Ég var að lesa Lögberg Heimskringlu blað Vesturíslendinga í morgun og þar á meðal grein eftir David Jón Fuller ritstjóra blaðsins þar sem hann fjallar í forystugrein um nýjan sjónvarpsþátt "Little Mosque on the Prairie" fordóma í tengslum við múslima í dag. Hann minnir menn þar á þegar Íslendingar voru nýkomnir til Kanada þar sem m.a. voru skilti sem auglýstu atvinnu en um leið bent á að Íslendingar þurfa ekki að sækja um því ljóst væri að þeir fengju ekki störfin.
Hann bendir á að Íslendingar hafi þurft að sæta fordómum og ættu því sjálfir ekki að leggja slíkt fyrir sig. Hann bendir á setningar sem við ættum vel að þekkja eins og "Múslimar eru strangtrúramenn" eins og það sé ekki fyrir hendi í nánast öllum trúarbrögðum. Setningar eins og "þeir eru allir svo..." er í grunninn fordómafull.
Í framhaldi af þessu þá velti ég fyrir mér setningum sem Íslendingar láta sér gjarnan um munn fara um Bandaríkjamenn "Þeir eru allir svo..." án þess að gera sér grein fyrir að það eru ekki allir eins. Sá sem kynnist Íslendingi er ekki endilega að kynnast þeim öllum svo setningin "Íslendingar eru allir svo..." gæti verið byggð á einum til tveimur einstaklingum. Og þá kemur spurningin: Erum við öll svo pottþétt að það er sama hvert okkar einhver kynnist hann getur yfirfært það yfir okkur öll? Ættum við þá að yfirfæra skoðanir okkar á þjóðir í heild eða þá sem aðhyllast einhverri trú?
Við verðum að endurskoða okkur sjálf í samhengi við fólk sem hefur annan bakgrunn og velta virkilega fyrir okkur hvort við séum í raun inn við beinið rasistar þegar við byrjum með setningar eins og "allir eru...".
Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri