Ég undrast enn og aftur þá ótrúlegu staðreynd að menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins skuli standa í vegi fyrir eðlilegum vexti Háskólans á Akureyri. Inn í ráðuneytinu situr ráðherrann með mælistikuna ákvarðar hvað má vaxa og hversu mikið og hirðir ekkert um hvort "viðskiptavinir" fá að njóta menntunar í þessari stofnun. Þrátt fyrir að menntunarstig í nánasta umhverfi Háskólans á Akureyri sé lægra en meðal menntunarstig í landinu - þá skiptir það ekki máli. Þrátt fyrir að háskólinn hafi sérhæft sig í að bjóða menntun á landsbyggðinni, sem sárlega þarfnast þess að auka menntunarstigið - þá hirðir ráðherrann ekkert um það. Mælistikan skiptir mestu en menn á landsbyggðinni engu. Frelsi til að velja, frelsi til að menntast, frelsi til að geta staðið jafnfætis - standa ekki til boða. Frekar er áhugi fyrir að fæla fólk upp af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins eða til útlanda. Þetta er sorgleg staðreynd um stöðu Háskólans á Akureyri, hámenntastofnunar landsbyggðarinnar - hirðuleysi ráðherra er algert.
Hversu lengi munu landsbyggðarmenn og við Eyfirðingar láta bjóða okkur þá kúgun sem í þessu felst? Á sama tíma og enn og aftur er verið að ræða um stórfabrikku sem framtíðaratvinnu. Ég nenni ekki umræðunni um að allir vilji helst af öllu vinna í álveri. Það er ekkert þannig - ekkert frekar en allir vilji vera bændur, hljómlistamenn, sjómenn, tölvufræðingar eða hvað það nú er.
Hvernig í ósköpunum er hægt að ná eyrum sofandi ráðherra í menntamálaráðuneytinu - til hvaða ráða er hægt að grípa. Menn hafa skrifað í blöð, haldið ræður, farið á fund ráðherra. Ekkert dugar. Hirðuleysi er hættulegt til lengdar, Háskólinn á Akureyri þarf að fá að dafna og menntamálaráðherra verður að hætta að standa í vegi fyrir því.
Álit (2)
Heyr heyr
Þriðjudagur 21. febrúar 2006 kl. 03:30
Mér er fyrirmunað að skilja af hverju flokkur sem kemur fram við menntun og ungt fólk skuli mælast svona í skoðanakönnunum. Meðan Sjálfstæðisflokkurinn er með 40-45% og stöðug í ríkisstjórn breytist ekkert. Þar hefur hann verið í 15 ár samfleytt og fátt bendir til að það breytist. Hvað þarf eiginlega til ? Landsbyggð og menntamál eru í sárum eftir þennan stjórnarflokk í bráðum tvo áratugi
Þriðjudagur 21. febrúar 2006 kl. 07:56
Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri