Ég horfði á hluta þáttarins Kompás ásamt fréttum Stöðvar 2 af forstöðumanni Byrgisins og velti fyrir mér hvaða þýðingu það hefur fyrir hlutaðeigandi þegar fréttir verða af þessu tagi. Varast ber að dæma nokkurn mann enda er það hlutverk dómstóla og ætla ég mér ekki að hafa nokkur tök á því að vita hvað er rétt eða rangt. Dómstóll götunnar hefur ekki alltaf rétt fyrir sér. Hinsvegar velti ég fyrir mér í hvaða stöðu sjúklingarnir í Byrginu eru í eftir þennan þátt. Hann hlýtur að vera þeim talsvert áfall og valda umróti sem þeir síst þurfa á að halda. Hafi þurft að rannsaka staðinn þá þarf að bera hag þessa fólks fyrir brjósti og finna leiðir til þess að aðrir hugi að því á meðan að mál af þessu tagi stendur yfir. Á sama tíma er nauðsynlegt að því ljúki mjög hratt þar sem líklegt má telja að styrkir hverfi mjög hratt meðan svo alvarlegum ásökunum er varpað að forstöðumanni. Það skjól sem Byrgið hefur verið æði mörgum mun á næstu dögum og vikum vera ansi næðingssamt. Því tel ég afar mikilvægt að yfirvöld sýni ábyrgð og hugi að þessu fólki sem allra fyrst og veiti Byrginu forstöðu þar til þessu er lokið. Múgæsingur hjálpar engum en réttlæti verður að ná fram að ganga hverjum sem það ber.
Álit (2)
Gott innlegg Lára.
Mánudagur 18. desember 2006 kl. 15:36
Blessuð Lára!
Það er mikið rétt. það eru nefnilega þeir sem síst mega við því sem verða valtir á svona stundum. Það er því rétt hjá þér að finna verður ábyrgan aðila sem tekur utan um starfið meðan flóðbylgjan skellur á. Það má ekki gleyma að margir hafa fengið góðan bata Í Byrginu. Hafa fengið fastan grunn að standa á. Menninirnir verða alltaf breyskir og standast ekki freistingarnar. Það er eins og með trén þegar einhver greinin er farin að bresta þá klippum við hana af en samt heldur tréð áfram að blómstra og dafna.
Þeta fer vonandi allt vel.
Sunnudagur 31. desember 2006 kl. 17:18
Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri