« Flickr er frábært | Aðalsíða | Undarlegur útreikningur »

Föstudagur 31. mars 2006

Landsbyggðarnemendur borga sjónvarpsefni

Nemendum Menntaskólans á Akureyri hefur gengið vel í spurningakeppninni Gettu betur og vil ég óska þeim innilega til hamingju með frammistöðuna. Ég vann í MA í fjögur ár að þróunarverkefni í upplýsingatækni fyrir nokkrum árum og kynntist því starfinu vel, dugnaði og metnaði nemenda sem kennara. Því veit ég að liðið í spurningakeppninni hefur lagt hart að sér og unnið ötullega að undirbúningi. Því hafa það verið sár vonbrigði fyrir þau að Ríkisútvarpið skyldi einhliða án þess að upplýsa samráðsnefnd RÚV og nemenda að allar keppnir yrðu haldnar í Reykjavík. Fyrir það fyrsta gátu þátttakendurnir ekki fært keppnina heim í skólann sinn eða bæinn sinn heldur urðu nemendur skólans sem vildu styðja sitt lið, sem RÚV ætlast til að þau geri, að leggja í erfið og dýr ferðalög á keppnina.


Hver ferð suður kostar nemendur rúma milljón, en fyrir lið MA sem kemst alla leið í úrslit þýðir það þrjár ferðir suður til Reykjavíkur. Haldið er af stað um hádegi á fimmtudegi og ekið suður með langferðabifreið en þangað er komið um sexleytið. Nemendurnir geta þá fengið sér að borða en halda síðan að Fjöruslóð þar sem upptökuver spurningakeppninnar er til húsa og njóta þess þar til rúmlega níu um kvöldið. Þá þarf að keyra aftur norður og eru nemendur komnir til síns heima milli tvö og þrjú um nóttina. Þau fá leyfi úr skólanum til tíu morguninn eftir en eru þá búin að tapa tæplega kennsludegi sem þau hafa rétt á að fá. Sumir myndu nú halda að nemendur séu ævinlega kátir að fá frí en ef ég þekki nemendur skólans rétt þá vilja þau standa sig vel við námið og því kemur þetta niður á þeim. Einnig er talsvert á sig lagt að sitja 10 tíma í bíl fyrir tæplega tveggja tíma skemmtun.

Hingað til hafa nemendur getað gert ráð fyrir því að kostnaður dreifist talsvert á þátttökuskólana vegna þess að farið hefur verið út á land en svo er ekki að þessu sinni. Menntaskólinn á Akureyri fékk 200 þúsund króna styrk frá RÚV vegna fyrstu keppninnar en eftir viðræður var upphæðin sem betur fer hækkuð í rúm 700 þúsund. Engu að síður má ljóst vera að þarna er talsvert bil á milli sem nemendur skólans þurfa að brúa.

Spurningakeppnin Gettu betur er talsvert vinsælt sjónvarpsefni, ég þekki ekki hver kostnaðurinn er við keppnina en hinsvegar hlýtur að vera ljóst að framhaldsskólar sem eru á landsbyggðinni geta ekki átt að þurfa að greiða langt umfram aðra til þess að vera með. Kostnaðurinn er að minnsta kosti á aðra milljón í ferðakostnað fyrir utan annan kostnað sem nemendur þurfa að bera ásamt því að fá minni kennslu. Í þessu samhengi er ágætt að hafa í huga að sama ráðuneyti stýrir Menntaskólanum á Akureyri og Ríkisútvarpinu.

Það er alveg ljóst að þessar vinnureglur þarf að endurskoða til að gera nemendum í framhaldsskólum á landsbyggðinni kleift að taka þátt í keppninni á jafnréttisgrundvelli. Þurfi nemendafélög skólanna að bera þennan mikla aukakostnað má gera ráð fyrir að minna verði um annað félagslíf í skólanum og það sé hreinlega ekki eftirsóknarvert að ganga vel í Gettu betur því það er einfaldlega of dýrt.

Ég hef í ljósi þessa sent útvarpsstjóra bréf þar sem ég gagnrýni þetta og afrit til meðráðsmanna minna í útvarpsráði. Vænti ég þess að þetta mál verði tekið upp á næsta fundi ráðsins.

En eftir viku fara nemendur ferð í úrslitaþáttinn, þau leggja hart að sér, langt umfram aðra framhaldsskóla, til þess að geta tekið þátt í keppninni. Ég óska þeim góðs gengis - ég veit að þau standa sig vel, bæði keppendur og stuðningslið. Hvernig væri nú að athuga hvað það kostaði að koma öllum suður með flugvél? Hvað kostar ein þota norður??? Er það ekki bara ódýrara?

kl. |Pólitík

Álit (4)

kva! gátu þau ekki bara tapað? ;-) (naaah!)

Laugardagur 1. apríl 2006 kl. 00:25

Valgerður:

Það er löngu ljóst að landsbygðarskólarnir "eiga" að detta út í útvarpkeppninni, ekki að vera svo ósvífnir að fara alla leið.

Laugardagur 1. apríl 2006 kl. 08:16

Sem landsbyggðardrengur verð ég að lýsa yfir hryggð minni vegna uppátekta RÚV í þessu.

En hinsvegar vildi ég óska þess að RÚVið sendi einhverja sveina sína á námskeið hjá NRK. Þar gæti okkar fólk lært ýmislegt hvernig reka á ríkisljósvakafjölmiðla (skuggalegt orð) þannig að þeir þjóni hlutverki sínu sem þjóðareign.

Ég man þá tíð er ég var ungur sjómaður í Norðursjónum á árum áður. Þá var NRK lélegasta sjónvarpsstöð sem fyrir fannst og náðist á öllu svæðinu. Maður hlakkaði til að koma heim, tvisvar á ári, og horfa á RUV 6 daga í viku. Nú er öldin önnur. NRK hefur vaxið og þroskast í rétta átt og er nú orðin ein besta stöð sem maður horfir á og hef ég úr mörgum að velja. Fréttatíminn er að vísu dálítið gamaldags en fréttamennskan er mjög góð.

Það er nefninlega það. Áfram Ísland!!!

Þriðjudagur 4. apríl 2006 kl. 11:54

Þið unnuð!! Til hamingju með það.

Föstudagur 7. apríl 2006 kl. 06:25

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.