir vænt um þegar fólk gerir það hvort sem það er sammála mér eða ekki þá sýna skrifin að fólki þykir þess vert að tjá sig á síðunni minni. Ég held að árið 2005 hafi verið eitt albesta ár sem ég hef lifað, margt skemmtilegt gerðist og lífið gekk býsna vel. Ég eignaðist dótturdóttur í desember, skemmtilega tengdadóttur og kynjaköttinn Fredda. Dóttir mín gifti sig mætum dreng sem hugsar vel um allar telpurnar mínar. Gaman var að vinna í pólitíkinni ég fékk að spreyta mig á nýjum hlutum eins og að vera formaður prófkjörsnefndar þar sem allt gekk einstaklega vel, halda erindi hér og þar og hitta fólk sem hefur verið mér mikils virði.
Í pólitíkinni ber kannski hæst að vera treyst fyrir því að vera formaður prófkjörsnefndar ásam Hilmi Helgasyni og Hreini Pálssyni miklum afbragðsmönnum með mikla reynslu af stjórnmálum sem ég lærði mikið af. Ég starfaði með stjórn Samfylkingarinnar á Akureyri sem hefur á að skipa einvalaliði undir stjórn formannsins Jóns Inga Cæsarsonar sem er óþreytandi í pólitík og getur einn fárra manna skrifað um pólitík upp á hvern dag og virðist aldrei tæmast sjóður mála sem hann lætur til sín taka.
Í prófkjörinu birtist nýtt fólk og má sérstaklega minnast á öfluga vinnu Hríseyinganna sem tóku rösklega á málum sem snéru að þessum nýju meðlimum Akureyrar og stýrðu málum þannig að þeir áttu góða fulltrúa í prófkjöri og sáu um kosningar og annað undir röggsamri stjórn Guðrúnar sem á miklar þakkir skyldar. Í prófkjörinu voru líka tvær ungar konur sem stóðu sig feykilega vel þær Margrét Kristín og Jóna Valdis sem hvor á sinn hátt báru mikinn styrk inn í flokkinn.
Í stjórnmálum kynnist maður fólki á annan hátt en í flestu öðru sem ég hef kynnst. Brennandi áhugi á lífi og starfi fólks, hvernig umhverfi þess er háttað í starfi og leik er ótæmandi umræðuefni. Slíkt starf eflir andann og vekur margar nýjar hugsanir og í sameiningu má oft finna nýja fleti á málum og fleiri lausnir. Leiðinlegt er að hlusta á oft ábyrgðarlaust hjal um stjórnmál og stjórnmálamenn sem ég hef nú kynnst af eigin raun að eru flestir að reyna sitt besta til að skapa gott mannlíf hvar í flokki sem þeir standa. Þeir sem ekki hafa nennu til að láta mál til sín taka telja á sama tíma sig þess umkomna að hæðast að þeim sem gera það. Slíkt er oftast um að kenna vanþekkingu og reynsluleysi en án efa vantar fleira fólk sem lætur sig varða umhverfi sitt.
Á þessu ári eru sveitarstjórnarkosningar sem þýðir að nóg verður að fást við og nauðsynlegt að fara yfir þá fjölmörgu málaflokka sem snúa að Akureyri og þeirri sameiginlegu ósk okkar allra í bænum að okkur gangi sem best og gera því fólki sem vill búa hér kleift að hafa atvinnu og gott húsnæði sem er forsenda þess að fólki líði vel og fjölskylda geti notið sín á hvaða aldri sem er í hvaða hlutverki sem er.
Í vinnunni minni eru breytingar um áramótin, fyrirtækið sem ég vinn hjá keypti ásamt KEA fyrirtækið Stefnu og flyst vefdeildin sem ég hef stýrt undanfarið til þess fyrirtækis. Ég reikna með að vera áfram í 70% starfi ásamt því að fjarkenna og vera ráðgjafi við Menntaskólann við Hamrahlíð eins og undanfarið en með því að setja saman vinnuna mína á þennan hátt gefst mér sveigjanleiki til að fást við aðra hluti s.s. stjórnmál, ljósmyndun og lagasmíð. Þetta er mér mikils virði, maðurinn þarf auðvitað að vinna fyrir brauði sínu en einnig að njóta tímans.
Á síðasta starfsdegi Alþingis fyrir jól var ég kosin í útvarpsráð og því bíður mín nýtt hlutverk á því sviði. Ég er Samfylkingunni þakklát fyrir að treysta mér fyrir því hlutverki og hlakka til að fást við það. Breytingar eru í vændum hjá Ríkisútvarpinu í kjölfar á væntanlegri lagasetningu og því reynir á í þessum efnum sem er virkilega spennandi.
Ég lít því fram til spennandi árs og gefandi verkefna í stjórnmálum, atvinnu og ekki síst með sístækkandi fjölskyldu sem hefur reynst mér ómetanleg og gefið lífi mínu gildi. Ég ítreka óskir mínar um farsæld á árinu 2006 og hlakka til að skrá punkta á þessa síðu á þessu ári.
Álit (4)
Gleðilet ár Lára mín og allir hennar lesendur. Upp er risið örlagaár -kosningarár. Hlutverk þitt og okkar verður að minna á. Minna á hvað var lofað og hvað svikið. Sé þig á kosningaakrinum.
gb
Sunnudagur 1. janúar 2006 kl. 22:38
Ég sendi þér innilegar áramótakveðjur, Lára. Ég fer inná vefinn hjá þér á síðunni hjá Össuri og geri það oft. – Var í mat hjá Jónu í gærkvöldi. – Kær kveðja.
Sunnudagur 1. janúar 2006 kl. 22:46
Takk kærlega fyrir kveðjuna Páll þú hefur áreiðanlega fengið gott að borða hjá Jónu;-)
Já Gísli nóg verður að gera í pólitíkinni á þessu ári og því næsta, verður spennandi að bretta upp ermar;-)
Mánudagur 2. janúar 2006 kl. 10:25
Gleðilegt árið, Lára mín
Knús :-)
Mánudagur 2. janúar 2006 kl. 16:42
Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri