« Tæknileg unaðssemd | Aðalsíða | Frábær ljósmyndaferð »

Föstudagur 20. janúar 2006

Lýðræði, fjármagn og Gallup

Undanfarið velti ég sífellt meira fyrir mér lýðræði í samfélagi við fé í miklu magni eða fjármagni. Fyrst vöknuðu þessar spurningar eftir hlutafélagavæðingu Símas á sínum tíma því þar var einungis eitt hlutabréf og einn maður ráðherra samgöngumála var með allt hlutaféð og ekki einusinni Alþingi gat fengið upplýsingar. Bara einn maður fékk þær af því hann varð eini hluthafinn. Í dag var kynnt fyrir okkur Akureyringum Gallup könnun um íþróttavöllinn í miðbænum sem keypt var af fyrirtækinu Þyrpingu sem vill byggja þar verslun. Sama fyrirtæki vill byggja verslun á íþróttavellinum. Fyrir stuttu las ég pistil í Vikudegi (staðarblað okkar hér fyrir norðan) eftir Ragnar Sverrisson talsmann verkefnisins Akureyri í Öndvegi þar sem hann sagði Akureyringa hafa lýst því á íbúaþingi að þeir vildu Hagkaupsverslun á þetta svæði. Ég man ekki eftir því að það hafi verið álit íbúaþings, heldur vildu menn útivistarsvæði þar eða húsdýragarð ef ég man rétt.


Bara svo því sé haldið til haga hér þá beinast þessi skrif mín ekki að Þyrpingu né heldur Hagkaupum enda þekki ég rekstur þessa fyrirtækja sem og eigendur þeirra lítið sem ekkert. Ég er hinsvegar að velta fyrir mér lýðræði og fjármagni. Svo ég haldi því líka til haga þá hef ég ekkert á móti pengingum í miklu magni en ég hef ekki áhuga á að eiga svo mikið af þeim að um þá þurfi að annast sérstaklega enda er slíkt mikil vinna sem mér finnst ekki spennandi. Ég vil bara eiga peningaslurk sem hægt er að gera eitthvað skemmtilegt fyrir og vinna síðan fyrir öðrum slurk og gera aftur eitthvað skemmtilegt. Nú hef ég vonandi tekið fram hvað ég er ekki að fjalla um og kominn tími til að tala um það sem ég er að tala um.

Sumt hefur einfaldlega verið sameign og við íbúar í landinu höfum átt og byggt upp marga hluti saman. Síðan höfum við nýtt þá og notið þeirra. Fjármagnseigendur hafa hinsvegar horft á suma þessara hluta og vilja eiga þá og njóta arðs sem áður rann til almenningsnota þ.e. fyrir okkur öll og oft meira til þeirra sem meira þurfa. Þetta hefur verið kölluð einkavæðing og þýðir þá að einkaaðilar bera ábyrgð og njóta hagnaðar sem hlýst. Velmjólkandi kýr samfélagsins hafa verið seldar til einkaðila til að njóta arðsins af og þá er spurningin hvernig við ætlum að fá það fé aftur í samfélagið. Söluverð kemur einungis einu sinni en arður er taktföst innkoma yfir lengri tíma. Við fáum aldrei aftur hagnað af Símanum hann fá aðrir hér eftir. Skattar hljóta að tryggja okkur ákveðna "arðsemi" af veltu fyrirtækjanna og í sumum tilfellum hefur tekist vel til og fyrirtækin blómstra eftir einkavæðinguna (sem þau hefðu kannski gert líka þó henni hefði verið sleppt).

Þá kemur að litlu málum Akureyringsins, íþróttavellinum í miðbænum. Með því að einkavæða íþróttasvæði Þórs, sem bærinn á að hluta, telur fjármagnseigandi að skynsamlegt sé að hann fái annað íþróttasvæði til að byggja búð og rökstyður með Gallup könnun. Hver var spurningin í könnuninni þegar niðurstaðan er "Tæplega 59% íbúa á Akureyri segjast ánægð ef svæðið þar sem Akureyrarvöllur er nú yrði skipulagt að nýju, en 26% bæjarbúa vilja halda íþróttavellinum í óbreyttri mynd." skv. frétt í Morgunblaðinu? Vildi 59% fá búð á íþróttasvæðið eða sáu 59% bæjarbúa að stærð íþróttavallarins er of lítil og því nauðsynlegt að líta til annarra þátt og sá því kannski húsdýragarðinn og útivistarsvæðið eins og kom fram á íbúaþingi bæjarbúa hjá fjölmörgum?

Mér var bent á af íbúum í Lundarhverfi að þeir hefðu fengið spurningu frá Gallup varðandi svæði þar sem nú er Jón Sprettur og stendur til að rífa. "Viltu iðnaðarhúsnæði s.s. bifreiðaverkstæði sem því fylgir? 3-4 hæða blokk? eða lágreista verslun á einni hæð?" Ég sem hélt að þar hefði verið áætlað að byggja raðhús líkt og er nýverið búið að byggja þar fyrir aftan. Hinumegin götunnar eru verslanir og þjónusta.

Spurningar í spurningakönnun skipta öllu máli og hægt er að kalla fram ákjósanlega niðurstöðu með því að spyrja "rétt". Ég hélt þó í einfeldni minni að Gallup væri með gæðamat á spurningum en seldi ekki nafn sitt við vondar og leiðandi spurningar. En þar skiptir fjármagnið líklega mestu máli eins og víðar.

Eftir stendur spurningin um lýðræði. Einn maður túlkar skoðun allra manna sem mætti á íbúaþing á Akureyri. Gallup spyr um skoðanir manna og þar með hina lýðræðislegu skoðun með vondum keyptum spurningum. Getur fjármagn líka keypt skoðanir eins og t.d. Þórsara sem sannarlega þurfa lífsnauðsynlega að komast úr sínum fjárhagskröggum?

Hvers vegna má ekki spyrja spurningarinnar "Viltu matvöruverslun í miðbæinn með risastóru bílastæði þar sem íþróttavöllurinn er núna?" Það kemur ekkert líf í miðbæinn í tengslum við matvöruverslun af þessu tagi. Jafnvel þó það séu margar verslanir í húsnæðinu. Það kemur traffík þangað og aðeins þangað. Enda er afar sjaldgæft að verslanir lifi af í nágrenni stórmarkaða. Þær þrífast í sama húsi en ekki söguna meir.

Fyrir nokkrum árum sóttist Matbær (nú Samkaup) eftir svæði þar sem íþróttavöllurinn er núna. Þá hugnaðist mér það ekki og mér hugnast ekki heldur að fá Hagkaupsverslun þar nú. Það er ekki af því hver rekur verslanirnar eða hver hagnast á þeim heldur einungis sú skoðun að mér finnst svæðið ekki henta fyrir stórmarkað eða verslunarkjarna. Slíkt er verið að byggja upp á Gleráreyrum og það þarf ekki tvo slíka kjarna. Margir slíkir kjarnar þrífast ekki einusinni í Reykjavík, hvað þá hér á Akureyri.

Miðbærinn í þeirri mynd sem hann er nú er að breytast og hverfa. Mestu mistökin voru þau að planta Háskólanum á Akureyri ekki í miðbæinn í allt það tóma og hálftóma húsnæði sem er þar, byggja nýtt sbr. tillögur í tengslum við Akureyri í öndvegi, sem hæfði háskólanum, hafa nýtt menningarhús í þeim tengslum. Amtsbókasafnið hefði fengið hlutverk háskólabókasafns og hefði því eflst enn frekar og við hefðum fengið líf í miðbæinn. Kaffihús full af háskólastúdentum, uppákomur og fleira. Svo hefði nú Sólborgarsvæðið líklega hentað langbest í stórt íþróttasvæði sem sannarlega er miðsvæðis. En það þýðir ekki að grenja orðna hluti.

Eftir stendur að fjalla um íþróttavöllinn í miðbænum og hvað á að vera þar, ég hefði svosem ekkert á móti verslun þar ef bílastæðin bættust ekki við. Gætu þau verið undir húsinu eða ofan á því væri fengur að þeim enda teikningin á tillögunni yfir býsna huggulegt hús. Þá væri einnig fínt pláss fyrir útivistarsvæði og húsdýragarðinn sem mig langar svo í hingað í bæinn.

Kannski hnussa einhverjir yfir hugmyndum um útivistarsvæði og húsdýragarð en víða í heiminum eru garðar veglegir í borgum. Þeir dúkka upp hér og þar sem maður á ekki von á þeim. Miðbærinn þarf grænt svæði. Okkur er engin nauðsyn að stappa okkur allt of mikið. Fjarlægðir hér eru það litlar að maður nær sjaldnast að hlusta á heilt lag í bílútvarpinu á meðan maður keyrir milli staða.

En áfram hugsa ég um lýðræðið, fjármagnið og Gallup. Kjörnir sveitarstjórnarmenn og alþingismenn eiga að vera lýðræðislega kjörnir fulltrúar sem endurspegla vilja umbjóðenda sinna. Með þeim kostum og göllum sem því fylgir þá eru þeir verðir lýðræðisins. Þá er hægt að kjósa aftur eða hafna á fjögurra ára fresti. Stóreignafyrirtæki sem eignast hlutina eiga þá þangað til þau vilja selja þá. Ekkert lýðræði nema það sem felst í að eyða peningum hjá þeim er í gildi. Jafnvel þá skiptir það ekki máli því sumir þola tap upp á hundruði milljóna og geta samt haldið áfram því það er hægt að taka fjármagnið úr öðrum vösum.

Kannski er þessi pistill ruglingslegur, það er af því að mér finnst ruglingslegt að hugsa um þetta. Því eru allar athugasemdir vel þegnar því þær hjálpa mér að hugsa áfram;-) Þær hjálpa líka til að komast að niðurstöðu um það sem maður er að hugsa.

kl. |Pólitík

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.