Ég hef oft dáðst að dugnaði Valgerðar Sverrisdóttur í stjórnmálum, hún hefur verið ráðherra í mörg ár og náð þeim markmiðum sem hún hefur sett sér. Hún hefur klifið marga brekkuna og staðið af sér margan stórsjóinn og með því aflað sér ákveðinnar virðingar hvort sem menn eru sammála henni eða ekki. Fáar konur hafa náð að vinna jafn mörg krefjandi verkefni sem ráðherrar og jafn umdeild án þess að gefast upp.
Mér fannst því ágætt að það yrði hún sem yrði fyrsta konan sem væri utanríkisráðherra okkar Íslendinga. Það var enn eitt vígið sem þurfti að vinnast og sá sigur er hennar, en bara hálfur. Mikilvægasti málaflokkurinn, bæði samkvæmt hennar skilgreiningu og annarra, samningaviðræður um varnarsamninginn er tekin út úr verkefnum utanríkisráðuneytisins. Þetta er eins og að segja, jú jú, við skulum hafa konuna í ráðuneytinu en ekki leyfa henni að ráða neinu sem skiptir máli. Fyrir vikið verður þessi sterki stjórnmálamaður að athlægi. Þetta er ósanngjarnt gagnvart Valgerði og konum í stjórnmálum, hvort sem menn geta sannfært Valgerði eða aðra um að það sé einhver heil brú í svona ákvörðun.
Sem kona finnst mér þetta vont mál, þetta er niðurlægjandi fyrir Valgerði og niðurlægjandi fyrir konur. Er ástæðan sú að Framsóknarmenn eru að hlaupast undan ábyrgðum eins hratt og þeir geta til að reyna að hvítþvo sig fyrir næstu kosningar? Forsætisráðherrann hleypur í burtu, Framsóknarmenn þora ekki að taka fulla ábyrgð á utanríkismálunum í framhaldinu brenndir á öllum fingrum eftir þá skelfilegu ákvörðun að gera Ísland aðila að innrás í Írak - herlaus þjóðin? Eða treystu þeir bara ekki konu í djobbið???
Eftir stendur þjóðin með þann skilning á nýja utanríkisráðherranum að hún eigi einungis að vera puntudúkka í útlöndum og taka á móti útlenskum fyrirmönnum í mat og kaffi. Hvaða erlendi þjóðhöfðingi tekur mark á utanríkisráðherra sem ekki er treyst fyrir meginverkefnum ráðuneytisins?
Hvað sem hver segir þá leiðir þessi gjörningur til þess að Valgerður er niðurlægð og konur í stjórnmálum eru niðurlægðar. Þessi sterki ráðherra er gerður að athlægi og sem kona í stjórnmálum á ég erfitt með að sætta mig við það.
Valdamenn Framsóknarflokksins hafa gefið einfalda og skýra yfirlýsingu um að þeir treysti sér ekki lengur til að taka að sér verkefni og ábyrgð heldur einungis vera skjólgarður til að tryggja völd Sjálfstæðisflokksins. Svo fara þeir sjálfsagt eina ferðina enn í kosningabaráttu þar sem þeir eru ósammála öllu sem ríkisstórnin gerir, öllu sem ráðherrarnir gera og vilja láta kjósa sig sem þéttan skjólgarð svo Sjálfstæðisflokkurinn geti stjórnað. Þeir hafa gefið skýra yfirlýsingu um að þeir geti ekki stjórnað sjálfir. Í samstarf milli stjórnmálaflokka eiga menn að fara fram með reisn og leggja fram stefnumál flokka sinna en ekki samþykkja að vera puntudúkkur hjá öðrum stjórnmálaflokki.
Álit (3)
Þegar Davíð Oddsson hélt áfram viðræðum við Bandaríkjamenn, þá forsætisráðherra farandi í utanríkisráðuneytið og tók einmitt verkefnið með sér milli ráðuneyta, heyrði ég hvorki þig né marga aðra lýsa yfir sérstökum áhyggjum sínum á því að þetta væri niðurlægjandi fyrir Halldór Ásgrímsson, en nú þegar kona er í öðrum stólnum gýs upp einhver tilraun til moldviðris sem ég get ekki séð að sé annað en minnimáttarkennd fyrir hönd kvenna, sem gerir konum í stjórnmálum ekki nokkuð gagn.
Það sem lýsir því best er þessi spurning þín "Eða treystu þeir bara ekki konu í djobbið??? " Ef Framsóknarmenn treysta ekki konum, þá sérstaklega Valgerði, af hverju treystu þeir henni þá fyrir einhverju erfiðasta pólitíska máli síðustu áratuga, þ.e. Kárahnjúkavirkjun og Álver í Reyðarfirði? Valgerður hefur nú heldur betur sýnt það að hún lætur ekki vaða yfir sig, þess vegna held ég að þú sem "kona í stjórnmálum" getir alveg sofið á nóttunni þrátt fyrir þetta, rétt eins og ég sem "framsóknarmaður í stjórnmálum" svaf ágætlega þótt Davíð framhéldi varnarviðræðum á sínum tíma.
Þakka oft á tíðum skemmtileg skrif, þótt þau hafi ekki verið mér að skapi í dag! :-)
Föstudagur 16. júní 2006 kl. 15:02
Það er uppörfandi fyrir ríkisstjórnarflokkana að ekki skuli annað að störfum þeirra að finna en meint karlremba. Það hefur reyndar verið alið á því að ráðherraskiptin séu merki um upplausn og ég held að það hafi verið Össur sjálfur sem taldi að árið fram að kosningum dyggði ekki nýjum ráðherrum til að setja sig inn í störfin. Nú eru boðaðar viðræður um varnarmálin viku af júlí og nú er spurningin, hvort á að trúa þér Lára að það sé verið að niðurlægja Valgerði og þar með konur almennt með því að fyrrverandi utanríkisráðherra stjórni viðræðunum af hálfu Íslendinga, eða Össuri að það taki nýja ráðherra tíma að kynna sér málefni ráðneytanna. Annað hvort ykkar hlítur að fara með fleypur. Því væntanlega eru það hagsmunir þjóðarinnar að þeir sem fara fyrir samninganefnd Íslendinga séu sem best upplýstir um málin. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það eina sem Íslendingar þurfi að gera og kunna í varnarmálum sé að biðja Kanann að hundskast sem fyrst af landinu með allt sitt hafurtask og einu kröfurnar sem þarf að standa á sé að þeir taki til eftir sig. Ég hefði sem best treyst Valgerði til að fylgja mínum kröfum eftir, ég veit að hún er einörð og fylgin sér.
Föstudagur 16. júní 2006 kl. 23:42
Heh, já kannski var ég of kerlingahvumpin þegar ég skrifaði þetta;-) En síðan er spurning hvort maður er það nokkru sinni. En ég hefði treyst Valgerði til að fara í þetta mál, og ráðgast við Geir hefði þess þurft með, án nokkurra málalenginga. Engin ástæða til að flytja málið milli ráðuneyta.
Svo er ég nokk sammála þér Hrafnkell að það þarf ekki að hafa áhyggjur af því að Valgerður fylgi ekki málum eftir. Hún er kjarnorkukona.
Hvað varðar mikilvæg mál og nýja ráðherra og aðlögun þeirra að verkefnunum þá byrjuðu þessir flokkar ekki að vinna saman í gær og fá mál flutt milli ráðuneyta við tíðar uppstokkanir ráðherra.
Össur er hlýlegur í garð Valgerðar eins og góðra karla er siður, ég hef hinsvegar þá skoðun að hún hefði meira en ráðið við þetta og engin ástæða til að taka málið undan henni.
Þriðjudagur 20. júní 2006 kl. 10:42
Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri