Mér fannst fínt að heyra Illuga Jökulsson tala um hvernig væri að búa á heimili þar sem foreldri er alkohólisti því það þekki ég einmitt. Fann mig mest í umræðunni um að hlutirnir eru ekki skiljanlegir en maður veit að eitthvað er ekki eins og það á að vera. Einnig finnst manni stundum lífið hljóti að vera bara fínt, það sé stundum alveg ágætt en svo veit maður á sama tíma að það er eitthvað ekki í lagi. Lánið mitt er að pabbi minn hætti að drekka vorið sem ég fermdist þrátt fyrir að það tæki síðan heimilið tíma að jafna sig en ég fór í heimavistarskóla veturinn á eftir og var í sveit á sumrin svo í rauninni bjó ég ekki heima eftir að ég var 14 ára en held samt góðum tengslum við fjölskylduna mína.
Ég hef því oft velt fyrir mér réttindum barna sem búa við þennan sjúkdóm enn þann dag í dag, við Illugi virðumst hafa farið ágætlega út úr þessu af einhverjum ástæðum en þetta situr samt alltaf einhversstaðar í sálinni. Andstreymi færir manni svosem alltaf eitthvað en á sama tíma þá held ég að möguleikar glatist og að börn alkohólista sjái ekki sín tækifæri.
Kennarar átta sig oft ekki á þeim þar sem þau reyna oftast að láta á engu bera en fá jafnvel orð á sig að vera "löt", "uppstökk" eða "hirðulaus". Viðbrögð þessara barna eru oft skrýtin ég man helst eftir því að þegar ég kom með eitthvað heim úr skólanum fóru viðbrögðin eftir því hvort pabbi var að drekka, nýhættur að drekka, að byrja að drekka eða ekkert af þessu en alls ekki eftir því hvort mín verk voru góð eða vond. Ég hafði því oft ekki hugmynd um hvort ég var að standa mig vel eða illa og þurfti að taka á því sérstaklega þegar ég áttaði mig á því. Ég fann mig í Al-anon um margra ára skeið sem gerði mér sjálfri kleift að sjá hvað ég vildi gera og framkvæma það. En það má ekki gleyma þessum börnum, né heldur að barn alkohólistans verður alltaf hluti af því sem ég er.
Álit (1)
Mér fannst líka frábært að hlusta á Illuga. Sjálf er ég óvirkur alkóhólisti, ólst upp við þennan bölvald og giftist svo alkóhólista. Stundum hef ég reynt að telja mér trú um að börnin mín hafi ekki farið svo illa út úr þessu en það er auðvitað ekki rétt. Það kemst enginn óskaddaður frá þessu. Sem betur fer þá á ég yndislegt samband við börnin mín og barnabörn, já svo á ég tvö langömmubörn og eitt á leiðinni!.
Mánudagur 26. febrúar 2007 kl. 10:47
Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri