« Kjöt og meira kjöt | Aðalsíða | Móðgandi myndir »

Þriðjudagur 31. janúar 2006

Nikótín hér og þar

Heilbrigðisráðherra leggur nú fram frumvarp til breytinga á lögum um tóbaksvarnir. Ég er nú bara býsna sammála honum um að það er eftirsóknarvert að vera laus við reykingar hér og þar og allsstaðar. Þegar ég reykti fannst mér í góðu lagi að smeygja mér útfyrir og stússast við þessa iðju mína. Eini gallinn var fólk sem labbaði framhjá og þurfti að hnýta í mann ónotum, háðsgósum og spotti. Yfirlætissvipurinn á þeim er frekar minnisstæður og nokkrir einstaklingar sem ég sá nýja hlið á. Það er alger óþarfi að vera með einhvert yfirlæti og hroka við þá sem reykja. Yfirleitt reynir fólk í dag að taka tillit til þeirra sem reykja ekki og þegar menn standa útivið og fólk kemst bærilega framhjá án þess að fá reykinn ofaní sig þá á bara að vera þakklátur fyrir að fólk tekur þetta tillit. Allir vita um skaðsemi reykinga og það þarf ekkert að vera að halda fyrirlestra fyrir þetta fólk eða ata í það yfirlætisfullum setningum.


Ég kynntist fyrst almennilega reyklausum svæðum þegar ég var stödd í Florida á meðan ég reykti ennþá. Ég fór með börnin í Disney garðinn og þar mátti ekki reykja, hroðalegur dagur þar sem hvergi var nokkur afdrep sem ég fann hvorki úti né inni. Þá fregnaði ég að á mörgum stöðum var hreinlega bannað að reykja úti. Líklega vegna stubbasóðanna sem fleygja stubbum frá sér um allt sem er ljótt og sóðalegt á gangstéttum en hreinlega sárt að sjá út í náttúrunni. Ég fékk eitt sinn tár í augun þegar ég sá þröst vera að narta í sígarettustubb. Það ber að ganga vel frá eftir sig.

En ég hef sumsé hætt þessum ósið fyrir allmörgum árum og tekið upp annan ósið sem er skárri en ósiður samt en það er að japla á nikótíntyggjói í tíma og ótíma. Reyndar held ég að ég sé nánast alltaf með þetta gúmmí uppímér. En af því að ég er bara dálítill nikótínisti ennþá þá fer ég í mitt apótek og kaupi mér nikótín. Ég skil reyndar ekki af hverju nikótíntyggjó er bara í apótekum og af hverju það er svona rosalega rándýrt. Það sem er síðan enn verra er að ekki er hægt að kaupa sér nikótíntyggjó í Fríhöfninni, ætti það nú ekki að vera hægt að kaupa það í höfuðstöðvum vímuefnaútsölunnar í landinu?

Hvað um það ég hef ekki farið eins oft útfyrir yfir daginn eins og þegar ég reykti og reyndar sakna ég þess dálítið. Það var ágætt að standa upp frá amstri hversdagsins og labba út í hvaða veðri sem var og eiga stund með sjálfum sér. Kannski maður ætti bara að fara að taka það upp aftur?

kl. |Pólitík

Álit (4)

Ég er nú doldið roggin yfir að vera búin að trappa mig niður af nikótín-tyggjóinu, það gengur vel að vera tyggjólaus ef ég passa að reykja (úti) í hverjum frímínútum ;)

Annars held ég að andlegri velferð margra muni hraka ef bannað verður að reykja utanhúss; Hvernig á geðvonda liðið að fá útrás fyrir illsku sína út í heiminn ef það getur ekki hnýtt í reykingamenn og miklast yfir sínu reykleysi?

Miðvikudagur 1. febrúar 2006 kl. 09:34

Mér finnst sjálfsagt mál að til sé afdrep fyrir reykingafólk, þannig að hægt sé að þjóna hagsmunum bæði reykingafólksins og einnig hinna reyklausu. T.d. finnst mér lausn HA á Sólborg vera frábær. Þegar rekstrardeildin var færð upp á Sólborg var ekki búið að ganga frá portinu milli bygginganna og reykingafólk safnaðist við alla innganga inn í skólann. Það leiddi til rosalegs sóðaskaps, stubbar út um allt, og svo þurftu allir, líka reykleysingjar, að ganga í gegnum reykský í hvert skipti sem var komið eða farið frá húsinu. Seinna var gengið frá ágætis aðstöðu inni í portinu þar sem reykingafólk hefur skjól fyrir vindum og getur hent stubbunum á viðeigandi staði og enginn þarf að ganga í gegnum reykský.

Miðvikudagur 1. febrúar 2006 kl. 11:06

Freyja:

ég held að það verði alveg eins hægt að fá útrás með því að kvarta yfir tyggjósmjatti ef maður er þannig stemmdur.

Miðvikudagur 1. febrúar 2006 kl. 11:08

Já það er auðvitað gustukaverk að reykja fyrir framan siðapostulana svo þeir geti fengið útrás fyrir sinn heilagleika. Annars taka þeir sig bara til með annað.

Reykingaportin eru skv. nýju tillögunni óheimil ef ég skil þau rétt allavega við útveggi ef þeir koma fleiri en einn saman... þ.e. útveggirnir.

Hinsvegar hlýtur að koma upp neðanjarðarkaffihús þar sem má reykja. Með dularfullum hlera þar sem ógnvekjandi maður opnar hlerann og biður um lykilorð og aðeins innvígðir reykingamenn komast inn. Svona eins og í mafíósaheiminum...

Miðvikudagur 1. febrúar 2006 kl. 12:28

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.