Ljóst er að með nútímatækni eru góðir möguleikar á því að vinna fjölbreytta atvinnu nánast hvar sem er á landinu, að því gefnu að netsamband sé afbragðsgott. Þannig mætti auglýsa meirihluta allra starfa þannig að búseta væntanlegs starfsmanns sé frjáls. Þrátt fyrir þetta fækkar störfum á landsbyggðinni í nánast öllum starfsgreinum. Smá saman erum við farin að horfa á þá staðreynd að Ísland hefur verið klofið í herðar niður í sjálfumglatt borgríki annarsvegar og landsbyggð sem smá saman er að færast frá því að vera örvæntingarfull og vonlaus í að fyllast reiði og heift gagnvart núverandi ástandi. Skilningur þverr milli þessara tveggja ólíku ríkja í ríkinu, jöfnuður minnkar og kannski bara tímaspursmál hvenær þessum ríkjum lendir alvarlega saman. Í fáfræði sinni er fjöldi manna sem tekur öxina hvern dag og heggur landið í sundur með því að koma í veg fyrir eða stuðla ekki að því að störfin í landinu megi vinna á landsbyggðinni.
Stundum minnir framkoma borgríkisins við Faxaflóa við landið sitt á forneskjulega nýlendustefnu fyrr á öldum. Auðlindirnar eru teknar með einum eða öðrum hætti undir mismunandi yfirskini og landsbyggðin situr eftir. Bæði fyrirtæki og opinberar stofnanir eru með sama marki brennd. Þar sitja eigingjarnir íbúar borgríkisins og berjast hatrammlega gegn því að íbúar landsbyggðar geti unnið störfin án þess að flytja til borgríkisins. Frelsi til búsetu hefur aldrei verið minni á Íslandi.
Ég hef oft undrast framkomu íbúa borgríkisins við íbúa landsbyggðarinnar. Þeir sem vilja vernda íslenska náttúru og njóta fegurðar hennar eru þeir sömu og berjast hatrammlega gegn því að fólkið á landsbyggðinni geti unnið fjölbreytt störf sem einmitt gera það að verkum að íslensk náttúra nýtur verndar.
Auðmenn borgríkisins hafa smá saman eignast atvinnulíf landsbyggðarinnar. Atvinnuhúsnæði og fyrirtæki sem áður voru í eigu heimamanna sem öfluðu sér viðurværis með eigin rekstri eru nú orðnir starfsmenn í útibúi þar sem fleiri og fleiri verk eru unnin í borgríkinu. Þrátt fyrir að eins mætti vinna störfin á landsbyggðinni þá slær blindu á íbúa borgríkisins og þeir sjá bara eina leið.
Jafnrétti landsmanna er líklega eitt það mikilvægasta sem við getum barist fyrir. Jafnrétti til menntunar, heilsugæslu og atvinnu eru grunnur að lífi hvers manns. Það getur aldrei verið réttlátt að borgríki taki þessi grundvallaratriði af íbúum landsbyggðarinnar.
Álit (7)
heyr, heyr Lára mín.
Sunnudagur 8. október 2006 kl. 16:58
Þú veltir upp dálítið mikilvægum punkti í lokin, jafnrétti til menntunar, heilsugæslu og atvinnu. Á hvers ábyrgð er það jafnrétti? Að mínu mati er það óumdeilt í menntun og heilsugæslu en kannski það sem mestu púðri er eytt í er atvinnuna, en hver ber ábyrgðina? Á hið opinbera að draga störf út úr Borgríkinu með auknum kostnaði fyrir sig (les. okkur)? Eiga einkaaðilar að bera þennan bagga? Getur hið opinbera afsalað sér ábyrgð verandi með mörg-tugprósenta landans á launaskrá? Er þetta dugleysi launamanna að samþykkja múlbindingu í Borgríkinu? Hugmyndaleysi fólks í að búa sér til atvinnutækifæri án tillits til búsetu?
Mánudagur 9. október 2006 kl. 19:23
Tryggvi, það er mýta að það sé hagkvæmara að vinna öll störf í borgríkinu. Sum, svo sannarlega en ekki öll. Fastheldnin á störfin er gengin út í öfgar. Við þekkjum bæði tvö þá einföldu staðreynd að einkafyrirtæki velja sér í æ ríkari mæli starfsmenn sem eru staðsettir erlendis og vinna vinnuna sína þaðan. Þetta er allt eins hægt innanlands. Opinberir aðilar geta alls ekki afsalað sér ábyrgð, hún er ekki síst þeirra og klaufalegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þessum efnum eru gríðarleg vonbrigði. Þrátt fyrir stefnu um að úthýsa störfum ráðuneytanna hafa ráðherrar enganvegin ráðið við það verkefni. Ég hef reyndar undrast það verulega því ég hélt að það myndu þeir nú gera.
Þriðjudagur 10. október 2006 kl. 09:07
Góðir punktar Sigurður þegar rædd er hagkvæmni þá er virkilega spurning hvort það sé fjárhagslega hagkvæmt að búa á Íslandi. Vilji menn leggja annað til grundvallar en hin hörðu gildi þá er spurning hvort þeir vilja að hægt sé að búa á landinu öllu eða einungis litlum hluta þess.
Þriðjudagur 10. október 2006 kl. 09:09
Tökum nýlegt dæmi sem er skýrsla Ríkisendurskoðunar um UST. Þar er m.a. bent á að kostnaður við Akureyrar-starfsemi sé hár og ætti að sameina við Reykjavík af hagkvæmni sjónarmiðum. Hvað ætli það nákvæmlega sé sem gerir Akureyrar-starfsemina óhagstæða í rekstri?
Eitt ágætt sem tengist því sem þú ert að tala um með úthýsingu starfa til útlanda má sjá í viðbrögðum Bandaríkjamanna við ódýru vinnuafli t.d. í tæknigeiranum frá Indlandi og þar um kring og þeir kalla "rural outsourcing":
http://cbdd.typepad.com/rural/2004/08/outsourcing_rur.html
og
http://www.wired.com/news/business/0,1367,69585,00.html
Ég man ekki hvort ég náði að skrifa nákvæmlega þennan vinkil inn í mastersritgerðina mína en áhugavert öngvu að síður.
Þriðjudagur 10. október 2006 kl. 10:50
Það er alveg dæmalaust að bera það á borð fyrir fólk að það þurfi að loka starfsemi UST á Akureyri vegna kostnaðar. Kostnaðurinn er út úr kortinu vegna þess að nauðsynlegt þótti að efna til einkaframkvæmdar á nýbyggingu við Háskólann á Akureyri þ.e. Borgum. Húsaleiga þar er langtum dýrari en almennt gengur á svæðinu en opinberum stofnunum gert að flytja þangað til þess að styrkja einkaframtakið (einhverjir hafa reynt að segja okkur að einkaframtak sé svo hagkvæmt - ekki í þessu tilfelli). Fjárveitingar voru ekki auknar til samræmis.
Það er síðan algerlega forkastanlegt að bera það á borð fyrir menn að rekstur stofnunarinnar sé of dýr vegna þess að ráðamenn heimtuðu að koma henni fyrir í rándýru einkareknu húsnæði á meðan annað jafngott talsvert ódýrara er í boði.
Ótrúlegt af Ríkisendurskoðun að nota þetta sem rök, sveiattan.
Þriðjudagur 10. október 2006 kl. 11:06
Hvað varðar "Rural outsourcing" þá er forritun á Indlandi eitt dæmi sem þarf að bregðast við og það hafa Bandaríkjamenn gert. Íslensk hugbúnaðarhús notfæra sér einnig forritara þar þannig að það er ekki nýtt. Eitt dæmi um "Rural outsourcing" í Bandaríkjunum er bandaríska flugfélagið BlueJet þar sem símsvörun fer fram á heimilum starfsmanna sem eru í vinnu ákveðna tímafjölda á dag heima hjá sér. Menn panta sér hamborgara í lúgu þar sem sá sem svarar er langt í burtu og margt fleira sem þekkist nú þegar. Af þessu ættum við Íslendingar að læra.
Þriðjudagur 10. október 2006 kl. 11:10
Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri