« Óvænt úrslit VG á Akureyri | Aðalsíða | Kjöt og meira kjöt »

Sunnudagur 29. janúar 2006

Hrísey, perla Eyjafjarðar

Ég var í Hrísey ásamt flokksfélögum mínum í gær þar sem við nutum gestrisni félaga okkar af framboðslistanum til bæjarstjórnarkosninga. Hér má sjá myndir úr þeirri ferð. Markmið ferðarinnar var að fræðast og kynnast því sem skiptir Hríseyinga meginmáli þegar kemur að stjórnun bæjarfélagsins. Auðvitað trónir hæst sú framsýni íbúanna að stofna til vistvæns samfélags og stefna að sjálfbæru samfélagi að sem mestu leyti. Þetta endurspeglast víða um samfélagið. Þrennt er mér minnisstæðast og langar að segja aðeins frá en það er hrífugerð í Hrísiðn, hugmynd að byggðasafni að Holti og jarðgerð í bænum.


Hrísiðn er merkilegt fyrir margra hluta sakir en þó sérstaklega vegna þess hugvits sem beitt er þar haganlega við smíði á hrífum af ýmsum tegundum. Eigandinn Bjarni Thorarensen er völundur á bæði járn og tré ásamt því að hafa smíðað sjálfur ýmsar vélar og tæki til þess að hrífugerðin gangi liprar fyrir sig. Þarna er íslenskt hugvit eins og það gerist best. Ég varð agndofa af hrifningu þegar hvert tækið á fætur öðru var kynnt fyrir okkur. Þarna voru bæði hefðbundnar hrífur með tréhaus og álhaus þar sem tæknin er notuð til hins ýtrasta við að móta hrífuskaptið og koma tindum fyrir í hausana, beygja stansað járn fyrir festingar og margt fleira. Ekki er hér hætt heldur hefur Bjarni einnig smærri hrífur svokallaðar beðhrífur sem eru algert þarfaþing. Þær hafði ég ekki áður séð. Hér má sjá mynd úr þeirri kynnisferð þar sem Bjarni er að útskýra hvernig tækin virka.

Ekki kom mér síður á óvart sá vísir sem er af byggðasafni að Holti þar sem Alda Halldórsdóttir ánafnaði sveitarfélaginu húsi sínu er hún lést 1998. Það sem er sérstakt er að þarna er ekki um að ræða hefðbundið hús með hundraðárahlutum heldur frá mestum parti síðustu aldar þar sem tvinnast saman nýjir og gamlir hlutir sem hafa ratað inn á heimilið yfir ævi þessarar sérstöku konu. Ég veit ekki af neinum sem er að vinna með byggðasafn sem hefur hluti frá þessum tíma sem mun að mörgu leyti gleymast þar til fólk fer að sanka að sér úr ýmsum áttum hlutum sem hafa glatast eða gleymst. Þarna er heimili Öldu eins og hún skildi við það er hún fór, heklaðir dúkar, styttur, myndir og öllu ægir saman eins og ég man svo vel eftir hjá ömmu minni. Ungu stelpurnar í hópnum áttu ekki til eitt einasta orð og voru til í að flytja þarna inn um leið. Það er mikil framsýni að geyma þetta hús og allt innbúið.

Jarðgerðin var síðan afar spennandi. Hríseyingar, einir Íslendinga svo vítt ég veit, safna matarafgöngum í þartilgerðar körfur á heimili sínu. Setja síðan í ákveðnar fötur vítt um bæinn þar sem þeim er safnað og komið fyrir í ákveðinni jarðgerðarvél sem annar því sem til fellur í eynni og vel það. Það sem vakti helst athygli mína var að það eru ekki einstaka íbúar sem eru sérstakir baráttumenn fyrir vistvænum aðgerður heldur almenningur sem tekur þátt í þessu verkefni.

Við sem búum á hinni gömlu Akureyri getum svo sannarlega margt gott lært af Hríseyingum og byggt á þeim grunni sem þeir hafa þegar mótað þegar kemur að umhverfismálum. Þar veitir svo sannarlega ekki af.

kl. |Pólitík

Álit (1)

Gaman að lesa um þetta. Þegar ég vann hjá Orku fluttum við inn efni fyrir hrífugerð á Akureyri sem mér er ómögulegt að muna nafnið á. Alltaf gaman að læra um innlenda framleiðslu. Virðingarvert þegar heilt bæjarfélag er samtaka í vistvænum aðgerðum, eflir samkennd og elur upp meðvitaða nýja kynslóð. Ég tek hatt minn ofan fyrir Hríseyingum.

Sunnudagur 29. janúar 2006 kl. 23:25

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.