« Flott Emilía | Aðalsíða | Vanvirðing við menningu »

Mánudagur 13. febrúar 2006

Atvinnuleysi kvenna

Þegar nýútkomin skýrsla um atvinnuleysi er skoðuð kemur í ljós að alls staðar á landinu eru konur frekar atvinnulausar en karlar. Á Norðurlandi eystra er atvinnuleysi kvenna 4,3% en atvinnuleysi karla 2%. Á Vestfjörðum er atvinnuleysi karla 0,8% en kvenna 4,2%. Atvinnuleysi karla á landsbyggðinni almennt er 1,3% en atvinnuleysi kvenna á landsbyggðinni er 3%. Hvernig stendur á þessum gríðarlega mun og hvað er gert til að skoða stöðu þessara kvenna? Því hefur verið kastað að mér nokkrum sinnum að þetta séu í rauninni ekki atvinnulausar konur heldur konur sem skrá sig atvinnulausar eftir fæðingarorlof en eru í rauninni ekkert atvinnulausar. Er það líklegt? Hefur það verið skoðað? Veit það einhver lesandi hér? Kannski ætti ekki að spyrja þessarar spurningar en þegar menn tala oft um sama hlutinn trúa menn honum ef um hann er ekki rætt skilmerkilega.


Á sama tíma og atvinnuleysi kvenna á landsbyggðinni er svona miklum mun meiri en karlanna er spurning hvaða ráða er hægt að grípa til undir þessum kringumstæðum. Gera má ráð fyrir að ein ástæða þess að hlutfallslega færri konur eru á landsbyggðinni sé ef til vill möguleiki þeirra á að fá atvinnu við hæfi. Þegar stærri svæði eru skoðuð er það einungis á höfuðborgarsvæðinu sem hlutfallið er þannig að konur eru fleiri en karlarnir sbr upplýsingar frá Hagstofunni í desember s.l. En þegar ég skoða til dæmis Akureyri þá eru m.v. 1. desember s.l. 8.134 karlar og 8.428 konur en af þessum konum er 171 atvinnulaus í bænum.

Helsta umræðan hér snýr síðan að því að nauðsynlegt sé að fá stóran vinnustað sem muni bjarga þessari stöðu og mest er rætt um að álver sé rétta leiðin. Ég veit ekki hvort álver eru þeir vinnustaðir sem helst dragi konur að landsbyggðinni né heldur hvort það breyti því ótrúlega hlutfalli milli kynjanna þegar kemur að atvinnuleysi. Hlutfallið hér á Akureyri er að 60% atvinnulausra eru konur en um 40% eru karlar. Sé Norðurland eystra skoðað í heild eru um 64% atvinnulausra konur en 36% karlar.

Nú þekki ég ekki hvaða atvinna höfðar almennt til kvenna enda sjálf svosem ekki í skilgreindu "kvennastarfi". En ljóst er að við þurfum mjög öfluga áherslu á störf sem konur kjósa sér. Eftir stendur síðan þáttur sem við þurfum að hafa vel í huga en það er mismunurinn á menntastigi fólks á höfuðborgarsvæðinu og síðan úti á landi. Á því er reginmunur. Hér á Eyjafjarðarsvæðinu í heild er hlutfall þeirra sem hafa lokið háskólamenntun 12,1% á móti 22,9% á höfuðborgarsvæðinu þar sem hlutfall kvenna er hæst.

Spurning er hvort einhver hafi kannað það sérstaklega hvað það er sem konur hér á Akureyri vilja starfa við. Hvað getur eflt atvinnu fyrir konur hér sem og í nágrannasveitarfélögunum? Veit það einhver? Ef ekki væri þá ekki ráð að spyrja konurnar?

kl. |Pólitík

Álit (5)

Þetta er einmitt spurning um það hvort allar þessar konur sem fara í háskóla til að sækja sér menntun (eru þær ekki í meirihluta í flestum háskólum?) hafi nokkra ástæðu til að koma til baka í sína heimabyggð ef þeirra bíður ekkert nema atvinnuleysi?

Svo sýnist mér einhvernveginn að alltaf þegar niðurskurðarhnífurinn fer af stað þá eru það kvennastörfin, sérstaklega ófaglærðu, sem fara fyrst.

Þriðjudagur 14. febrúar 2006 kl. 08:43

Þetta er allavega athyglisvert í því ljósi að mest er talað um að skapa atvinnu fyrir karla í almennu tali.

Þriðjudagur 14. febrúar 2006 kl. 10:06

Álver leysir ekki vanda þeirra kvenna sem eru atvinnulausar. Þessi hluti er væntanlega konur sem sagt hefur verið upp vinnu vegna hagræðingar, konur í e.k. orlofi eða fallið út úr skóla. merkilegt að engar rannsóknir hafi farið fram á þessu eða fyrirspurn á Alþingi. Þörf spurning Lára.
gb

Miðvikudagur 15. febrúar 2006 kl. 14:30

Getur ekki ástæðan verið sú að hugmyndin var að með komu þessara framkvæmda þá væri nóg að vinnu að fá þannig fluttu heilu fjölskyldurnar til að karlarnir fengu vinnu en eftir stendur að konurnar fá ekkert að gera. Bara smá hugdetta

Miðvikudagur 15. febrúar 2006 kl. 16:13

Hellcat:

Atvinnusköpun fyrir konur?!? Hvílíkt endemis rugl. Í hvert sinn sem á að veita pening í atvinnusköpun þá fer þetta allt í karla-stóriðju eða vegavinnu.
Hver nennir að skapa störf handa okkur tjellingunum? Launin eru svo lág að það tekur því ekki einusinni að setja upp prógram, einfaldara að hafa okkur bara á atvinnuleysisbótum. Svo koma einhverjir snillingar og segja þetta vera félagslegt vandamál, sjáiði til: Það sárvantar dagmömmur fyrir yngstu börnin. Hvernig getur þá mögulega verið raunverulegt atvinnuleysi?
(muldurmuldur)

Laugardagur 18. febrúar 2006 kl. 22:42

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.