Eftir landsfund Sjálfstæðisflokksins er ljóst að þeir ætla sér að selja Landsvirkjun og með þægum samstarfsflokk eins og Framsóknarflokknum ætti þeim að takast það. Fyrst eru þeir að færa þjóðlendurnar undir fyrirtækið sem menn trúa að sé ríkiseign og þetta sé því "allt í lagi" en síðan lýsa þeir yfir að þeir vilji selja. Vonandi sér fólk samhengið í þessu þar sem hér er um háalvarlegt mál að ræða.
Með því að selja land með auðlindum einkafyrirtæki er ljóst að íbúar landsins fá engu ráðið um hvernig þær auðlindir eru nýttar.
Ég hef verið talsmaður þess að nýta auðlindir landsins fólkinu okkar til hagsbóta og þeir sem búa í nærumhverfi auðlindanna geti nýtt þær til að byggja upp atvinnulíf. Með þessum óhugnanlegu fyrirætlunum Landsvirkjunar er hættan á að við sitjum uppi búin að afsala okkur auðlindum landsins á tiltölulega óhagstæðu verði.
Samkvæmt skoðanakönnunum er þetta sá veruleiki sem blasir við okkur í dag - stjórnin heldur velli og auðlindirnar verða því að öllum líkindum seldar. Ég trúi því varla að þetta sé það sem þjóðin vill - er það tilfellið?
Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri