« Góður fundur í gærkvöldi | Aðalsíða | Bændur, verðlag og neytendur »

Föstudagur 12. janúar 2007

Fjárhættuspil eða leikur?

Áætluð uppsetning á spilakössum í Mjóddinni hefur vakið talsverða umræðu upp á síðkastið og umræða um fjárhættuspil fylgt í kjölfarið. Auðvitað er það tvískinnungur hjá íslenskri þjóð að banna fólki að spila með peninga nema það sé til styrktar einhverju tilteknu málefni. Þessi málefni eru: Meðferð áfengis- og vímuefnasjúklinga (SÁÁ), háskólamenntun (HHÍ) og gróskumikils hjálparstarfs Rauða krossins. Með öðrum orðum þá má stunda fjárhættuspil ef hægt er að skilgreina að ágóðinn sé til góðs. Þegar ég hef hlustað á fréttir undanfarinna daga rifjaði ég upp hversu undrandi mamma var þegar hún kom af námskeiði í Bandaríkjunum um fíkn um hversu gríðarlegur vandi spilafíkn væri og engu minna en vímufíknir. Ég er dálítill spilafíkill held ég því ég á happdrættismiða og spila í lottó. Sannfæri mig um að ég sé að styrkja gott málefni þegar ég er í rauninni að setja netta spennu í lífið við að renna yfir vinningaskrárnar í dagblöðunum. En hinsvegar lifi ég tiltölulega góðu lífi og þetta setur ekki fjárhaginn á annan endann. Kannski er ég hófsamur spilaneytandi eins og hófsamur vínneytandi. En þá kemur að þeirri spurningu hvort yfirhöfuð eigi að vera að banna fjárhættuspil í landinu ef það má spila fjárhættuspil samt sem áður - bara ef einhver góður græðir á því. Þá eru lögin farin að vera hálf kjánaleg.

Viðurlög við því að stunda fjárhættuspil eða eru fangelsum ef "sakir eru miklar". Ég er aldrei hrifin af tvískinnungi, annað hvort eru fjárhættuspil bönnuð eða þau eru það ekki. Eða þá að það þarf að semja almenna reglu um hvenær eitthvað sem leiðir af sér fíkn er réttlætanlegt ef af því hlýst gróði sem nýta má til menntunar eða heilsugæslu eins og raunin virðist vera um spilafíkn.

Á sama tíma eiga Íslendingar fyrirtæki sem stunda fjárhættuspil í útlöndum sem selja þjónustu sína um Netið. Á sama tíma stendur í lögum landsins að menn megi ekki "aflar sér framfærslu með ólöglegu móti, svo sem með sölu á bannvöru, fjárhættuspili …1) þá skal refsa honum með fangelsi allt að 2 árum". Má Íslendingur yfir höfuð eiga í fyrirtæki sem rekur fjárhættuspil þó það sé staðsett á Netinu? Líklega þarf að skoða þessi lög með nútímann að leiðarljósi.

Ég hef svosem enga skoðun á því hvort spilakassar til fjárhættuspila eru betur eða verr staddir í Mjóddinni eða annarsstaðar. En ég get ekki varist því að finnast hálf kjánalegt að vera í einhverri herferð gegn spilakössum á einum stað og sama um þá annarsstaðar. Ég held ekki að það sé einhverra hluta vegna mikilvægara að vernda þessa verslunarmiðstöð en einhverja aðra staði gegn fjárhættuspili þegar það er á annað borð leyft. Tvískinnungur borgarstjórans er alger að gera Mjóddina að aðalmáli hann ætti fremur að velta fyrir sér hvort hann vilji yfir höfuð fjárhættuspil í borginni. Ætlar hann að gefa út "spilfrjáls svæði" í borginni? Borgarstjórinn verður að hugsa þetta mál til enda og setja fram skýra stefnu á því hvernig hann vill að fjárhættuspilum sé háttað í Reykjavíkurborg. Vill hann þau eða ekki???

Hinsvegar er fíkn grafalvarlegt mál hverju svosem hún beinist að og nauðsynlegt að við fíknisjúkdómum sé heilbrigðisþjónusta. Við þurfum að taka föstum tökum á heilbrigðisþjónustu við fíknisjúkdómum hver svo sem fíknin er.

kl. |Pólitík

Álit (2)

Elma:

Rétt er það við erum að verða eins og kanarnir sem þessi ríkisstjórn, auðmennirnir og nokkrir fleiri draga dám af, ekkert nema tvískinnungur. En ég er hrædd um að fjárhagslegur stuðningur við þessi samtök sem þú nefndir væri lítill sem enginn ef spilakassarnir kæmu ekki til.

Laugardagur 13. janúar 2007 kl. 15:15

Það gengur ekki að byggja þessi málefni í svo ríkum mæli á spilafíkn og tómstundaspilurum. Á sama tíma og lögin eru skýr hvað þetta varðar. Við verðum hinsvegar að taka ábyrgð á þessum málaflokkum hvað sem tautar og raular.

Sunnudagur 14. janúar 2007 kl. 17:39

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.