Ég fór á Þjóðminjasafnið í gær, þangað hef ég nefninlega ekki komist frá því að það opnaði eftir breytingar. Þegar við landsbyggðarmenn erum í höfuðstaðnum eru það nefninlega ævinlega útréttingar og heimsóknir af öllu tagi svo allt of sjaldan gefur maður sér tíma til að heimsækja söfn eða njóta þess sem höfuðborgin hefur uppá að bjóða. Ég var alsæl með Þjóðminjasafnið, breytingarnar hafa tekist firnavel og er bæði fróðlegt sem og skemmtilegt að fara í gegnum safnið. Sérstaklega gladdi það mig hversu veglegan sess ljósmyndun hefur á safninu og datt í skoðun á ljósmyndabókum á safninu sem þarna er. Saga þjóðar er mikilvæg því af sögunni getum við lært, en á safninu er nútímanum einnig gerð skil og þá er einmitt fróðlegt að setja hlutina í samhengi. Rúlluband með minjum frá síðustu öld var virkilega skemmtileg lausn á að sýna marga hluti á nýjan hátt. Ég hló þegar ég sá Carmen rúllurnar því ég hef einmitt verið að brúka mínar (sem ég fékk um fermingu) til að ákveða hvort ég ætla að fá mér permanent. Sumsé ég brúka minjar - og þótti það óendanlega fyndið.
Ég man vel eftir ferðum á Þjóðminjasafnið frá því ég var barn. Man helst eftir því hversu stutt rúmin höfðu verið í gamla daga, hversu menn áttu ótrúlega marga aska. Rúsínan í pylsuendanum var hinsvegar alltaf vaxmyndasafnið, hvar er það núna? Mikið var þetta fólk dularfullt og spennandi, og ég grandskoðaði verkin og reyndi að ímynda mér hvernig þau hefðu verið gerð. Hinsvegar fannst mér safnið sjálft aldrei neitt sérstaklega spennandi fyrir utan vaxmyndirnar. Ég skildi það ekki - þetta var bara gamalt dót og lyktin af því var vond.
Í dag er öldin önnur og á margan hátt skemmtilegt að fara með börn á safnið. Finna hversu hringabrynjur eru þungar, spreyta sig á spurningum, fara í leiki, láta taka af sér mynd með hjálm, sverð og skjöld í gamaldagsbúningi. Síðan má búa til ýmis ævintýri í safninu.
Ég hafði líka gaman af sýningu um list kvenna frá síðustu öld, aðallega málaralist en nokkur skemmtileg leirlistaverk voru þar líka.
Tíminn rann frá mér þar sem ég tölti í gegnum verslunina á staðnum sem var flott, ég er nýbúin að vera á Írlandi þar sem ég var að skoða minjagripaverslanir í tengslum við söfn og sá að margt sem var vel heppnað þar var líka velheppnað hjá okkur. Kaffihúsið var freistandi en kominn tími til að fara út á flugvöll og fljúga norður.
Ég mæli eindregið með ferð á Þjóðminjasafnið, en minni síðan á gamalt baráttumál mitt sem er að varðveita hljóð- og sjónminjar þ.e. ræður, frásagnir og tónlist ásamt fréttum af tímamótaatburðum bæði í hljóðvarpi og sjónvarpi.
Álit (1)
Sammála..þetta gerði ég fljótlega eftir opnun. Þetta hefur tekist frábærlega. Alveg þess virði að fara þangað ,eigninlega á engnin að sleppa því
Fimmtudagur 23. febrúar 2006 kl. 17:20
Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri