« Skóli í heimabyggð | Aðalsíða | Framboðslisti og ferðalög »

Laugardagur 20. janúar 2007

Með slæðu í útlöndum

Undanfarið hef ég hlustað á hina og þessa býsnast yfir þeirri hneisu að þingkonur okkar hafi verið með slæður í Sádi-Arabíu fyrir utan það að þangað hefði aldrei átt að fara þar sem stjórnarfar sé ólýðræðislegt. Ekki ætla ég að mæla bót stjórnarfari í því landi en mér finnst það afspyrnusnjallt að senda kvennasveit af alþingi og forseta þingsins sem er líka kona, nákvæmlega til Sádi-Arabíu. Ég veit ekki hvort það er algengt að nefndir sem fara í erlendar heimsóknir séu bara skipaðar konum en það er einmitt ástæða til að gera það þegar í hlut eiga lönd þar sem staða kvenna stendur afar höllum fæti. Slæðurnar í þessu samhengi eru aukaatriði að mínu mati þó sumir geri þær að aðalatriði. Ef glöggt eru skoðaðar myndir úr ferðinni má heldur ekki gleyma að karlarnir á myndunum voru líka með baðmullarslæður með reipi um höfuðið.

Þar sem ég hef unnið með fólki frá fjölmörgum löndum þá hefur gríðarlega margt komið upp sem snýr að menningarmun sem mann óraði ekki fyrir áður en stað var haldið. Á ráðstefnu sem ég sá um í Kaupmannahöfn fyrir nokkrum árum tókst mér að raska tilfinningum þátttakenda frá Brasilíu með því að skipuleggja kvöldmatartíma í samstarfi við danska menntamálaráðuneytið í þeirra boði klukkan hálf átta. Enginn Brasilíumannanna mætti og þótti fullrúum danska ráðuneytisins það ákveðinn dónaskapur að menn mættu ekki og boðuðu ekki forföll þegar þeir væru að bjóða til kvöldverðar. Mér þótti þetta dálítið niðurlægjandi og var því oggolítið stuttur í mér þráðurinn þegar ég hitti brasilísku sendinefndina daginn eftir. Það var hinsvegar enn þyngra í þeirri sendinefnd sem taldi það algerlega út úr kortinu að ætlast til þess að menn borðuðu klukkan hálf átta því kvöldmatur ætti í fyrsta lagi að vera hálf tíu um kvöldið.

Í Jórdaníu var ég dóni því ég heilsaði karlmanni með handabandi, það gerir maður víst ekki. En mér var virt það til málsbóta að ég var siðsamlega klædd með ermar fram að úlnliðum og hálsmálið hátt upp.

Ég vissi ekki hvað snéri upp né niður þegar Japanir sögðu alltaf já við mig hvað sem ég spurði um þangað til að ég frétti að ég væri "hærra sett" en þeir í viðkomandi verkefni og hefði því þá stöðu að mér bæri að svara játandi. Eftir það fékk ég "lægra setta" til að spyrja þá til að fá álit. Þó þótti mér sérkennilegast þegar einn vinur minn fór til Japan og ætlaði að hitta okkar félaga þar, hann beið og beið í mótttöku hótelsins eftir samstarfsfélaganum sem aldrei kom. Síðar kom í ljós að hann sat alltaf fyrir utan því hótelið var svo fínt að það hæfði ekki hans stöðu svo hann beið þess að hinn kæmi út sem fyrir innan sat.

Svo ég komi aftur að slæðunum á íslensku þingkonunum, ég veit ekki af hverju það var svo móðgandi fyrir okkur að þær bæru slæður í nokkra daga í Sádi-Arabíu. Þar er það siður en menn geta túlkað slæðuburðinn með ýmsum hætti. Menningarmunur er oft óþægilegur og erfitt að sætta sig við hann, en einnig er hann oft túlkaður öfgafult. Mér finnst skipta mestu máli að við sendum íslenska þingnefnd sem einungis var skipuð konum og þar með sögðum við skýrt að við teldum konur mikilvægar í samningum við landið. Ekki hef ég heyrt annað en að vel hafi á móti þeim tekið þrátt fyrir að það hafi áreiðanlega verið ýmsum framámönnum í Sádi-Arabíu býsna erfitt að hafa einungis konur í nefndinni.

Við brúum ekki bil og náum ekki árangri með því að sitja heima og þykjast allt vita, við förum, lærum, miðlum og reynum að kynna sjónarmið og annað með framkomu og framgöngu. Því er ég ákaflega sátt við þessa sendinefnd og tel að hún hafi einmitt átt fullt erindi til landsins. Slæður í nokkra daga er ekki stórmál.

kl. |Pólitík

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.