Lögreglueftirlit um Verslunarmannahelgi er nú í síauknum mæli kostað af þeim sem halda hátíðir. Ég velti fyrir mér hverjir geta keypt löggæslu og hvenær? Hver borgar til dæmis lögreglueftirlit með mótmælendum á Kárahnúkasvæðinu? Nú eru deilur um hversu hættulegir þessir mótmælendur eru en ef fréttir eru réttar þá gengur lögreglan þarna offari og spurning hver borgar brúsann?
Fréttir um að lögregla geri mat upptækan til þess að flæma fólk af svæðinu vegna hungurs er dálítið óhugnanlegt. Ég get vel skilið að það sé þreytandi ef fólk er sífellt að hlekkja sig við hin og þessi vinnutæki - jafnvel hættulegt. En menn verða að leyfa fólki að stunda friðsöm mótmæli. Sé komið í veg fyrir slíkt er það brot á stjórnarskránni sbr. viðtal við Ragnar Aðalsteinsson í fréttum í kvöld. Þá komum við að fjármálunum og spurningunum:
1. Hver borgar löggæslu með friðsömum mótmælendum á Kárahnjúkasvæðinu?
2. Hverjir borga skaðabætur ef aðgerðir lögreglu eru ólöglegar eins og dæmt hefur verið í öðrum sambærilegum málum?
3. Er ekki eðlilegt að Landsvirkjun borgi þessa löggæslu ef eðlilegt er að forsvarsmenn útihátíða borga fyrir löggæslu á þeim?
4. Bera þeir sem kaupa löggæsluna hluta ábyrgðar ef lögreglan brýtur lög við gæsluna?
5. Hverjir geta keypt löggæslu og hvenær?
Ég veit ekki hver svörin eru við þessum spurningum en þætti áhugavert að fá þau engu að síður ef einhver fróðari mér hefur þau.
Álit (14)
Ef Gísli þinn væri að slá og einhver útlendingur hlekkjaði sig hvað eftir annað við sláttuorfið og annar útlendingur dræpi jafnharðan á sláttuvélinni - inni á ykkar lóð; Fyndist þér þá ekki eðlilegt að fá lögguna ókeypis til að fjarlægja þessa "friðsömu mótmælendur" gegn grasmorði? Eða ættirðu að borga brúsann sjálf því vinir vorsins, blómanna og grassins beittu vissulega ekki ofbeldi?
Ætli Akureyringum finnist altílæ að hver sem er tjaldi hvar sem er af því viðkomandi er friðsamur? Hefði verið ókei að edrú, friðsamir unglingar legðu undir sig Lystigarðinn, sem vissulega er opið svæði og í álíka almannaeigu og eignir Kirkjusjóðs (sem Kirkjusjóður hefur svo framselt til Landsvirkjunar)?
Mér finnst sosum að leyfa eigi fólki að mótmæla friðsamlega, þar sem ekki stafar hætta af og klárt er að landið er almenningur; Hvað með mótmælendabúðir á Möðrudalsöræfum? Væri það ekki firnagóð hugmynd? Nóg er plássið ...
Þriðjudagur 8. ágúst 2006 kl. 09:06
Ég sagði í greininni "Ég get vel skilið að það sé þreytandi ef fólk er sífellt að hlekkja sig við hin og þessi vinnutæki - jafnvel hættulegt. En menn verða að leyfa fólki að stunda friðsöm mótmæli." Sumsé ég var að tala um aðra en þá sem eru að hlekkja sig við maskínur þ.e. þá sem eru með friðsöm mótmæli. En síðan er auðvitað spurning hvernig á að þekkja þá frá hinum. Eftir stendur að rétturinn til friðsamra mótmæla er óvéfengjanlegur, menn verða að þola það.
Þriðjudagur 8. ágúst 2006 kl. 10:29
Sko, það tekur ekki nokkur kjaftur eftir 30 - 40 manna hópi friðsamra mótmælenda. Fólki dettur ábyggilega helst í hug að þetta séu einhverjir háskólakrakkar sem hafi komið í hóp, með sín tjöld, með Norrænu og séu í sínum blankheitum að tjalda utan merktra tjaldstæða. Þess vegna hafa þessi grey þurft að grípa til þess að hlekkja sig við vinnuvélar eða snöggstoppa þær með öryggisrofum; Hvort tveggja skapar talsverða hættu og vekur þess vegna athygli.
Ég hef líka soldið spáð í friðsama mótmælandann Ómar Ragnarsson, sem hefur rutt fjóra flugvelli og stundar utanvegaakstur á þessu háheilaga landi: Er það ekki nokkur hræsni? Hvernig hugnast litlu grágæsunum þetta flug? Maður þakkar eiginlega fyrir að þessum landspjöllum verður fljótlega sökkt!
Í fjölmiðlum hafa friðsamir mótmælendur haldið því fram að öllum Kringilsárrana verði sökkt, meðan hið rétta er að einungis smáhluti hans fer undir vatn; Að þúsundir heiðargæsa verði heimilislausar, meðan hið rétta er að u.þ.b. 500 gæsir verpa á þessu svæði o.s.fr. Mér fannst fyndnast að lesa um grein Árna Finnssonar um hina fögru fossa sem hyrfu, á baksíðu Lesbókar moggans þessa helgina, sem hann puntaði með mynd af Dettifossi ;)
En jú, við getum verið sammála um að friðsöm mótmæli séu í fínu lagi - það mun bara enginn taka eftir þeim því mótmælendur eru svo sárafáir ;)
Þriðjudagur 8. ágúst 2006 kl. 10:58
Með kjánalegum aðgerðum hefur lögreglu og Landsvirkun tekist að beina athygli að þessum fámenna hópi. Harpa mín...auðvitað máttu stúdentarnir ekki vera á Torgi hins himneska friðar á sínum tíma en ég kannast ekki við að það hafi réttlætt gerðir stjórnvalda í Kína á þeim tíma. Viðborf þitt er andlýðræislegt og gamaldags að mínu mati.
Þriðjudagur 8. ágúst 2006 kl. 12:20
Það voru nú eitthvað aðeins fleiri en fjörtíu manns á Torgi hins himneska friðar um árið ... og mér finnst það að líkja saman aðgerðum löggunnar á Egilsstöðum við fjöldamorð kínverskra stjórnvalda ekki vera gamaldags og andlýðræðislegt viðhorf heldur alger firra!
Andlýðræðislegt viðhorf? Ja, ef manni finnast skemmdarverk (hvort sem þau eru á vinnusvæði Landsvirkjunar eða við Gránufélagsgötu) vera í verkahring löggunnar þá hef ég andlýðræðisleg viðhorf Gamaldags? Ég er náttúrlega miðaldra og ég ætla rétt að vona að ég sé komin með meira gamaldags skoðanir (og til vits og ára) frá gömlu "Ísland-úr-nató-og-herinn-burt" skeiðinu í mínu lífi.
Þriðjudagur 8. ágúst 2006 kl. 15:23
Mér finnst það harla einkennilegt að á sama tíma og lögreglan var undirmönnuð allar þrjár næturnar hér á Akureyri þá sér maður sérsveitarlögregluna á Kárahjúkum. Innan lögreglunnar er fullyrt að 20 manns hefðu farið austur fyrir á sama tíma sem þörf var á betri löggæslu hér. Þetta er ekki sagt til að gagnrýna lögregluna sem reyndi að standa sig í stykkinu. En undir þá spurningu skal tekið með aðeins öðru spurnarformi: Hver forgangsraðar störfum lögreglunnar þannig að stóraðgerðir gegn mótmælendum er mikilvægara en að fylgjast með drykkjulátum 8 þúsund ungmenna?
gb
Þriðjudagur 8. ágúst 2006 kl. 16:44
Lögreglan réðist á alla sem á svæðinu voru og handtók þá. Þar var fólk sem vann sér það eitt til saka að vera nærri þegar aðgerðir áttu sér stað. Lögregla á að beita sér gegn sökudólgum sem brjóta af sér en ráðast ekki gegn öllum sem nærri eru. Það eru ólöglegar handtökur og ber að kæra sem slíkar. Átti kannski að handtaka alla sem staddir voru í Gránufélagsgötu á þeim tímapunkti þegar lögreglan loks mætti. ?? Það er sambærilegt og það sem átti sér stað fyrri austan í gær
Þriðjudagur 8. ágúst 2006 kl. 16:48
Aðeins meira. Aðgerðir lögreglu við Kárahnjúka vekja margar óþægilegar spurningar. Það sér það hver maður að herra Bjartmars er afar taustrekktur og svarar með pirringi og skætingi þegar hann er spurður um málið af fréttamönnum. Spurning hvort hann er að höndla verkefnið sem mér er stórlega til efs.
Þriðjudagur 8. ágúst 2006 kl. 16:51
8.000 ungmenni voru hinir 10.000 fullorðnir Gísli?
Annars finnst mér meginpunkturinn hvenær einkafyrirtæki greiðir fyrir löggæslu og hvenær ekki. Það var ekki jafnræði með þessu um Verslunarmannahelgina - staðirnir sem voru með útihátíðir greiddu ekki jafnt. Ástæðan hefur verið sú að menn séu að græða á hátíðum.
Þriðjudagur 8. ágúst 2006 kl. 17:33
Í fyrsta lagi held ég að tölur mótshaldara séu harla vafasamar. Á háannartíma taldi ég á vísindalegan hátt (líkt og Össur í urriðanum) ákveðin blett á Þórssvæðinu og margfaldaði. Miðað við meðaltalstölu 2,5 í tjaldi þá fékk ég út rúmlega 2000 manns. Hinar tölurnar voru þekktari frá Þórunnarstræti og Hömrum. Ég hef aldrei komist ofar en 10-11 þúsund manns alls, og þarna er reiknað með ákveðnum fjölda í heimahúsum, heimagörðum og í Vaðlaheiðinni.
Fróðlegt væri ef aðrir hefðu nákvæmari tölu.
gb
Miðvikudagur 9. ágúst 2006 kl. 14:20
Ef ég væri að slá blettinn hjá mér og einhverjir útlendingar eða mótmælendur(útlendingar og mótmælendur eru náttúrulega voðalega hættulegt fólk) hlekkjuðu sig við sláttuvélina hjá mér, myndi ég líklega hringja í íslenska löggu. En ef löggan tæki þá fasta og myndu í leiðinni taka hana Kristínu gömlu nágrannakonu og Jónas gamla sem býr upp á lofti hjá henni og færa á löggustöðina, þá myndi ég líklega sjá eftir að hafa hringt í lögguna.
Því Kristín og Jónas eru voðalega góðir nágrannar.
Miðvikudagur 9. ágúst 2006 kl. 21:40
Já, ekki nóg með það nafni.....lögreglan myndi gá hvort þau hefðu keypt í matinn og...hvaða skoðun þau hefðu á heimasíðu dómsmálaráðherra.
Neikvæð svör myndi leiða til handtöku þeirra og nágrannamissis.
gb
Miðvikudagur 9. ágúst 2006 kl. 22:58
Aðeins til samanburður til að meta lögreglustyrk á Kárahnjúkasvæðinu þessa daga. þar voru innan við 50 manns að mótmæla. Mættir voru ca 30 lögreglumenn af öllum stærðum og gerðum. Ef haldi hefði verið úti svipaðri löggæslu á einni með öllu á Akureyri hefðu verði hér c.a. 7.000 lögrelgumenn við gæslu...það hefði kannski verið ágætt bara
Laugardagur 12. ágúst 2006 kl. 17:59
Án þess að vera neinn sérfræðingur í lögggæslu dettur mér tvennt í hug:
a) að Austfjarðalöggan hafi ekki haft mikið að gera við að sinna útihátíðum í sínu umdæmi (Neistaflugi og Álfaborgarséns) því þaðan þótti helst fréttnæmt hvussu edrú og skikkanlegir útihátíðargestir voru; Þess vegna hafi verið nógar löggur tiltækar til að einbeita sér að þessum fáu ólátabelgjum í fjórðungnum þá helgina.
b) að Akureyrarbær hefði gert vel í að spandera 1,7 milljóninni í styrk til lögggæslu á fylleríinu mikla en ekki í ótilgreindan styrk til mótshaldara "Einnar með öllu".
---
Ég hef hins vegar ákveðið að galla mig upp í lopapeysu, stinga blómum í hárið og hlekkja mig við fiskisúpu-mannætupottinn á Dalvík næsta sumar, með mótmælaspjöld gegn fiskveiðum! (Hef fattað að það er miklu betra að vera mótmælandi með heilagan málstað en matvönd kona ...)
Sunnudagur 13. ágúst 2006 kl. 18:32
Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri