Ég fór í gærkvöldi ásamt Helgu Waage frænku minni og vinkonu í Krýsuvík að mynda, aftur komu þessi fallegu norðurljós og ég náði heilmörgum góðum ljósmyndum. Næturmyndataka er dálítið merkilegt fyrirbæri sem ég vissi ekki um fyrr en ég fór að auka ljósmyndaáhugann gríðarlega. Þetta gengur út á að fara út í myrkrið (já alvöru myrkur) og taka ljósmyndir á mislöngum tíma. Yfirleitt er skítakuldi því á sumrin er jú ekkert myrkur og því er lífsnauðsynlegt að taka með sér kakó og ekki verra að hafa mjólkurkex. Þannig var í gærkvöldi í Krýsuvík en á móti kom að það var fullt tungl og því ótrúlega bjart. Það fór þó um mig þegar ég sá þrjár rútur af túrhestum ráfa um hraunið á leiðinni til baka og taka myndir af norðurljósum - með flassi!!!
Helga Kvam hefur kennt mér heilmikið um næturmyndatöku en það verður góður dagur þegar ég kemst með tærnar einhverstaðar þar sem glitti í hælana á henni.
Annars er ýmislegt sem hafa þarf í huga t.d. ef áhugi er á að mynda norðurljós þá er harla gott að skoða norðurljósaspá en þær eru nokkrar, hér er til dæmis Geophysical Institute og önnur frá Space Environment Center. Sólgos og segulstormar hafa gríðarleg áhrif á himinljósin þ.e. bæði norðurljósin (Aurora borealis) og suðurljósin (Aurora Australis) og því er ágætt að fylgjast einnig með slíku t.d. hér á Space Weather Center (Geimveðurstofunni).
Svo er auðvitað gott að glöggva sig á því af hverju norður- og suðurljósin eru í mismunandi litum á Vísindavefnum sem og hvernig þau verða til.
Norðurljósin eru svo sannarlega heillandi og við erum heppin að vera svo norðarlega í kraga umhverfis pólinn þar sem þau sjást við ákjósanleg skilyrði það er að nóttu til þar sem svo gott er að sjá þau. Það er hollt fyrir sálina að horfa á norðurljósin líða um himininn, dansa, hverfa, birtast, breyta um liti. Svo uppgötvar maður að það er jú skítkalt og þá man maður eftir kakóinu og mjólkurkexinu.
Álit (2)
Einar Benediktsson seldi norðurljósin. Mér sýnist af þessum myndum að þú getir gert hið sama! gb
Föstudagur 5. janúar 2007 kl. 10:30
Flottar norðurljósamyndir. Hvað tekur þú þær á löngum tíma?
Laugardagur 6. janúar 2007 kl. 20:27
Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri