Samfylkingin hefur nú lagt fram tillögur undir nafninu "Nýja atvinnulífið - tillögur til eflingar nýsköpunar." Þar er verið að leggja áherslu á hátæknifyrirtæki og eflingu sprotafyrirtækja. Í þessum tillögum má finna mýmörg tækifæri til sköpunar nýrra starfa ásamt því að halda störfum á þessu sviði í landinu. Ég er að vísu ekki hrifin af hugtakinu "hátækni" því ný tækni er alltaf sú sem við þurfum að þróa okkur í og ekki í sjálfu sér hærri en önnur tækni. Hinsvegar er ljóst að með nútímatækni skapast tækifæri til þess að þróa ný störf og verkefni sem ekki þekktust áður fyrr.
Við Íslendingar eigum vel menntað fólk á þessu sviði sem vill gjarnan búa um allt land og með góðum nettengingum losnar um átthagafjötra í Reykjavík og menn búa við frelsi til að setjast þar að sem tengingar eru góðar. Við hér á Akureyri þekkjum vel til þess að margir hér vinna þessi störf bæði hjá fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu sem og erlendis. Enda er það svo að t.d. forritarar erlendis t.d. á Indlandi og víðar vinna fyrir íslensk fyrirtæki að þróun á ýmsum hugbúnaði í hátækniiðnaði og við hér á landi getum unnið fyrir hverja sem er hvar sem er.
Hættan hefur hinsvegar verið sú að rekstrarskilyrði þessara fyrirtækja hefur verið betri t.d. í Kanada og á Írlandi og því er mikilvægt fyrir okkur að taka þessi mál föstum tökum sem Samfylkingin gerir einmitt núna. Sumir gætu e.t.v. talið að hér væri einungis um "höfuðborgarstörf" að ræða en það er langt í frá. Tæknin gerði mér kleift að flytja út á land og svo er um marga fleiri. Fínt að hafa þetta mál í farteskinu í komandi kosningabaráttu.
Álit (2)
Já og svo er fólk hissa á minni aðsókn í iðnnám ;)
Annars er þetta mjög kvikt ástand, það er ódýrara að forrita t.d. í Kanada og Noregi, hvað þá Indlandi svo að mörg íslensk fyrirtæki í dag eru að senda sjálfa forritunina þangað en halda eftir þeim störfum sem snúa að þjónustu, hönnun, skjölun o.s.frv. Það er samt ákveðin hætta í þessu og kannski er það helst starfs- og skattaumhverfið sem getur haft áhrif til að halda þó þeim störfum sem við viljum hafa á Íslandi hér áfram. Félagsleg undirboð (social dumping) geta alveg bitið mann í rassinn ;)
Hins vegar eru Bandaríkjamenn að gera mjög sniðuga hluti í þessu sem þeir kalla "Rural Outscouring" sem mér tókst þó ekki að koma að í mastersritgerðinni minni um Fjarvinnu.
http://www.trigger.is/HI/Fjarvinna/
Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að slíkt myndi ekki ganga upp hér á landi. Hér er grein úr Wired um Rural Outsourcing:
http://wired-vig.wired.com/news/business/0,1367,69585,00.html?tw=rss.TOP
og fyrirtæki sem stundar svona vinnu:
http://www.ruralsource.com/
Miðvikudagur 14. febrúar 2007 kl. 10:20
Nú er vont að hafa mikið að gera því þetta innlegg þitt er frábært í þetta mál og meistararitgerðin þín tók á afar þörfu máli sem er einmitt fjarvinnan eða "Störf án staðsetningar" eins og það heitir hjá Samfylkingunni minni. Annars hef ég alltaf verið hrifnari af hugtakinu "Frjáls búseta" það er alltaf skemmtilegra að hugsa sig frjálsan en án staðsetningar;-)
Hlakka til að kíkja á þessa grein um Rural Outsourcing.
Föstudagur 16. febrúar 2007 kl. 00:10
Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri