Þó auðvitað séu bændur hluti þeirra sem framleiða matvöru þá skýtur það dálítið skökku við í mínum huga að beina spjótum fyrst og fremst að þeim eins og sumir virðast gera. Matvöruverð á Íslandi kristallast ekki í einni stétt manna. Ég skil til dæmis ekki hvers vegna aðföng í landbúnaðarframleiðslu séu ekki viðfangsefni í ríkari mæli. Matvöruverð má einmitt lækka séu þau lækkuð. Eru grænmetisbændur að fá rafmagnið á sama verði og álverin? Er rafmagn á sambærilegu verði til þeirra og gerist í þeim löndum sem er verið að miða? Er verið að skattleggja fóður þannig að matvöruverð er hærra en við viljum hafa það? Hvað með lyf, hreinlætisvörur eða annað það sem bændur þurfa til þess að útbúa matvöruna? Ég vil að við séum fyrst og fremst sjálfum okkur nóg í framleiðslu á ákveðnum grunnþörfum í matvöru. Við erum hvað sem tautar og raular eyja norður í hafi og það er ýmislegt sem getur komið uppá sem leiðir til þess að við verðum að fóðra okkur alfarið sjálf.
Hitt er að mig furðar það verulega að lítið virðist sagt þegar ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks fer að breyta hlutum sem hafa veruleg áhrif á landbúnaðarframleiðslu. En þegar stjórnarandstöðuflokkurinn Samfylkingin segir eitthvað þá heyrist svo um munar í ótrúlega mörgum. Hvers vegna er þetta? Það er kannski ástæða til að minna menn á að þeir stjórnmálaflokkar sem eru í ríkisstjórn eru í alvörunni að breyta einhverju en stjórnarandstöðuflokkur er í flestum tilfellum að segja hverju hann vill breyta. Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta dálítil hystería gagnvart Samfylkingunni og finnst að menn þurfi nú aðeins að setja hlutina í rétt samhengi.
Annars hafði ég gaman af grein Guðmundar Steingrímssonar flokksbróður míns í Fréttablaðinu í morgun. Við þurfum líka sjálf að vera harðari neytendur og vera gagnrýnin á hvað við borgum fyrir vöruna. Ég tel að Neytendasamtökin hafi einfaldlega ekki náð nægilegri fótfestu hér á landi og þar sé mikilvægt að taka til hendinni til að mennta þjóðina til að vera betri neytendur.
Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri