Færslur í febrúar 2006

« janúar 2006 | Forsíða | mars 2006 »

Miðvikudagur 1. febrúar 2006

Móðgandi myndir

Ég hef eilítið verið að skoða umræður á Netinu varðandi myndbirtingar af Múhammeð spámanni sem múslimar taka ekki vel þar sem trú þeirra býður að ekki skuli gerðar myndir af spámanninum. Nú er ég þeirrar skoðunar að ekki skuli ráðist að trú fólks og sé ekki nokkurn tilgang með því að vera að birta myndir sem ganga nærri fólki. Á meðan að mannvera beitir ekki trú sinni til illverka á ekki að ráðast að henni. Síðan er fólk í nánast hvaða trúarbrögðum sem eru sem gengur til illra verka í nafni trúar sinnar og eru Kristnir menn þar ekki eftirbátar annarra og skyldu því síst kasta steinum úr því glerhúsi.

Continue reading "Móðgandi myndir" »

kl. |Pólitík || Álit (10)

Laugardagur 4. febrúar 2006

Vann silfur

wKirkja4438.jpg
Nú var ég að vinna silfur í ljósmyndakeppni.is og er feykilega montin. Mér fer nú hægt fram í þessari ljósmyndun en þó á ég mínar "stundir" eins og með þessa mynd sem ég er mjög ánægð með. Margir halda að hún sé samsett en svo er ekki þetta er tekið úr portinu bak við gömlu Bögglageymsluna í Gilinu. Það var nokkuð dimmt svo ég varð að nota flass sem auðvitað virkaði bara á vegginn en ekki kirkjuna svo það varð að vinna hana upp en ég hafði gaman af því að hafa hana dökka. Ég kallaði hana "Boðskapur kirkjunnar" en félagar mínir í ljosmyndakeppni.is kölluðu hana "Kirkjukórinn" sem er líklega enn betra;-)

kl. |Ljósmyndun || Álit (9)

Sunnudagur 5. febrúar 2006

Nafnleynd og ofbeldi

Nú er að hljóðna á Barnalandi - opnum spjallþráðum Morgunblaðsins - eftir enn eitt uppþotið á þeim bænum. Ef ég einhverntíman nenni í doktorsnám þá held ég að það væri verðugasta verkefnið að rannsaka það samfélag. Mæli þó frekar með því fyrir mannfræðinga en menntunarfræðinga. Undir nafnleynd ganga hótanir um að senda handrukkara, misþyrmingar á börnum og gæludýrum. En alltumkring eru síðan einhverjir sem telja sig góðar mannverur sem reyna að telja sjálfum sér og öðrum trú um að allt geti orðið gott að lokum. Þessir einstaklingar tryggja það að sömu mál eða svipuð komi aftur fyrir á þessum stað og hindra að menn horfist í augu við hvað er þarna á ferðinni í raun og veru. Sem kannski enginn veit.

Continue reading "Nafnleynd og ofbeldi" »

kl. |Pólitík || Álit (3)

Mánudagur 6. febrúar 2006

Sylvía Nótt

Á morgun mæti ég á minn fyrsta útvarpsráðsfund eftir að ég var kjörinn aðalmaður á Alþingi fyrir jólin. Ekki er hægt að neita því að það er kraftmikið mál sem liggur fyrir ráðinu þegar um er að ræða Eurovision keppnina og meinta dreifingu á lagi Sylvíu Nótt á netinu. Það verður fróðlegt að taka þátt í afgreiðslu þess máls. Á að vísa laginu úr keppninni eða á ekki að gera það? Það er sú spurning sem þarf að svara á morgun. Hvað finnst lesendum mínum um það mál?

kl. |Pólitík || Álit (28)

Þriðjudagur 7. febrúar 2006

Siðferði og samskiptasóðar

Í dag hélt ég erindi á ráðstefnu SAFT sem ég kallaði "Að mennta börn fyrir nútímann". Ráðstefnan var haldin í tengslum við Alþjóðlega netöryggisdaginn sem var í dag. Það sem ég vildi segja í erindi mínu var að uppeldi lýkur ekki við lyklaborðið, það þarf líka að ala börn upp í Netheimum. Menntun væri ekki eitthvað sem ætti sér stað á ákveðnum stað á ákveðnum tíma í tengslum við ákvenða hluti heldur bæri okkur að mennta börn til þátttöku í nútímasamfélagi svo ekki sé talað um einhvert óskilgreint framtíðarsamfélag. Hmmm þetta hljómaði dálítið gáfulega... ég held þó að ég hafi ekki sagt nákvæmlega þetta.

Continue reading "Siðferði og samskiptasóðar" »

kl. |Pólitík || Álit (20)

Laugardagur 11. febrúar 2006

Tæknihörmungar

Mikið leiðist mér þegar ég lendi í tækniörðugleikum. Ég keypti mér þennan fína HP Photosmart 8250 prentara og ætlaði bara að láta hann í samband og virka. Nei, nei, þá hætti tölvan mín að virka þegar innsetningunni var að verða lokið. ég endurræsti, tók úr sambandi, endurræsti aftur og aftur en ekkert gekk. Svo ég fékk nýja skjásnúru - ekkert gekk. Fór með tölvuna í vinnuna og þar virkaði hún fínt. Fékk lánaðan skjá - ekki virkaði tölvan heima. Endurræsti og prófaði setup í ýmsum röðum - ekkert virkaði. En þá ákvað ég að slökkva á prentaranum (sem hafði verið í sambandi af því hann var í miðri uppsetningu) og þá virkaði tölvan. ÞÁ var það þessi fúli fantans ömurlegi HP fótóSMART??? sem hafði þessi áhrif allan tímann. Hverjum dettur í hug að það sé prentarinn þegar ekkert sést á skjánum? Hefur einhverjum dottið það í hug???? Á svo að kalla þetta fótósmart??? En það er komin ágætis mynd útúrhonum núna.

kl. |Tilveran || Álit (0)

Sunnudagur 12. febrúar 2006

Ekki ungliða og flokkaflakkara

Úrslit í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Akureyri eru mjög skýr, Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri nýtur afgerandi stuðnings og slíkt gerir Sigrún Björk Jakobsdóttir einnig. Elín Margrét í þriðja sæti verður að teljast öflug og kemur með ferskan blæ inn. Aðrir fá minna og greinilegt að munur er fremur lítill í næstu sætum. Enginn ungliði nær efstu 6 sætunum, sá yngsti þar verður 36 ára á þessu ári. Flokkaflakkararnir ná ekki árangri og augljóst að Sjálfstæðismenn veittu þeim ekki brautargengi. Hinsvegar er klárt að Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri styður sínar konur ólíkt félögum þeirra í Garðabæ og Kópavogi. Það er gott að sjá. Þetta var greinilega spennandi prófkjör en um næstu helgi verður prófkjör Framsóknarflokksins og þá fara sveitir andstæðinganna að skýrast.

kl. |Pólitík || Álit (6)

Sunnudagur 12. febrúar 2006

Flott Emilía

wEmilia5142.jpgÉg hef ekki sett inn margar myndir af dýrunum mínum nýlega svo hér er ein af Emilíu sem ég tók áðan þar sem hún var að kúra sig (alltaf verið að trufla). Ég var dálítið hrifin hvernig ég náði augunum og síðan fannst mér yfirlýsingin bara dálítið kúl og jafnvel betri en myndirnar sem ég náði á sama tíma sem eru með eðlilegri lýsingu. Smellið á hana til að sjá stærri útgáfu. Emilía er annars ferlega myndvænn köttur;-)

kl. |Tilveran || Álit (4)

Mánudagur 13. febrúar 2006

Atvinnuleysi kvenna

Þegar nýútkomin skýrsla um atvinnuleysi er skoðuð kemur í ljós að alls staðar á landinu eru konur frekar atvinnulausar en karlar. Á Norðurlandi eystra er atvinnuleysi kvenna 4,3% en atvinnuleysi karla 2%. Á Vestfjörðum er atvinnuleysi karla 0,8% en kvenna 4,2%. Atvinnuleysi karla á landsbyggðinni almennt er 1,3% en atvinnuleysi kvenna á landsbyggðinni er 3%. Hvernig stendur á þessum gríðarlega mun og hvað er gert til að skoða stöðu þessara kvenna? Því hefur verið kastað að mér nokkrum sinnum að þetta séu í rauninni ekki atvinnulausar konur heldur konur sem skrá sig atvinnulausar eftir fæðingarorlof en eru í rauninni ekkert atvinnulausar. Er það líklegt? Hefur það verið skoðað? Veit það einhver lesandi hér? Kannski ætti ekki að spyrja þessarar spurningar en þegar menn tala oft um sama hlutinn trúa menn honum ef um hann er ekki rætt skilmerkilega.

Continue reading "Atvinnuleysi kvenna" »

kl. |Pólitík || Álit (5)

Þriðjudagur 14. febrúar 2006

Vanvirðing við menningu

wHarpaBaenarinnar4806.jpg Þetta fallega listaverk á Hamarkotstúni á Akureyri kallast Harpa bænarinnar og er eftir hinn virta listamann Ásmund Sveinsson. Afar fallegt verk og tignarlegt. Krotað hefur verið á stöpulinn undir verkinu og á verkið sjálft eins og sést á þessari mynd. Ljótt er þegar einhverjir sjá ástæðu til að krota á listaverk og ekki er það betra þegar engum dettur í hug að þrífa verkið og sýna því sóma. Krotið á Hörpu bænarinnar er ekki nýtt, Sverrir Páll Erlendsson menntaskólakennari benti á þetta í pistli í september 2004 ásamt því að láta lögreglu vita. Nú einu og hálfu ári síðar er verkið enn útbíað svo ekki eru bæjaryfirvöld hér á Akureyri að sinna þeim listaverkum sem þeim eru falin til varðveislu. Mikilvægt er að bera virðingu fyrir þeirri menningu og list sem bæinn prýðir, séu einhverjir sóðar sem þurfa að krota á listaverk þarf að þrífa eftir þá.

kl. |Pólitík || Álit (0)

Fimmtudagur 16. febrúar 2006

Annasöm vika

Vikan er búin að vera býsna annasöm. Ég hef unnið meira en venjulega enda nóg að gera á nýrri skrifstofu á nýjum stað hjá nýja fyrirtækinu sem ég byrjaði að vinna fyrir um áramótin. Pólitíkin hefur tekið sinn tíma í þessari viku var ég í umhverfismálum og kafa betur ofan í þau. Rifjaði enn og aftur upp hversu ferlega duglegir Hríseyingar eru miðað við okkur hér inn á Akureyri í þeim efnum. Var síðan veðurteppt í dag svo ég komst ekki í vinnuna í MH en samt gat ég unnið til hálf átta í kvöld. Ég er hinsvegar fúl, léttist ekkert og þyngdist um einhver grömm, veit ekki hvenær ég verð búin með þessi fimm kíló sem ég átti eftir um miðjan desember og eru ENNÞÁ eftir. Voðalegur aumingi getur maður verið. En ég verð að viðurkenna það, mér finnst ferlega gaman að hafa mikið að gera og hafa síðan ekkert að gera og svo voða mikið, ekkert þar á milli;-)

kl. |Tilveran || Álit (1)

Sunnudagur 19. febrúar 2006

Frábær Eurovision!

Ég fór á úrslitakvöld Eurovision söngvakeppninnar í stúdíóið við Fiskislóð í gærkvöldi ásamt Katrínu Ýr og er himinlifandi. Ég hefði aldrei trúað því, nema af því ég sá það, að hægt væri að keyra í gegn annað eins kvöld og þarna var gert. Söngvararnir hverjum öðrum betri, liprir dansarar, hljóðfæraleikarar sem geisluðu af hæfileikum. Síðan allt utanumhaldið, píanó út, flygill inn, hátalarar hér og þar og allt gekk þetta upp á ótrúlega stuttum tíma á meðan eitt "póstkort" var sent í loftið. Við Íslendingar eigum á að skipa ótrúlegum fjölda manna sem hafa þekkingu, reynslu og metnað til að sjá um úrslitakvöld af þessari stærð. Svo ég lýsi því hér með yfir að við getum alveg séð um alvöru Eurovision úrslitakvöld svo Silvía Nótt má alveg vinna í Aþenu;-)

Continue reading "Frábær Eurovision!" »

kl. |Pólitík / Tilveran || Álit (6)

Mánudagur 20. febrúar 2006

Háskólinn á Akureyri

Ég undrast enn og aftur þá ótrúlegu staðreynd að menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins skuli standa í vegi fyrir eðlilegum vexti Háskólans á Akureyri. Inn í ráðuneytinu situr ráðherrann með mælistikuna ákvarðar hvað má vaxa og hversu mikið og hirðir ekkert um hvort "viðskiptavinir" fá að njóta menntunar í þessari stofnun. Þrátt fyrir að menntunarstig í nánasta umhverfi Háskólans á Akureyri sé lægra en meðal menntunarstig í landinu - þá skiptir það ekki máli. Þrátt fyrir að háskólinn hafi sérhæft sig í að bjóða menntun á landsbyggðinni, sem sárlega þarfnast þess að auka menntunarstigið - þá hirðir ráðherrann ekkert um það. Mælistikan skiptir mestu en menn á landsbyggðinni engu. Frelsi til að velja, frelsi til að menntast, frelsi til að geta staðið jafnfætis - standa ekki til boða. Frekar er áhugi fyrir að fæla fólk upp af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins eða til útlanda. Þetta er sorgleg staðreynd um stöðu Háskólans á Akureyri, hámenntastofnunar landsbyggðarinnar - hirðuleysi ráðherra er algert.

Continue reading "Háskólinn á Akureyri" »

kl. |Pólitík || Álit (2)

Fimmtudagur 23. febrúar 2006

Carmen rúllur og aðrar minjar

Ég fór á Þjóðminjasafnið í gær, þangað hef ég nefninlega ekki komist frá því að það opnaði eftir breytingar. Þegar við landsbyggðarmenn erum í höfuðstaðnum eru það nefninlega ævinlega útréttingar og heimsóknir af öllu tagi svo allt of sjaldan gefur maður sér tíma til að heimsækja söfn eða njóta þess sem höfuðborgin hefur uppá að bjóða. Ég var alsæl með Þjóðminjasafnið, breytingarnar hafa tekist firnavel og er bæði fróðlegt sem og skemmtilegt að fara í gegnum safnið. Sérstaklega gladdi það mig hversu veglegan sess ljósmyndun hefur á safninu og datt í skoðun á ljósmyndabókum á safninu sem þarna er. Saga þjóðar er mikilvæg því af sögunni getum við lært, en á safninu er nútímanum einnig gerð skil og þá er einmitt fróðlegt að setja hlutina í samhengi. Rúlluband með minjum frá síðustu öld var virkilega skemmtileg lausn á að sýna marga hluti á nýjan hátt. Ég hló þegar ég sá Carmen rúllurnar því ég hef einmitt verið að brúka mínar (sem ég fékk um fermingu) til að ákveða hvort ég ætla að fá mér permanent. Sumsé ég brúka minjar - og þótti það óendanlega fyndið.

Continue reading "Carmen rúllur og aðrar minjar" »

kl. |Pólitík || Álit (1)

Föstudagur 24. febrúar 2006

Lífið er svo skemmtilegt

Stundum er svo gaman að vera til. Dagurinn í dag hefur einmitt byrjað þannig og lífið er svo skemmtilegt. Nýji iPodinn minn er búinn að vera spila fyrir mig Venezia Romantica, Rondo Veneziano sem beinlínis yljar sálinni og kætir um leið. Ég hef staðið mig að því að dansa hér og þar við morgunverkin. Ég fór með Kát út að ganga í morgun þar sem ég hitti Ute og Miriam með sína hunda í morgunskímunni. Þokumóða steig af hafinu og frostið skreytti jörðina. Ég hljóp niður í fjöru og gerði léttar æfingar. Dró ferskan sjávarilminn að mér, horfði á litla trillu rjála við spegilsléttan hafflötinn. Fuglarnir liðu áfram og mörkuðu litlar gárur sem teiknuðu á hafflötinn eins og brúðarslæða á eftir þeim. Síðan hafragrauturinn og sinna kisunum á heimilinu. Emilía sat upp á skáp og horfði á mig dansandi við að steypa málningu á andlitið. Freddi var þeirrar skoðunar að það ætti að knúsa hann - þá gerir maður það bara. Mía Ming og Baldvin Tong létu eins og þau væru í hreiðurgerð en það hafa þau gert áður. Leiðin í vinnuna lá niður gilið og morgunlitirnir fallegir og Pollurinn friðsæll. Í vinnunni voru Stefnustrákarnir kattiðnir við verkin. Fórum yfir verkefni dagsins.

Laufey kemur í heimsókn í dag, það er Rotary fundur og ég fer um helgina suður á Vetrarhátíð á opnun ljósmyndasýningar okkar ljósmyndaáhugamanna í World Class í Laugum klukkan 14:00 á stunnudaginn. Þar fæ ég að halda opnunarræðu sem ég er að smíða. Ég hlakka svo mikið til að sjá mynd eftir mig á sýningu. Er alveg að rifna úr stolti, þökk sé félögum mínum á ljosmyndakeppni.is þá heldur ljósmyndaævintýrið áfram. Nú er svo gaman að vera til og lífið svo skemmtilegt, er það ekki;-)

kl. |Tilveran || Álit (1)

Laugardagur 25. febrúar 2006

Farvel fúla vitleysa

Hímandi út í horni gefst þriðji menntamálaráðherrann loks upp undan þeirri hringavitleysu sem samræmd próf í framhaldsskólum svo sannarlega eru. Fyrir utan að samræmd próf á Íslandi geisla ekki beinlínis af réttmæti og áreiðanleika (þeim gullnu hugtökum samræmdra prófa) þá eru þau frekar lélegar mælistikur á skólastarf. Þau réttlæta allavega ekki allt það írafár og kostnað sem af þeim skapast. Eina gagnið sem ég sé af þeim er að ungt fólk sem lifir sældarlífi hefur gott af hæfilegum terror og tilfinningarúllettum. Fyrir annað ungt fólk eru þau gagnslaus. Sem ætti nú að benda mönnum á að vera ekki með þessa hrúgu af samræmdum prófum í grunnskólum. Samræmd próf eyðileggja skólastarf að mínu mati og menntun manna. Mæli frekar með því að nemendur keppi í skák en utanbókarlærdómi á ýmsum sviðum. Síðan er hægt að hampa skólanum sem á flesta skákmeistara. Eða keppa í frímerkjasöfnun, smásagnakeppni, uppfinningum, söng eða hverju því sem þau vilja yfir höfuð keppa í.

Continue reading "Farvel fúla vitleysa" »

kl. |Menntun / Pólitík || Álit (7)

Laugardagur 25. febrúar 2006

Hænur og hanar

whani5426.jpg Ég fór á fund í morgun á Björk í Eyjafjarðarsveit en þar búa gríðarlega flottar hænur ásamt tveimur hönum. Ég myndaði heilmikið en er ekki búin að vinna alfarið úr því en hér eru nokkur dæmi. Eru þetta ekki flottar skepnur?

Verst er að ef fram heldur í fuglaflensumálum þá geta hænur og hanar ekki verið útivið hér á landi og er það alger synd. Þá verður þessum fuglum líklega lógað þar sem þær eru vanar því að vera úti og erfitt að loka slík dýr alfarið inn í búrum.

kl. |Ljósmyndun || Álit (1)

Sunnudagur 26. febrúar 2006

Ég gerði ALLT í dag

Í dag ók ég til Reykjavíkur með Gísla mínum, fór á Nings og fékk léttkost, þaðan í gamla Blómavalshúsið á fjölmenningarfestival á Vetrarhátíð, þaðan á Ásmundarsafn og síðan á ljósmyndasýninguna. Hélt tímamótaræðu (right) við opnun sýningarinnar og fannst ofboðslega spennandi að eiga mynd á sýningu. Þessi frábæra mynd var tekin þar af Arnþóri og það sést hvað það er gaman;-) Síðan í bollukaffi til Fífu sys og síðan keyrt norður. Ég sumsé gerði bara ALLT í dag;-)

kl. |Tilveran || Álit (3)

Þriðjudagur 28. febrúar 2006

Fjölmenning á Vetrarhátíð


Multicultural festival
Originally uploaded by LaStef.
Hér er ein myndin sem ég tók á Vetrarhátíð í Reykjavík. Við fórum í Sigtún þar sem Blómaval var eitt sinn og þar var fjölmenningarhátíð sem var gríðarlega skemmtileg. Hér er ég líka að prófa hvort ég geti sett inn myndir hér frá Flickr sem kemur nú ekki vel út því forritið stútar íslenskunni sem gengur nú ekki en þá veit ég það;-)

kl. |Ljósmyndun || Álit (5)

Knúið af Movable Type 3.33
Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.