Ég er oft spurð að því af hverju ég hafi yfir höfuð flutt til Akureyrar. Skýringarnar eru nokkrar, ég vildi búa fyrir norðan, styttri leið út í náttúruna en jafnframt hafa margt af þeim lífsgæðum sem borgarsamfélög búa yfir eins og góða bókabúð, góð kaffihús, gott Internetsamband, listalíf, stutt milli staða og skemmtilegt fólk. Allt þetta hafði Akureyri handa mér. Kannski reka menn augun í að ég tala ekki um atvinnumál en það er einfaldlega vegna þess að þegar ég flutti vann ég alfarið á Netinu og því skipti ekki máli hvar ég bjó. Það gaf mér fyrst og fremst tækifæri til að flytja til Akureyrar.
Í kosningabaráttu verða línur skarpar og skil skýrari og ég er spurð hvernig mér líði í bæ sem Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn stjórna. Svarið er einfalt, ekkert verr en í landi sem þessir sömu flokkar stjórna. Það er einfeldni að halda að aðrir flokkar en maður er í sjálfur geti hreinlega ekki gert nokkurn skapaðan hlut. Allt sé vont og einu litirnir í flórunni séu hvítir og svartir. Lífið er einfaldlega ekki þannig á Íslandi sem betur fer.
Hitt er hinsvegar alveg ljóst að ég vil sjá áherslubreytingar. Mannveran og umhverfið skipta mig meginmáli. Það þýðir að mér finnst skipta máli að fólk hafi vinnu sem það nýtur þess að mæta í á hverjum degi. Atvinnulausir á Akureyri eru helst konur og því ætti atvinnuumræða fyrst og fremst að snúast um konur. Einhverra hluta vegna gerir hún það ekki, ég tel að atvinnuumræðan sé mjög karllæg hér. Við ættum líka að spyrja okkur hvað það er sem við viljum vinna við og beita kröftum okkar í þann farveg í stað þess að reyna að ná í vinnu bara af því hún er vinna.
Þá er það spurningin, hvað er það sem menn vilja helst vinna við í dag?
Álit (8)
Mig langaði alltaf til að verða prestur á mínum yngri árum. :)
Draumastarfið mitt í hnotskurn er á þessa leið: Ég vil bara gera það sem ég er góður í, finnst áhugavert og ánægjulegt, gefur mér tækifæri til að læra fleira og meira, hafa allt í föstum skorðum en þó með svolitlum sveigjanleika ef á þarf að halda, og gefur mér nægar tekjur til að sjá fyrir heimili og jafnvel leggja svolítið sparifé fyrir.
En slík tækifæri bjóðast sjaldan og fáum.
Miðvikudagur 26. apríl 2006 kl. 15:30
Tja ég veit það ekki, ætli þetta komi ekki bara þegar maður eldist, kröfurnar minni og búið að vinna fyrir einhverju af stofndótinu. Eftir það er þetta fyrst og fremst spurning um ákvörðun.
Miðvikudagur 26. apríl 2006 kl. 16:39
Jú, ég hugsa að það sé mikið til í því. En byggir maður samt ekki ákvörðunina jafnan á svipuðum forsendum, þó einhverjir þættir detti vafalítið út? Ég get ekki ímyndað mér að ég muni vilja starfa eitthvað sem mér leiðist á efri árum, fremur en í dag. :)
Miðvikudagur 26. apríl 2006 kl. 16:59
Af því að Eskifjörður hafði ekkert af þeim ástæðum sem þú telur Akureyri til tekna gat ég ekki hugsað mér að flytja heim í fyllingu tímans. Og þar sem ég hef unan af að njóta náttúrunnar af hestbaki hafði ég möguleikann á að ríða frá hesthúsunum út á þjóðveginn og eftir honum út á öskuhauga og heim aftur.
Miðvikudagur 26. apríl 2006 kl. 19:10
Er þessi útreiðartúr á öskuhaugana á Eskifirði eða í Noregi?
Miðvikudagur 26. apríl 2006 kl. 21:37
Sem Akureyringur á "námsleyfi" í Reykjavík langar mig að benda þér á að ég held að farsælla sé að líta á atvinnuumræðu án tillits til kynja og líta frekar til þeirra sem stefna "heim" að námi loknu. Hvað þarf til að fólk hafi að einhverju að hverfa "heima" að loknu námi. Hvað störfin sjálf varðar held ég að það sé afstætt í sjálfu sér.
ps. bæði bæjarstjóri og KEA stjórnarformaður hafa báðir runnið svo harkalega á rassinn varðandi jafnrétti að mér þykir varla við hæfi að starta þvílíkri umræðu á Akureyri.
Fimmtudagur 27. apríl 2006 kl. 19:14
Þetta er alveg rétt hjá þér Birkir auðvitað þurfum við að huga að atvinnu fyrir okkur öll. Engu að síður er nauðsynlegt að hafa í huga að við erum í meiri vandræðum með að finna vinnu fyrir konur en karla. Akureyri er að einhverju leyti betur stödd en mörg dreifbýlissvæði en hinsvegar veit ég eins og margir aðrir að hingað vill fólk flytja en getur ekki fengið atvinnu við hæfi og kemst því ekki.
Ég held hinsvegar að það sé í góðu lagi og einmitt full ástæða til að ræða jafnréttismál á Akureyri.
Laugardagur 29. apríl 2006 kl. 12:56
Öskuhaugarúnturinn var á Eskifirði. Hef aldrei séð öskuhaug í Noregi enda ekki duglegur að leita að þeim. Sem er auvitað vitleysa því maður gæti kanski fundið 1100 ára gamalt víkingaskip í haugunum. Með smá heppni.
Miðvikudagur 3. maí 2006 kl. 21:39
Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri